Atvinnuleysistryggingar. Endurkrafa ofgreiddra bóta.

(Mál nr. 12453/2023)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti ákvörðun Vinnumálastofnunar um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta. Grundvöllur endurgreiðslukröfunnar væri vegna fyrirframgreidds arfs en á vefsíðu Vinnumálastofnunar kæmi fram að arfur væri undanþeginn skerðingu atvinnuleysisbóta. 

Fyrir lá að ástæða endurgreiðslukröfunnar voru fjármagnstekjur, sem ekki hafði verið gert ráð fyrir í tekjuáætlun, vegna hagnaðar af sölu hlutabréfa og sumarbústaðarlands. Viðkomandi byggði á að hann hefði eignast hlutdeild í sumarbústaðarlóðinni fyrir tilstuðlan fyrirframgreidds arfs og nýtt aðra ótengda fyrirframgreiðslu arfs til þess að fjárfesta í hlutabréfunum. Sala þessara hluta gæti því ekki hafa myndað fjármagnstekjur í þeim skilningi sem ætti við.  

Samkvæmt lögum um tekjuskatt verður ekki annað ráðið en að fjármunir sem myndast við hagnýtingu arfþega á fyrirframgreiddum arfi sínum teljist til fjármagnstekna í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar við þær aðstæður sem þarna voru uppi. Ekki voru því forsendur til að gera athugasemd við niðurstöður nefndarinnar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 5. apríl 2024.

  

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar 12. nóvember 2023, sem þér beinið að úrskurðarnefnd velferðarmála, vegna úrskurðar hennar 31. október 2023 í máli nr. 386/2023. Með úrskurðinum var staðfest ákvörðun Vinnumálastofnunar 22. maí þess árs um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta sem þér þáðuð í júní og júlí árið 2021. Af kvörtun yðar verður ráðið að þér teljið framangreindan úrskurð vera í ósamræmi við lög, öðru fremur af þeirri ástæðu að þeir fjármunir sem þér áskotnuðust á árinu 2021 og eru grundvöllur endurgreiðslukröfunnar, hafi komið til vegna fyrirframgreidds arfs. Að þessu leyti vísið þér til þess að á vefsvæði Vinnumálastofnunar komi fram að arfur sé undanþeginn skerðingu atvinnuleysisbóta.

Í tilefni af kvörtun yðar var úrskurðarnefndinni ritað bréf 22. nóvember 2023 þar sem þess var óskað að umboðsmanni yrði afhent afrit af gögnum málsins. Bárust þau 27. sama mánaðar.

  

II

Launamaður sem uppfyllir almenn skilyrði 13. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, telst tryggður samkvæmt lögunum nema annað leiði af einstökum ákvæðum þeirra. Samkvæmt 1. mgr. 33. gr. laganna öðlast sá sem telst tryggður í framangreindum skilningi, rétt til grunnatvinnuleysisbóta við upphaf tímabils samkvæmt 29. gr. í samræmi við tryggingarhlutfall sitt samkvæmt 15. eða 19. gr. nema annað leiði af lögunum. Sá sem telst tryggður öðlast einnig rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að þrjá mánuði frá þeim tíma er grunnatvinnuleysisbætur hafa verið greiddar í samtals hálfan mánuð, sbr. 1. mgr. gr. 32. gr. laganna.

Í 36. gr. laganna er fjallað um frádrátt vegna tekna. Í 1. mgr. greinarinnar kemur fram að þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða og atvinnuleysisbætur hans séu hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta, að viðbættu frítekjumarki samkvæmt 4. mgr., skuli skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Í 2. málslið lagagreinarinnar kemur fram að hið sama gildi m.a. um fjármagnstekjur hins tryggða.

Í 39. gr. laganna eru reglur um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Í 2. mgr. greinarinnar er tekið fram að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagninu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Í greinargerð sem fylgdi frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 kemur m.a. fram í athugasemdum við 39. gr. að með ákvæðinu sé gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun hafi heimildir til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta til samræmis við álagningu skattyfirvalda. Þannig sé gert ráð fyrir að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar. Kemur og fram að þetta eigi við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt út Atvinnuleysistryggingasjóði (þskj. 1078 – 742. mál á 132. löggjafarþingi 2005-2006).

