Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Bótaábyrgð ríkisins.

(Mál nr. 12578/2024)

Kvartað var yfir því að dómsmálaráðuneytið hefði ekki svarað umsagnarbeiðni ríkislögmanns vegna kröfu um greiðslu bóta til viðkomandi.  

Í ljós koma að ráðuneytið hafði svarað beiðninni tæpri viku áður en kvörtunin barst og því ekki tilefni til að hafast frekar að.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 20. febrúar 2024.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis 29. janúar sl. sem beinist að dómsmálaráðuneytinu og lýtur að því að ráðuneytið hafi ekki svarað umsagnarbeiðni ríkislögmanns frá júlímánuði 2023 vegna kröfu um greiðslu bóta til yðar af nánar tilgreindum ástæðum.

Í tilefni af kvörtun yðar var ráðuneytinu ritað bréf 8. febrúar sl. þar sem þess var óskað að upplýst yrði hvað liði meðferð og afgreiðslu á umsagnarbeiðninni. Mér barst svar frá ráðuneytinu 14. febrúar sl. þar sem fram kemur að umsögn í málinu hafi verið send ríkislögmanni 23. janúar sl.

Með vísan til framangreinds tel ég ekki tilefni til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtun yðar og lýk því meðferð minni á málinu með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.