Sjávarútvegsmál. Úthlutun byggðakvóta. Rökstuðningur. Svör stjórnvalda til umboðsmanns.

(Mál nr. 3756/2003)

A ehf. kvartaði yfir synjun sjávarútvegsráðherra á umsókn félagsins um úthlutun byggðakvóta í desember 2002 á grundvelli 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, og reglugerðar nr. 909/2002, um úthlutun á 2.000 lestum af þorski til sjávarbyggða. Í kvörtun A ehf. var óskað eftir því að umboðsmaður Alþingis gæfi álit sitt á forsendum fyrir umræddri úthlutun sjávarútvegsráðherra, framkvæmd hennar og hvort farið hefði verið eftir stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

Umboðsmaður vakti athygli á því að hann hefði í tilefni af nokkrum kvörtunum og erindum vegna umræddrar úthlutunar ákveðið að óska á almennum grundvelli eftir því við sjávarútvegsráðuneytið að það veitti sér skýringar og gögn um tiltekin atriði er vörðuðu reglur um byggðakvóta í lögum nr. 38/1990 og reglugerð nr. 909/2002 og framkvæmd umræddrar úthlutunar. Tók hann fram að hann hefði með bréfi, dags. 3. júlí 2003, tilkynnt ráðherra um viðbrögð sín við svörum og skýringum ráðuneytisins af því tilefni, sbr. mál nr. 3848/2003. Við athugun sína á kvörtun A ehf. ákvað umboðsmaður í ljósi þessa að beina sjónum sínum sérstaklega að því hvort sjávarútvegsráðuneytið hefði fullnægt kröfum 22. gr. stjórnsýslulaga um efni rökstuðnings við afgreiðslu á beiðni félagsins um rökstuðning.

Umboðsmaður tók fram að í rökstuðningi sjávarútvegsráðuneytisins til A ehf. væri hvergi vikið að atvikum eða aðstæðum sem lýst væri í umsókn félagsins eða þeim skýringum sem settar hefðu verið fram af hálfu forsvarsmanns A ehf. í beiðni félagsins um rökstuðning. Rökstuðningurinn væri því settur fram með almennum hætti án þess að leitast væri við að lýsa þeim atvikum eða ástæðum sem réðu því að umsókn félagsins var ekki talin falla að þeim viðmiðunarsjónarmiðum og öðrum skilyrðum sem sjávarútvegsráðuneytið lagði til grundvallar við úthlutun byggðakvótans. Umboðsmaður taldi að þegar rökstuðningur sjávarútvegsráðuneytisins til A ehf. væri lesinn yrði ekki með nokkru móti séð hvernig forsvarsmaður félagsins gæti af lestri hans gert sér grein fyrir þeim ástæðum sem réðu því að umsókn þess var synjað.

Það var niðurstaða umboðsmanns að rökstuðningur sjávarútvegsráðuneytisins hefði ekki verið í samræmi við kröfur 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga. Þá lýsti umboðsmaður þeirri skoðun sinni að þess hefði ekki verið nægjanlega gætt af hálfu sjávarútvegsráðuneytisins að haga svörum þess í tilefni af fyrirspurnarbréfi hans vegna máls A ehf. þannig að samrýmst hefði sjónarmiðum sem leiða af lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til sjávarútvegsráðuneytisins að það tæki beiðni A ehf. um rökstuðning til endurskoðunar, kæmi fram ósk þess efnis frá honum, og hagaði þá meðferð þess máls í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu.

I.

Hinn 26. mars 2003 leitaði B til mín fyrir hönd A ehf. og kvartaði yfir synjun sjávarútvegsráðuneytisins frá 20. desember 2002 á umsókn félagsins um úthlutun byggðakvóta á grundvelli 9. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, og ákvæða reglugerðar nr. 909/2002, um úthlutun á 2.000 lestum af þorski til sjávarbyggða. Í kvörtuninni er óskað eftir því að umboðsmaður Alþingis gefi álit sitt á forsendum fyrir umræddri úthlutun sjávarútvegsráðherra og framkvæmd hennar, sbr. auglýsingu ráðuneytisins um nefnda úthlutun í Morgunblaðinu 5. desember 2002, og hvort farið hafi verið eftir stjórnsýslulögum.

Eins og nánar verður rakið í kafla III ákvað ég að rita sjávarútvegsráðherra bréf 3. apríl 2003 vegna kvörtunar A ehf. og verður því bréfi nánar lýst í þeim kafla. Ég vek athygli á því hér að með öðru bréfi til sjávarútvegsráðherra, dags. sama dag, kynnti ég ráðherra að mér hefðu að undanförnu borist nokkrar kvartanir og erindi í tilefni af úthlutun á byggðakvóta, sbr. 2. málslið 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, og breytingar á þeim með lögum nr. 85/2002 og nr. 130/2002. Lýsti ég því að kvartanirnar hefðu orðið mér tilefni til að kanna nánar tiltekin atriði vegna þessarar úthlutunar með það í huga hvort tilefni væri til þess að ég tæki þau til athugunar að eigin frumkvæði samkvæmt heimild í ákvæði 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Óskaði ég á almennum grundvelli eftir skýringum og gögnum um tiltekin atriði er vörðuðu reglur um byggðakvóta í lögum nr. 38/1990, í reglugerð nr. 909/2002, um úthlutun á 2.000 lestum af þorski til sjávarbyggða, og framkvæmd umræddrar úthlutunar á þeim byggðakvóta í desember 2002. Í niðurlagi hins almenna fyrirspurnarbréfs míns ítrekaði ég að þær fyrirspurnir sem fram kæmu í bréfinu væru settar fram til þess að ég gæti tekið afstöðu til þess hvort tilefni væri til þess að ég tæki mál þetta til athugunar að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997. Ég vakti því athygli ráðuneytisins á því að ég myndi að fengnu svari og umbeðnum gögnum skýra ráðuneytinu frá því hvert yrði framhald málsins af minni hálfu og þá gefa ráðuneytinu eftir atvikum kost á að koma að frekari skýringum. Þá tók ég fram að teldi ráðuneytið að einhver atriði í bréfinu þörfnuðust frekari skýringa af minni hálfu eða væri það ósk ráðuneytisins að ræða við mig um efni þess og framkvæmd málsins áður en svar yrði látið uppi væri ég að sjálfsögðu reiðubúinn til þess. Eftir að sjávarútvegsráðuneytinu höfðu borist framangreind bréf mín átti ég tvo fundi, 30. apríl sl. og 19. maí sl., með fulltrúum þess þar sem ég gerði nánar grein fyrir efni hins almenna fyrirspurnarbréfs míns til ráðherra auk þess sem rætt var almennt um efni þeirra einstöku kvartana vegna úthlutunar ráðherra á umræddum byggðakvóta sem ég hafði til athugunar, m.a. um mál A ehf. Á síðari fundinum var mér afhent svarbréf ráðuneytisins vegna bréfa minna.

Ég hef með bréfi til sjávarútvegsráðherra, dags. í dag, tilkynnt ráðherra um viðbrögð mín við svörum og skýringum ráðuneytisins í tilefni af framangreindu fyrirspurnarbréfi mínu. Þar er líka fjallað með almennum hætti um forsendur og framkvæmd úthlutunar á byggðakvóta samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða. Við athugun mína á kvörtun A ehf. hef ég sérstaklega beint sjónum mínum að því hvort sjávarútvegsráðuneytið hafi fullnægt kröfum 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um efni rökstuðnings við afgreiðslu á beiðni félagsins um rökstuðning. Er það meðal annars gert þar sem að á grundvelli þess rökstuðnings sem stjórnvald lætur í té á að vera unnt að leggja mat á það hvort forsendur ákvörðunar í málinu eru í samræmi við lög og þau sjónarmið sem telja verður að sjávarútvegsráðherra hafi verið heimilt að byggja á við úthlutun umrædds byggðakvóta.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 3. júlí 2003.

II.

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þau að með auglýsingu, dags. 5. desember 2002, sem birt var í Morgunblaðinu og á heimasíðu sjávarútvegsráðuneytisins, greindi ráðuneytið frá ákvörðun sinni um skiptingu byggðakvóta á milli landsvæða og óskaði eftir umsóknum um úthlutun hans innan þeirra svæða á grundvelli 9. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða. Auglýsingin var svohljóðandi:

„Skipting byggðakvóta milli landsvæða

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða hefur ráðherra heimild, að höfðu samráði við Byggðastofnun, til að ráðstafa allt að 1500 lestum af óslægðum botnfiski í þorskígildum talið til stuðnings byggðalögum sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða þar sem lagt er til að heimildin á yfirstandandi fiskveiðiári verði hækkuð í 2000 lestir. Verði frumvarpið samþykkt má gera ráð fyrir að 1552 lestir af óslægðum þorski, 477 lestir af óslægðri ýsu, 321 lest af óslægðum ufsa og 138 tonn af óslægðum steinbít komi til úthlutunar.

Sjávarútvegsráðuneytið hefur nú í samráði við Byggðastofnun ákveðið hvernig ofangreindar aflaheimildir koma til með að skiptast milli landsvæða. Við þá ákvörðun hefur verið tekið mið af tekjum, íbúafjölda, fólksfækkun, breytingum á aflaheimildum, lönduðum afla og afla í vinnslu í einstökum sjávarbyggðum. Niðurstaða þessarar vinnu varð sú að væntanlegum aflaheimildum verður skipt þannig:

Landsvæði

Suðurland og Suðvesturland (frátalin Reykjavík, Hafnarfjörður, Reykjanesbær og Vatnsleysustrandarhreppur) 11,02%

Vesturland frá Akranesi til Snæfellsness 3,94%

Syðri hluti Vestfjarða; Vesturbyggð og Tálknafjörður 6,30%

Nyrðri hluti Vestfjarða; Ísafjarðarbær, Bolungarvík og Súðavík 15,26%

Byggðir við Húnaflóa 16,54%

Byggðir við Skagafjörð og Siglufjörður 2,46%

Byggðir við Eyjafjörð og Grímsey 10,14%

Byggðir við Skjálfanda og Axarfjörður 5,31%

Norðausturland frá Raufarhöfn til Borgarfjarðar 10,43%

Miðfirðir Austurlands frá Seyðisfirði til Fjarðabyggðar 7,38%

Suðurfirðir Austurlands til Hornafjarðar 9,15%

Vestmannaeyjar 2,07%

Sækja þarf sérstaklega um úthlutun eftir svæðum og þarf umsókn að hafa borist eigi síðar en 16. desember 2002. Umsóknir sem eru póstlagðar eftir þann tíma verða ekki teknar til greina.

Við ákvörðun um úthlutun verður m.a. litið til eftirfarandi atriða:

a) Stöðu og horfa í einstökum byggðum, m.t.t. þróunar veiða, vinnslu og atvinnuástands.

b) Hvort telja megi líklegt, miðað við þær áætlanir sem fram kom í umsóknum um aflaheimildir, að úthlutunin styrki byggðina eða landsvæðið til lengri tíma.

c) Hvort um sé að ræða samstarfsaðila í veiðum og vinnslu innan byggða eða landsvæða.

d) Hvort gripið hafi verið til annarra sértækra aðgerða í sjávarútvegi að undanförnu til styrkingar viðkomandi sjávarbyggðum.

Ráðuneytið leggur áherslu á að umsóknir verði rökstuddar.“

Með bréfi, dags. 16. desember 2002, sótti B, fyrir hönd A ehf., um úthlutun „úr þeim kvóta sem byggðum við Skagafjörð og Siglufjörð [væri] ætlað“. Umsóknin var svohljóðandi í heild sinni:

„Ég undirritaður, f.h. [A] ehf. [...], sæki hér með um hlutdeild í þeim byggðakvóta sem ákveðið var að útdeila nú á dögunum, sbr. auglýsingu á netinu þann 5. des. sl. Sæki ég um úthlutun úr þeim kvóta sem byggðum við Skagafjörð og Siglufjörð er ætlað.

Ég hef stundað smábátaútgerð frá árinu 1985. Fyrstu árin stundaði ég róðra ekki yfir háveturinn, en var í annarri vinnu með. Árið 1993 var stofnað fjölskyldufyrirtæki um útgerðina þ.e. [A] ehf. Síðan hefur bátur fyrirtækisins […] verið gerður út allt árið, ýmist á handfærum, línu eða grásleppu. Hjá fyrirtækinu hafa starfað að jafnaði 2 starfsmenn við fiskveiðar, beitningu o.fl. sem tilheyrir útgerðinni. Árið 1999 seldi fyrirtækið bát sem það átti, án aflaheimilda, og fór út í það að láta smíða nýjan og betri bát. Voru þá í samvinnu við [E] og [C] sem bæði eru fyrirtæki á Siglufirði, keyptir 3 bátskrokkar frá Kanada og var gengið frá þeim að öllu leyti á Siglufirði af siglfirskum iðnaðarmönnum. Skapaði þetta umtalsverða vinnu hér á staðnum. [A] ehf. keypti síðan einn þessara báta fullbúinn, færði á hann kvóta sem fyrirtækið átti og hefur gert hann út síðan hann var sjósettur í október 2000. Bátar fyrirtækisins hafa alla tíð verið gerðir út frá Siglufirði og aflanum landað hér. Seinustu 4-5 árin hefur [D] Siglufirði, keypt mestallan afla bátsins og mun væntanlegum byggðarkvóta verða landað þar til vinnslu á staðnum.

