Almannatryggingar. Sjúkratryggingar.

(Mál nr. 12596/2024)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála frá því í október 2022.  

Þar sem kvörtunin barst utan þess ársfrests sem áskilinn er til að umboðsmaður geti fjallað um mál voru ekki skilyrði til að hann gerði það.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 9. febrúar 2024.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar, f.h. sonar yðar A, 5. febrúar sl. sem lýtur að úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála 26. október 2022 í máli nr. 302/2021. Var um endurupptekið mál af hálfu nefndarinnar að ræða en áður hafði nefndin staðfest með úrskurði 10. nóvember 2021 ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja umsókn sonar yðar um greiðsluþátttöku í tann­réttingum þar sem ekki væru uppfyllt skilyrði IV. kafla reglugerðar nr. 451/2013, um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði sjúkra­tryggðra við tannlækningar. Um þann úrskurð var fjallað í áliti umboðsmanns Alþingis 16. júní 2022 í máli nr. 11436/2021. Í hinu endurupptekna máli var synjun Sjúkratrygginga um greiðsluþátttöku staðfest að nýju.

Í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Í 2. mgr. 6. gr. segir að kvörtun skuli bera fram innan árs frá því er stjórn­sýslugerningur sá er um ræðir var til lykta leiddur. Kvörtun yðar lýtur samkvæmt framangreindu að úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála frá 26. október 2022. Með hliðsjón af því að kvörtunin barst mér 5. febrúar sl. fæ ég ekki séð að framangreindu skilyrði sé fullnægt.

Með vísan til framangreinds tel ég að ekki séu skilyrði að lögum til þess að ég fjalli frekar um kvörtun yðar. Lýk ég því athugun minni á henni með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.