Atvinnuleysistryggingar. Réttur sjálfstætt starfandi einstaklings til atvinnuleysisbóta. Rannsóknarreglan. Rökstuðningur.

(Mál nr. 3691/2003)

A kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta þar sem staðfest var ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta fyrir Vesturland um að synja umsókn A um atvinnuleysisbætur. Umboðsmaður réð af kvörtun A að gerðar væru athugasemdir við þær forsendur og niðurstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að A hefði fallið undir skilgreiningu 1. gr. þágildandi reglugerðar nr. 740/1997, um bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklinga úr Atvinnuleysistryggingasjóði, og ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum samkvæmt lögum nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, sbr. 2. tölul. 7. gr. reglugerðar nr. 740/1997.

Umboðsmaður rakti ákvæði laga nr. 12/1997 og reglugerðar nr. 740/1997, sem lutu að því að afmarka hver væri sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi ákvæðanna. Umboðsmaður fékk ekki séð að þær forsendur sem úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta lagði til grundvallar afstöðu sinni um að A teldist sjálfstætt starfandi hefðu verið í samræmi við 1. tölul. 1. gr. reglugerðar nr. 740/1997. Það var niðurstaða umboðsmanns að úrlausn úrskurðarnefndarinnar um þetta atriði, eins og hún birtist í forsendum úrskurðarins, væri ekki í samræmi við lög.

Þá fékk umboðsmaður ekki séð af úrskurði úrskurðarnefndarinnar, eða þeim skýringum og gögnum sem nefndin hefði látið honum té vegna kvörtunar A, að nefndin hefði með fullnægjandi hætti, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, kannað hvort A hefði verið gert að standa skil á tryggingagjaldi vegna eigin atvinnurekstrar í skilningi 1. tölul. 1. gr. reglugerðar nr. 740/1997. Umboðsmaður taldi að nefndinni hefði borið, áður en hún tók afstöðu til umrædds álitaefnis, að afla upplýsinga um hvort skattyfirvöld hefðu tekið afstöðu til þessa atriðis enda hafi ekki legið fyrir að A hefði fallist á slíka gjaldskyldu t.d. með skattskilum sínum eða sérstakri yfirlýsingu þar að lútandi.

Umboðsmaður taldi að misræmi væri milli þeirra forsendna sem úrskurðarnefndin lagði til grundvallar í úrskurði sínum um að A væri sjálfstætt starfandi, sbr. 1. tölul. 1. gr. reglugerðar nr. 740/1997, og þeirra skýringa sem nefndin lét honum í té með bréfi þremur mánuðum síðar. Umboðsmaður tók fram að hafi nefndin í raun lagt til grundvallar sjónarmið um tryggingagjaldsskyldu A við úrlausn á kæru hans, eins og skýringar í ofangreindu bréfi bentu til, fengi hann ekki séð þess hafði verið gætt að gera grein fyrir því í úrskurði nefndarinnar. Það var niðurstaða umboðsmanns að úrskurðurinn hafi að þessu leyti ekki verið í samræmi við 4. tölul. 31. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 1. mgr. 22. gr. sömu laga.

Umboðsmaður taldi rétt að beina þeim tilmælum til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að hún tæki mál A fyrir að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis frá honum, og tæki þá mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.

I.

Hinn 10. janúar 2003 leitaði A til mín og kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta frá 6. janúar 2003 þar sem úrskurðarnefndin staðfesti ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta fyrir Vesturland frá 30. október 2002 um að synja umsókn A um atvinnuleysisbætur.

Í kvörtun A til mín kemur fram að hún beinist að „óvönduðum vinnubrögðum og allri meðferð á umsókn um atvinnuleysisbætur“. Af kvörtuninni og gögnum málsins verður ráðið að gerðar eru athugasemdir við þær forsendur og niðurstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta í úrskurðinum frá 6. janúar 2003 að A hafi fallið undir skilgreiningu 1. gr. reglugerðar nr. 740/1997, um bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklinga úr Atvinnuleysistryggingasjóði, og ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum samkvæmt lögum nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, sbr. 2. tölul. 7. gr. reglugerðar nr. 740/1997. Í því sambandi telur A að ósamræmi sé á milli úrskurðar nefndarinnar frá 6. janúar 2003 og niðurstöðu nefndarinnar í eldri úrskurði í máli hans frá 25. febrúar 2002. Telur hann að aðstæður hans hafi verið þær sömu í báðum tilvikum.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 4. júlí 2003.

II.

Málsatvik eru þau að 21. nóvember 2001 sótti A um atvinnuleysisbætur til úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta fyrir Vesturland. Með bréfi til A, dags. 29. nóvember 2001, hafnaði nefndin beiðni hans. Kærði A þá synjun til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta sem úrskurðaði í málinu 25. febrúar 2002. Í þeim úrskurði úrskurðarnefndarinnar segir meðal annars svo:

„Í máli þessu liggur fyrir að kærandi er skráður með virðisaukaskattsnúmerið [...] og skráður eigandi bifreiðarinnar [...] sem hann notar vegna atvinnu sinnar. Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkisskattstjóra var kærandi afskráður af launagreiðendaskrá árið 1998. Hafa greiðslur til hans verið skráðar sem laun frá þeim fyrirtækjum sem hann hefur unnið fyrir hverju sinni.

Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkisskattstjóra greiðir kærandi ekki tryggingagjald í staðgreiðslu enda reiknar hann sér ekki endurgjald vegna vinnu sinnar. Þá er ekki heldur um það að ræða að hann greiði tryggingagjald samkvæmt álagningu skattstjóra einu sinni á ári. Kærandi fellur þar af leiðandi ekki undir skilgreiningu 1. gr. reglugerðarinnar á hugtakinu sjálfstætt starfandi einstaklingur. Verður umsókn hans um atvinnuleysisbætur því ekki hafnað með vísan til ákvæða reglugerðarinnar, sbr. 7. gr. hennar. Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að fella beri úr gildi ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta frá 28. nóvember s.l. í máli [A].“

A sótti á ný um atvinnuleysisbætur 21. október 2002 til úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta fyrir Vesturland. Var sú umsókn afgreidd á fundi nefndarinnar 30. október sama ár. A var tilkynnt um niðurstöðu nefndarinnar með bréfi, dags. 7. nóvember 2002, en þar kom fram að umsókn hans hefði verið hafnað á grundvelli 6. og 7. gr. reglugerðar nr. 740/1997, um bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklinga úr Atvinnuleysistryggingasjóði.