Kvóti bátsins er í dag tæplega 40 þorskígildistonn, aðallega þorskur. Sá kvóti dugar engan veginn allt árið þó svo að reynt sé að stunda grásleppuveiðar á vorin til að klóra í bakkann. Ýsukvóta á fyrirtækið ekki og hefur því þurft að leigja kvóta fyrir nær öllum meðafla.“

Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 38/1990 skal ráðherra setja reglugerð um ráðstöfun byggðakvótans samkvæmt 1. mgr. sama ákvæðis. Á grundvelli þessa ákvæðis setti ráðuneytið reglugerð nr. 909/2002, um úthlutun á 2000 lestum af þorski til sjávarbyggða, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 19. desember 2002.

Umsókn A ehf. var svarað með svohljóðandi bréfi frá sjávarútvegsráðuneytinu, dags. 20. desember 2002:

„Ráðuneytið vísar til umsóknar yðar um hlutdeild í byggðakvóta til stuðnings byggðarlögum sem hafa lent í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi sbr. 9. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða. Auglýst var eftir umsóknum í Morgunblaðinu 5. desember s.l. Alls bárust rúmlega 500 umsóknir. Úthlutun er lokið og tilkynnist yður hér með að umsókn yðar um úthlutun er synjað.“

Með bréfi, dags. 30. desember 2002, óskaði A ehf. eftir „endurskoðun á ákvörðun og/eða [skýringu]“ á synjun ráðuneytisins frá 20. s.m. Í bréfinu segir meðal annars svo:

„Undirritaður sótti um hlutdeild í byggðakvóta sbr. auglýsingu í Morgunblaðinu 5. desember sl., sbr. bréf dags. 16/12 2002. Svar barst frá ráðuneytinu með bréfi dags. 20/12 2002, í svarbréfinu kemur fram að umsókninni er hafnað. Óskar undirritaður hér með eftir að sú ákvörðun verði endurskoðuð og/eða skýring gefin á því hvers vegna erindinu var hafnað, þar sem engin skýring var gefin í bréfinu.

[...] Kvóti fyrirtækisins er í dag tæplega 40 þorskígildistonn, aðallega þorskur. Kvótinn dugar engan veginn allt árið, þó svo að grásleppuveiðar séu stundaðar með. Fyrirtækið hefur ekki yfir að ráða ýsu- og steinbítskvóta því hefur þurft að leigja kvóta fyrir nær öllum meðafla. Nú er svo komið að búið er að veiða ríflega helming af kvóta fiskveiðiársins 2002/2003. Báturinn var bundinn við bryggju allt síðastliðið sumar vegna þess að ekki þótti grundvöllur fyrir frekari leigu aflaheimilda. Þannig uppihald í rekstri er mjög slæmt m.a með tilliti til starfsmannahalds.

Þegar ég sótti um úthlutun taldi ég nægja að tilgreina þann aðila sem ég legði upp afla hjá, þar sem ég sá ekki í auglýsingu að staðfestingu þyrfti frá honum.

Í símtali við starfsmann ráðuneytisins kom fram að æskilegra hefði verið að [A] ehf og [D] hefðu sótt um sameiginlega. Í reglugerð nr. 909 frá 19. des. 2002, stendur m.a. 2. gr. „við mat á umsóknum skal ráðherra m.a. líta til eftirfarandi atriða:“ og í 3. lið „Hvort um sé að ræða samstarfsaðila í veiðum og vinnslu innan byggða eða landsvæða.“ [A] hefur undanfarin ár landað að mestu leyti hjá [D] og þessi fyrirtæki því haft með sér samstarf. Taldi ég því fullnægjandi að taka fram í umsókn að væntanlegum byggðakvóta yrði landað hjá [D].

Fyrirtækið hefur ávallt kappkostað að leita sem mest til heimaaðila vegna reksturs fyrirtækisins, sem dæmi má nefna að þegar ákveðið var að endurnýja bát fyrirtækisins þótti ástæða til þess að kanna hvort hægt væri að vinna þá vinnu hér á Siglufirði. Að frumkvæði okkar voru síðan keyptar 3 bátskeljar frá Kanada sem voru síðan fullunnar af iðnaðarmönnum hér og er einn þessara báta í eigu [A] ehf. í dag.

Í viðtali við ráðherra í Morgunblaðinu þar sem fjallað er um úthlutun byggðakvóta, kom fram að útgerðir sem hafa leigt frá sér kvóta í miklu magni hafi verið útilokaðar. Trúi ég því ekki að það sé ástæða þess að fyrirtækinu var synjað um byggðakvóta. Fyrirtækið hefur einu sinni leigt frá sér aflaheimildir, það var árið 2000 þegar fyrirtækið átti ekki bát (var með bát í smíðum) og kvóti fyrirtækisins var í geymslu á öðrum bát. Kvótinn var á þeim tíma leigður til þess að hann félli ekki niður ónotaður og leigutekjur notaðar sem hluti af fjármögnun á nýjum bát, sbr. grein hér að ofan. Hvorki fyrr né síðar hefur fyrirtækið leigt frá sér kvóta, heldur eingöngu leigt til sín kvóta. Fyrirtækið hefur ekki selt frá sér varanlegar aflaheimildir.

Fyrirtækið hefur smám saman verið að byggjast upp og er það von okkar eigendanna að við náum að festa það enn frekar í sessi. Vandi okkar er að reksturinn er ekki nógu stöðugur, þar sem aflaheimildir vantar. Höfum við því ekki enn treyst okkur til þess að ráða til okkar starfsfólk í fast starf. Starfsmenn fyrirtækisins fyrir utan einn hafa einungis verið í tímabundinni ráðningu.

Undirrituðum þykir furðu sæta að þeirri hlutdeild í byggðakvóta sem úthlutað var til Siglufjarðar skyldi úthlutað að öllu leyti til útgerðar sem eingöngu hefur stundað svo kallaða „hobbý útgerð“. En aðilar sem hafa verið að berjast við að lifa af útgerð eru algjörlega settir til hliðar og það án allra skýringa. Óska ég því hér með eftir að fá skýr svör.

