Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Húsnæðismál. Félagslegt húsnæði.

(Mál nr. 12547/2024)

Kvartað var yfir að Reykjavíkurborg hefði ekki ráðið bót á húsnæðisvanda eða svarað erindum.

Ekki varð annað ráðið en viðkomandi væri í reglulegum samskiptum við starfsfólk borgarinnar í tengslum við úrlausn vandans og almennt væri brugðist við erindum með skjótum hætti. Þá var ljóst að honum hafði verið úthlutað húsnæði fyrir skömmu þótt sú lausn hefði ekki reynst varanleg. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að aðhafast frekar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 15. febrúar 2024.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 4. janúar sl. en hún beinist að því að ekki hafi verið ráðin bót á þeim húsnæðisvanda, sem þér hafið átt við að stríða, og að erindum yðar til Reykjavíkurborgar sé ekki svarað. Í tilefni af kvörtun yðar hafði starfsmaður umboðsmanns samband við yður símleiðis 12. janúar sl. og óskaði eftir því að þér afhentuð umboðsmanni frekari afrit af samskiptum yðar við Reykjavíkurborg. Senduð þér þau samskipti með tölvubréfum. Þá var Reykjavíkurborg ritað bréf 19. sama mánaðar þar sem þess var óskað að sveitarfélagið veitti upplýsingar um hvort erindi yðar hefðu borist og hvað liði afgreiðslu og meðferð þeirra.

Af gögnum, sem þér hafið sent umboðsmanni, verður ráðið að erindum yðar til sveitarfélagsins hafi ýmist verið beint að tilgreindum borgarfulltrúa, svonefndri Suðurmiðstöð sveitarfélagsins eða tilgreindum starfsmönnum þess. Með tölvubréfum 18. og 19. desember sl. staðfesti starfsmaður sveitarfélagsins móttöku tölvubréfa yðar og staðfesti að umsókn yðar um búsetuúrræði hefði borist. Þá liggur og fyrir að með tölvubréfi 30. janúar sl. upplýsti starfsmaður Reykjavíkurborgar yður um að mál yðar væri til skoðunar hjá sveitarfélaginu og aflaði auk þess upplýsinga um aðstæður yðar. Með öðru tölvubréfi 8. febrúar sl. voruð þér upplýstir um tiltekin atriði í tengslum við það húsnæði Reykjavíkurborgar sem þér dvöldust áður í. Þá verður ráðið af bréfi Reykjavíkurborgar til umboðsmanns 7. febrúar sl. að þér hafið átt í viðamiklum bréfaskiptum við sveitarfélagið frá 1. október 2023 en frá þeim tíma hafið þér sent sveitarfélaginu 255 erindi. Í bréfi Reykjavíkurborgar kom og fram að yður hefði verið úthlutað smáhúsi í eigu Reykjavíkurborgar 16. nóvember sl. en skilað lyklum að því stuttu síðar. Þá hefðuð þér að nýju fengið aðgang að húsnæðinu að eigin ósk en á nýjan leik hefðuð þér skilað lyklum þess til sveitarfélagsins 5. desember sl. Að endingu kom fram í bréfi Reykjavíkurborgar til umboðsmanns að þér hefðuð greiðan aðgang að vakthafandi félagsráðgjafa Suðurmiðstöðvar og að unnið væri að úrlausn húsnæðisvanda yðar.

Í ljósi framangreinds fæ ég ekki annað ráðið en að þér séuð í reglulegum samskiptum við starfsmenn Reykjavíkurborgar í tengslum við úrlausn húsnæðisvanda yðar og að almennt sé brugðist við erindum með skjótum hætti. Þá er og ljóst að yður var úthlutað húsnæði fyrir stuttu síðan án þess þó að sú lausn hafi reynst varanleg. Af þessum sökum tel ég ekki tilefni til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtun yðar.

Með vísan til framangreinds er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.