Útlendingar. Dvalarleyfi. Utanríkismál. Borgaraþjónusta. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 12624/2024)

Kvartað var yfir athafnaleysi stjórnvalda í tengslum við fjölskyldusameiningu Palestínumanna sem hlotið hefðu dvalarleyfi hér á landi.

Kvörtunin beindist ekki að stjórnsýslu Útlendingastofnunar heldur ófullnægjandi aðgerðum íslenskra stjórnvalda, einkum utanríkisráðuneytisins, við að greiða götu fjölskyldu A til Íslands. Umboðsmaður vísaði til þess að hlutverk hans væri ekki að taka afstöðu til atriða sem væru af stjórnmálalegum toga. Í þessu tilviki myndu hugsanleg tilmæli til stjórnvalda hins vegar óhjákvæmilega beinast að aðgerðum þeirra erlendis sem hverfðust um þá stefnu sem utanríkisráðherra, eftir atvikum í samráði við ríkisstjórn, hefði ákveðið og framfylgdi. Ráðherrann bæri samkvæmt stjórnlögum pólitíska ábyrgð á embættisverkum sínum gagnvart Alþingi og hefðu aðgerðir stjórnvalda í þessu efni komið til umfjöllunar þar. Taldi umboðsmaður því kvörtunina fyrst og fremst snúa að atriðum sem lytu ekki að lagalegum réttindum viðkomandi heldur pólitískum álitefnum sem m.a. væru til umræðu á vettvangi Alþingis og féllu því utan starfssviðs umboðsmanns. Umboðsmaður benti hins vegar á að ef fjölskyldan teldi sig hafa verið beitta rangindum við ákvarðanir, athafnir eða athafnleysi starfsmanna utanríkisþjónustunnar gætu þau lagt fram kvörtun á nýjan leik.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 27. febrúar 2024.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 15. febrúar sl., fyrir hönd A, vegna athafnaleysis stjórnvalda í tengslum við fjölskyldusameiningu Palestínumanna sem hlotið hafa dvalarleyfi hér á landi. Nánar tiltekið kemur fram í kvörtuninni og þeim gögnum sem henni fylgdu að Útlendingastofnun hafi veitt fjölskyldu A dvalarleyfi 11. desember 2023 á grundvelli fjölskyldusameiningar. Vegna aðstæðna á Gaza hafi fjölskyldunni hins vegar ekki verið kleift að yfirgefa svæðið og komast til Íslands. Skil ég því kvörtun yðar svo að hún beinist ekki að þeirri stjórnsýslu Útlendingastofnunar, sem leiddi til ákvörðunar um dvalarleyfi fyrir fjölskyldu A, heldur ófullnægjandi aðgerðum íslenskra stjórnvalda, einkum utanríkisráðuneytisins, við að greiða fyrir för hennar til Íslands.

Í tilefni af kvörtun yðar skal tekið fram að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og nánar greindar siðareglur. Getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila, sem eftirlit umboðsmanns tekur til, kvartað af því tilefni til umboðsmanns, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna.

Samkvæmt þessu er það hlutverk umboðsmanns að taka við kvörtunum frá borgurunum og láta þeim í té álit um það hvort stjórnvöld hafi leyst með réttum hætti úr málum þeirra samkvæmt lögum. Það fellur hins vegar utan hlutverks embættisins að taka afstöðu til atriða sem eru af stjórnmálalegum toga og þar með án þýðingar fyrir lagaleg réttindi hlutaðeigandi. Undir þetta myndu jafnan falla álitaefni um utanríkisstefnu ríkisins. Í því sambandi tek ég þó fram að utanríkisþjónustan starfar samkvæmt lögum, einkum lögum nr. 39/1971, um utanríkisþjónustu Íslands, og geta því athafnir eða athafnaleysi starfsmanna hennar á þeim grundvelli fallið undir starfssvið umboðsmanns.

Ég vil taka fram að ég hef skilning á þeirri skelfilegu og aðkallandi stöðu sem uppi virðist vera viðvíkjandi þeim sem ekki geta komist hingað til lands sökum stríðsástands á Gaza þrátt fyrir að hafa fengið hér dvalarleyfi. Það breytir því þó ekki að frekari athugun mín á máli A og fjölskyldu hans getur að mínum dómi ekki talist líkleg til að ég hafi forsendur til að beina tilmælum til utanríkisráðherra eða annarra stjórnvalda um að rétta hlut þeirra samkvæmt lögum. Hef ég þá í huga að slík tilmæli myndu í reynd óhjákvæmilega beinast að aðgerðum íslenskra stjórnvalda erlendis sem hverfast um þá stefnu sem utanríkisráðherra, eftir atvikum í samráði við þá ríkisstjórn sem hann situr í, hefur ákveðið og framfylgir hverju sinni. Til hliðsjónar bendi ég á að ráðherrann ber samkvæmt stjórnlögum pólitíska ábyrgð á embættisverkum sínum gagnvart Alþingi og hafa aðgerðir stjórnvalda í þessu efni komið til umfjöllunar á þeim vettvangi, síðast 22. febrúar sl. (154. löggjafarþing, 77. fundur). Tel ég því að ekki geti farið á milli mála að kvörtun yðar beinist fyrst og fremst að atriðum sem ekki lúta að lagalegum réttindum A eða fjölskyldu hans heldur pólitískum álitaefnum sem m.a. eru til umræðu á vettvangi Alþingis.

Samkvæmt framangreindu lít ég svo á að kvörtun yðar, eins og hún er fram sett, falli utan starfssviðs umboðsmanns eins og það leiðir af lögum. Telji A hins vegar að hann eða fjölskylda hans hafi verið beitt rangindum við nánar tilteknar ákvarðanir, athafnir eða athafnaleysi stjórnvalda, s.s. starfsmanna utanríkisþjónustunnar, bendi ég á að hann getur lagt fram kvörtun á nýjan leik þar að lútandi.

Með vísan til alls framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar því lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.