Menntamál. Hákólar. Frávísun.

(Mál nr. 12556/2024)

Kvartað var yfir meðferð Háskólans á Akureyri  á máli um námslok.  

Niðurstaða áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema var að kærufrestur vegna málsins hefði verið liðinn og nefndinni því óheimilt að taka kæruna til efnismeðferðar sem var því vísað frá. Taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að gera athugasemdir við það.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 15. febrúar 2024.

   

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar 15. janúar sl. er beinist að Háskólanum á Akureyri og lýtur að meðferð háskólans á máli yðar um námslok í Í bréfi umboðsmanns Alþingis til yðar 31. mars 2023 í tilefni kvörtunar yðar sem laut að sama efni, sem fékk málsnúmerið 12090/2023 í málaskrá umboðsmanns, kom fram að ekki yrði ráðið að máli yðar, sem laut að námslokum yðar hjá skólanum, hefði verið til lykta leitt innan hans, svo og að þér hefðuð ekki borið málið undir áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema. Kom og fram að umboðsmaður teldi, af þeim sökum, ekki rétt að fjalla frekar um kvörtunina að svo stöddu með vísan til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis. Í bréfi umboðsmanns var enn fremur bent á að ef þér kysuð að leita til nefndarinnar og telduð yður enn rangsleitni beittar, að fenginni niðurstöðu hennar, gætuð þér leitað til umboðsmanns á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi. Tekið var fram að með þessari ábendingu hefði umboðsmaður ekki tekið neina afstöðu til þess hvaða meðferð og afgreiðslu erindi yðar ætti að hljóta hjá nefndinni.

Meðal þeirra gagna sem fylgdu kvörtun yðar nú er afrit af áliti áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema í máli yðar, nr. 1/2023, frá 9. janúar sl.

  

II

Í ljósi þess sem að framan greinir hefur athugun umboðsmanns vegna kvörtunar yðar nú beinst að málsmeðferð og niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar.

Áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema starfar á grundvelli 20. gr. laga nr. 63/2006, um háskóla, og reglna um störf nefndarinnar, nr. 550/2020, sem settar hafa verið samkvæmt heimild í 5. mgr. framangreindrar lagagreinar. Bæði í lagagreininni sjálfri og reglunum er tekið fram að um málskot til nefndarinnar gildi VII. kafli stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 28. gr. stjórnsýslulaga er kveðið á um að hafi kæra borist að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Jafnframt segir að ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila skuli þó ekki sinna kæru.

Í áliti áfrýjunarnefndarinnar kemur fram að kæra yðar hafi borist nefndinni 26. apríl 2023 og samskiptum yðar og Háskólans á Akureyri um námslok hafi lokið í mars 2021. Á þeim grundvelli taldi nefndin, með vísan til þess er að framan greinir um kærufrest, að kærufrestur hefði verið liðinn og nefndinni því óheimilt að taka kæruna til efnismeðferðar. Því varð niðurstaðan sú að vísa máli yðar frá. Eftir að hafa kynnt mér niðurstöðu nefndarinnar, kvörtunina og þau gögn sem fylgdu kvörtun yðar tel ég ekki ástæðu að gera athugasemdir við þessi atriði.

Í því samhengi skal þó bent á að áfrýjunarnefndin tók fram að ágreiningur væri milli yðar og Háskólans á Akureyri um það hvort máli yðar væri lokið innan háskólans. Sé um það að ræða að málið sé að einhverju leyti enn til meðferðar innan háskólans getið þér að fengnum lyktum málsins hjá honum, svo og afstöðu áfrýjunarnefndarinnar til þeirra lykta leitað til umboðsmanns að nýju með þann hluta málsins.      

  

III

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.