Heilbrigðismál.

(Mál nr. 12590/2024)

Kvartað var yfir ófullnægjandi þjónustu af hálfu íslenska heilbrigðiskerfisins.  

Viðkomandi var bent á að bera kvörtunarefnin undir landlækni áður en erindið gæti komið til kasta umboðsmanns.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 9. febrúar 2024.

  

  

Vísað er til erindis yðar 31. janúar sl. Í erindinu er reifuð sjúkrasaga sonar yðar, B, undanfarin ár og verður ekki annað ráðið en að þér teljið að skort hafi á að hann hafi notið fullnægjandi þjónustu af hálfu íslenska heilbrigðiskerfisins. Er þar m.a. vísað til samskipta við nafngreindan lækni á Landspítala.  

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997 getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila sem hefur á hendi stjórnsýslu kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Af framansögðu leiðir að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann Alþingis þarf að liggja fyrir tiltekin ákvörðun eða athöfn stjórnvalds í máli þess sem kvörtun ber fram. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laganna gildir enn fremur að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu.

Í e-lið 1. mgr. 4. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, segir að meðal hlutverka landlæknis sé að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum. Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. sömu laga er unnt að beina formlegri kvörtun til landlæknis vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu. Er notendum heilbrigðisþjónustunnar jafnframt heimilt að bera fram formlega kvörtun til landlæknis telji þeir að framkoma heilbrigðisstarfsmanna við veitingu heilbrigðisþjónustu hafi verið ótilhlýðileg.

Þar sem ekki verður ráðið af erindinu að umkvörtunarefni hafi verið borin undir landlæknisembættið í samræmi við það sem að ofan er rakið er ljóst að lagaskilyrði brestur til þess að það verði tekið til meðferðar sem kvörtun yfir tiltekinni ákvörðun eða athöfn af hálfu þeirra aðila sem þar eru tilgreindir.

Með vísan til þess sem að framan greinir læt ég athugun minni á máli yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.