Heilbrigðismál. Heilbrigðisþjónusta. Sjúkratryggingar. Málshraði.

(Mál nr. 12623/2024)

Kvartað var yfir löngum biðtíma eftir augnsteinaaðgerðum.

Ekki varð séð að kvörtunin stafaði af því að viðkomandi hefði beðið eftir slíkri aðgerð heldur væri ætlunin að vekja athygli umboðsmanns á biðtímanum. Var ábendingin því skráð og haldið til haga í samræmi við verklag embættisins.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 23. febrúar 2024.

  

  

Vísað er til erindis yðar 16. febrúar sl. þar sem vakin er athygli á löngum biðtíma eftir augnsteinaaðgerðum. Mun sá biðtími vera um tvö ár með greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands, samkvæmt upplýsingum sem þér hafið aflað, en um þrír mánuðir gegn fullri greiðslu viðkomandi.

Í tilefni af erindi yðar skal tekið fram að í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er gengið út frá því að meginviðfangsefni umboðsmanns sé að taka við kvörtunum frá borgurunum og láta þeim í té álit um það hvort stjórnvöld hafi leyst með réttum hætti úr máli þeirra. Þannig er tekið fram í 2. mgr. 4. gr. laganna að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum sem heyra undir eftirlit umboðsmanns Alþingis geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varðar beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Kvörtun af hálfu aðila sem ekki sýnir fram á að brot geti snert beinlíns hagsmuni hans eða réttindi getur þó vakið athygli umboðsmanns að vandamáli. Er honum þá heimilt að taka upp mál að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997.

Ég legg þann skilning í erindi yðar að það feli ekki í sér kvörtun vegna biðtíma sem þér hafið þurft að sæta vegna augnsteinaaðgerðar heldur sé því ætlað að vekja athygli umboðsmanns á téðum biðtíma sem þér teljið óviðunandi. Ábending yðar hefur verið skráð í samræmi við verklag embættisins og verður henni haldið til haga.  Þegar umboðsmanni berast erindi sem fela í sér ábendingu eða eru að öðru leyti almenns eðlis er verklagið þannig að erindi er yfirfarið með tilliti til þess hvort tilefni sé til að taka atriði sem koma fram í því til athugunar á grundvelli frumkvæðisheimildar hans. Við mat á því er meðal annars litið til starfssviðs og áherslna umboðsmanns, hagsmuna sem tengjast málefninu sem um ræðir og málastöðu og nýtingar mannafla hjá embættinu. Ef af slíkri athugun verður í kjölfar ábendingar eða kvörtunar er þeim sem vekur máls á vanda almennt ekki tilkynnt um það heldur er upplýst um það á heimasíðu embættisins, www.umbodsmadur.is.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um erindi yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga n. 85/1997.