A kærði synjun nefndarinnar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi, dags. 26. nóvember 2002. Í kæru sinni vísaði hann meðal annars til þess að forsendur umsóknar hans um atvinnuleysisbætur nú væru þær sömu og þegar hann hefði lagt fram umsókn um bætur ári áður. Vísaði hann í því sambandi til niðurstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta í úrskurði hennar, dags. 25. febrúar 2002, sem rakinn er hér að framan.

Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta kvað upp úrskurð sinn í málinu 6. janúar 2003. Þar staðfesti úrskurðarnefndin ákvörðun úthlutunarnefndarinnar, dags. 30. október 2002, um að synja umsókn A um atvinnuleysisbætur. Niðurstöðukafli og úrskurðarorð úrskurðarins hljóða svo:

„Niðurstaða

I.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, eiga launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem verða atvinnulausir, rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögunum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.

Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 er félagsmálaráðherra veitt heimild til að setja nánari reglur um hvaða skilyrðum sjálfstætt starfandi einstaklingar skulu fullnægja til þess að njóta bóta úr sjóðnum. Segir í ákvæði þessu að m.a. skuli settar reglur um hvaða skilyrðum menn verða að fullnægja til þess að teljast sjálfstætt starfandi og vera atvinnulausir. Í reglugerð nr. 740/1997 um bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklinga úr Atvinnuleysistryggingasjóði er hugtakið sjálfstætt starfandi einstaklingur skilgreint með eftirfarandi hætti, sbr. 1. gr.; sá sem starfar við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum eða félagi er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglubundnum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Atvinnuleysi þessara einstaklinga er skilgreint í 6. gr. reglugerðarinnar [...].

Í 7. gr. er kveðið á um að til að tilkynning um lok rekstrar teljist fullnægjandi þurfi hún að bera með sér að:

1. Lok sjálfstæðrar starfsemi hafi verið tilkynnt launagreiðendaskrá ríkisskattstjóra og

2. virðisaukaskattskyldri starfsemi hafi verið hætt.

Í 5. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að árstíðabundin stöðvun starfsemi eða tímabundin hlé vegna verkefnaskorts eða af öðrum ástæðum veiti sjálfstætt starfandi einstaklingum ekki rétt til atvinnuleysisbóta.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi er skráður með virðisaukaskattsnúmerið [...]. Einnig liggur fyrir að kærandi er skráður eigandi pallbifreiðarinnar [...]. Bifreiðin er virðisaukaskattsbifreið og skráð sem sendibifreið. Skilyrði skráningu virðisaukaskattsbifreiðar er að hún sé eingöngu notuð til atvinnurekstrar. Kærandi leigir út bifreið þessa til fiskflutninga í allt að 5-6 mánuði á ári og þiggur fyrir leigutekjur. Kærandi hefur jafnframt starfað sem launþegi hjá leigutaka bifreiðarinnar sem er útgerðarfyrirtæki. Hefur kærandi verið skipverji á bát hjá fyrirtækinu. Kærandi telur það vera forsendu þess að hann fái nefnt starf að hann leigi atvinnurekanda sínum bifreið sína til flutninga á afla bátsins. Stundum sjái hann sjálfur um akstur bifreiðarinnar en stundum sé annar starfsmaður fyrirtækisins fenginn til þess. Atvinnurekandinn greiði kæranda sérstakt mánaðarlegt leigugjald fyrir bifreiðina þá mánuði sem róið er.

Í máli kæranda nr. 90/2001 felldi úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta ákvörðun úthlutunarnefndar um synjun atvinnuleysisbóta til handa kæranda úr gildi. Samkvæmt gögnum þess máls lá ekki nægilega skýrt fyrir að kærandi væri eigandi virðisaukaskattsbifreiðar sem hann leigði út í atvinnuskyni og þótti kærandi því ekki falla undir skilgreiningu 1. gr. reglugerðar nr. 740/1997 á hugtakinu sjálfstætt starfandi einstaklingur. Samkvæmt þeim gögnum sem nú liggja fyrir er ljóst að kærandi er eigandi sendibifreiðar sem er skráð sem virðisaukaskattsbifreið og leigð út í atvinnuskyni. Af bifreið þessari hefur kærandi leigutekjur í 5-6 mánuði á ári. Samkvæmt þessu er ljóst að kærandi fellur undir skilgreiningu 1. gr. reglugerðarinnar um sjálfstætt starfandi einstaklinga. Kærandi á samkvæmt reglugerðinni ekki rétt á atvinnuleysisbótum samhliða því sem hann hefur tekjur af rekstri og stundar virðisaukaskattskylda starfsemi. Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að kærandi uppfylli ekki lagaskilyrði til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, sbr. 2. tölul. 7. gr. reglugerðar nr. 740/1997 um bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklinga úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta fyrir Vesturland í máli [A] frá 30. október 2002 er staðfest.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta fyrir Vesturland frá 30. október 2002 um synjun á umsókn [A] um atvinnuleysisbætur er staðfest.“

III.

Ég ritaði úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta bréf, dags. 22. janúar 2003, og óskaði eftir því með vísan til 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að nefndin léti mér í té gögn málsins. Gögnin bárust mér með bréfi, dags. 27. sama mánaðar.

Hinn 5. mars 2003 barst mér bréf frá lögmanni A, B, héraðsdómslögmanni, þar sem m.a. fram kemur sú afstaða lögmannsins að A teljist ekki sjálfstætt starfandi einstaklingur samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 740/1997. Í bréfinu er þetta rökstutt með því að A starfi ekki við eigin rekstur þannig að honum sé gert að standa skil á tryggingagjaldi með reglubundnum hætti og fylgdi með bréfinu „til staðfestingar“ á þessu afrit bréfs frá skattstjóra Vesturlandsumdæmis, dags. 3. mars 2003, þar sem segir að A hafi ekki verið með reiknað endurgjald tekjuárin 1999, 2000 eða 2001, þ.e. vegna gjaldáranna 2000, 2001 og 2002. Við álagningu 2002, vegna tekjuársins 2001, hafi honum verið áætlað reiknað endurgjald og lagt á hann tryggingagjald samkvæmt því. Sú álagning hafi hins vegar verið felld niður „þar sem [A] bar ekki að reikna sér endurgjald“. Þá er því haldið fram í bréfi lögmannsins að úrskurður úrskurðarnefndarinnar í máli A hafi gengið „í berhögg“ við álit mitt frá 30. apríl 2001 í máli nr. 2868/1999.

