Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Sveitarfélög. Orku- og auðlindamál.

(Mál nr. 12568/2024)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu innviðaráðuneytisins á erindi frá því í desember 2021.

Í svari til umboðsmanns kom fram að regluleg samskipti hefðu verið við viðkomandi vegna erindisins. Nú væri til skoðunar hvort fjalla ætti um málið á grundvelli heimildar ráðuneytisins til að taka stjórnsýslu sveitarfélaga að eigin frumkvæði til formlegrar umfjöllunar. Þar sem málið var í farvegi og framvinda þess hafði verið útskýrð taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast frekar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 22. febrúar 2024.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 18. janúar sl. f.h. A ehf. yfir töfum á afgreiðslu innviðaráðuneytisins á erindi félagsins frá 20. desember 2021. Lýtur erindið að starfsemi dótturfélags Orkuveitu Reykjavíkur á mörkuðum fyrir hleðslustöðvar. Fyrir liggur að Reykjavíkurborg veitti ráðuneytinu umsögn 17. nóvember 2022 vegna málsins og hefur A komið athugasemdum að því leyti á framfæri við ráðuneytið. Þá liggur jafnframt fyrir að ráðuneytið óskaði 26. janúar 2023 eftir umsögn umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins vegna málsins en hún mun enn ekki hafa borist.

Í tilefni af kvörtuninni var innviðaráðuneytinu ritað bréf 26. janúar sl. þar sem þess var óskað að upplýst yrði hvað liði meðferð og afgreiðslu málsins. Í svari ráðuneytisins 15. febrúar sl., sem fylgir hjálagt með bréfi þessu, kemur fram að ráðuneytið sé nú með til skoðunar hvort að tilefni sé til að fjalla um málið á grundvelli 112. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, en þar er mælt fyrir um heimild ráðuneytisins til að taka að eigin frumkvæði stjórnsýslu sveitarfélaga til formlegrar umfjöllunar, og gefa út álit um stjórnsýslu Orkuveitu Reykjavíkur. Líkt og áður greinir hefur ráðuneytið óskað eftir umsögn umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins en hún mun enn ekki hafa borist. Um það segir í bréfi ráðuneytisins að beiðnin hafi verið ítrekuð og að til standi að ráðuneytin fundi um málið.

Þar sem kvörtunin lýtur að töfum, og í ljósi þess sem fram er komið um framvindu þess og þann farveg sem málið er í hjá ráðuneytinu, tel ég ekki ástæðu til aðhafast frekar í tilefni af henni. Læt ég því athugun minni vegna kvörtunarinnar lokið, sbr. a-liður 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis. Verði frekari og óhæfilegar tafir á meðferð málsins, getur félagið, eða þér fyrir þess hönd, leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.