Heilbrigðismál. COVID 19.

(Mál nr. 12616/2024)

Óskað var eftir að embættisfærslur stjórnvalda vegna tiltekinna bóluefna gegn Covid-19 yrðu teknar til athugunar.   

Þar sem ekki lá fyrir ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beindist sérstaklega að hagsmunum viðkomandi eða réttindum umfram aðra voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um erindið.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 16. febrúar 2024.

  

  

Vísað er til erindis yðar til umboðsmanns Alþingis 13. febrúar sl. þar sem þér farið þess á leit að teknar verði til athugunar embættisfærslur stjórnvalda sem tengjast tilteknum bóluefnum gegn Covid-19 sem þér teljið geta verið skaðleg.

Um störf umboðsmanns Alþingis gilda samnefnd lög nr. 85/1997. Samkvæmt 2. gr. laganna er hlutverk hans að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt, sem nánar greinir í lögunum, og að tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997 getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila sem fellur undir eftirlit umboðsmanns kvartað því tilefni til hans. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðs­mann þarf að liggja fyrir ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varðar beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Ég fæ ekki ráðið að þau atriði sem tilgreind eru í erindi yðar snerti beinlínis hagsmuni yðar eða réttindi umfram aðra. Ég tel mig því ekki hafa forsendur til að taka erindi yðar til nánari athugunar sem kvörtun.

Að framangreindu sögðu athugast að kvörtun af hálfu aðila sem ekki sýnir fram á að brot geti snert bein­línis hagsmuni hans eða réttindi getur vakið athygli umboðs­manns á vandamáli. Er honum þá heimilt að taka upp mál að eigin frum­kvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997. Í því sambandi tek ég fram að við mat á almennum ábendingum er meðal annars litið til starfssviðs og áherslna umboðsmanns, hagsmuna er tengjast málefninu, sem um ræðir, og málastöðu og nýtingar mannafla hjá embættinu. Ef af athugun verður í kjöl­far ábendingar eða kvörtunar er þeim sem vekur máls á vanda almennt ekki tilkynnt sérstaklega um það heldur er upplýst um það á vef embættisins, www.umbodsmadur.is.  

Með vísan til framangreinds læt ég máli þessu lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.