Opinberir starfsmenn. Ráðningar í opinber störf.

(Mál nr. 12267/2024)

Kvartað var yfir ráðningu í starf hjá Hafnarfjarðarbæ. 

Gögn málsins báru með sér að rannsókn sveitarfélagsins og mat á umsækjendum hefði farið fram í nokkrum skrefum þar sem umsækjendahópurinn hefði verið þrengdur smám saman. Í tilefni af athugasemdum við það hvernig umsækjandinn sem hlaut stafið fullnægði kröfum um framhaldsmenntun tók umboðsmaður fram að hann teldi ekki að mat sveitarfélagsins hefði verið óforsvaranlegt að þessu leyti. Hafði hann þá hliðsjón af orðalagi starfsauglýsingar og því hversu lágt hlutfall af heildarmati umræddur matsþáttur vó. Að virtum skýringum sveitarfélagsins og öðrum gögnum varð ekki annað séð en farið hefði fram heildstætt mat á umsækjendum á grundvelli þeirra sjónarmiða sem gefin voru til kynna í auglýsingu um starfið. Þá varð ekki annað ráðið en samanburður á umsækjendum hefði byggst á málefnalegum sjónarmiðum og áherslum m.t.t. þeirra verkefna og ábyrgðar sem bundin voru starfinu. Að virtu svigrúmi stjórnvalda í ráðningamálum voru ekki forsendur til að gera athugasemdir við niðurstöðu bæjarins.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 27. febrúar 2024.

  

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar 27. júní 2023 yfir ákvörðun um ráðningu í starf [...] Hafnarfjarðarbæjar en þér voruð meðal umsækjenda um starfið. Í kvörtuninni gerið þér einkum athugasemdir við mat á hæfni þess umsækjanda sem ráðinn var m.t.t. menntunar og þá í ljósi þess að hún hafi ekki uppfyllt þær menntunarkröfur sem fram komu í auglýsingu.

Með bréfum til sveitarfélagsins 10. júlí og 11. ágúst 2023 var óskað eftir gögnum málsins ásamt nánari upplýsingum og skýringum vegna tiltekinna atriða. Hafnarfjarðarbær svaraði beiðninni með bréfi 1. september þess árs og bárust athugasemdir yðar hinn 17. þess mánaðar.

  

II

1

Við ráðningar í opinber störf ber stjórnvöldum að fylgja stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og grundvallarreglum stjórnsýsluréttar um undirbúning ráðningar og mat á hæfni umsækjenda. Að íslenskum rétti hafa hins vegar ekki verið lögfestar almennar reglur um hvaða sjónarmið stjórnvöld eigi að leggja til grundvallar slíkri ákvörðun þegar almennum hæfisskilyrðum sleppir. Meginreglan er því sú að stjórnvaldið ákveður á hvaða sjónarmiðum það byggir ákvörðunina ef ekki er sérstaklega mælt fyrir um annað í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Í samræmi við réttmætisreglu stjórnsýsluréttar verða sjónarmið stjórnvalds allt að einu að vera málefnaleg, svo sem um menntun, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum aðra persónulega eiginleika sem talin eru máli skipta um starfshæfni. Þegar þau sjónarmið sem stjórnvaldið ákveður að byggja ákvörðun sína á leiða ekki öll til sömu niðurstöðu þarf að meta vægi þeirra innbyrðis. Við slíkt mat gildir sú meginregla að það er stjórnvaldið sem ákveður á hvaða sjónarmið það leggur áherslu ef ekki er mælt fyrir um það í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum og tryggja rétt borgaranna gagnvar stjórnvöldum landsins. Við athugun á málum sem þessum er umboðsmaður ekki í sömu stöðu og það stjórnvalds sem ákvað hvaða umsækjanda skyldi ráða í starfið. Hefur þá verið lagt til grundvallar að stjórnvaldið njóti ákveðins svigrúms við mat á því hvaða umsækjandi sé hæfastur enda hafi það aflað fullnægjandi upplýsinga að þessu leyti og sýnt fram á að heildstæður samanburður hafi farið fram með vísan til þeirra sjónarmiða sem ákveðið hefur verið að leggja til grundvallar. Það er á hinn bóginn ekki hlutverk umboðsmanns að taka afstöðu til þess hvern hefði átt að ráða í fyrrgreint starf heldur fjalla um hvort meðferð málsins og ákvörðunin hafi verið í samræmi við lög.

