Opinberir starfsmenn. Ráðningar í opinber störf.

(Mál nr. 12606/2024)

Kvartað var yfir fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra vegna setningar í embætti forstjóra Ríkiskaupa.  

Ekki varð ráðið að ákvörðunin snerti beinlínis hagsmuni viðkomandi eða réttindi umfram aðra og því ekki forsendur til að taka kvörtunina til frekari athugunar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 14. febrúar 2024.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis 8. febrúar sl. sem beinist að fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra og lýtur að setningu í embætti forstjóra Ríkiskaupa sem þér teljið ekki samrýmast 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum sem heyra undir eftirlit umboðsmanns Alþingis getur kvartað af því tilefni til umboðsmanns, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðs­mann Alþingis þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varðar beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Það er hins vegar ekki hlutverk umboðsmanns að láta fólki í té almennar lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum varðandi tiltekin málefni eða réttarsvið.

Af kvörtun yðar verður ekkert ráðið um að ákvörðunin sem þér tilgreinið snerti beinlínis hagsmuni yðar eða réttindi umfram aðra. Ég tel mig því ekki hafa forsendur til að taka hana til frekari athugunar.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á erindi yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.