Ég ritaði úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta á ný bréf, dags. 10. mars 2003, þar sem ég óskaði þess að nefndin skýrði viðhorf sitt til þriggja nánar tilgreindra atriða. Bréfinu lét ég fylgja afrit af bréfi lögmanns A til mín þar sem fram komu upplýsingar um reiknað endurgjald hans. Í bréfi mínu til úrskurðarnefndarinnar sagði m.a. svo:

„Með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, óska ég þess að nefndin upplýsi mig um og lýsi afstöðu sinni til eftirtalinna atriða.

1. Í 1. gr. reglugerðar nr. 740/1997, um bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklinga úr Atvinnuleysistryggingasjóði, er hugtakið sjálfstætt starfandi einstaklingur skilgreint. Segir þar að sjálfstætt starfandi einstaklingur sé „sá sem starfar við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum eða félagi er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglubundnum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi“. Með vísan til þessa óska ég þess að úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upplýsi mig um með hvaða hætti var kannað hvort [A] væri gert að standa skil á tryggingagjaldi vegna eigin atvinnurekstrar. Í því sambandi óska ég þess jafnframt að nefndin lýsi afstöðu sinni til þess hvort og þá með hvaða hætti sú niðurstaða hennar að telja [A] sjálfstætt starfandi einstakling, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 740/1997, sé í samræmi við þau sjónarmið um skýringu greinarinnar sem fram koma í áliti umboðsmanns Alþingis frá 30. apríl 2001 í máli nr. 2868/1999.

2. Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. janúar sl., kemur fram að bifreið [A], [...], sé skráð sem „virðisaukaskattsbifreið“. Segir jafnframt að hjá ríkisskattstjóra hafi fengist þær upplýsingar að „greiða verði upp virðisaukann af bifreiðinni ef virðisaukaskattsnúmerinu sé skilað inn“. Ég skil þetta síðastnefnda svo að þar sé vísað til skráningar bifreiðarinnar, sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, með síðari breytingum, sbr. og 14. gr. reglugerðar nr. 78/1997, um skráningu ökutækja, með síðari breytingum. Í upplýsingum sem [A] hefur látið mér í té kemur fram að hann hafi átt umrædda bifreið í meira en fimm ár þegar úrskurðarnefndin kvað upp úrskurð í málinu. Í því ljósi óska ég þess að nefndin skýri afstöðu sína til 14. gr. reglugerðar nr. 192/1993, með tilliti til atvika í máli [A]. Telji nefndin að umrætt ákvæði hafi átt við í máli hans óska ég þess jafnframt að ég verði upplýstur um hvort nefndin telji að henni hafi borið að leiðbeina [A] um þetta atriði.

3. Í kæru [A] til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta, dags. 7. desember 2001, sem leiddi til úrskurðar nefndarinnar, dags. 25. febrúar 2002, kemur fram að [A] sé tilbúinn til að leggja inn númer bifreiðar sinnar, [...], tímabundið. Í kæru sinni í því máli sem hér er til umfjöllunar vísar hann um aðstæður sínar m.a. til gagna sem lágu til grundvallar fyrri úrskurðinum, dags. 25. febrúar 2002. Með vísan til þessa óska ég þess að úrskurðarnefndin upplýsi mig um hvort slík ráðstöfun hefði verið nægjanleg af hálfu [A] til að öðlast rétt til atvinnuleysisbóta. Ef svo er óska ég þess jafnframt að ég verði upplýstur um hvort [A] var leiðbeint um þann möguleika. Ef nefndin telur að slík ráðstöfun hefði ekki verið nægjanleg af hans hálfu óska ég eftir að hún skýri þá afstöðu sína.

Ég vek athygli á að þó að efni spurninga 2 og 3 hér að ofan skarist að nokkru leyti óska ég þess að hvorri um sig verði svarað með sjálfstæðum hætti.“

Mér bárust svör úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 7. apríl 2003. Þar segir meðal annars svo:

„Í bréfi yðar er óskað eftir því að úrskurðarnefndin upplýsi yður um og lýsi afstöðu sinni til þriggja atriða. Afstaða úrskurðarnefndarinnar til þessara atriða er eftirfarandi:

1. [...]

Svar: Í áliti umboðsmanns í máli nr. 286[8]/1999 kemur fram sú skoðun umboðsmanns að þegar lagt er mat á það hvort um sjálfstæða starfsemi í skilningi reglugerðar nr. 740/1997 [er að ræða] skipti meginmáli upplýsingar um umfang starfseminnar með tilliti til skyldu til þess að standa með reglubundnum hætti skil á tryggingagjaldi sbr. 1. tölul. 1. gr. reglugerðarinnar. Úrskurðarnefndin er sammála áliti umboðsmanns á því, að við mat á því hvort um sjálfstæða starfsemi sé að ræða skipti meginmáli hvort um sé að ræða skyldu til þess að standa með reglubundnum hætti skil á tryggingagjaldi. Nefndin telur þó að ekki sé hægt að byggja alfarið á raunverulegum skilum á tryggingagjaldi í hverju einstöku tilviki við þetta mat. Nægjanlegt sé að um skyldu til að skila tryggingagjaldi sé að ræða. Samkvæmt upplýsingum ríkisskattstjóra ber aðilum lögum samkvæmt að reikna sér mánaðarlegt endurgjald ef velta nær 215.000 á ári. Ef velta er meiri en 220.000 á ári ber einnig að skila virðisaukaskatti af seldri þjónustu. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, er gjaldstofn tryggingagjaldsins fjárhæð reiknaðs endurgjalds sem maður tekur eða ber að telja sér til tekna skv. 6. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Það að aðili sinni ekki þessari skyldu sinni samkvæmt skattalögum og haldi þannig á ólögmætan hátt eftir gjaldskyldu tryggingagjaldi getur ekki að mati úrskurðarnefndarinnar valdið því að sami aðili öðlist meiri rétt samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar en sá aðili sem stendur skil á sínum gjöldum til skattyfirvalda. Slíkt væri brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.