Ef frekari upplýsingar og/eða staðfestingar óskast vinsamlegast hafið samband við undirritaðan.“

Sjávarútvegsráðuneytið svaraði bréfi A ehf. með bréfi, dags. 28. febrúar 2002, sem er svohljóðandi:

„Ráðuneytið vísar til erindis yðar dags. 30. desember sl. þar sem óskað er eftir rökstuðningi ráðuneytisins fyrir því að hafnað var umsókn yðar um hlutdeild í byggðakvóta sem ákvarðaður var til stuðnings byggðarlögum, sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, hefur ráðherra á fiskveiðiárinu 2002/2003 heimild, að höfðu samráði við Byggðastofnun, til að ráðstafa allt að 2000 lestum af óslægðum botnfiski í þorskígildum talið til stuðnings byggðarlögum sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Til úthlutunar koma á þessu fiskveiðiári 1552 lestir af óslægðum þorski, 477 lestir af óslægðri ýsu, 321 lest af óslægðum ufsa og 138 tonn af óslægðum steinbít.

Sjávarútvegsráðuneytið ákvað í samráði við Byggðastofnun skiptingu framangreindra aflaheimilda milli landsvæða. Við þá ákvörðun var tekið mið af tekjum, íbúafjölda, fólksfækkun, breytingum á aflaheimildum, lönduðum afla og afla í vinnslu í einstökum sjávarbyggðum. Niðurstaðan varð sú að aflaheimildum var skipt þannig:

Landsvæði

Suðurland og Suðvesturland 11,02%

Vesturland frá Akranesi til Snæfellsness 3,94%

Syðri hluti Vestfjarða; Vesturbyggð og Tálknafjörður 6,30%

Nyrðri hluti Vestfjarða; Ísafjarðarbær, Bolungarvík og Súðavík 15,26%

Byggðir við Húnaflóa 16,54%

Byggðir við Skagafjörð og Siglufjörður 2,46%

Byggðir við Eyjafjörð og Grímsey 10,14%

Byggðir við Skjálfanda og Axarfjörður 5,31%

Norðausturland frá Raufarhöfn til Borgarfjarðar 10,43%

Miðfirðir Austurlands frá Seyðisfirði til Fjarðabyggðar 7,38%

Suðurfirðir Austurlands til Hornafjarðar 9,15%

Vestmannaeyjar 2,07%

Að fenginni þessari niðurstöðu auglýsti ráðuneytið eftir umsóknum um veiðiheimildir í Morgunblaðinu 5. desember sl. Í þeirri auglýsingu kom fram að ráðuneytið legði áherslu á að umsóknir yrði rökstuddar og að við úthlutun yrði fyrst og fremst litið til eftirfarandi atriða:

a) Stöðu og horfa í einstökum byggðum, m.t.t. þróunar veiða, vinnslu og atvinnuástands.

b) Hvort telja mætti líklegt, miðuð við þær áætlanir sem fram kæmu í umsóknum um aflaheimildir, að úthlutunin styrkti byggðina eða landsvæðið til lengri tíma.

c) Hvort um væri að ræða samstarfsaðila í veiðum og vinnslu innan byggða eða landsvæða.

d) Hvort gripið hefði verið til annarra sértækra aðgerða í sjávarútvegi að undanförnu til styrkingar viðkomandi sjávarbyggðum.

Samkvæmt reglugerð sem ráðuneytið gaf út 19. desember 2002 er áréttað að ráðherra úthluti aflaheimildum til einstakra aðila á grundvelli umsókna þeirra um og beri honum að líta til þeirra atriða sem sérstaklega voru tilgreind í auglýsingu ráðuneytisins 5. desember.

Ráðuneytinu bárust fyrir 16. desember 2002 rétt um það bil 550 umsóknir um hlutdeild í þessari sérstöku úthlutun. Við úthlutun aflaheimilda lét ráðuneytið þær umsóknir þeirra aðila ganga fyrir sem það taldi líklegasta til að ná þeim markmiðum, sem sett voru í fyrrgreindri auglýsingu.

Ráðuneytið vill í þessu sambandi einnig minna á, að ráðuneytið var bundið þeim reglum sem það hafði sett sér um skiptingu aflaheimilda milli landsvæða. Einnig ber að hafa í huga að úthlutun aflaheimildanna miðaði fyrst og fremst að því að bæta stöðu sjávarbyggða, sem í vanda væru vegna samdráttar í sjávarútvegi en ekki að því að auka aflaheimildir einstakra fiskiskipa eða útgerða. Leggur ráðuneytið áherslu á þetta atriði þar sem þess hefur orðið vart að umsækjendur hafa verið að bera saman aflaheimildir eða stöðu einstakra fiskiskipa eða umsækjenda.

Eins og hér hefur verið rakið var það hlutverk ráðuneytisins að meta hvaða umsóknir væru líklegastar til að ná þeim markmiðum sem þessari sérstöku úthlutun voru sett. Niðurstaða ráðuneytisins fyrir yfirstandandi fiskveiðiár liggur fyrir og verður ekki breytt. Ráðuneytið mun hins vegar fyrir næsta fiskveiðiár líta til þess hvernig til hefur tekist og endurskoða aðferðina við úthlutun þessara sérstöku heimilda, telji það ástæðu til.“

III.

Ég ritaði sjávarútvegsráðherra bréf, dags. 3. apríl 2003, í tilefni af kvörtun A ehf. þar sem ég lýsti meðal annars þeirri ákvörðun minni að kanna almennt nánar tiltekin atriði við úthlutun sjávarútvegsráðherra á byggðakvóta á grundvelli 2. málsliðar 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, í desember 2002, en hef í kafla I hér að framan gert grein fyrir bréfi því sem ég ritaði ráðherra af því tilefni.

Í framangreindu bréfi til ráðherra um mál A ehf. óskaði ég eftir því, sbr. 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneytið skýrði viðhorf sitt til kvörtunar félagsins. Ég óskaði sérstaklega eftir því að mér yrðu af hálfu sjávarútvegsráðuneytisins látnar í té skýringar á því hvaða atriði hafi ráðið því að umsókn A ehf. var synjað og hvernig þau atriði hefðu komið fram í svarbréfi ráðuneytisins frá 28. febrúar 2003. Ég tók fram að ég hefði þá jafnframt í huga þau atriði sem fyrirsvarsmaður A ehf. tilgreindi í kvörtun sinni til mín um efni samtals hans við ráðherra en í kvörtuninni sagði eftirfarandi um þetta:

„Í jan. 2003 átti ég [...] viðtal við sjávarútvegsráðherra þar sem ég óskaði skýringa á úthlutuninni. Kom fram í máli hans að aðeins ein umsókn frá Siglufirði hefði staðist þau skilyrði sem sett voru fram í umsókninni. Þ.e. sameiginleg umsókn frá útgerð og landvinnslu. Ég get ekki séð að það komi fram í auglýsingu að sameiginleg umsókn útgerðar og landvinnslu sé skilyrði og taldi ég því nóg að tilgreina þann aðila sem ég myndi leggja upp afla hjá. Ekki get ég heldur séð að þetta atriði hafi ráðið úrslitum í öðrum byggðarlögum.“

Í bréfi mínu til ráðherra vegna máls A ehf. óskaði ég loks eftir því að sjávarútvegsráðuneytið skýrði hvernig sá rökstuðningur sem félaginu var látinn í té með bréfi ráðuneytisins, dags. 28. febrúar 2003, hefði fullnægt þeim kröfum sem fram koma í 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um efni rökstuðnings.

