Sjávarútvegur. Strandveiðar. Jafnræðisreglur.

(Mál nr. 12609/2024)

Kvartað var yfir matvælaráðherra og Alþingi vegna fyrirkomulags við strandveiðar.  

Starfssvið umboðsmanns tekur ekki til starfa Alþingis og lagasetningar. Ekki varð annað ráðið en kvörtunin lyti aðallega að atriðum sem tekin væri skýr afstaða til með lögum. Því voru ekki skilyrði til fjalla um kvörtunina að því marki sem hún laut að því að viðkomandi hefði verið mismunað með ólögmætum hætti.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 15. febrúar 2024.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis 8. febrúar sl. sem beinist m.a. að matvælaráðherra og Alþingi og lýtur að því fyrirkomulagi við strandveiðar að strandveiðileyfi séu bundin við tiltekið landsvæði en aflaheimildum sé aftur á móti ekki skipt á landsvæði eða tímabil heldur sé heimilt að stunda veiðar frá öllum landsvæðum þar til heildaraflamagn sem ráðstafað er til strandveiða hefur verið veitt. Í kvörtuninni kemur m.a. fram að þér teljið fyrirkomulagið fela í sér mismunun m.a. með tilliti ólíkrar fiskgengdar á svæðunum.

Fjallað er um strandveiðar í 6. gr. a í lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Þeim aflaheimildum sem ráðstafað er til strandveiða samkvæmt greininni skal skipt á fjögur landsvæði, sbr. 2. mgr. greinarinnar. Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar um skiptingu landsvæða, sbr. 2. málsl. málsgreinarinnar. Við gildistöku laga nr. 22/2019 var fallið frá því að í reglugerð skyldi jafnframt kveðið á um skiptingu aflaheimilda á tímabil og landsvæði, sbr. 1. gr. þeirra laga, og var markmiðið að draga úr slysahættu sem talin var skapast af því að sjómenn kepptust við að ná þeim afla sem heimilt væri á sem skemmstum tíma þar til leyfilegum heildarafla á viðkomandi svæði hefði verið náð (sjá þskj. 1152 á 149. löggjafarþingi 2018-2019, bls. 1-2). Áður hafði verið gerð tímabundin breyting í þágu sama markmiðs með lögum nr. 19/2018. Samkvæmt 2. málsl. 4. mgr. téðrar greinar í lögum nr. 116/2006 eru strandveiðileyfi bundin við tiltekið landsvæði, sbr. 1. málsl. 2. mgr. Skal leyfi veitt á því svæði þar sem heimilisfesti útgerðar viðkomandi fiskiskips er skráð, samkvæmt þjóðskrá eða fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra, og skal öllum afla fiskiskips landað í löndunarhöfn innan þess landsvæðis, sbr. þó 10. mgr. greinarinnar. Samkvæmt 8. mgr. greinarinnar er hverju skipi heimilt að stunda strandveiðar í 12 veiðidaga innan hvers mánaðar mánuðina maí, júní, júlí og ágúst.

Ástæða þess að framangreind lagaákvæði eru rakin er sú að samkvæmt a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis. Andstætt dómstólum er það því almennt ekki á verksviði umboðsmanns Alþingis að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett. Með 11. gr. laga nr. 85/1997 er umboðsmanni þó veitt heimild til að tilkynna Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitar­stjórn ef hann verður var við meinbugi á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum í störfum sínum. Í lögum er hins vegar ekki gert ráð fyrir því að kvörtun verði borin fram við umboðsmann á þessum grundvelli, þótt vitanlega sé öllum frjálst að koma á framfæri við umboðsmann ábendingum um slík atriði. Af kvörtun yðar, eins og hún er fram sett, verður ekki annað ráðið en að hún lúti aðallega að atriðum sem tekin var skýr afstaða til með lögum. Með vísan til framangreinds eru því ekki uppfyllt skilyrði til að taka kvörtun yðar til meðferðar að því marki sem hún lýtur að því að yður hafi verið mismunað með ólögmætum hætti.

Með hliðsjón af framangreindu lýk ég athugun minni á kvörtun yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.