Ef ljóst er að um raunverulegan rekstur sé að ræða sem er yfir lágmarki skattyfirvalda, kr. 215.000, þá er það mat nefndarinnar að um sjálfstæða starfsemi sé að ræða. Ekki skiptir máli hvort sami aðili sé einnig launamaður á sama tíma. Skylda til að skila inn tryggingagjaldi af veltu í virðisaukaskattskyldri starfsemi fellur ekki niður við það. Í tilviki [A] er ljóst að hann á og rekur virðisaukaskattsbifreið. Heildarvelta hans vegna reksturs bifreiðarinnar var samkvæmt rekstrarreikningi kr. 265.761 á árinu 2002 og kr. 335.000 á árinu 2001. Það að [A] sinnti ekki lagaskyldu sinni til að reikna sér endurgjald vegna starfsemi sinnar og greiða tryggingagjald af því endurgjaldi getur ekki veitt honum ýtrari rétt en hann ella hefði haft. Útskattur vegna reksturs bifreiðarinnar var samkvæmt rekstraryfirlitinu kr. 65.111 á árinu 2002. [A] nýtti sér heimild skattalaga til að innskatta rekstrarvörur bifreiðarinnar á móti útskattinum og var með innskatt samtals að fjárhæð kr. 36.175. Samkvæmt þessu keypti hann rekstrarvörur fyrir bifreiðina fyrir samtals kr. 183.816 á árinu 2002. Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta uppfyllir [A] skilyrði laga til að teljast sjálfstætt starfandi einstaklingur. Hann þarf því að uppfylla skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 og reglugerðar nr. 740/1997 um bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklinga um að vera atvinnulaus til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum. Það er mat nefndarinnar að þessi niðurstaða fari ekki í bága við álit umboðsmanns Alþingis frá 30. apríl 2001 í máli nr. 2868/1999.

2. [...]

Svar: 14. gr. reglugerðar nr. 192/1993 um innskatt heimilar m.a. breytingu á virðisaukaskattsbifreið í einkabifreið eftir að fimm ár eru liðin frá kaupdegi án þess að til útsköttunar þurfi að koma vegna öflunar hennar í upphafi. Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta hefur ekki sérfræðiþekkingu í skattarétti og telur það ekki geta verið hlutverk sitt að leiðbeina aðilum um hvaða reglur úr þeim lagafrumskógi séu aðilum hagfelldastar hverju sinni. Það hlýtur að vera undir aðilum sjálfum komið hvort og hvenær þeir leiti eftir leiðbeiningum skattyfirvalda eða annarra sérfræðimenntaðra skattaráðgjafa.

3. [...]

Svar: Samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 740/1997 er staðfesting á sölu eða afskráningu atvinnutækja að öllu jöfnu fullnægjandi trygging fyrir því að rekstri hafi verið hætt. Hafi atvinnutæki ekki verið selt eða afskráð verður viðkomandi að sýna fram á að honum sé ekki lengur mögulegt að nýta atvinnutæki í rekstri. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður að vera um varanlega afskráningu atvinnutækis að ræða svo að til bótaréttar geti komið. Samkvæmt orðum 8. gr. verður viðkomandi að sýna fram á að ekki sé lengur mögulegt að nýta atvinnutæki í rekstri. Tímabundin innlagning númera fullnægir ekki þessu skilyrði. Hægt er að sækja númerið hvenær sem er án nokkurrar fyrirhafnar eða kostnaðar. Úrskurðarnefndin hefur í úrskurðum sínum gert strangar kröfur til aðila um sönnur fyrir því að rekstri hafi verið hætt og óeðlilegt væri að gera svo litlar kröfur í málum sem þessum. Aftur á móti hefur úrskurðarnefndin talið nægjanlega sönnun fyrir að rekstri hafi verið hætt ef atvinnutæki hefur verið afskráð. Samkvæmt 32. gr. reglugerðar nr. 78/1997 um skráningu ökutækja með síðari breytingum er ökutæki hins vegar aðeins afskráð er ólíklegt megi telja að ökutækið verði tekið í notkun á ný. Um þetta var ekki að ræða í tilviki [A] og hefði því ekki getað komið til þess að honum væri leiðbeint á þessa vegu. Auk ofangreinds vill úrskurðarnefndin benda á meginreglu 5. gr. reglugerðar um bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklinga sem kveður á um að árstíðabundin stöðvun starfsemi eða tímabundin hlé vegna verkefnaskorts eða af öðrum ástæðum veiti sjálfstætt starfandi einstaklingum ekki rétt til atvinnuleysisbóta.“

Með bréfi, dags. 11. apríl 2003, gaf ég lögmanni A kost á að gera athugasemdir við svar úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta. Þær bárust mér 29. apríl 2003.

IV.

1.

Eins og rakið er hér að framan beinist kvörtun þessa máls einkum að þeirri niðurstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta í úrskurði nefndarinnar frá 6. janúar 2003 að telja A sjálfstætt starfandi einstakling í merkingu þágildandi ákvæðis 1. tölul. 1. gr. reglugerðar nr. 740/1997, um bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklinga úr Atvinnuleysistryggingasjóði, og að hann hafi ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum samkvæmt lögum nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, sbr. 2. tölul. 7. gr. nefndrar reglugerðar nr. 740/1997. Ég tek fram að nú hefur reglugerð nr. 740/1997 verið felld úr gildi með síðari málsl. 17. gr. reglugerðar nr. 316/2003.

2.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, eiga launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem verða atvinnulausir, rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögunum enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. skal félagsmálaráðherra setja nánari reglur um „hvaða skilyrðum sjálfstætt starfandi einstaklingar skulu fullnægja til þess að njóta bóta úr sjóðnum“. Meðal annars skal þar koma fram hvaða skilyrðum einstaklingar verða að fullnægja til þess að teljast sjálfstætt starfandi og til þess að teljast atvinnulausir. Eins og fyrr er rakið var í gildi reglugerð nr. 740/1997 þegar atvik þessa máls áttu sér stað, sbr. nú reglugerð nr. 316/2003.

