Almannavarnir. Ferðafrelsi. Almannaréttur.

(Mál nr. 12625/2024)

Kvartað var yfir lögreglustjóranum á Suðurnesjum og ríkislögreglustjóra vegna takmarkana á aðgengi að Svartsengi og nágrenni þess.

Þar sem ekki varð ráðið að þetta hefði verið borið undir lögreglustjórann á Suðurnesjum eða eftir atvikum dómsmálaráðherra voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 27. febrúar 2024.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 21. febrúar sl. sem þér beinið að lögreglustjóranum á Suðurnesjum og ríkislögreglustjóra og lýtur að takmörkunum á aðgengi við Svartsengi og nágrenni þess. Samkvæmt kvörtuninni mun lögreglumaður hafa vísað yður frá svæði í nágrenni við Grindavík 16. sama mánaðar á grundvelli fyrirmæla lögreglustjórans á Suðurnesjum.

Í tilefni af kvörtun yðar skal tekið fram að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Að baki þessu ákvæði býr það sjónarmið að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta og bæta úr ágöllum sem verið hafa á fyrri afskiptum og ákvörðunum þeirra af viðkomandi máli sem ekki eru í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 82/2008, um almannavarnir, er dómsmálaráðherra æðsti yfirmaður almannavarna í landinu. Þá verður ekki ráðið af kvörtun yðar að þér hafið borið athugasemdir yðar undir lögreglustjórann á Suðurnesjum. Í ljósi þeirra sjónarmiða sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 tel ég því rétt að þér leitið fyrsta kastið til lögreglustjórans á Suðurnesjum með athugasemdir yðar og eftir atvikum dómsmálaráðherra, að fenginni afstöðu hans. Þar til afstaða þeirra liggur fyrir brestur hins vegar lagaskilyrði til þess að taka kvörtun yðar til frekari meðferðar. Kjósið þér að leita með erindi til stjórnvalda í samræmi við framangreint er yður frjálst að leita til umboðsmanns á ný með kvörtun þar að lútandi.

Með vísan til framangreinds er umfjöllun minni um kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.