Veiðimál og veiðiréttindi.

(Mál nr. 12617/2023)

Vakin var athygli á annmörkum sem viðkomandi taldi vera á ákvæðum laga um lax- og silungsveiði að því er varðar fyrirkomulag við matsgerðir samkvæmt VII. kafla laganna.  

Þar sem erindið var ekki kvörtun heldur ábending var það skráð sem slíkt.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 16. febrúar 2024.

  

  

Vísað er til erindis yðar til umboðsmanns Alþingis 13. febrúar sl., f.h. A, þar sem athygli er vakin á annmörkum sem félagið telur vera á ákvæðum laga nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, að því er varðar fyrirkomulag við matsgerðir samkvæmt VII. kafla laganna.

Ef umboðsmaður verður þess var að meinbugir séu á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum skal hann tilkynna það Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn, sbr. 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þar sem ekki er hins vegar gert ráð fyrir að kvörtun verði borin fram við umboðsmann á þessum grundvelli eru þær ábendingar sem berast um efni laga yfirfarnar með tilliti til þess hvort tilefni sé til að taka þau atriði sem koma fram í þeim til athugunar á grundvelli þeirrar heimildar sem honum er fengin með 5. gr. laga nr. 85/1997 til að taka málefni til athugunar að eigin frumkvæði.

Þær ábendingar sem felast í erindi yðar verða skráðar í samræmi við framangreint. Í því sambandi tek ég fram að við mat á almennum ábendingum sem þessum er meðal annars litið til starfssviðs og áherslna umboðsmanns, hags­muna sem tengjast málefninu sem um ræðir og málastöðu og nýtingar mannafla hjá embættinu. Verklagið er þannig að verði málefnið tekið til athugunar er viðkomandi ekki upplýstur um það sérstaklega heldur er til­kynnt um athugunina á heimasíðu embættisins, www.umbodsmadur.is.