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 12/1997 eiga þeir rétt til bóta sem fullnægja skilyrðum 1.-6. tölul. 1. mgr. greinarinnar. Í ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna segir að viðkomandi verði að hafa á síðustu tólf mánuðum unnið samtals í a.m.k. 10 vikur miðað við fullt starf í tryggingagjaldsskyldri vinnu en til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi einstaklings skuli miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi síðustu tólf mánuði, sbr. 2. málsl. 4. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 12/1997. Í ljósi afmörkunar þessa málsliðar á grunnskilyrðum fyrir rétti sjálfstætt starfandi einstaklings til atvinnuleysisbóta var hugtakið skilgreint með eftirfarandi hætti í 1. tölul. 1. gr. reglugerðar nr. 740/1997:

„[...] sá sem starfar við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum eða félagi er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglubundnum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi“.

Þess skal getið að í A-lið 2. gr. reglugerðar nr. 316/2003 er skilgreiningin á sjálfstætt starfandi einstaklingi að efni til sú sama að því marki sem hér skiptir máli.

Í forsendum úrskurðar úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta frá 6. janúar 2003 í máli A er lagt til grundvallar að hann hafi fallið undir framangreinda skilgreiningu 1. gr. reglugerðar nr. 740/1997 um sjálfstætt starfandi einstaklinga. Rök nefndarinnar fyrir þeirri niðurstöðu, sem fram koma í úrskurðinum, eru eftirfarandi:

„[...] Samkvæmt þeim gögnum sem nú liggja fyrir er ljóst að kærandi er eigandi sendibifreiðar sem er skráð sem virðisaukaskattsbifreið og leigð út í atvinnuskyni. Af bifreið þessari hefur kærandi leigutekjur í 5-6 mánuði á ári. Samkvæmt þessu er ljóst að kærandi fellur undir skilgreiningu 1. gr. reglugerðarinnar um sjálfstætt starfandi einstaklinga.“

Í beinu framhaldi af þessum forsendum tekur nefndin fram í úrskurðinum að kærandi eigi ekki samkvæmt reglugerðinni rétt á atvinnuleysisbótum samhliða því sem hann hafi tekjur af rekstri og stundi virðisaukaskattskylda starfsemi. Uppfylli A því ekki skilyrði laga nr. 12/1997 til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum, sbr. 2. tölul. 7. gr. reglugerðar nr. 740/1997, en þar kom fram að til að tilkynning um lok rekstrar teldist fullnægjandi þyrfti hún að bera með sér að virðisaukaskattskyldri starfsemi hefði verið hætt.

Samkvæmt skilgreiningu 1. tölul. 1. gr. reglugerðar nr. 740/1997, sbr. nú reglugerð nr. 316/2003, er um að ræða sjálfstætt starfandi einstakling, í þeirri merkingu sem hér skiptir máli, þegar hann starfar við eigin rekstur án tillits til félagsforms í því umfangi að honum sé gert að standa mánaðarlega eða með öðrum reglubundnum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda skil á tryggingagjaldi. Skil á slíku gjaldi með reglubundnum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda er þannig skilyrði fyrir því að einstaklingur falli undir framangreinda reglugerð, sbr. álit mitt frá 30. apríl 2001 í máli nr. 2868/1999. Í því áliti tók ég fram að af þessu mætti draga þá ályktun að sé einstaklingi ekki gert að standa skil á tryggingagjaldi er hann ekki sjálfstætt starfandi í skilningi reglugerðar nr. 740/1997 heldur telst hann launamaður í merkingu 1. mgr. 1. gr. laga nr. 12/1997.

Eins og leiðir beint af tilvitnuðum forsendum í úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta í máli A byggðist afstaða nefndarinnar um að hann félli undir 1. tölul. 1. gr. reglugerðar nr. 740/1997 á tveimur atriðum. Í fyrsta lagi á því að A væri eigandi sendibifreiðar sem skráð væri sem virðisaukaskattsbifreið og leigð væri út í atvinnuskyni. Í öðru lagi að hann hefði haft leigutekjur af bifreiðinni í 5-6 mánuði á ári. Eins og lagagrundvelli bótaréttar sjálfstætt starfandi einstaklinga er háttað, sbr. síðari málsl. 4. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 12/1997 og 1. tölul. 1. gr. reglugerðar nr. 740/1997, sbr. nú reglugerð nr. 316/2003, gat hvorugt þessara atriða ráðið því hvort A teldist sjálfstætt starfandi í merkingu reglugerðar nr. 740/1997 þannig að úrlausn um bótarétt hans færi eftir ákvæðum hennar. Ég ítreka að í því sambandi hefur það enga þýðingu hvort almennt séð sé um tryggingagjaldsskylda starfsemi að ræða eða ekki eða hvort viðkomandi aðili eigi sendibifreið sem skráð er sem virðisaukaskattsbifreið og skili eigandanum ákveðnum leigutekjum, sbr. til hliðsjónar áðurnefnt álit mitt frá 30. apríl 2001. Umsækjandi um atvinnuleysisbætur verður þannig ekki talinn sjálfstætt starfandi, sbr. 1. tl. 1. gr. reglugerðar nr. 740/1997, nema honum hafi verið gert að standa skil á tryggingagjaldi, mánaðarlega eða með öðrum reglubundnum hætti, samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, sbr. lög nr. 113/1990, um tryggingagjald. Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður ekki séð að þær forsendur sem úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta lagði til grundvallar afstöðu sinni í úrskurðinum 6. janúar 2003 um að A teldist sjálfstætt starfandi hafi verið í samræmi við 1. tl. 1. gr. reglugerðar nr. 740/1997. Úrlausn úrskurðarnefndarinnar um þetta atriði, eins og hún birtist í forsendum úrskurðarins, var því ekki í samræmi við lög.

Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli A er í framhaldi af ofangreindri afstöðu um að hann hafi fallið undir 1. tl. 1. gr. reglugerðar nr. 740/1997 því lýst að A hafi samkvæmt reglugerðinni ekki átt rétt á bótum vegna atvinnuleysis „samhliða því sem hann [hafði] tekjur af rekstri og [stundaði] virðisaukaskattskylda starfsemi“. Þessi afstaða er sett fram í úrskurðinum án nokkurs fyrirvara. Ég tek fram að ég get ekki fallist á þessa afstöðu eins og hún er fram sett í ljósi þess að samkvæmt 6. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997 getur sá sem stundar vinnu í eigin þágu átt rétt á atvinnuleysisbótum samsvari tekjur hans eða tekjuígildi ekki hámarksbótum atvinnuleysistrygginga. Hef ég þó ekki tekið neina afstöðu til þess hvort A geti notið góðs af fyrirmælum þessa ákvæðis.

Í skýringum úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta til mín, dags. 7. apríl 2003, er því lýst að nefndin sé sammála því að þegar lagt sé mat á það hvort um sjálfstæða starfsemi sé að ræða í merkingu reglugerðar nr. 740/1997, skipti meginmáli „hvort um sé að ræða skyldu til þess að standa með reglubundnum hætti skil á tryggingagjaldi“. Ég vísa að öðru leyti til kafla III hér að framan þar sem umræddar skýringar nefndarinnar til mín eru teknar orðrétt upp í heild sinni. Af þeim verður ekki annað ráðið en að það sé afstaða nefndarinnar að úrlausn um það hvort umsækjandi um atvinnuleysisbætur falli undir 1. tl. 1. gr. reglugerðar nr. 740/1997, sbr. nú A-lið 2. gr. reglugerðar nr. 316/2003, geti verið í höndum stjórnvalda sem fara með ákvörðunarvald um atvinnuleysisbætur án aðkomu skattyfirvalda. Séu atvik þannig með þeim hætti að mati úrskurðarnefndarinnar að umsækjandi um atvinnuleysisbætur hafi stundað rekstur sem geri lögbundna skyldu til að greiða tryggingagjald virka geti nefndin lagt með sjálfstæðum hætti til grundvallar að slík skylda sé til staðar, sbr. 1. tl. 1. gr. reglugerðar nr. 740/1997, og umsækjandi þannig sjálfstætt starfandi. Er þetta nánar rökstutt hjá nefndinni með því að annað fyrirkomulag geti leitt til þess að sá aðili sem ekki sinnir skyldu sinni til að greiða tryggingagjald á ólögmætan hátt öðlist meiri rétt en sá sem stendur skil á sínum gjöldum til skattyfirvalda.

Ég tek af þessu tilefni fram að úrlausn um það hvort umsækjandi um atvinnuleysisbætur teljist sjálfstætt starfandi í merkingu 1. tölul. 1. gr. reglugerðar nr. 740/1997, sbr. nú reglugerð 316/2003, felur ekki sjálfkrafa í sér viðurkenningu stjórnvalda á rétti hans til atvinnuleysisbóta á þeim grundvelli. Það eitt að umsækjanda um slíkar bætur sé samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda gert að standa skil á tryggingagjaldi, þannig að hann telst sjálfstætt starfandi, segir þannig ekkert um umfang bótaréttar hans samkvæmt reglugerð nr. 740/1997. Úrlausn um það atriði ræðst einkum af því hvort og þá með hvaða hætti hann fullnægir skilyrðum 2. gr. reglugerðar nr. 740/1997, sbr. nú II. og III. kafli reglugerðar nr. 316/2003. Ákvæði 1. og 2. tölul. 2. gr. reglugerðar nr. 740/1997 voru svohljóðandi:

„1. Hafi sjálfstætt starfandi einstaklingur greitt tryggingagjald mánaðarlega af reiknuðu endurgjaldi miðað við fullt starf, sbr. 4. gr., vegna síðustu 12 mánaða fyrir skráningu hjá svæðisvinnumiðlun, á hann rétt á hámarksbótum, sbr. 7. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en hlutfallslega ella miðað við fjölda mánaða sem tryggingagjaldi var skilað. Hafi umsækjandi dregið greiðslu tryggingagjalds lengur en þrjá mánuði fellur bótaréttur niður vegna viðkomandi tímabils.

2. Hafi umsækjandi á liðnum 12 mánuðum verið bæði í launavinnu og rekstri þá skal hver mánuður sem tryggingagjald hefur verið greitt fyrir miðað við fullt starf samsvara fullri dagvinnu þann mánuð við ákvörðun bóta.“

Samkvæmt þessu eru það raunveruleg skil á tryggingagjaldi til skattyfirvalda og umfang þeirra sem ráða úrslitum um hvort og þá hvaða bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklingur hefur. Það er því rangt hjá úrskurðarnefndinni að sá sem ekki sinnir á ólögmætan hátt skyldu til að greiða tryggingagjald geti öðlast meiri bótarétt sem sjálfstætt starfandi einstaklingur samkvæmt lögum nr. 12/1997 og reglugerð nr. 740/1997 en sá sem stendur skil á sínum gjöldum til skattyfirvalda. Það hvort sá sem ekki sinnir skilum á tryggingagjaldi samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, og fullnægir þannig ekki skilyrðum bótaréttar sem sjálfstætt starfandi einstaklingur, eigi samt sem áður rétt til atvinnuleysisbóta sem launamaður fer hins vegar einkum eftir því hvort hann hefur á síðustu tólf mánuðum unnið samtals í a.m.k. 10 vikur í tryggingagjaldsskyldri vinnu, sbr. fyrsti málsl. 4. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 12/1997.

3.

Í bréfi mínu, dags. 10. mars 2003, til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta óskaði ég þess að nefndin upplýsti mig um með hvaða hætti kannað var hvort A væri gert að standa skil á tryggingagjaldi vegna eigin atvinnurekstrar. Í því sambandi minni ég á að hvorki varð ráðið af forsendum í úrskurði úrskurðarnefndarinnar né af þeim gögnum sem bárust mér með bréfi nefndarinnar, dags. 27. janúar 2003, að slík könnun hefði farið fram.

Í svari nefndarinnar, dags. 7. apríl 2003, rekur nefndin m.a. að í tilviki A sé ljóst að hann eigi og reki virðisaukaskattsbifreið. Heildarveltan vegna reksturs hennar hafi samkvæmt rekstrarreikningi verið kr. 265.761 á árinu 2002 og kr. 335.000 á árinu 2001. Með bréfinu fylgdi yfirlit yfir virðisaukaskattskil A árin 2001 og 2002, prentað út úr tölvukerfi ríkisskattstjóra, og afrit af fylgiskjali nr. 4.10, rekstraryfirlit, með skattframtali hans árið 2002. Umrædd gögn fylgdu ekki fyrra bréfi úrskurðarnefndarinnar til mín, dags. 27. janúar 2003.

