Atvinnuleysistryggingar. Fullnusta refsinga.

(Mál nr. 12633/2024)

Kvartað var yfir ætluðum meinbugum á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um fullnustu refsinga. Einkum vegna hugtakanotkunar og skilgreininga laganna í tilviki þeirra sem fullnusta dóma utan fangelsis og rétti þeirra til greiðslna úr atvinnuleysistryggingasjóði. Jafnframt yfir synjunum Vinnumálastofnunar á slíkum greiðslum til skjólstæðinga viðkomandi.  

Þar sem erindið laut að efni löggjafar Alþingis voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það. Þá benti hann á að formlegar synjanir um greiðslur kynni að vera fært að kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 29. febrúar 2024.

  

  

Vísað er til erindis yðar 23. febrúar sl., fyrir hönd A, er lúta að ætluðum meinbugum á lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, og lögum nr. 15/2016 um fullnustu refsinga. Lýtur erindið einkum að hugtakanotkun og skilgreiningum laganna í tilviki þeirra sem fullnusta dóma utan fangelsis og rétti þeirra til greiðslna úr atvinnuleysistryggingasjóði. Þá óskið þér eftir að umboðsmaður skoði réttmæti synjunar Vinnumálastofnunar á slíkum greiðslum til skjólstæðinga A.

Í tilefni af erindi yðar skal tekið fram að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu aðila sem heyrir undir starfssvið umboðsmanns kvartað af því tilefni til embættisins. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varðar beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra.

Í 3. gr. laga nr. 85/1997 er kveðið á um starfssvið umboðsmanns. Þar segir í a-lið 4. mgr. að starfssvið umboðsmanns taki ekki til starfa Alþingis og stofnana þess. Það er því almennt ekki á verksviði umboðsmanns Alþingis að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett. Með 11. gr. laga nr. 85/1997 er umboðsmanni þó veitt heimild til að tilkynna Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn ef hann verður var við meinbugi á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum í störfum sínum. Í lögum er hins vegar ekki gert ráð fyrir því að kvörtun verði borin fram við umboðsmann á þessum grundvelli, þótt vitanlega sé öllum frjálst að koma á framfæri við umboðsmann ábendingum um slík atriði. Eru þær ábendingar sem berast um efni laga yfirfarnar með tilliti til þess hvort tilefni sé til að taka þau atriði sem koma fram í þeim til athugunar á grundvelli þeirrar heimildar sem honum er fengin með 5. gr. laga nr. 85/1997 til að taka málefni til athugunar að eigin frumkvæði.

Af erindi yðar, eins og það er fram sett, verður ekki ráðið að það lúti að tilteknum athöfnum, athafnaleysi eða ákvörðunum stjórnvalda í framangreindum skilningi heldur lýtur það að efni löggjafar sem Alþingi hefur sett. Brestur því lagaskilyrði til þess að erindi yðar verði tekið til frekari meðferðar á grundvelli kvörtunar. Þær ábendingar sem felast í erindi yðar hafa þó verið skráðar í samræmi við verklag embættisins og verður þeim haldið til haga. Í því sambandi tek ég fram að við mat á ábendingum sem þessum er meðal annars litið til starfssviðs og áherslna umboðsmanns, hagsmuna sem tengjast málefninu sem um ræðir og málastöðu og nýtingar mannafla hjá embættinu. Verklagið er þannig að verði málefnið tekið til athugunar er viðkomandi ekki upplýstur um það sérstaklega heldur er tilkynnt um athugunina á heimasíðu embættisins, www.umbodsmadur.is.

Þá er athygli yðar vakin á því að samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga nr. 54/2006 skal úrskurðarnefnd velferðarmála kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Hafi skjólstæðingur A fengið formlega synjun um greiðslur á grundvelli laganna, sem hann telur ekki vera í samræmi við lög, kann honum því að vera fært að kæra þá ákvörðun til nefndarinnar. Ég tek þó fram að með þessari ábendingu hef ég enga afstöðu tekið til þess hvaða meðferð og afgreiðslu slíkt erindi ætti að hljóta hjá nefndinni.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um erindi yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.