Sjávarútvegur.

(Mál nr. 12455/2023)

Kvartað var yfir matvælaráðuneytinu og gerðar athugasemdir við ákvæði reglugerðar um veiðar á langreyðum.

Þar sem mál vegna sömu atvika var rekið fyrir dómstólum og ætla mátti að þar kynni að reyna á sambærileg álitaefni taldi umboðsmaður að svo stöddu ekki rétt að taka kvörtunina til athugunar. 

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 13. febrúar 2024.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 13. nóvember 2023, fyrir hönd A hf., sem beinist að matvælaráðuneytinu. Í kvörtuninni eru gerðar athugasemdir við tilgreind ákvæði reglugerðar nr. 895/2023, um veiðar á langreyðum, sem eru fyrst og fremst þess efnis að ákvæðin eigi sér ekki lagastoð. 

Vegna annarrar kvörtunar A hf. til umboðsmanns, sem hlaut málsnúmerið 12291/2023 og lauk með áliti umboðsmanns 5. janúar sl., barst umboðsmanni stefna A hf. á hendur íslenska ríkinu sem lögð var fram í héraðsdómi Reykjavíkur 12. desember 2023  þar sem gerð er sú krafa að viðurkennd verði skaðabótaskylda ríkisins vegna tjóns sem Hvalur hf. telur sig hafa orðið fyrir vegna stjórnvaldsákvörðunar Matvælastofnunar í september 2023 um að stöðva veiðar um borð í X tímabundið vegna brota á dýravelferð. Í stefnunni er m.a. byggt á því að lög nr. 55/2013, um velferð dýra, taki ekki til starfsemi A hf. heldur fari um hana eftir lögum nr. 26/1949, um hvalveiðar. Ákvæði fyrrgreindrar reglugerðar nr. 895/2023, hvað varðar dýravelferð, séu jafnframt um leið án lagastoðar.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að af hálfu umboðsmanns Alþingis hefur þeirri reglu verið fylgt í framkvæmd að fjalla ekki um einstakar kvartanir samhliða því að mál vegna sömu atvika eru rekin fyrir dómstólum og ætla má að þar kunni að reyna á sambærileg álitaefni sem annars myndi reyna á við athugun umboðsmanns á málinu. Eins geta verið slík tengsl milli mála að framangreint verði talið eiga við, jafnvel þótt ekki sé um nákvæmlega sama mál að ræða. Er þessi afstaða byggð á því að samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er gert ráð fyrir ákveðinni verka­skiptingu milli umboðsmanns og dómstóla. Þannig tekur t.d. starfssvið umboðsmanns ekki til starfa dómstóla, sbr. b-lið 4. mgr. 3. gr. laganna, en í því felst m.a. að það kemur almennt ekki til kasta umboðsmanns að fjalla um málefni sem leitt hefur verið til lykta fyrir dómstólum. Þá hefur það verið afstaða umboðsmanns Alþingis að ekki sé rétt að nýta fjármuni og krafta þessara opinberu embætta til þess að fjalla um sama mál á sama tíma.

Í ljósi þessa tel ég því að svo stöddu ekki rétt að taka kvörtun A hf. til athugunar, enda tel ég að í máli því sem nú hefur verið ákveðið að bera undir dómstóla kunni að einhverju leyti að reyna á sömu atriði og kæmu til skoðunar við athugun mína á kvörtuninni. Ef Hvalur hf. telur að enn sé tilefni til þess að umboðsmaður fjalli um efni kvörtunarinnar að fenginni úrlausn málsins fyrir dómstólum er fyrirtækinu, eða yður fyrir þess hönd, fært að leita til embættisins á nýjan leik og verður þá tekin afstaða til þess hvort skilyrði séu að lögum til að taka málið til frekari athugunar. Mun ég þá ekki líta svo á að sá ársfrestur, sem kveðið er á um í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 sé liðinn vegna þeirra athafna sem kvörtunin lýtur að. Það er þó háð því skilyrði að leitað verði til mín strax í kjölfar niðurstöðu í dómsmálinu.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtunina, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.