Svarbréf sjávarútvegsráðuneytisins, dags. 16. maí 2003, barst mér 20 s.m. Þar segir meðal annars svo:

„[...]

Með auglýsingu ráðuneytisins í Morgunblaðinu 5. desember 2002 óskaði ráðuneytið eftir umsóknum um aflaheimildir á grundvelli 2. málsl. 1. mgr. 9. gr. laga um stjórn fiskveiða. Greinin hljóðar svo:

„Af þeim 12.000 lestum sem ráðherra hefur til ráðstöfunar skv. 1. málsl. er ráðherra heimilt að höfðu samráði við Byggðastofnun, að ráðstafa allt að 1.500 lestum af óslægðum botnfiski í þorskígildum talið til stuðnings byggðarlögum sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi.“

Í auglýsingunni kom fram að ráðuneytið legði áherslu á að umsóknir væru rökstuddar og að við úthlutun yrði fyrst og fremst litið til eftirfarandi atriða:

a) Stöðu og horfa í einstökum byggðum, m.t.t. þróunar veiða, vinnslu og atvinnuástands.

b) Hvort telja mætti líklegt, miðað við þær áætlanir sem fram kæmu í umsóknum um aflaheimildir, að úthlutunin styrkti byggðina eða landsvæðið til lengri tíma.

c) Hvort um væri að ræða samstarfsaðila í veiðum og vinnslu innan byggða eða landsvæða.

d) Hvort gripið hefði verið til annarra sértækra aðgerða í sjávarútvegi að undanförnu til styrkingar viðkomandi sjávarbyggðum.

Reglugerð um úthlutun byggðakvótans nr. 909/2002, var gefin út þann 19. desember 2002. Komu þar í 2. gr. fram sömu efnisreglur og greindi í fyrrnefndri auglýsingu ráðuneytisins hvað varðaði úthlutun innan einstakra svæða. Áður hafði ráðherra í samráði við Byggðastofnun ákveðið hvernig aflaheimildum skv. 2. málsl. l. mgr. 9. gr. laga um stjórn fiskveiða skyldi skipt milli landsvæða og kemur sú skipting fram í 1. mgr. umræddrar reglugerðar.

Ráðuneytið leit því þannig á að efnisreglurnar hafi verið kunnar umsækjendum þegar þeir sendu inn umsóknir þar sem þau viðmið sem voru lögð til grundvallar í reglugerðinni voru birt í auglýsingunni þar sem óskað var eftir umsóknum um aflaheimildirnar. Sú vinna sem hafði verið innt af hendi í samráði við Byggðastofnun um skiptingu aflaheimilda milli landsvæða lá fyrir áður en auglýsingin var birt. Reglugerðin var síðan birt áður en gengið var frá úthlutunum til einstakra aðila á grundvelli innkominna umsókna. Ákvörðun um úthlutun aflaheimilda til einstakra umsækjenda var þannig tekin eftir að reglugerðin hafði verið birt og þar af leiðandi hafði hún tekið gildi áður en endanleg ákvörðun var tekin.

Reynt var að meta hverja og eina umsókn m.t.t. framangreindra viðmiða og var umsókn [A] ehf., að mati ráðuneytisins, hvorki nægilega rökstudd né fullnægði hún ofangreindum viðmiðum.

Í svarbréfi ráðuneytisins dags. 28. febrúar s.l., þá kemur þar eftirfarandi fram:

„Samkvæmt reglugerð sem ráðuneytið gaf út 19. desember 2002 er áréttað að ráðherra úthluti aflaheimildum til einstakra aðila á grundvelli umsókna þeirra og beri honum að líta til þeirra atriða sem sérstaklega voru tilgreind í auglýsingu ráðuneytisins 5. desember. Ráðuneytinu bárust fyrir 16. desember 2002 rétt um það bil 550 umsóknir um hlutdeild í þessari sérstöku úthlutun. Við úthlutun aflaheimilda lét ráðuneytið þær umsóknir þeirra aðila ganga fyrir sem það taldi líklegasta til að ná þeim markmiðum, sem sett voru í fyrrgreindri auglýsingu.

Ráðuneytið vill í þessu sambandi einnig minna á, að ráðuneytið var bundið þeim reglum sem það hafði sett sér um skiptingu aflaheimilda milli landsvæða. Einnig ber að hafa í huga að úthlutun aflaheimildanna miðaði fyrst og fremst að því að bæta stöðu sjávarbyggða, sem í vanda væru vegna samdráttar í sjávarútvegi en ekki að því að auka aflaheimildir einstakra fiskiskipa eða útgerða. Leggur ráðuneytið áherslu á þetta atriði þar sem þess hefur orðið vart að umsækjendur hafa verið að bera saman aflaheimildir eða stöðu einstakra fiskiskipa eða umsækjenda.“

Í 22. gr. stjórnsýslulaga segir:

„Í rökstuðningi skal vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds er byggð á. Að því marki, sem ákvörðun byggist á mati, skal í rökstuðningnum greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið.

Þar sem ástæða er til skal í rökstuðningi einnig rekja í stuttu máli upplýsingar um þau málsatvik sem höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins.

Takmarka má efni rökstuðnings að því leyti sem vísa þarf til gagna sem aðila máls er ekki heimill aðgangur að, sbr. 16. og 17. gr.

Hafi stjórnsýslunefnd ekki samþykkt rökstuðning með ákvörðun sinni skal formaður færa rök fyrir henni í samræmi við 1.-3. mgr.“

Í bréfi ráðuneytisins frá 28. febrúar s.l. eru skýrlega rakin þau laga- og reglugerðarákvæði sem stuðst var við þegar ákvörðunin var tekin, sbr. framangreindar tilvitnanir í bréfið, og því ljóst að skilyrði stjórnsýslulaganna hvað það varðar eru uppfyllt. Þau meginsjónarmið sem ráðandi voru við matið eru einnig rakin í bréfinu og vísað til viðeigandi ákvæða í reglugerð hvað þau varðar. Á það ber og að líta að úthlutun ráðuneytisins á byggðakvóta er í eðli sínu ívilnandi ákvörðun en ekki íþyngjandi. Að mati ráðuneytisins verður að líta á þessar ákvarðanir ráðuneytisins sem eina heild að þessu leyti, hvort sem umsækjendur fengu úthlutuðum byggðarkvóta eður ei. Ráðuneytið lítur svo á að ekki séu gerðar jafn ríkar kröfur um rökstuðning ívilnandi ákvarðana og þegar um er að ræða íþyngjandi ákvarðanir.“

Með bréfi, dags. 20. maí 2003, gaf ég B, fyrir hönd A ehf., kost á því að gera athugasemdir við framangreint bréf sjávarútvegsráðuneytisins teldi hann ástæðu til þess. Mér barst svarbréf frá A ehf. 6. júní 2003.

