Lögheimili.

(Mál nr. 12621/2024)

Kvartað var yfir fyrirkomulagi skráningar lögheimilis og málsmeðferð Þjóðskrár Íslands þar að lútandi.  

Ekki varð annað ráðið en tilkynning viðkomandi um ranga skráningu lögheimilis væri enn til meðferðar hjá Þjóðskrá sem hefði upplýst að hún gæti tekið allt að sex vikur. Ekki voru því skilyrði til að taka kvörtunina til frekari meðferðar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 22. febrúar 2024.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 15. febrúar sl. sem þér beinið að Þjóðskrá Íslands og lýtur að fyrirkomulagi skráningar lögheimilis og málsmeðferð stofnunarinnar þar að lútandi. Af kvörtuninni verður ráðið að 14. febrúar sl. hafi Þjóðskrá tilkynnt yður að tilgreindur maður hafi skráð lögheimili sitt í fasteign sem þér eruð þinglýstur eigandi að. Hafið þér í kjölfarið tilkynnt stofnuninni um ranga skráningu lögheimilis.    

Um skráningu lögheimilis gilda ákvæði laga nr. 80/2018, um lögheimili og aðsetur. Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laganna fer skráning lögheimilis og aðseturs einstaklinga fram hjá Þjóðskrá Íslands. Samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laganna skal þinglýstur eigandi fasteignar hlutast til um að skráning lögheimilis einstaklinga sem hafa fasta búsetu í húsnæði hans sé rétt. Skal Þjóðskrá senda tilkynningu í pósthólf þinglýsts eiganda fasteignar á Island.is um þá sem skrái lögheimili sitt í fasteign í hans eigu. Þá kemur fram í 2. mgr. 16. gr. laganna að Þjóðskrá geti breytt skráningu lögheimilis einstaklinga að eigin frumkvæði eða á grundvelli beiðna frá þinglýstum eiganda húsnæðis eða öðrum sem hagsmuna eigi að gæta. Samkvæmt 5. mgr. sömu greinar sæta ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til ráðherra, en þar er átt við innviðaráðherra, sbr. 7. tölulið 7. gr. forsetaúrskurðar nr. 6/2022, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, segir að ekki sé unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæðið byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum, sem hugsanlega er ekki í samræmi við lög, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Af ákvæðinu leiðir einnig að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar á meðan það er enn til meðferðar hjá stjórnvöldum.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að ekki verður annað ráðið af kvörtun yðar og þeim gögnum sem henni fylgdu en að tilkynning yðar um ranga skráningu lögheimilis sé enn til meðferðar hjá Þjóðskrá, sem hafi upplýst yður um að málsmeðferðin kunni að taka allt að sex vikur. Brestur því að svo stöddu lagaskilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar af hálfu umboðsmanns Alþingis. Kjósið þér að nýta framangreinda kæruleið til innviðaráðherra að fenginni úrlausn Þjóðskrár og teljið þér yður enn beittan rangsleitni að fenginni úrlausn framangreindra stjórnvalda er yður fært að leita til umboðsmanns á nýjan leik í samræmi við 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

Með vísan til þess sem að framan er rakið læt ég umfjöllun minni um kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.