Rafræn stjórnsýsla. Kosningar.

(Mál nr. 12631/2022)

Kvartað var yfir drögum að reglugerðum sem settar yrðu á grundvelli kosningalaga og birtar voru í samráðsgátt stjórnvalda.  

Þar sem setning reglugerðarinnar snerti ekki hagsmuni viðkomandi eða réttindi umfram aðra voru ekki skilyrði til taka kvörtunina til frekari athugunar.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 28. febrúar 2024.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 22. febrúar sl. er lýtur að drögum að reglugerðum sem settar yrðu á grundvelli kosningalaga nr. 112/2021 og birtar voru 13. þess mánaðar í samráðsgátt stjórnvalda. Í kvörtuninni eru gerðar margþættar athugasemdir við efni þeirra.

Í tilefni af kvörtun yðar skal tekið fram að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum sem heyra undir eftirlit hans kvartað af því tilefni til umboðsmann. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann Alþingis þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða snertir beinlínis hagsmuni hans umfram aðra.

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að hún lúti að tiltekinni athöfn, athafnaleysi eða ákvörðun stjórnvalds í framangreindum skilningi, þ.e. þau atriði sem þér tilgreinið í kvörtun yðar snerta ekki hagsmuni yðar eða réttindi með beinum hætti umfram aðra heldur lýtur hún að drögum að reglugerðum sem birt hafa verið almenningi til umsagnar. Brestur því lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari athugunar.

Með vísan til framangreinds læt ég umfjöllun minni um kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.