Veiðimál og veiðiréttindi.

(Mál nr. 12601/2024)

Kvartað var yfir úrskurði matvælaráðuneytisins sem staðfesti ákvörðun Fiskistofu um að synja beiðni um svæðisbundna friðun fyrir allri veiði á tiltekinni jörð. Málsmeðferð stjórnvalda hefði ekki verið í samræmi við stjórnsýslulög og með niðurstöðunni hefði verið brotið gegn stjórnarskrárbundnum réttindum, þ.e. eignarrétti,  neikvæðu félagafrelsi og samvisku- og trúfrelsi.  

Af texta greinar í lögum um lax- og silungsveiði var ljóst að þeir hagsmunir sem beiðni um svæðisbundna friðun byggði á voru ekki verndarandlag hennar og að henni var ekki sérstaklega ætlað að tryggja réttarstöðu að því leyti. Að því virtu og þar sem ekki urðu dregnar haldbærar ályktanir af dómaframkvæmd um ákvæðið eða að beiting þess í þessu tilviki, brjóti í bága við þau stjórnarskrárákvæði sem byggt var á, taldi umboðsmaður ekki tilefni til að taka kvörtunina til frekari athugunar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 20. febrúar 2024.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 5. febrúar sl., f.h. A, B og C ehf., sem beinist að matvælaráðuneytinu og lýtur að úrskurði þess þar sem staðfest var ákvörðun Fiskistofu um að synja beiðni um svæðisbundna friðun fyrir allri veiði á jörðinni X í Y. Í kvörtuninni kemur m.a. fram að málsmeðferð stjórnvalda hafi ekki verið í samræmi við stjórnsýslulög og með niðurstöðunni hafi verið brotið gegn stjórnarskrárvörðum rétti umbjóðenda yðar, nánar tiltekið eignarréttindum þeirra, neikvæðu félagafrelsi og samvisku- og trúfrelsi.

Samkvæmt gögnum sem fylgdu kvörtun yðar hafnaði Fiskistofa beiðni umbjóðenda yðar um friðun 21. nóvember 2022 með vísan til umsagnar Hafrannsóknastofnunar 11. júní þess árs um að ekki væri nauðsyn á svæðisbundnum friðunaraðgerðum fyrir jörðinni X til verndar fiskistofnum á veiðisvæði Z í umræddu fiskihverfi. Í niðurstöðukafla í úrskurði matvælaráðuneytisins, þar sem sú ákvörðun var staðfest segir m.a.:  

Ekki er fallist á að einstaklingsbundin nauðsyn kærenda eins og kærendur rekja í málinu með tilvísun til fyrrgreindra réttinda í stjórnarskrá falli undir skilyrðið um nauðsyn í 24. gr. laga nr. 61/2006. Með textaskýringu ákvæðisins er sú nauðsyn, sem verður að vera til staðar til að draga úr veiði eða friða heilt vatn eða hluta þess, að vera til verndar fiskistofnum. Þá gæti Fiskistofa sett slíkar reglur um friðun að fenginni tillögu eða umsögn Hafrannsóknastofnunar. Áður en slíkar reglur væru settar skal jafnan leita umsagnar viðkomandi veiðifélags þar sem það er til staðar.

Ekki verður annað séð af málsgögnum [en] að Fiskistofa hafi aflað þeirra gagna og sinnt rannsóknarskyldu sinni áður en ákvörðun ver tekin í í málinu. Í umsögn Hafrannsóknastofnunar, dags. 11. júní 2022, segir:

„Miðað við þá þekkingu sem liggur fyrir á stöðu fiskistofna á vatnssviði [Z] er ekki hægt að sjá að ástand og líffræðileg staða fiskstofna árinnar kalli á friðunaraðgerðir skv. 24. gr. laga nr. 61/2006“ 

Umsögn Hafrannsóknarstofnunar gefur ekki tilefni til að setja reglur um svæðisbundna friðun. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að veiðifélagið eða aðilar á þeirra vegum hafi brotið gegn lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum sem um veiðarnar gilda.

Fjallað er um svæðisbundna friðun lax og göngu- og vatnasilungs í 24. gr. laga nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði. Í 1. mgr. lagagreinarinnar kemur m.a. fram að ef nauðsyn ber til að draga úr veiði eða friða heilt vatn eða hluta þess um tiltekinn tíma gegn allri veiði eða takmarka einstakar veiðiaðferðir í vatninu til verndar fiskistofnum þess geti Fiskistofa sett reglur um slíka friðun, að fenginni tillögu eða umsögn Hafrannsóknastofnunar. Af texta lagagreinarinnar er ljóst að að þeir hagsmunir sem umbjóðendur yðar byggðu beiðni sína um svæðisbundna friðun á eru ekki verndarandlag hennar og að henni er ekki sérstaklega ætlað að tryggja réttarstöðu þeirra að því leyti.

Að framangreindu virtu, og þar sem ekki verða dregnar haldbærar ályktanir af dómaframkvæmd um að ákvæði 24. gr. laga nr. 61/2006 eða beiting þess í tilviki umbjóðenda yðar, brjóti í bága við þau stjórnarskrárákvæði sem þeir byggja rétt sinn á, tel ég ekki tilefni til að taka kvörtun yðar til frekari athugunar.

Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, læt ég athugun minni á máli þessu lokið.