Atvinnuréttindi og atvinnuleyfi.

(Mál nr. 12563/2024)

Kvartað var yfir því a.v. að Matvælastofnun hefði hafnað kröfu um að starfsleyfi fyrirtækis yrði afturkallað. Hins vegar að viðbrögðum heilbrigðiseftirlits við athugasemdum við útgáfu starfsleyfis. Stjórnvöldin hefðu brugðist eftirlitshlutverki sínu.  

Þar sem hvorki hafði verið leitað til matvælaráðherra, Umhverfisstofnunar né umhverfis-, orku og loftslagsráðherra með erindið voru ekki skilyrði að svo stöddu til að umboðsmaður fjallaði um það.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 12. febrúar 2024.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 19. janúar sl. fyrir hönd A. Af kvörtuninni verður ráðið að hún lúti annars vegar að því að Matvælastofnun hafi hafnað kröfu yðar fyrir hönd samtakanna um að starfsleyfi X hf. samkvæmt lögum nr. 93/1995, um matvæli, yrði afturkallað. Hins vegar lúti kvörtunin að viðbrögðum Heilbrigðiseftirlits Vesturlands við athugasemdum yðar fyrir hönd samtakanna við útgáfu starfsleyfis X hf. á grundvelli laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í kvörtuninni er látin í ljós sú afstaða að framangreind stjórnvöld hafi brugðist eftirlitshlutverki sínu enda uppfylli X hf. ekki lögbundnar kröfur sem gerðar séu til starfsemi fyrirtækisins.

Kvörtun yðar fylgdi afrit af bréfi yðar til Matvælastofnunar 31. maí 2023 þar sem gerð var grein fyrir kröfu samtakanna um afturköllun starfsleyfis X hf., svo og þeim skjölum sem fylgdu bréfinu. Einnig fylgdu afrit af tölvupóstsamskiptum yðar og lögfræðings stofnunarinnar í október 2023 þar sem m.a. kom fram sú afstaða stofnunarinnar að regluverk Evrópusambandsins um matvæli og fóður næði ekki til [...]. Þá fylgdi m.a. afrit af svari Heilbrigðiseftirlits Vesturlands 11. júlí 2023 við athugasemdum sem bárust við auglýsta tillögu að starfsleyfi fyrir X hf., þ. á m. þeim sem bárust frá yður fyrir hönd A.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli, fer matvælaráðherra með yfirstjórn mála samkvæmt lögunum. Þá fer umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra með yfirstjórn mála samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 43. gr. laganna. Samkvæmt 51. gr. sömu laga annast Umhverfisstofnun eftirlit með framkvæmd laganna og er stjórnvöldum til ráðuneytis um málefni er undir lögin falla.

Ástæða þess að ég rek framangreint er að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra stjórnvald þegar það á við, hafa lokið umfjöllun sinni um málið. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta og bæta úr ágöllum sem verið hafa á fyrri afskiptum og ákvörðunum þeirra af viðkomandi máli sem ekki eru í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Í samræmi við það hefur umboðsmaður almennt talið rétt að það æðra stjórnvald, sem fer með yfirstjórnar- og eftirlitsheimildir á viðkomandi sviði, hafi fengið tækifæri til að fjalla um málið og þar með taka afstöðu til þess hvort tilefni sé til að beita þeim heimildum áður en hann tekur mál til athugunar á grundvelli kvörtunar og þá einnig í þeim tilvikum þar sem afstaða æðra stjórnvaldsins til málsins verður ekki fengin fram á grundvelli stjórnsýslukæru.

Af kvörtun yðar og meðfylgjandi gögnum verður ekki ráðið að þér hafið leitað til framangreindra stjórnvalda og fengið viðbrögð þeirra við athugasemdum yðar, eins og yður kann að vera fært að gera. Að gættum framangreindum sjónarmiðum sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 tel ég að svo stöddu rétt að A freisti þess að leita til framangreindra stjórnvalda áður en málið getur komið til umfjöllunar af hálfu umboðsmanns. Að fenginni niðurstöðu þeirra geta A, eða þér fyrir þeirra hönd, leitað til umboðsmanns að nýju með kvörtun þar að lútandi telji þau tilefni til þess og verður þá tekin afstaða til þess hvort og að hvaða marki málið getur komið til athugunar af hálfu umboðsmanns.

Með vísan til framangreinds brestur því lagaskilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar og læt ég því málinu lokið af minni hálfu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.