Fullnustugerðir- og skuldaskil. Nauðungarsala.

(Mál nr. 12627/2024)

Kvartað var yfir Héraðsdómi Reykjavíkur og sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.  

Af kvörtuninni varð ráðið að hún beindist að nauðungarsölu fasteigna. Þar sem starfssvið umboðsmanns tekur ekki til starfa dómstóla voru ekki skilyrði til að fjalla um það sem laut að héraðsdómi. Jafnframt varð ráðið að málið væri nú þegar að nýju fyrir dómnum eftir að Landsréttur hafði vísað því aftur þangað. Hvað sýslumanninn snerti eru sérstök ákvæði í lögum um að ágreiningur um það hvort nauðungarsala fari fram og um gildi nauðungarsölu verði borinn undir héraðsdómara hverju sinni. Ekki voru því skilyrði til að taka þann þátt kvörtunarinnar til frekari meðferðar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 28. febrúar 2024.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 19. febrúar sl. sem beinist að Héraðsdómi Reykjavíkur og sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Að því marki sem kvörtun yðar beinist að Héraðsdómi Reykjavíkur verður ráðið af henni að þér kvartið yfir meðferð dómsins á málum sem þér voruð aðili að og lutu að nauðungarsölu fasteignar tilgreindan dag í september 2023. Viðvíkjandi sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu verður einna helst ráðið að þér kvartið yfir nauðungarsölu fasteignar í ágúst sama ár og stjórnsýslu embættisins þar að lútandi. Vísið þér í því tilliti m.a. til dóms Landsréttar [...].

Samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Í b-lið 4. mgr. 3. gr. laganna er sérstaklega tekið fram að starfssvið umboðsmanns taki ekki til starfa dómstóla. Brestur af þeim sökum lagaskilyrði til að þau atriði í kvörtun yðar, sem lúta m.a. að meðferð héraðsdóms á málum yðar, samskiptum yðar við starfsfólk dómstólsins viðvíkjandi þeim og meinta hagsmunaárekstra, verði tekin til frekari athugunar af hálfu umboðsmanns. Víðvíkjandi dóm Landsréttar [...], var með honum ómerktur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur [...], þar sem m.a. var staðfestur lögveðsréttur tilgreinds húsfélags í eignarhlutum yðar í fasteign að [...], og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til munnlegs málflutnings og dómsálagningar á ný. Verður því ekki annað ráðið en að það mál yðar sé nú að nýju fyrir héraðsdómi til efnislegrar meðferðar. Af því tilefni tel ég rétt að taka fram að í framangreindu ákvæði b-liðar 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 felst jafnframt að umboðsmaður tekur hvorki niðurstöður dómstóla til endurskoðunar né þau málsatvik eða málsástæður sem þegar hafa hlotið meðferð fyrir dómstólum.

Í c-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 er enn fremur kveðið á um að starfssvið umboðsmanns taki ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda, þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum er ætlast til að menn leiti leiðréttingar með málskoti til dómstóla. Ástæða þess að þetta er rakið er sú að Í XIII. kafla laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu, eru ákvæði um úrlausn ágreinings um það hvort nauðungarsala fari fram og í XIV. kafla laganna er fjallað um úrlausn ágreinings um gildi nauðungarsölu. Samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991 getur hver sá sem hefur lögvarinna hagsmuna að gæta leitað úrlausnar héraðsdómara um gildi nauðungarsölu, enda berist krafa þess efnis innan fjögurra vikna frá því tímamarki samkvæmt ákvæðinu sem við á hverju sinni. Um málsmeðferð að öðru leyti vísast til hlutaðeigandi kafla laganna. Eru því ekki uppfyllt skilyrði að lögum til þess að sá þáttur kvörtunar yðar er beinist að sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu verði tekinn til frekari meðferðar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið læt ég umfjöllun minni um kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.