Persónuréttindi. Meðferð á fjárráðum ófjárráða manna.

(Mál nr. 12574/2024)

Kvartað var yfir ýmsum atriðum vegna aðstæðna móður sem svipt hafði verið lögræði.  

Ekki varð ráðið af erindinu að umkvörtunarefnið hefði verið borið undir viðkomandi sýslumannsembætti eða í framhaldi af því;  dómsmálaráðherra sem fer með framkvæmd lögræðislaga. Því voru ekki skilyrði að svo stöddu til að umboðsmaður fjallaði um frekar um kvörtunina. Jafnframt var bent á að kæra mætti ákvörðun lögreglu um að vísa frá kæru um brot eða hætta rannsókn til ríkissaksóknara.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 12. febrúar 2024.

  

   

Vísað er til erindis yðar 24. janúar sl. Í erindinu eru reifuð ýmis atriði sem lúta að aðstæðum móður yðar, B. Kemur m.a. fram að hún hafi verið svipt lögræði 18. janúar 2023 og búi á hjúkrunar- og dvalarheimilinu X. Af erindinu verður enn fremur ráðið að þér teljið að B hafi sætt ósanngjörnum skilyrðum frá lögráðamanni og hafi áður en til lögræðissviptingar kom orðið fyrir fjárhagslegri misneytingu eða þjófnaði af hálfu tilgreindra afkomenda hennar.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997 getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila sem hefur á hendi stjórnsýslu kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Af framansögðu leiðir að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann Alþingis þarf að liggja fyrir tiltekin ákvörðun eða athöfn stjórnvalds í máli þess sem kvörtun ber fram. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laganna gildir enn fremur að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Í samræmi við það hefur umboðsmaður almennt talið rétt að það æðra stjórnvald, sem fer með yfirstjórnar- og eftirlitsheimildir á viðkomandi sviði, hafi fengið tækifæri til að fjalla um málið og þar með taka afstöðu til þess hvort tilefni sé til að beita þeim heimildum áður en hann tekur mál til athugunar á grundvelli kvörtunar og þá einnig í þeim tilvikum þar sem afstaða æðra stjórnvaldsins til málsins verður ekki fengin fram á grundvelli stjórnsýslukæru.

Ástæða þess að þetta er tekið fram er sú að samkvæmt 80. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997, eru sýslumenn yfirlögráðendur hver í sínu umdæmi. Þeir skipa lögráðamenn og hafa eftirlit með störfum þeirra, sbr. 81. gr. laganna, og geta ef svo ber undir vikið þeim frá störfum. Kvörtun vegna tiltekinna ákvarðana eða starfshátta lögráðamanns yrði því fyrst að beina til viðkomandi sýslumanns áður en kvörtun til umboðsmanns kæmi til álita. Þrátt fyrir afrit af samskiptum yðar við embætti sýslumannsins á Y verður ekki séð að þau feli í sér kvörtun í framangreindum skilningi. Þá fer dómsmálaráðherra með framkvæmd lögræðislaga. Ef þér teljið að yfirlögráðandi hafi ekki brugðist með fullnægjandi hætti við athugasemdum yðar við störf lögráðamannsins kann yður að vera fært að leita til dómsmálaráðherra sem getur á grundvelli yfirstjórnar- og eftirlitsheimilda sinna tekið mál til skoðunar þótt ekki séu skilyrði til þess að fjalla um málið á þeim vettvangi á grundvelli stjórnsýslukæru. Loks er unnt að kæra ákvörðun lögreglu um að vísa frá kæru um brot eða hætta rannsókn, sbr. 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, til ríkissaksóknara á grundvelli 6. mgr. sömu lagagreinar.

Þar sem ekki verður ráðið af erindinu að umkvörtunarefni yðar hafi verið borin undir framangreind stjórnvöld í samræmi við það sem að ofan er rakið er ljóst að lagaskilyrði brestur til þess að það verði tekið til meðferðar sem kvörtun yfir tiltekinni ákvörðun eða athöfn af hálfu þeirra aðila sem þar eru tilgreindir. Ég tek fram að með þessum ábendingum hefur engin afstaða verið tekin til þess hvaða meðferð og afgreiðslu erindi yðar ætti að hljóta hjá framangreindum stjórnvöldum. Ég bendi aftur á móti á að fari svo að þér leitið til téðra stjórnvalda með athugasemdir yðar getið þér freistað þess að leita til mín á ný að fenginni niðurstöðu þeirra og verður þá tekin afstaða til þess hvort og að hvaða marki málefnið getur komið til athugunar af hálfu umboðsmanns.

Með vísan til þess sem að framan greinir læt ég athugun minni á máli yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.