Fullnusta refsinga. Dagsleyfi.

(Mál nr. 12553/2024)

Kvartað var yfir möguleikum á dagsleyfi utan fangelsis.  

Viðkomandi hafði ekki sótt um dagsleyfi og því laut kvörtunin ekki að tiltekinni ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds og því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði frekar um málið.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 9. febrúar 2024.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 12. janúar sl. sem lýtur að möguleikum yðar á dagsleyfi til dvalar utan fangelsis. Í kvörtuninni kemur fram að þér hafið setið í gæsluvarðhaldi í sex mánuði áður en þér hófuð afplánun og að þér séuð ósáttir við að sá tími sé ekki tekinn með í útreikning á þeim lágmarksrefsitíma sem áskilinn er til þess að dagsleyfi geti komið til skoðunar. Í samtali starfsmanns umboðsmanns við yður 23. janúar sl. kom fram að þér hefðuð spurst fyrir um möguleika yðar á dagsleyfi í fangelsinu þar sem þér afplánið dóm yðar en ekki lagt inn umsókn þess efnis.

Í tilefni af kvörtun yðar skal tekið fram að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu aðila sem heyrir undir eftirlit umboðsmanns kvartað af því tilefni til embættisins. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann Alþingis þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varðar beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra.

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að hún lúti að tiltekinni ákvörðun stjórnvalda í framangreindum skilningi enda hafið þér ekki lagt inn umsókn um dagsleyfi til dvalar utan fangelsis og fengið þannig formlega afstöðu fangelsisyfirvalda til málsins. Ég vek athygli yðar á því að yður er fært að leita eftir slíkri ákvörðun forstöðumanns fangelsis, sbr. ákvæði V. kafla laga nr. 15/2016 um fullnustu refsinga. Samkvæmt 1. mgr. 95. gr. laganna má bera ákvörðun forstöðumanns að því leyti undir dómsmálaráðneytið. Teljið þér yður enn rangsleitni beittan, að fenginni úrlausn framangreindra stjórnvalda, er yður fært að leita til umboðsmanns á nýjan leik í samræmi við 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 en þar segir að ekki sé unnt að kvarta til umboðsmanns ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds fyrr en það hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Þar til afstaða þeirra liggur fyrir brestur hins vegar lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar til frekari meðferðar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.