IV.

1.

Ég hef hér að framan lýst þeirri ákvörðun minni að óska eftir því að sjávarútvegsráðuneytið skýrði á almennum grundvelli og veitti mér upplýsingar um forsendur og framkvæmd úthlutunar ráðherra á umræddum byggðakvóta, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða. Ég ítreka að ég hef með bréfi, dags. í dag, til sjávarútvegsráðherra lýst með almennum hætti viðbrögðum mínum við skýringum ráðuneytisins um forsendur og framkvæmd þess á úthlutun umrædds byggðakvóta í desember 2002. Þau atriði sem þar er fjallað um eiga jafnframt að meginstefnu til við um mál A ehf. og ég hef því sent félaginu afrit af því bréfi. Hér á eftir verður fjallað um þau atriði sem ákvað að taka sérstaklega til skoðunar í máli A ehf.

2.

Í umsókn A ehf. til sjávarútvegsráðuneytisins, dags. 16. desember 2002, var að finna ýmsar upplýsingar um starfsemi félagsins, um samstarfsaðila fyrirtækisins, um það að bátar fyrirtækisins hefðu ávallt verið gerðir út frá Siglufirði og aflanum landað þar og að fyrirtækið D hafi undanfarin 4-5 ár keypt mestallan afla bátsins og að væntanlegum byggðakvóta verði landað til vinnslu á staðnum. Þá er lýst aflaheimildum þess báts sem er í eigu félagsins og tekið fram að félagið hafi þurft að leigja kvóta fyrir „nær öllum meðafla“.

Í erindi A ehf., dags. 30. desember 2002, þar sem óskað er eftir því að ráðuneytið rökstyðji synjun sína frá 20. s.m., er því m.a. lýst að þegar félagið hafi sótt um úthlutun hafi það talið nægjanlegt að tilgreina þann aðila sem það lagði upp hjá þar sem ekki hafi verið séð af auglýsingu að staðfestingu þyrfti frá honum. Þá er vísað til samtals forsvarsmanns A ehf. við starfsmann ráðuneytisins sem hafi tjáð honum að „æskilegra hefði verið að [A] ehf. og [D] hefðu sótt um sameiginlega“. Er í erindinu vísað til viðmiðunarsjónarmiðs 3. tölul. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2002 og ítrekað það sem fram kom í umsókn félagsins að A ehf. hafi undanfarin ár landað að mestu leyti hjá D og hafi þessi fyrirtæki því haft með sér samstarf. Hafi forsvarsmaður A ehf. talið nægjanlegt að taka fram í umsókn að væntanlegum byggðakvóta yrði landað hjá D. Þá segir meðal annars svo í erindi félagsins:

„Í viðtali við ráðherra í Morgunblaðinu þar sem fjallað er um úthlutun byggðakvóta, kom fram að útgerðir sem hafa leigt frá sér kvóta í miklu magni hafi verið útilokaðar. Trúi ég því ekki að það sé ástæða þess að fyrirtækinu var synjað um byggðakvóta. Fyrirtækið hefur einu sinni leigt frá sér aflaheimildir, það var árið 2000 þegar fyrirtækið átti ekki bát (var með bát í smíðum) og kvóti fyrirtækisins var í geymslu á öðrum bát. Kvótinn var á þeim tíma leigður til þess að hann félli ekki niður ónotaður og leigutekjur notaðar sem hluti af fjármögnun á nýjum bát [...]. Hvorki fyrr né síðar hefur fyrirtækið leigt frá sér kvóta, heldur eingöngu leigt til sín kvóta. Fyrirtækið hefur ekki selt frá sér varanlegar aflaheimildir.“

Í svarbréfi sjávarútvegsráðuneytisins til A ehf., dags. 28. febrúar 2002, er vísað til þeirra réttarreglna sem úthlutun ráðherra á byggðakvóta var reist á. Þá er vísað með almennum hætti til þeirra viðmiðunarsjónarmiða sem ráðuneytið hafði lagt til grundvallar í auglýsingu um úthlutunina og í reglugerð nr. 909/2002, um úthlutun á 2000 lestum af þorski til sjávarbyggða. Þá er af hálfu ráðuneytisins tekið fram að það hafi verið bundið af þeim reglum sem það hafði sett sér um skiptingu aflaheimilda milli landsvæða. Einnig segir að hafa beri í huga að úthlutun aflaheimildanna hafi fyrst og fremst átt að miða að því að styrkja stöðu sjávarbyggða sem voru í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi en ekki að því að auka aflaheimildir einstakra fiskiskipa eða útgerða. Er tekið fram að ráðuneytið leggi áherslu á þetta atriði þar sem þess hafi orðið vart að umsækjendur hafi verið að bera saman aflaheimildir eða stöðu einstakra fiskiskipa eða umsækjenda. Loks áréttar ráðuneytið að hlutverk þess hafi verið að meta hvaða umsóknir hefðu verið líklegastar til að ná þeim markmiðum sem þessari sérstöku úthlutun var sett og liggi niðurstaða ráðuneytisins fyrir og verði henni ekki breytt.

Í rökstuðningi sjávarútvegsráðuneytisins til A ehf. er hvergi vikið að atvikum eða aðstæðum sem lýst er í umsókn félagsins, dags. 16. desember 2002, eða þeim skýringum sem settar eru fram af hálfu forsvarsmanns A ehf. í beiðni þess um rökstuðning, dags. 30. desember 2002. Rökstuðningurinn er því settur fram með almennum hætti án þess að leitast sé við að lýsa þeim atvikum eða ástæðum sem réðu því að umsókn félagsins féll ekki að þeim viðmiðunarsjónarmiðum og öðrum skilyrðum sem sjávarútvegsráðuneytið lagði til grundvallar við úthlutun byggðakvótans. Ég vek athygli á því að með svarbréfi sjávarútvegsráðuneytisins til mín, dags. 16. maí 2003, í tilefni af hinu almenna fyrirspurnarbréfi mínu sem lýst er í kafla I hér að framan, bárust mér afrit af bréfum sem ráðuneytið sendi þeim umsækjendum sem ekki fengu úthlutun en óskað höfðu eftir rökstuðningi. Ég fæ ekki annað séð af lestri bréfanna en að sjávarútvegsráðuneytið hafi sent nánast öllum þessum umsækjendum sama staðlaða svarbréfið sem rökstuðning, þ.e. samhljóða bréf og sent var A ehf. sem rökstuðningur fyrir því að félaginu var synjað um úthlutun.