Ekki verður séð af skýringum nefndarinnar til mín, þeim gögnum sem þeim fylgdu eða úrskurði nefndarinnar í málinu að aflað hafi verið gagna frá skattyfirvöldum eða A sjálfum um skyldu hans til að standa skil á tryggingagjaldi vegna eigin atvinnurekstrar. Skýringar úrskurðarnefndarinnar til mín benda fremur til þess að nefndin hafi talið sér fært að meta það með sjálfstæðum hætti á grundvelli upplýsinga um „heildarveltu“ á tilteknu tímabili hvort A hafi verið skylt að standa skil á tryggingagjaldi og tekið við það mat mið af almennum upplýsingum frá ríkisskattstjóra um tilteknar viðmiðunarfjárhæðir.

Á grundvelli 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ber stjórnvaldi að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Það er eins og fyrr greinir skilyrði þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur teljist sjálfstætt starfandi í skilningi 1. tölul. 1. gr. reglugerðar nr. 740/1997, sbr. nú reglugerð 316/2003, að honum sé „gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglubundnum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi“. Þá kemur fram í 4. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 12/1997 að til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi skuli miða við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi síðustu tólf mánuði. Með þessum ákvæðum er vísað til skyldu aðila til að standa skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi samkvæmt þeim lagareglum sem um þá skyldu gilda, sbr. einkum lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald. Af ákvæðum þeirra laga leiðir að það er hlutverk viðkomandi skattstjóra að taka ákvörðun um álagningu tryggingagjalds, sbr. m.a. V. kafla laganna. Í ljósi þessa tel ég að þegar úrskurðarnefndin tekur ákvörðun um hvort telja beri umsækjanda um bætur vegna atvinnuleysis sjálfstætt starfandi í merkingu 1. tölul. 1. gr. reglugerðar nr. 740/1997, sbr. nú reglugerð nr. 316/2003, þurfi nefndin að jafnaði að afla sér þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru til að ljóst sé hvort umsækjandi starfi við eigin atvinnurekstur í því umfangi að honum sé samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda gert að standa með reglubundnum hætti skil á tryggingagjaldi. Slík upplýsingaöflun kann eftir atvikum að eiga sér stað hjá viðkomandi skattyfirvöldum en nefndin gæti einnig hugsanlega aflað þeirra hjá þeim sem sótt hefur um atvinnuleysisbætur.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða mín að ekki verði séð af úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta frá 6. janúar 2003, eða af þeim skýringum og gögnum sem nefndin hefur látið mér í té vegna kvörtunar A, að nefndin hafi með fullnægjandi hætti, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, kannað hvort A hafði verið gert að standa skil á tryggingagjaldi vegna eigin atvinnurekstrar í skilningi 1. tölul. 1. gr. reglugerðar nr. 740/1997. Tel ég að nefndinni hefði borið, áður en hún tók afstöðu til umrædds álitaefnis, að afla upplýsinga um hvort skattyfirvöld hefðu tekið afstöðu til þessa atriðis enda lá ekki fyrir að A hefði fallist á slíka gjaldskyldu t.d. með skattskilum sínum eða sérstakri yfirlýsingu þar að lútandi. Auk þess tel ég að fyrri úrskurður úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta í máli A frá 25. febrúar 2002 og niðurstaða nefndarinnar þar hafi eins og atvikum var háttað átt að gefa henni sérstakt tilefni til þess að afla upplýsinga um þetta atriði við meðferð þessa máls.

Ég tel rétt í þessu sambandi að minna á að í bréfi frá skattstjóra Vesturlandsumdæmis, dags. 3. mars 2003, sem lögmaður A afhenti mér með bréfi, dags. 5. s.m., kemur fram að A hafi ekki reiknað sér endurgjald tekjuárin 1999, 2000 og 2001. Við álagningu árið 2002, þ.e. vegna tekjuársins 2001, hafi honum verið áætlað reiknað endurgjald og lagt á hann tryggingagjald samkvæmt því. Það endurgjald og álagt tryggingagjald hafi hins vegar verið fellt niður þar sem hann hafi ekki verið með reiknað endurgjald vegna rekstrar. Framangreindar upplýsingar ná ekki til tekjuársins 2002 en mál þetta lýtur að rétti A til atvinnuleysisbóta það ár. Enda þótt ljóst sé að þessar upplýsingar frá skattyfirvöldum hefðu ekki getað ráðið úrslitum við úrlausn um hvort A teldist sjálfstætt starfandi í merkingu 1. tölul. 1. gr. reglugerðar nr. 740/1997 tel ég að þær hefðu þó leitt til þess, hefðu þær legið fyrir hjá nefndinni, að nauðsynlegt hefði verið fyrir úrskurðarnefndina að kanna hvort einhverjar breytingar hefðu orðið á afstöðu skattyfirvalda til skyldu A til að greiða tryggingagjald.

4.

Eins og ráðið verður af umfjöllun minni hér að framan verður ekki annað séð en að misræmi sé milli þeirra forsendna sem úrskurðarnefndin lagði til grundvallar í úrskurði sínum 6. janúar 2003, um að A hafi verið sjálfstætt starfandi, sbr. 1. tölul. 1. gr. reglugerðar nr. 740/1997, og þeirra skýringa sem nefndin lét mér í té með bréfi sínu, dags. 7. apríl 2003. Af því tilefni tek ég fram að samkvæmt ákvæði 4. tölul. 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 1. mgr. 22. gr. sömu laga, ber stjórnvaldi á kærustigi að gera með fullnægjandi hætti grein fyrir þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi eru við mat á réttarstöðu aðila máls. Í umræddum úrskurði frá 6. janúar 2003 er ekki byggt á því að úrlausn um það hvort A félli undir 1. gr. reglugerðar nr. 740/1997 væri byggð á því hvort honum væri gert að standa skil á tryggingagjaldi með þeim hætti sem lýst er í ákvæðinu. Þar er einungis byggt á því eins og fyrr greinir að hann hafi átt sendibifreið með virðisaukaskattsnúmeri og haft af henni leigutekjur. Á hinn bóginn er því lýst í skýringarbréfi til mín að nefndin sé sammála framangreindu sjónarmiði um túlkun og beitingu 1. gr. reglugerðar nr. 740/1997 sem áður hafði komið fram í áliti mínu frá 30. apríl 2001. Þá er af hálfu nefndarinnar vísað til gagna um „heildarveltu“ á árinu 2002 og um skil A á virðisaukaskatti til stuðnings þeirri úrlausn nefndarinnar að honum hafi borið að standa skil á tryggingagjaldi.