  

III

Líkt og fram kemur í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í máli yðar mun hafa komið fram á skattframtali yðar að fjármagnstekjur yðar hafi á árinu 2021 numið 1.887.556 kr. Hafi þar til grundvallar aðallega legið hagnaður af sölu hlutabréfa að fjárhæð 223.399 kr. og hagnaður vegna sölu sumarbústaðarlands að fjárhæð 1.648.946 kr. Þá er í úrskurðinum tekið fram að í tekjuáætlun yðar hafi ekki verið gert ráð fyrir neinum fjármagnstekjum og hafi fjárhæð atvinnuleysisbóta tekið mið af því. Með vísan til þessa og áðurrakinna ákvæða 36. og 39. gr. laga nr. 54/2006 staðfesti úrskurðarnefndin ákvörðun Vinnumálastofnunar um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta.

Ágreiningur málsins fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála laut, eins og áður segir, að því að þér teljið að framangreindar fjárhæðir sem þér áskotnuðust árið 2021 séu fyrirframgreiddur arfur, sem geti ekki verið háður frádrætti á viðlíka hátt og gildi almennt um fjármagnstekjur samkvæmt 4. málslið 36. gr. laga nr. 54/2006. Hafi yður nánar tiltekið áskotnast þriðjungshlutdeild í sumarbústaðarlóðinni fyrir tilstuðlan fyrirframgreidds arfs árið 1999 ásamt því að hafa nýtt aðra ótengda fyrirframgreidda arfleiðslu til þess að fjárfesta í hlutabréfum í tilgreindu hlutafélagi. Sala sumarbústaðarlóðarinnar annars vegar og hlutabréfanna hins vegar um sumarið 2021 geti því ekki hafa myndað fjármagnstekjur til handa yður í framangreindum skilningi.

Áður er rakið að samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 er Vinnumálastofnun skylt, við leiðréttingu atvinnuleysisbóta samkvæmt ákvæðinu, að líta til álagningar skattyfirvalda. Í II. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er tilgreint hvað telst til skattskyldra tekna. Í 7. gr. þeirra laga kemur fram sú meginregla að skattskyldar tekjur teljist með þeim undantekningum og takmörkunum, er síðar greinir í ákvæðinu, hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir ekki máli hvaðan þær stafa eða í hvaða formi þær eru. Af 8. tölulið C. liðar ákvæðisins leiðir að undir þetta fellur hagnaður af sölu eigna, sbr. 12. til 27. gr. laganna. Í 1. mgr. 15. gr. laganna er tekið fram að hagnaður af sölu fasteigna teljist að fullu til skattskyldra tekna á söluári og ekki skipti máli hve lengi skattaðili hafi átt hina seldu eign. Þá segir í 1. mgr. 18. gr. laganna að hagnaður af sölu hlutabréfa teljist að fullu til skattskyldra tekna á söluári og skipti ekki máli hve lengi skattaðili hafi átt hin seldu hlutabréf. Í 3. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003 er tekið fram að tekjuskattur af fjármagnstekjum einstaklinga utan rekstrar skuli vera 22% af þeim tekjum. Til fjármagnstekna teljist í því sambandi tekjur samkvæmt 1. til 8. tölulið C-liðar 7. gr. laganna, þ.e. vextir, arður, leigutekjur, söluhagnaður og aðrar eignatekjur. Með vísan til framangreindra lagaákvæða verður því ekki annað ráðið en að fjármunir sem myndast við hagnýtingu arfþega á fyrirframgreiddum arfi sínum, teljist til fjármagnstekna í skilningi 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006, við þær aðstæður sem um ræðir í máli yðar.

Að því virtu og eftir að hafa kynnt mér úrskurð úrskurðarnefndarinnar og fyrirliggjandi gögn málsins tel ég mig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við niðurstöðu hennar um staðfestingu á ákvörðun Vinnumálastofnunar um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta vegna ársins 2021.

  

IV

Í samræmi við framangreint lýk ég meðferð minni á málinu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.