Í bréfi mínu til sjávarútvegsráðherra, dags. 3. apríl 2003, vegna kvörtunar A ehf. óskaði ég sérstaklega eftir því að mér yrðu veittar skýringar á því hvaða atriði hafi ráðið því að umsókn A ehf. var synjað og hvernig þau atriði komu fram í rökstuðningi ráðuneytisins til félagsins. Í skýringarbréfi sjávarútvegsráðuneytisins vegna kvörtunar A ehf., sem barst mér 19. maí sl., kemur meðal annars fram að reynt hafi verið að meta hverja og eina umsókn með tilliti til þeirra viðmiðunarsjónarmiða sem fram komu í auglýsingu um úthlutun byggðakvótans og í 2. gr. reglugerðar nr. 909/2002. Þá segir að umsókn A ehf. hafi hvorki verið nægilega rökstudd né fullnægt ofangreindum viðmiðum. Er því hins vegar ekki lýst nánar hvað hafi vantað upp á í rökstuðningi félagsins né hvaða atvik eða aðstæður hjá félaginu hafi leitt til þeirrar ályktunar að umsókn þess hafi ekki fullnægt þeim viðmiðunum sem komu fram í umræddri auglýsingu og reglugerð nr. 909/2002.

Synjun sjávarútvegsráðuneytisins á umsókn A ehf. um úthlutun á byggðakvóta var stjórnvaldsákvörðun, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þegar ráðuneytið ákvað að synja umsókn félagsins var því skylt að rökstyðja þá synjun í samræmi við kröfur 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga enda hafði rökstuðnings verið óskað af hálfu forsvarsmanns A ehf., sbr. 1. mgr. 21. gr. sömu laga, í erindi hans frá 30. desember 2002. Þegar ákvörðun stjórnvalds byggir á mati, eins og í þessu tilviki, er úrlausn um það hvort stjórnvald hafi fullnægt kröfum 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga einkum byggð á athugun á því hvort fram settur rökstuðningur sé það „greinargóður að búast megi við því að aðili geti skilið af lestri hans hvers vegna niðurstaða máls hefur orðið sú sem raun varð á. Það fer því ávallt eftir atvikum hverju sinni hversu ítarlegur rökstuðningur þarf að vera svo að hann uppfylli framangreint skilyrði“, sjá hér athugasemdir greinargerðar með frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3303.)

Ég minni á að með 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, er sjávarútvegsráðherra fengið mjög víðtækt vald til að úthluta byggðakvóta og ber honum samkvæmt 2. mgr. sömu greinar að setja reglugerð um ráðstöfun aflaheimildanna. Í reglugerð nr. 909/2002 eru ekki tilgreind bein skilyrði sem umsækjendur þurfa að uppfylla til að koma til greina við úthlutun eða skýrt hverjar þurfi að vera aðstæður þeirra svo fallist verði á umsókn. Af hálfu ráðuneytisins voru aðeins sett fram ákveðin almenn viðmiðunarsjónarmið í þessu sambandi sem birtust umsækjendum í auglýsingu ráðuneytisins og í 2. gr. reglugerðar nr. 909/2002. Þá vek ég athygli á því að athugun mín á framkvæmd úthlutunarinnar í desember 2002 hefur leitt í ljós að ráðuneytið lagði við mat sitt á umsóknum einnig til grundvallar önnur sjónarmið eða skilyrði, t.d. um framsal aflaheimilda, sem komu hvorki fram í auglýsingu né reglugerð nr. 909/2002. Ég tel að þessi aðstaða að lögum við framkvæmd umræddrar úthlutunar, sem fól í sér rúmt svigrúm ráðherra við mat á einstaka umsóknum, hafi þýðingu við mat á því hvort rökstuðningur sjávarútvegsráðuneytisins í bréfi þess til A ehf., dags. 28. febrúar 2002, hafi fullnægt kröfum 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga. Þessi aðstaða leiddi þannig til þess að ráðuneytinu bar að lýsa því eins og kostur var í rökstuðningi til umsækjanda um úthlutun, sem fengið hafði synjun, hvaða ástæður lágu henni að baki og þá með tilvísun til þeirra tilteknu atvika og aðstæðna sem vörðuðu umsækjandann sjálfan.

Þegar rökstuðningur sjávarútvegsráðuneytisins í svarbréfi þess, dags. 28. febrúar 2003, til A ehf. er lesinn verður ekki með nokkru móti séð hvernig forsvarsmaður félagsins gat af lestri bréfsins gert sér grein fyrir þeim ástæðum sem réðu því að umsókn félagsins var synjað. Þannig er ekki gerð nein tilraun til að svara þeim atriðum sem nefnd eru sérstaklega í erindi forsvarsmanns A ehf. til ráðuneytisins, dags. 30. desember 2002, t.d. um samstarf félagsins og D og um það hvort sjónarmið um framsal aflaheimilda út fyrir byggðarlagið, sem ráðuneytið tók sérstaklega til athugunar í hverju tilviki fyrir sig, hafi ráðið einhverju um afstöðu ráðuneytisins til umsóknar A ehf. og þá á hvaða upplýsingum sú afstaða hafi byggst.

Ég tel samkvæmt þessu að rökstuðningur ráðuneytisins í bréfi þess til A ehf., dags. 28. febrúar 2002, hafi ekki fullnægt þeim kröfum sem leiða af fyrirmælum 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga og lögskýringargögnum þeim sem ég hef rakið hér að framan. Enda þótt það kunni að hafa einhverja þýðingu við heildarmat á því hvort stjórnvald hefur í rökstuðningi til aðila máls fullnægt kröfum 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga að um ívilnandi ákvörðun sé að ræða tel ég ljóst að stjórnvöld verða án tillits til eðlis ákvörðunar ávallt við veitingu rökstuðnings að fullnægja þeim lágmarkskröfum sem fram koma í lagareglunni. Samkvæmt þessu get ekki fallist á það sjónarmið sem fram kemur í skýringum ráðuneytisins til mín vegna kvörtunar A ehf. að ekki séu gerðar jafn ríkar kröfur um rökstuðning ívilnandi ákvarðana og þegar um er að ræða íþyngjandi ákvarðanir a.m.k. ef þar er átt við að ráðuneytinu hafi ekki borið að fullnægja efniskröfum 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga í svari sínu til A ehf. og annarra umsækjenda um úthlutun byggðakvóta sem fengu synjun og óskuðu eftir rökstuðningi. Vegna skýringa ráðuneytisins um þetta atriði tek ég raunar fram að synjun þess á umsókn um úthlutun byggðakvóta getur ekki talist ívilnandi ákvörðun í þeirri merkingu sem hér skiptir máli enda þótt slík ákvörðun byggist á heimild ráðherra til að úthluta takmörkuðum gæðum sem umsækjandi á ekki lögvarða kröfu til.

