Skattar og gjöld. Stöðubrotsgjald.

(Mál nr. 12470/2023)

Kvartað var yfir álagningu stöðubrotsgjalds og synjun við beiðni um endurskoðun þess.  

Í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn umboðsmanns kom fram að heimilt hefði verið að leggja þar sem bílnum hafði verið lagt og því hafi málið verið fellt niður og gjaldið yrði endurgreitt. Ekki var því ástæða til að aðhafast frekar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 28. febrúar 2024.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar yfir álagningu stöðubrotsgjalds í október 2023 vegna ökutækisins [...] svo og synjun við beiðni um endurskoðun þeirrar ákvörðunar.

Í tilefni af kvörtuninni var Reykjavíkurborg ritað bréf 4. desember 2023 þar sem óskað var nánari skýringa á álagningu gjaldsins og rökstuðningi Bílastæðasjóðs.

Í svari Reykjavíkurborgar 22. febrúar sl., sem fylgir hjálagt bréfi þessu í ljósriti, kemur m.a. fram að á þeim tíma sem umrætt gjald var lagt á bifreiðina [...] hafi umferðarmerkingar verið til staðar og því hafi yður verið heimilt að leggja á svæðinu sem um ræðir. Þá hafi málið verið fellt niður og þér fengið stöðubrotsgjaldið endurgreitt.

Þar sem kvörtun yðar laut að álagningu stöðubrotsgjalds og nú liggur fyrir að fallið hefur verið frá gjaldinu og yður verið endurgreitt tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna málsins. Læt ég því athugun minni á kvörtun yðar lokið með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.