  

2

Í auglýsingu um [...] Hafnafjarðarbæjar voru kröfur til hæfni og menntunar tilgreindar sem hér segir: 

 • Háskólapróf sem nýtist í starfi, s.s. á sviði viðskiptafræði eða hagfræði.
 • Framhaldsmenntun sem nýtist í starfi, s.s. á sviði fjármála og/eða endurskoðunar.
 • Víðtæk þekking og reynsla af fjármálum, rekstri og áætlanagerð sveitarfélaga.
 • Mikil hæfni í greiningu og framsetningu tölulegra gagna.
 • Þekking og reynsla af samningagerð.
 • Farsæl reynsla af stjórnun og mannaforráðum.
 • Leiðtogahæfni og framúrskarandi samstarfs- og samskiptahæfni.
 • Reynsla af stefnumótun og breytingarstjórnun kostur.
 • Þekking og reynsla af opinberri stjórnsýslu kostur.
 • Framsýni, metnaður, frumkvæði og skipulagshæfileikar.
 • Geta til þess að vinna undir álagi.

Þá var þess óskað í auglýsingunni að umsóknum fylgdi m.a. ítarlegt kynningarbréf þar sem gerð yrði grein fyrir hæfni umsækjanda sem nýttist í starfi.

Gögn málsins bera með sér að rannsókn sveitarfélagsins og mat á umsækjendum hafi farið fram í nokkrum skrefum þar sem umsækjendahópurinn var smám saman þrengdur, fyrst þegar níu af 19 umsækjendum var boðið í viðtal og síðar þegar tekin var ákvörðun um að bjóða fimm umsækjendum til viðtals að nýju. Af matsramma sem notaður var við fyrsta mat á þeim sem sóttu um starfið er ljóst að umsóknargögn voru notuð til að ákveða hvaða einstaklingar fengu boð í viðtal. Samkvæmt skýringum sveitarfélagsins og gögnum málsins var í viðtalinu spurt út í alla matsþætti sem fram komu í auglýsingu en ákvörðun um hverja skyldi boða í framhaldsviðtal hafi síðan m.a. byggst á frammistöðu umsækjenda í viðtali, reynslu þeirra og menntun. Hafi hlutlæg atriði verið 80% af matinu en huglæg, s.s. leiðtogahæfni og framsýni, verið 20%.

 Í ljósi athugasemda yðar sem lúta að menntun þeirrar sem starfið hlaut er rétt að taka fram að við mat á menntun verður stjórnvald að leggja mat á hvernig það telur líkur á að menntun muni nýtast í hinu nýja starfi. Í matsramma var gert ráð fyrir að framhaldsmenntun myndi aðeins vega 10% af heildarmati umsækjenda en af gögnum málsins er ljóst að menntun yðar var metin hærra en þeirrar sem starfið hlaut. Í skýringum Hafnafjarðarbæjar til umboðsmanns, sem og matstöflu, kemur fram að sveitarfélagið hafi litið svo á að meta bæri Cand.Oecon gráðu og þau námskeið sem viðkomandi hafði lokið í meistaranámi til stiga í heildarmatinu. Þótt fyrir liggi að þér hafið meiri menntun en viðkomandi tel ég ekki að mat stjórnvaldsins, með hliðsjón af orðalagi auglýsingar og því hversu lágt hlutfall af heildarmati umræddur matsþáttur vó, hafi verið óforsvaranlegt um þetta atriði.

Eftir yfirferð á gögnum málsins að öðru leyti og að virtum skýringum sveitarfélagsins verður ekki annað séð en að fram hafi farið heildstætt mat á umsækjendum á grundvelli þeirra sjónarmiða sem gefin voru til kynna í auglýsingu um starfið. Þá verður ekki annað ráðið en að samanburður á umsækjendum hafi byggst á málefnalegum sjónarmiðum og áherslum m.t.t. þeirra verkefna og ábyrgðar sem bundin eru umræddu [...]starfi. Að virtu fyrrgreindu svigrúmi stjórnvalda í ráðningarmálum tel ég mig því ekki hafa forsendur til athugasemda við niðurstöðu Hafnafjarðabæjar um hvaða umsækjandi hafi verið hæfastur eða ákvörðun sveitarfélagsins um ráðningu í starfið.

  

III

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég hér með umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.