Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Aðgangur að sjúkraskrá.

(Mál nr. 12598/2024)

Kvartað var yfir afgreiðslu Landspítala-Háskólasjúkrahúss á beiðni um aðgang að sjúkraskrárupplýsingum.  

Af kvörtuninni varð ekki ráðið að afgreiðsla spítalans hefði verið borin undir embætti landlæknis. Að svo stöddu væru því ekki skilyrði til að umboðsmaður tæki kvörtunina til frekari athugunar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 22. febrúar 2024.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 31. janúar sl. er lýtur að afgreiðslu Landspítala-Háskólasjúkrahúss á beiðni um aðgang að sjúkraskrár-upplýsingum. Í kvörtuninni er byggt á því að beiðni yðar 10. maí 2023, um aðgang að innskráningarskýrslu sjúkraskráa fyrir tiltekið tímabil, hafi verið synjað með tölvubréfi Landspítala 12. maí 2023.

Í tilefni af kvörtun yðar skal tekið fram að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Þetta ákvæði er einkum byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að í framangreindu tölvubréfi Landspítala 12. maí 2023 segir að beiðnin sé til vinnslu hjá viðeigandi aðilum en að sökum þess að þér óskuðuð eftir uppflettingum frá árunum 2008 til 2011 kunni sú vinnsla að taka lengri tíma en ella. Þá er samkvæmt 15. gr. a laga nr. 55/2009, um sjúkraskrár, heimilt að bera synjun umsjónaraðila sjúkraskrár um aðgang sjúklings að eigin sjúkraskrá í heild eða að hluta eða synjun um að fá afhent afrit af henni undir embætti landlæknis.

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að þér hafið borið afgreiðslu Landspítala á beiðni yðar undir embætti landlæknis. Þar til niðurstaða landlæknis liggur fyrir brestur því lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari athugunar að svo stöddu. Teljið þér yður enn rangsleitni beittar, að fenginni úrlausn embættisins, er yður fært að leita til umboðsmanns á nýjan leik.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.