Menntamál. Grunnskólar.

(Mál nr. 12618/2024)

Kvartað var yfir brottvikningu barns úr skóla.  

Þar sem málið hafði ekki verið borið undir mennta- og barnamálaráðherra voru ekki skilyrði að svo stöddu til að umboðsmaður fjallaði um það.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 16. febrúar 2024.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis 13. febrúar sl., f.h. A, vegna ákvörðunar [X-skóla] í Y um að víkja fóstursyni hennar, B, úr skóla.

Í tilefni af framangreindu tek ég fram að samkvæmt 4. mgr. 14. gr. laga nr. 91/2008, um grunnskóla, getur skólastjóri við vissar aðstæður vísað nemanda úr skóla um stundarsakir eða ótímabundið, enda tilkynni hann foreldrum nemanda og skólanefnd tafalaust þá ákvörðun. Um slíka ákvörðun gilda ákvæði stjórnsýslulaga. Skólanefnd er skylt innan hæfilegs tíma að tryggja nemanda, sem vikið hefur verið úr skóla, viðeigandi kennsluúrræði. Samkvæmt 5. mgr. sömu lagagreinar er slík ákvörðun kæranleg eftir fyrirmælum 47. gr. laganna.

Ástæða þess að ég bendi yður á framangreind lagaákvæði er sú að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns Alþingis fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Með vísan til framangreinds tel ég rétt að þér freistið þess að bera málið undir mennta- barnamálaráðherra áður en þér leitið til mín með kvörtun.

Þar sem af gögnum málsins verður ráðið að ákvörðun skólans hafi legið fyrir í maí 2023 bendi ég á að í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er nánar mælt fyrir um það við hvaða aðstæður er heimilt að taka kæru til meðferðar þótt hún hafi borist að liðnum kærufresti, en almennur kærufrestur er þrír mánuði, sbr. 27. sömu laga. Með þessari ábendingu hef ég þó ekki tekið afstöðu til þess hvort ákvæðið á við í tilviki B. 

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um erindi yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.