Málsmeðferð og starfshættir stjórnsýslunnar. Þjónusta.

(Mál nr. 12586/2024)

Kvartað var yfir því að Lyfjastofnun héldi úti hlaðvarpi og tilefni gæti verið til að skoða forgangsröðun stofnunarinnar yrði útgáfunni haldið áfram á sama tíma og önnur þjónusta væri skert.  

Þar sem kvörtunin laut ekki að tiltekinni athöfn, athafnaleysi eða ákvörðun stjórnvalds er snerti beinlínis hagsmuni viðkomandi eða réttindi voru ekki skilyrði til að fjalla um hana.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 15. febrúar 2024.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 31. janúar sl. þar sem þér gerið athugasemdir við að Lyfjastofnun hafi á liðnum árum sinnt útgáfu hlaðvarps. Í kvörtuninni er bent á að tilefni kunni að vera til að skoða forgangsröðun stofnunarinnar verði útgáfunni haldið áfram meðan önnur þjónusta stofnunarinnar sé skert. Er í því sambandi vísað til athugunar umboðsmanns á skertri símsvörun stofnunarinnar að eigin frumkvæði (mál nr. F146/2024 í málaskrá embættisins).

Í tilefni af kvörtun yðar skal tekið fram að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu aðila sem heyrir undir eftirlit umboðsmanns kvartað af því tilefni til embættisins. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann Alþingis þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varðar beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Af kvörtun yðar, eins og hún er fram sett, verður ekki ráðið að hún lúti að tiltekinni athöfn, athafnaleysi eða ákvörðun stjórnvalds í framangreindum skilningi.

Af ákvæðum laga nr. 85/1997 leiðir að starfsemi og málsmeðferð stjórnvalda verður að öllu jöfnu ekki tekin til almennrar athugunar hjá umboðsmanni Alþingis á grundvelli kvörtunar. Þegar umboðsmanni berast slíkar kvartanir eða ábendingar eru þær því yfirfarnar með tilliti til þess hvort tilefni sé til að taka þau atriði sem koma fram í þeim til sérstakrar athugunar að eigin frumkvæði umboðsmanns á grundvelli þeirrar heimildar sem honum er fengin með 5. gr. laga nr. 85/1997.

Við mat á því hvort téð heimild umboðsmanns er nýtt er m.a. litið til starfssviðs og áherslna embættisins, hagsmuna er tengjast umræddu málefni, svo og málastöðu og nýtingar mannafla hjá embættinu. Verði málefni tekið til athugunar er sá sem hefur komið ábendingu á framfæri að jafnaði ekki upplýstur sérstaklega um það heldur er tilkynnt um athugunina á vef embættisins, www.umbodsmadur.is.

Með vísan til framangreinds er umfjöllun minni um kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.