Áfengismál. Málshraði.

(Mál nr. 12006/2023)

Kvartað var yfir fjármála- og efnahagsráðuneytinu og gerðar athugasemdir við úrskurð þess þar sem synjað var kröfu um að óhæfilegur dráttur hefði orðið á afgreiðslu umsóknar um reynslusölu tiltekinnar vöru hjá ÁTVR.  

Þar sem upplýst var að dómi héraðsdóms vegna málsins sem var höfðað til ógildingar ákvörðun ÁTVR um að hafna umsókninni, hafði verið áfrýjað til Landsréttar taldi umboðsmaður ekki rétt að taka kvörtunina til frekari athugunar að svo stöddu því þar kynni að einhverju leyti að reyna á sömu atriði og kæmu til skoðunar hjá sér.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 20. febrúar 2024.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 1. desember 2022 f.h. A ehf. sem beinist að fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Í kvörtuninni eru gerðar athugasemdir við úrskurð ráðuneytisins 21. janúar 2022 þar sem kröfu yðar f.h. A, um að ráðuneytið úrskurðaði að óhæfilegur dráttur hefði orðið á afgreiðslu á umsókn félagsins um reynslusölu tiltekinnar vöru hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR), var synjað.

Í tilefni af kvörtuninni voru fjármálaráðuneytinu rituð bréf 3. febrúar, 5. júní og 17. ágúst 2023 þar sem þess var óskað að umboðsmanni yrðu afhent afrit af öllum gögnum málsins og veittar yrðu nánar greindar upplýsingar og skýringar. Umbeðin svör og gögn bárust 3. mars, 26. júní og 4. september 2023. Létuð þér umboðsmanni í té athugasemdir vegna þeirra 3. mars, 10. ágúst og 18. september þess árs.

Í úrskurðinum kemur fram að við mat á málshraða ÁTVR hafi verið litið til þess að málið hafi verið, að mati ráðuneytisins, óhefðbundið og kynni jafnframt að hafa mikið fordæmisgildi fyrir frekari afgreiðslu ÁTVR á sambærilegum málum til framtíðar litið. Af kvörtun yðar, svörum ráðuneytisins og framlögðum athugasemdum verður ráðið að áhöld séu uppi um hvort að framangreint mat ráðuneytisins standist skoðun. Hafið þér í þessu sambandi bent á að ÁTVR hafi afgreitt a.m.k. 15 eðlislík mál, sem mæli því í mót að varan sem um ræðir hafi sérstöðu umfram aðrar vörur sem ÁTVR hefur haft til sölu. Ráðuneytið hefur aftur á móti vísað til þess að samkvæmt upplýsingum frá ÁTVR hafi engin sambærileg vara verið til sölu hjá versluninni, þ.e. orkudrykkur sem innihaldi koffein. Að þessu gættu er ljóst að athugun á því hvort framangreindur úrskurður hafi verið í samræmi við lög kann að vera háð því að tekin verði afstaða til þess hvort sú vara sem umsókn félagsins varðar, sé í eðli sínu frábrugðin öðrum vörum sem ÁTVR hafi til sölu, einkum vegna koffeininnihalds hennar, sem hafi kallað á umfangsmeiri og tímafrekari málsmeðferð en ella.

Meðal gagna málsins er stefna A ehf. á hendur ÁTVR sem þingfest var í héraðsdómi Reykjavíkur 28. júní 2022, þar sem gerð er sú krafa að ógilt verði ákvörðun ÁTVR sem tilkynnt var 21. janúar 2022 um höfnun umsóknar um sölu á vörunni sem um ræðir í kvörtuninni. Af stefnunni verður ráðið að málatilbúnaður A hverfist að verulegu leyti um framangreint atriði, enda liggur fyrir að umsókn fyrirtækisins var hafnað með vísan til 4. mgr. 11. gr. laga nr. 86/2011, um verslun með áfengi og tóbak, sem heimilar ÁTVR að hafna áfengi sem inniheldur koffein og önnur örvandi efni. Þá var eðli vörunnar m.t.t. koffeininnihalds o.fl. til umfjöllunar í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júní 2023 í málinu. Í dóminum segir m.a. eftirfarandi:

176. [V]erður ráðið að ákvörðunin hafi einkum byggst á því að um væri að ræða áfengan orkudrykk með koffeini og litið hafi verið til mögulegrar skaðsemi af neyslu slíkra drykkja. Ályktun stefnda um þá ætluðu skaðsemi er studd ýmsum gögnum sem lögð hafa verið fram í málinu, þar á meðal rannsóknum fræðafólks á sviði heilbrigðisvísinda [...]. Slík sjónarmið sem snúa að heilsu og öryggi neytenda teljast málefnaleg og eiga sér að auki stoð í lögum nr. 86/2011, sbr. sérstaklega b-lið 2. gr. og 2. mgr. 4. gr. þeirra, sem og þeim röksemdum sem lágu að baki setningu ákvæða 11. gr. laganna og birtast m.a. í athugasemdum við 4. mgr. 11. gr. við frumvarpið sem varð að lögunum. Ekki skiptir höfuðmáli í því sambandi þótt í athugasemdunum sé sérstaklega vísað til blöndunar sterks áfengis við orkudrykki og X teljist ekki til sterks áfengis, enda benda framangreind gögn allt að einu til þess að neysla áfengra drykkja sem blandaðir eru koffeini kunni að vera skaðlegri en neysla áfengis eins og sér. Ekki skiptir heldur meginmáli hvaða skilgreining á hugtakinu orkudrykk er lögð til grundvallar, enda er það ekki skilyrði samkvæmt tilvitnuðu lagaákvæði að þeir áfengu drykkir sem það tekur til innihaldi fleiri örvandi efni en koffein og framangreind gögn málsins benda til þess að umrædd sjónarmið geti átt við hvort sem svo er eða ekki. [...]

179. Hvað varðar aðra drykki sem innihalda koffein og stefndi selur hefur stefndi bent á að enginn þeirra tilheyri sama vöruflokki og X, sem sé annaðhvort síder og síderblöndur eða blandaðir drykkir undir 6,5%. Þær vörur sem innihaldi koffein og stefndi selji séu að meginstefnu til í tveimur vöruhópum, annars vegar líkjörar og hins vegar öl – stát og porter. Innihald koffeins í þessum drykkjum sé almennt afleiðing þess að kaffi sé blandað í vörurnar vegna bragðeinkenna kaffis. Þá sé kauphegðun vegna þeirra drykkja með öðrum hætti og áfengisblandaðir orkudrykkir höfði almennt meira til yngri aldurshópa en drykkir sem teljast til líkjöra eða öls [...]. Þessar staðhæfingar stefndu eru a.m.k. að nokkru leyti studdar gögnum og hafa ekki verið hraktar af stefnanda.

Þá hafið þér upplýst umboðsmann um að dómi héraðsdóms hafi verið áfrýjað til Landsréttar. Ástæða þess að þetta er rakið er sú að þeirri reglu hefur verið fylgt í framkvæmd umboðsmanns að fjalla ekki um einstakar kvartanir samhliða því að mál vegna sömu atvika eru rekin fyrir dómstólum og ætla má að þar kunni að reyna á sambærileg álitaefni sem annars myndi reyna á við athugun umboðsmanns á málinu. Eins geta verið slík tengsl milli mála að framangreint verði talið eiga við, jafnvel þótt ekki sé um nákvæmlega sama mál að ræða. Er þessi afstaða byggð á því að samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er gert ráð fyrir ákveðinni verkaskiptingu milli umboðsmanns og dómstóla. Þannig tekur t.d. starfssvið umboðsmanns ekki til starfa dómstóla, sbr. b-lið 4. mgr. 3. gr. laganna, en í því felst m.a. að það kemur ekki til kasta umboðsmanns að fjalla um málefni sem leitt hefur verið til lykta fyrir dómstólum. Þá hefur það verið afstaða umboðsmanns Alþingis að ekki sé rétt að nýta fjármuni og krafta þessara opinberu embætta til þess að fjalla um sama mál á sama tíma.

Í ljósi þessa tel ég því ekki rétt að taka kvörtunina til frekari athugunar að svo stöddu, enda tel ég að í máli því sem nú hefur verið áfrýjað til Landsréttar kunni að einhverju leyti að reyna á sömu atriði og kæmu til skoðunar við athugun mína á kvörtuninni. Ef A ehf. telur að enn sé tilefni til þess að umboðsmaður fjalli um efni kvörtunarinnar að fenginni endanlegri úrlausn málsins fyrir dómstólum er fyrirtækinu fært að leita til umboðsmanns á nýjan leik og verður þá tekin afstaða til þess hvort skilyrði séu að lögum til að taka málið til frekari athugunar. Mun ég þá ekki líta svo á að sá ársfrestur, sem kveðið er á um í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 sé liðinn vegna þeirra athafna sem kvörtunin lýtur að.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtunina, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.