Hafi nefndin í raun lagt til grundvallar sjónarmið um tryggingagjaldsskyldu A við úrlausn á kæru hans fæ ég ekki séð að þess hafi verið gætt að gera grein fyrir því í úrskurði nefndarinnar frá 6. janúar 2003. Úrskurðurinn var því að þessu leyti ekki í samræmi við ofangreindan 4. tölul. 31. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 1. mgr. 22. gr. sömu laga.

Eins og vikið er að í kvörtun A, og lýst er nánar í kafla II hér að framan, fjallaði úrskurðarnefndin í eldri úrskurði frá 25. febrúar 2002 um kæru A vegna synjunar úthlutunarnefndar fyrir Vesturland á umsókn hans um atvinnuleysisbætur, dags. 21. nóvember 2001. Í þeim úrskurði nefndarinnar er rakið orðrétt að í málinu liggi fyrir að A sé „skráður með virðisaukaskattsnúmerið [...] og skráður eigandi bifreiðarinnar [...] sem hann [noti] vegna atvinnu sinnar“. Í úrskurðinum var það hins vegar niðurstaða úrskurðarnefndarinnar með vísan til upplýsinga frá embætti ríkisskattstjóra um að A greiddi ekki tryggingagjald að hann væri ekki sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 1. tölul. 1. gr. reglugerðar nr. 740/1997. Þar sem A hafði byggt á því við meðferð þessa máls hjá nefndinni að atvik þess væru þau sömu og lágu fyrir úrskurðarnefndinni í fyrra málinu tekur nefndin fram í úrskurði sínum 6. janúar 2003, sem hér er til umfjöllunar, að samkvæmt gögnum fyrra málsins hafi ekki legið „nægilega skýrt fyrir að [A] væri eigandi virðisaukaskattsbifreiðar sem hann leigði út í atvinnuskyni [...]“. Þá segir í úrskurðinum að samkvæmt þeim gögnum sem nú liggi fyrir sé ljóst að hann sé eigandi sendibifreiðar sem skráð sé sem virðisaukaskattsbifreið og leigð út í atvinnuskyni.

Það leiðir beint af tilvitnuðum forsendum í úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta frá 25. febrúar 2002 að þá lagði nefndin til grundvallar að A væri skráður með virðisaukaskattsnúmer og er þeirri aðstöðu lýst í samhengi við það að hann sé skráður eigandi bifreiðar sem hann noti vegna atvinnu sinnar. Ég fæ þannig ekki séð hvernig nefndin getur með málefnalegum hætti lagt til grundvallar í úrskurðinum frá 6. janúar 2003, til aðgreiningar frá afstöðu hennar í fyrri úrskurði sínum í máli A, að ekki hafi legið „nægilega skýrt fyrir“ að hann ætti umrædda bifreið sem leigð væri út í atvinnuskyni. Miðað við forsendur nefndarinnar í fyrri úrskurði sínum var a.m.k. ljóst að A, sem skráður var með virðisaukaskattsnúmer, átti bifreið sem hann notaði vegna atvinnu sinnar. Eins og atvikum og kæru A til úrskurðarnefndarinnar var háttað tel ég samkvæmt framangreindu að nefndin hafi ekki fært fyrir því fullnægjandi rök í úrskurðinum 6. janúar 2003 að framangreind aðstaða hafi réttlætt þann efnislega greinarmun á forsendum og niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í þeim úrskurði í ljósi fyrri úrskurðar hennar í máli A.

5.

Í tilefni af umfjöllun minni um mál þetta hef ég, eins og lýst er hér að framan, einkum beint sjónum mínum að því hvort úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta hafi í úrskurði sínum frá 6. janúar 2003 fjallað um og kannað með réttum hætti hvort A fullnægði skilyrðum 1. tölul. 1. gr. reglugerðar nr. 740/1997 til að teljast sjálfstætt starfandi einstaklingur. Í ljósi þeirra annmarka sem ég tel vera á umræddum úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta í máli A tel ég ekki tilefni til að fjalla frekar um önnur atriði er kvörtun hans beinist að.

V.

Niðurstaða.

Samkvæmt því sem að framan er rakið er það niðurstaða mín að úrskurður úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta frá 6. janúar 2003 í máli A hafi ekki verið í samræmi við lög. Þá tel ég að úrskurðarnefndin hafi ekki gætt 10. gr. stjórnsýslulaga við úrlausn á kæru A. Loks tel ég að úrskurðarnefndin hafi ekki gætt þess að öllu leyti að haga rökstuðningi í úrskurðinum í samræmi við 4. tölul. 31. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 1. mgr. 22. gr. sömu laga.

Ég tel rétt að beina þeim tilmælum til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að hún taki mál A fyrir að nýju, komi fram beiðni þess efnis frá honum, og taki þá mið af þeim sjónarmiðum sem fram koma í áliti þessu.

VI.

Með bréfi til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta, dags. 29. janúar 2004, óskaði ég eftir upplýsingum um hvort A hefði leitað til nefndarinnar á ný og þá hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar af því tilefni eða hvort málið væri enn til meðferðar. Í svarbréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 16. febrúar 2004, sagði meðal annars eftirfarandi:

„Því er til að svara að [A] leitaði aftur til úrskurðarnefndarinnar. Úrskurðarnefndin felldi fyrri úrskurð sinn úr gildi og sendi málið til úthlutunarnefndar til endurákvörðunar. Úthlutunarnefndin ákvarðaði [A] 100% bætur frá 30. október 2002 sbr. meðfylgjandi afrit úr fundargerð úthlutunarnefndar Vesturlands.“