Almannatryggingar. Meðlag. Milliganga um meðlagsgreiðslur.

(Mál nr. 12162/2023)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála þar sem ákvörðun Tryggingastofnunar um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur frá viðkomandi var staðfest. Gerðar voru ýmsar athugasemdir við úrskurðinn, m.a. að ekki hefði borið að greiða meðlag aftur í tímann.

Í ljósi þess að ekkert lá fyrir um að viðkomandi hefði staðið skil á meðlagi í samræmi við samkomulag þar að lútandi og sem staðfest hafði verið af sýslumanni, taldi umboðsmaður ekki efni til að gera athugasemd við þá niðurstöðu nefndarinnar að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóðurinnar. Óreglulegar og misháar greiðslur til hennar gæfu ekki til kynna að með þeim hefði verið ætlunin að greiða meðlag. Lét umboðsmaður því athugun sinni lokið.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 23. febrúar 2024.

  

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar 25. apríl 2023 fyrir hönd A en hún beinist að úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála 19. apríl sama ár í máli nr. 39/2023. Með úrskurðinum var staðfest sú ákvörðun Tryggingastofnunar að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur frá umbjóðanda yðar til barnsmóður hans. Í tilefni af kvörtun yðar var úrskurðarnefnd velferðarmála ritað bréf 16. maí 2023 þar sem þess var óskað að nefndin gerði grein fyrir tilgreindum atriðum. Með bréfi 21. júní 2023 veitti úrskurðarnefnd velferðarmála skýringar sínar og með bréfi 28. sama mánaðar var yður boðið að koma á framfæri athugasemdum við þær skýringar. Bárust þær 10. júlí 2023.

  

II

Í kvörtuninni kemur fram að þér teljið úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála ekki í samræmi við lög. Teljið þér að nefndin hafi ranglega komist að þeirri niðurstöðu að samþykkja skyldi milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður A aftur í tímann enda hafi þágildandi 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 945/2009, um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga, m.a. kveðið á um að þegar meðlagsákvörðun væri eldri en tveggja mánaða, svo sem raunin var í tilfelli A, skyldi einungis greiða frá byrjun þess mánaðar sem umsókn og fylgigögn samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar hefðu borist nema sérstakar ástæður væru fyrir hendi sem réttlætt gætu greiðslur lengra aftur í tímann, allt að 12 mánuði. Þess ber að geta að þér teljið þá niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar, að ekki hafi verið heimilt að setja frekari skilyrði fyrir greiðslu aftur í tímann í reglugerð, ranga en um þetta vísaði nefndin m.a. til fyrri úrskurðar síns í máli nr. 312/2017. Þá teljið þér og að A hafi ekki borið að greiða meðlag aftur í tímann enda hafi hann þegar innt af hendi meðlagsgreiðslur vegna umrædds tímabils og skylt hafi verið að taka tillit til slíkra greiðslna með vísan til þágildandi 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 945/2009. Í því ákvæði reglugerðarinnar kom fram að þegar sótt væri um greiðslu aftur í tímann á grundvelli meðlagsákvörðunar sem væri eldri en tveggja mánaða skyldi gefa meðlagsskyldum aðila kost á að sýna fram á að meðlag hafi þegar verið greitt fyrir sama tímabil og sótt væri um.

  

III

Í IX. kafla barnalaga nr. 76/2003 er fjallað um framfærslu barns. Í 1. mgr. 54. gr. laganna segir að ef barn á fasta búsetu hjá öðru foreldra sinna beri hinu foreldrinu skylda til að taka þátt í framfærslu barnsins með greiðslu kostnaðar við framfærsluna eða með greiðslu meðlags. Þá segir í 5. mgr. 55. gr. laganna að sé samið um greiðslu meðlags megi ekki miða við lægri fjárhæð en sem nemur barnalífeyri samkvæmt lögum um almannatryggingar og nefnist það einfalt meðlag í lögunum. Um greiðslu meðlags segir í 1. mgr. 63. gr. barnalaga að meðlag skuli greiða mánaðarlega fyrir fram með reglubundnum greiðslum nema annað sé löglega ákveðið. Af framangreindu leiðir að meðlagi er ætlað fela í sér greiðslu tiltekinnar upphæðar með reglubundnum hætti. Er almennt lagt til grundvallar að meðlag eigi að tryggja barni lágmarksgreiðslur sem renni til daglegrar og venjulegrar framfærslu. 

Í lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, er fjallað um milligöngu Tryggingastofnunar vegna meðlagsgreiðslna en í þágildandi 1. mgr. 63. gr. laganna, sbr. nú 1. mgr. 42. gr. þeirra, sagði að hver sá sem fengi úrskurð um meðlag með barni, sem hann hefði á framfæri sínu, gæti snúið sér til Tryggingastofnunar og fengið fyrirframgreiðslu meðlags og annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Hið sama gilti um samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga. Um tímamark milligöngunnar sagði m.a. í þágildandi 4. mgr. 63. greinar laga nr. 100/2007, sbr. nú 4. mgr. 42. gr. þeirra, að Tryggingastofnun væri heimilt að greiða meðlag aftur í tímann allt að 12 mánuði, talið frá byrjun þess mánaðar sem staðfest samkomulag hefði borist stofnuninni enda ætti þágildandi 4. mgr. 20. gr. laganna ekki við.

Ástæða þess að framangreind lagaákvæði eru rakin er sú að af gögnum, sem þér afhentuð umboðsmanni í kjölfar þess að starfsmaður embættisins setti fram ósk þess efnis, verður ráðið að 27. ágúst 2020 hafi sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu staðfest samkomulag A og barnsmóður hans um meðlag og fleira. Samkvæmt samkomulaginu bar A að greiða einfalt meðlag með hvoru barni til móður þeirra frá 1. október 2020 til 18 ára aldurs. Af frekari gögnum, sem þér afhentuð umboðsmanni, verður einnig ráðið að þér teljið A hafa fullnægt meðlagsskyldu sinni með því að greiða tiltekinn kostnað vegna framfærslu barnanna. Þessu til stuðnings afhentuð þér umboðsmanni yfirlit greiðslna til Mosfellsbæjar og barnsmóður A á árunum 2020 til 2022. Af greiðsluyfirlitinu verður ráðið að greiðslurnar til Mosfellsbæjar hafi verið vegna leikskólagjalda og fæðiskostnaðar. Af greiðsluyfirlitinu verður á hinn bóginn ekki ráðið hvers eðlis greiðslur A til barnsmóðurinnar eru enda eru þær óreglulegar, upphæðir þeirra misjafnar og ekkert sem gefur til kynna að með þeim hafi ætlunin verið að greiða meðlag. Með vísan til fyrirliggjandi gagna málsins og þeirra lagaákvæða, sem að framan voru rakin um fyrirkomulag meðlagsgreiðslna og upphæð þeirra, verður því ekki séð að A hafi greitt barnsmóður sinni meðlag í skilningi laga á því tímabili sem hér um ræðir.

Í ljósi þess að ekkert liggur fyrir um að A hafi staðið skil á meðlagi í samræmi við ofangreint samkomulag, sem staðfest var af sýslumanni, tel ég ekki efni til að gera athugasemd við þá efnislegu niðurstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður A frá 1. janúar 2022 með vísan til þágildandi 4. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007.

  

IV

Með vísan til framangreinds er athugun minni vegna málsins lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.