3.

Ég tel rétt að minna á að með bréfi mínu, dags. 3. apríl 2003, til sjávarútvegsráðherra vegna kvörtunar A ehf. óskaði ég sérstaklega eftir því að mér yrðu veittar skýringar á því hvaða atriði hefðu ráðið því að umsókn A ehf. var synjað. Eins og fyrr er rakið er í svarbréfi ráðuneytisins til mín ekki að finna nein svör við þessari spurningu minni önnur en almenna staðhæfingu um að umsókn A ehf. hafi ekki verið nægjanlega rökstudd og að hún hafi ekki fullnægt þeim viðmiðum sem fram komu í auglýsingu ráðuneytisins og 2. gr. reglugerðar nr. 909/2002.

Ég tel af þessum sökum rétt að taka fram að samkvæmt ákvæðum 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, eru umboðsmanni veittar nokkuð víðtækar heimildir til þess að óska eftir gögnum og skýringum frá stjórnvöldum þannig að hann geti rækt það hlutverk sitt að hafa eftirlit með stjórnvöldum og tryggja rétt borgaranna gagnvart þeim, sbr. 2. gr. sömu laga. Ef stjórnvöld leggja ekki rækt við það að svara fyrirspurnum frá umboðsmanni þannig að fram komi fullnægjandi upplýsingar og skýringar um atvik að baki þeim kvörtunum sem honum berast getur honum reynst erfitt að gegna því lögbundna hlutverki sem lýst er í lögum nr. 85/1997. Ég tel að þess hafi ekki verið nægjanlega gætt af hálfu sjávarútvegsráðuneytisins að haga svörum þess í tilefni af fyrirspurnarbréfi mínu vegna máls A ehf. þannig að samrýmst hafi framangreindum sjónarmiðum.

4.

Ég minni að lokum á að í þessu máli bar eigandi báts fram kvörtun við mig og óskaði eftir áliti mínu á þeim forsendum sem synjun sjávarútvegsráðuneytisins á umsókn hans um hlutdeild í umræddum byggðakvóta hefði byggst. Eigi umboðsmaður Alþingis að geta lagt mat á hvort slíkar forsendur séu í samræmi við lög þurfa þær vitanlega að liggja fyrir af hálfu þess stjórnvalds sem tók ákvörðunina. Hér að framan hef ég lýst því að sá rökstuðningur sem A ehf. fékk var með engu móti þannig að þeir sem að félaginu stóðu gætu á grundvelli hans eða þeirra reglna og auglýsingar sem ráðuneytið vísaði þar til gert sér grein fyrir því hvað réð niðurstöðu þess í tilviki félagsins. Ég hef heldur ekki getað ráðið það af svörum ráðuneytisins við fyrirspurn minni sem beindist þó sérstaklega að þessu atriði hverjar voru í reynd forsendur fyrir synjun ráðuneytisins á umsókn A ehf. Gögn þau sem ég hef fengið afhent frá ráðuneytinu og tekin voru saman þegar unnið var úr umsóknum um byggðakvótann veita heldur ekki greinargóðar upplýsingar um þetta atriði. Verður ekki annað ráðið af þessum gögnum og svörum sjávarútvegsráðuneytisins við beiðnum annarra umsækjenda um rökstuðning en að aðstaðan hafi verið sú sama í tilvikum þeirra.

Ég tel að þessi vinnubrögð sjávarútvegsráðuneytisins séu í veigamiklum atriðum í andstöðu við þær grundvallarreglur, bæði skráðar og óskráðar, sem íslensk stjórnsýsla á að byggjast á. Eins og fram kemur í bréfi mínu til sjávarútvegsráðherra, dags. í dag, sem ritað er í tilefni af svörum ráðuneytisins við hinu almenna fyrispurnarbréfi mínu frá 3. apríl sl. og lýst er í kafla III, hefur komið fram af hálfu ráðuneytisins að vilji sé til þess að bæta úr þeim annmörkum sem voru á stjórnsýslu þess við úthlutun byggðakvótans í desember sl. komi til þess að ráðuneytið þurfi síðar að taka hliðstæðar ákvarðanir um úthlutun byggðakvóta. Ég hef því ákveðið að aðhafast ekki frekar vegna þeirra atriða sem voru tilefni hins almenna fyrirspurnarbréfs míns en hef eftir því sem mér hefur verið unnt á grundvelli fyrirliggjandi gagna tekið afstöðu til þeirra einstöku kvartana sem mér hafa borist í tilefni úthlutunar umrædds byggðakvóta.

Ég tek að síðustu fram að í ljósi ofangreindra annmarka á rökstuðningi sjávarútvegsráðuneytisins til A ehf. og með hliðsjón af því að ekki er gerð fullnægjandi grein fyrir því í skýringarbréfi ráðuneytisins til mín hvaða atriði hafi ráðið því að umsókn félagsins var synjað eru ekki forsendur til þess af minni hálfu að taka afstöðu til þess hvort sú ákvörðun sjávarútvegsráðuneytisins hafi efnislega verið í samræmi við lög. Er því ekki tekin afstaða til þess í álitinu.

V.

Niðurstaða.

Það er samkvæmt því sem að framan er rakið niðurstaða mín að rökstuðningur sjávarútvegsráðuneytisins í bréfi þess til A ehf., dags. 28. febrúar 2002, hafi ekki verið í samræmi við kröfur 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá hef ég í álitinu lýst þeirri skoðun minni að þess hafi ekki verið nægjanlega gætt af hálfu sjávarútvegsráðuneytisins að haga svörum þess í tilefni af fyrirspurnarbréfi mínu vegna máls A ehf. þannig að samrýmst hafi sjónarmiðum sem leiða af lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Ég beini þeim tilmælum til sjávarútvegsráðuneytisins að það taki beiðni A ehf. um rökstuðning til endurskoðunar, komi fram ósk þess efnis frá félaginu, og hagi þá meðferð þess máls í samræmi við þau sjónarmið sem rakin eru í áliti þessu.