Samgöngumál.

(Mál nr. 12628/2024)

Kvartað var yfir ýmsum athöfnum Samgöngustofu gagnvart fyrirtæki og þeirri laga- og reglugerðarumgjörð sem þær byggðust á.

Þar sem umkvörtunarefnið hafði ekki verið borið undir innviðaráðuneytið voru að svo stöddu ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði frekar um málið.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 29. febrúar 2024.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar f.h. A ehf. sem beinist að Samgöngustofu. Af kvörtuninni verður ráðið að hún lúti að ýmsum athöfnum Samgöngustofu gagnvart fyrirtækinu frá árinu 2017, og þá einkum hvað snertir úrbætur á skipi sem félagið gerir út, m.a. í tengslum við öryggi farþega, áhafnar og skips. Verður enn fremur ráðið að kvörtunin lúti að þeirri laga- og reglugerðarumgjörð sem téðar athafnir byggjast á.

Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en það hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Þetta ákvæði er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Í samræmi við þetta sjónarmið hefur umboðsmaður almennt talið rétt að það æðra stjórnvald, sem fer með yfirstjórnar- og eftirlitsheimildir á viðkomandi sviði, hafi fengið tækifæri til að fjalla um mál og þar með taka afstöðu til þess hvort tilefni sé til að beita þeim heimildum áður en umboðsmaður tekur mál til athugunar á grundvelli kvörtunar og þá einnig í þeim tilvikum þar sem afstaða þess til málsins verður ekki fengin fram á grundvelli stjórnsýslukæru.

Ástæða þess að þetta er tekið fram er sú að af kvörtun yðar, en henni fylgdu ekki gögn sem varpa nánar ljósi á athafnir og/eða ákvörðunartöku Samgöngustofu gagnvart félaginu, verður ekki ráðið að athugasemdir A um starfshætti Samgöngustofu hafi verið bornar undir innviðaráðuneytið en það fer samkvæmt t-lið 2. töluliðar 7. gr. forsetaúrskurðar nr. 6/2022, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, með málefni Samgöngustofu. Í ljósi þess eftirlitshlutverks sem innviðaráðherra hefur gagnvart stofnuninni á grundvelli yfirstjórnar- og eftirlitsheimilda sinna og með vísan til framangreindra sjónarmiða sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 tel ég rétt að þér freistið þess að bera athugasemdir í kvörtuninni viðvíkjandi Samgöngustofu og laga- og reglugerðarumhverfi stofnunarinnar undir innviðaráðuneytið áður en þér leitið til umboðsmanns Alþingis með kvörtun vegna þeirra. Að þessu gættu bendi ég yður einnig á að af framangreindu ákvæði leiðir jafnframt að hafi Samgöngustofa tekið stjórnvaldsákvarðanir er snerta hagsmuni A sem eru kæranlegar til æðra stjórnvalds, er almennt skilyrði að sú kæruleið sé tæmd áður en leitað er til umboðsmanns Alþingis.

Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, læt ég því athugun minni vegna kvörtunarinnar lokið að svo stöddu. Ég tek fram að fari A ehf. þá leið að leita til innviðaráðuneytisins og telji það sig enn rangsleitni beitt að fenginni niðurstöðu ráðuneytisins er félaginu, eða yður fyrir þess hönd, unnt að leita til umboðsmanns að nýju með kvörtun þar að lútandi og verður þá tekin afstaða til þess hvort og að hvaða marki skilyrði séu að lögum til að taka málið til frekari athugunar.