Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Skipulags- og byggingarmál. Frestun máls.

(Mál nr. 12344/2023)

Kvartað var yfir því að sveitarfélag hefði ekki afgreitt erindi vegna lóðarleigusamnings.  

Í kjölfar afskipta umboðsmanns og ábendinga til sveitarfélagsins um málsmeðferð var erindinu svarað og því ekki ástæða til að aðhafast frekar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 21. febrúar 2024.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 29. ágúst 2023 sem lýtur að því að Hrunamannahreppur hafi ekki afgreitt erindi yðar varðandi lóðarleigusamning fyrir fasteignir í X. Með bréfi 15. september 2023 var þess óskað að sveitarfélagið upplýsti umboðsmann um það hvort erindi yðar hefðu borist og þá hvað liði meðferð og afgreiðslu þeirra. Í svarbréfi Hrunamannahrepps 26. október 2023 kom m.a. fram að sveitarfélaginu hefði borist erindi lögmanns yðar 28. ágúst 2023 en því hefði ekki verið svarað formlega þar sem í millitíðinni hefði verið upplýst að málið væri til meðferðar hjá umboðsmanni.

Svör sveitarfélagsins urðu mér tilefni til að árétta með bréfi 9. október 2023 að fyrirspurnin hefði lotið að töfum á afgreiðslu málsins. Var þess því óskað að sveitarfélagið upplýsti um hvað liði meðferð og afgreiðslu erindis lögmanns yðar og jafnframt hvernig það samrýmdist svarreglu stjórnsýsluréttarins að erindinu hefði ekki verið svarað sökum þess að þér hefðuð leitað til umboðsmanns vegna málsins. Í svarbréfi Hrunamannahrepps 14. desember 2023 var upplýst að erindinu hefði nú verið svarað og því fylgdi afrit bréfs sveitarfélagsins til lögmanns yðar 12. desember.

Þar sem kvörtunarefnið lýtur að töfum á afgreiðslu sveitarfélagsins á erindi yðar og í ljósi þess að erindinu hefur nú verið svarað tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar að svo stöddu í tilefni af kvörtun yðar. Lýk ég því umfjöllun minni vegna málsins með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Ég vek athygli yðar á því að samkvæmt sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011, fer innviðaráðuneytið með almennt eftirlit með því að sveitarfélög gegni skyldum sínum samkvæmt lögunum, sem og öðrum löglegum fyrirmælum, sbr. 109. gr. laganna. Aðila máls er samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laganna heimilt að kæra til ráðuneytisins ákvarðanir um rétt eða skyldu manna sem lúta eftirliti þess. Þá ákveður ráðuneytið sjálft hvort tilefni er til að taka til formlegrar umfjöllunar stjórnsýslu sveitarfélags sem lýtur eftirliti þess samkvæmt 112. gr. Ef þér fellið yður ekki við svör Hrunamannahrepps við erindum yðar eigið þér því þann kost að bera athugasemdir yðar undir innviðaráðuneytið. Ef þér farið þá leið að leita til ráðuneytisins vegna málsins og teljið yður beitta rangsleitni að fenginni niðurstöðu þess eigið þér þann kost að leita til mín á ný með kvörtun þar að lútandi.