Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Lögreglu- og sakamál. Áfengismál.

(Mál nr. 12521/2024)

Kvartað var yfir lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Annars vegar að lögreglan hefði ekki hafið rannsókn á kæru á því að vefsíða hefði auglýst áfengi til sölu og þ.a.l. brotið gegn einkaleyfi ÁTVR til að selja áfengi. Hins vegar að ekki hefði verið brugðist við erindum vegna ólöglegra auglýsinga og sölu áfengis.  

Þar sem viðkomandi átti ekki aðild að því er snerti ÁTVR voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um þann lið kvörtunarinnar. Hvað erindi til lögreglunnar snerti benti umboðsmaður á að af málinu yrði ekki ráðið að viðkomandi hefði orðið fyrir misgerð af völdum afbrots og teldist þannig brotaþoli eða nyti réttarstöðu í samræmi við það. Lögregla hefði svigrúm til að meta hvort efni væri til að hefja rannsókn og eftir atvikum hætta henni og væri ekki skylt að tilkynna það kæranda nema hann hefði hagsmuna að gæta. Með hliðsjón af því og aðkomu viðkomandi að málunum taldi umboðsmaður ekki tilefni til að taka kvörtunina til frekari athugunar að þessu leyti en benti á að hægt væri að senda skriflegt erindi og óskað eftir upplýsingum um hvort til stæði að bregðast við þeim kærum og ábendingum sem hefðu verið sendar lögreglu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 28. febrúar 2024.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 20. desember 2023, f.h. A, sem beinist að lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Ráða má af gögnum málsins og kvörtuninni að hún lúti annars vegar að því að lögreglan hafi ekki lokið rannsókn á kæru ÁTVR 16. júní 2020 á því að vefsíða hefði auglýst áfengi til sölu og þ.a.l. brotið gegn einkaleyfi ÁTVR til að selja áfengi, sbr. 10. gr. áfengislaga nr. 75/1998. Hins vegar lúti hún að því að ekki hafi verið brugðist við erindum A en A hafi ítrekað kært áfengisauglýsingar og ólöglega sölu áfengis eða sent lögreglu ábendingar um ólöglega sölu áfengis og áfengisauglýsingar.

Hvað snertir meðferð lögreglunnar á kæru ÁTVR er rétt að taka fram að í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er gengið út frá því að meginviðfangsefni umboðsmanns sé að taka við kvörtunum frá borgurunum og láta þeim í té álit um það hvort stjórnvöld hafi leyst með réttum hætti úr máli þeirra. Þannig er tekið fram í 2. mgr. 4. gr. laganna að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum sem heyra undir eftirlit umboðsmanns Alþingis geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varðar beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Þótt A hafi það að markmiði að berjast gegn birtingu ólöglegra áfengisauglýsinga er ljóst að þau atriði sem tilgreind eru í erindi yðar um kæru ÁTVR til lögreglunnar á brotum vefsíðu gegn einkaleyfi fyrirtækisins snerta ekki beinlínis hagsmuni A eða réttindi umfram aðra enda eru A ekki aðili að því máli hjá lögreglunni. Ég tel mig því ekki hafa forsendur til að taka þann þátt erindis yðar til nánari athugunar.

Í kvörtuninni og gögnum málsins kemur fram að A hafi sent lögreglu fjölda erinda um áfengisauglýsingar og ólöglega sölu áfengis. Sé það annars vegar gert á þann hátt að einstaklingar nýti sér þar til gerðan flipa á vefsíðu A sem sendir kæru til „viðkomandi embættis“ en afrit af kærunni sé sent A. Hins vegar taki A við nafnlausum ábendingum frá einstaklingum um áfengisauglýsingar og áframsendi erindin í kjölfarið þess til lögreglu. Af framangreindu verður ráðið að A hafi haft milligöngu um að koma tilkynningum um brot á áfengislöggjöfinni til lögreglu og þá með að leiðarljósi þá hagsmuni sem A vinni að. Af þessu verður hins vegar ekki ráðið að A sjálf hafi orðið fyrir misgerð af völdum afbrots. Af þeim sökum get ég ekki séð að þau teljist brotaþolar í skilningi 39. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, eða njóti réttarstöðu í samræmi við. Í því sambandi bendi ég á að þrátt fyrir 2. mgr. 52. gr. laganna, sem kveður m.a. á um skyldu lögreglunnar til að rannsaka mál, hefur lögreglan svigrúm til að meta hvort efni sé til að hefja rannsókn og eftir atvikum hætta henni. Er ekki skylt að tilkynna það kæranda nema hann hafi hagsmuna að gæta, sbr. 5. mgr. 52. gr. laganna. Með hliðsjón af framangreindu, og þá einkum fyrrgreindrar aðkomu A af því að koma tilkynningum og kærum til lögreglunnar, tel ég ekki tilefni til að taka kvörtunina til frekari athugunar að þessu leyti.

Í tilefni af kvörtun yðar er þó rétt að taka fram að í stjórnsýslurétti gildir sú meginregla að hver sá sem ber upp skriflegt erindi við stjórnvald á almennt rétt á að fá skriflegt svar nema erindið beri með sér að svars sé ekki vænst. Í því felst nánar tiltekið að stjórnvaldinu er skylt að bregðast við erindinu þannig að borgarinn búi ekki við óvissu um hvort það hafi verið móttekið, sé til meðferðar eða að niðurstaða hafi fengist í því. A geta því freistað þess að senda lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu skriflegt erindi og óskað eftir upplýsingum um hvort til standi að bregðast við þeim kærum og ábendingum sem þau hafi sent embættinu. Með þessari ábendingu hef ég þó enga efnislega afstöðu tekið til þess hvernig lögreglunni bæri að svara slíku erindi.

Með hliðsjón af öllu framangreindu lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis.