Heilbrigðismál. Eftirlit landlæknis. Málshraði. Tafir á málsmeðferð. Ábyrgð forstöðumanna undirstofnana. Yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir ráðherra. Frumkvæðisathugun.

(Mál nr. F124/2022)

Umboðsmaður Alþingis hefur lokið frumkvæðisathugun viðvíkjandi viðbrögðum heilbrigðisráðuneytisins við töfum á málsmeðferð kvörtunar­mála hjá embætti landlæknis. Tildrög athugunarinnar var erindi sem barst umboðsmanni Alþingis í ágúst 2022. Hafði viðkomandi sent kvörtun til landlæknis á grundvelli 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, í febrúar 2021 sem enn hafði ekki verið afgreidd af hálfu embættisins. Við athugun málsins kom í ljós að tafir á meðferð kvartana hjá embættinu voru almennar. Af hálfu landlæknis voru tafirnar einkum sagðar orsakast af auknum málafjölda og skorti á fullnægjandi fjárheimildum. Landlæknir hefði á liðnum árum ítrekað vakið athygli heilbrigðisráðherra á þessum almenna vanda. Þá hefði embættið gripið til ýmissa hagræðingar­ráðstafana á undanförnum árum til að mæta vandanum sem ekki virtust þó duga til.  Beindist athugun umboðsmanns einkum að því hvort heilbrigðisráðuneytið hefði brugðist með fullnægjandi hætti við þeirri stöðu sem uppi hefur verið að þessu leyti hjá embættinu á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda sinna.

Umboðsmaður rakti almenn sjónarmið um málshraða í stjórnsýslunni og ábyrgð landlæknis sem forstöðumanns embættisins. Sjónum var þó einkum beint að því að ráðherrar, sem séu í reynd æðstu hand­hafar framkvæmdarvaldsins, hver á sínu sviði, beri ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum eftir því sem nánar sé mælt fyrir um í lögum og hafi  jafnan bæði yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir gagnvart undirmönnum sínum í ráðuneytinu og undirstofnunum. Væri heilbrigðisráðherra kunnugt um kerfislægan vanda í starfsemi embættis landlæknis yrði þannig að leggja til grundvallar að á honum hvíldi almenn skylda til að gera viðeigandi ráðstafanir til úrbóta enda hefðu ráðstafanir forstöðumanns ekki náð tilætluðum árangri. Þannig færi ekki á milli mála að ráðuneyti heilbrigðismála bæri almenn skylda til að tryggja að gætt væri skráðra og óskráðra reglna stjórnsýsluréttarins við stjórnsýslu þeirra stofnana sem undir það heyra, m.a. þannig að úrlausn þeirra mála sem þær hefðu til meðferðar væri í skilvirkum farvegi í samræmi við lög. Yrði þá að miða við að afskipti og inngrip ráðuneytisins á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda þess væri með þeim hætti að brugðist væri við þeim vanda sem uppi væri með markvissum og raunhæfum hætti. Þessi viðbrögð gætu t.a.m. falist í að gera ráðstafanir til þess að nauðsynleg þekking og nægt starfsfólk væri tiltækt hjá undirstofnun svo henni væri unnt að sinna lögbundnum verkefnum sínum með viðhlítandi hætti, m.a. m.t.t. málshraða. Einnig ítrekaði hann þær rúmu heimildir til yfirstjórnunar og eftirlits sem ráðuneyti nýtur gagnvart undirstofnun sinni við þessar aðstæður, t.d. að því er lýtur að innra skipulagi, forgangsröðun og verkferlum. Gæti ráðuneytið á slíkum grundvelli m.a. lagt mat á hvort tiltækum mannauði og fjárheimildum sé ráðstafað með haganlegustum hætti m.t.t. verkefna undirstofnana.

Umboðsmaður gerði athugasemdir við að þær ráðgerðu lausnir á þessum vanda sem boðaðar hefðu verið af hálfu ráðuneytisins undanfarin ár hefðu að meginstefnu snúist um að tiltekin frumvörp til laga næðu fram að ganga Yrði þannig ekki ráðið af svörum ráðuneytisins að komið hefðu til álita aðrar aðgerðir sem gætu talist raunhæfar eða áhrifaríkar til lausnar vandans. Þótt tilteknar breytingar hafi verið gerðar á lögum nr. 41/2007, sem taki gildi 1. september nk., með það m.a. að markmiði að bregðast við umræddum vanda landlæknis, var það álit umboðsmanns að skort hefði á nægilega raunhæfar og markvissar aðgerðir af hálfu ráðuneytisins til lausnar á viðvarandi vanda embættisins viðvíkjandi óhæfilega löngum málsmeðferðartíma við afgreiðslu kvartana á grundvelli 12. gr. laga nr. 41/2007. Það voru því tilmæli umboðsmanns til ráðuneytisins að gripið yrði án tafar til raunhæfra og markvissra aðgerða í því skyni að fækka þeim málum sem nú þegar bíða afgreiðslu hjá landlækni.

   

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 6. maí 2024.

  

   

I Tildrög og afmörkun athugunar

Umboðsmanni Alþingis barst í ágúst 2022 erindi frá nafngreindum manni yfir því að kvörtun sem hann sendi landlækni í febrúar 2021 á grundvelli 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, hefði enn ekki verið afgreidd. Umboðsmaður lauk athugun sinni með vísan til þess að unnt væri að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu málsins til heilbrigðis­ráðuneytisins. Svör landlæknis við fyrirspurn umboðsmanns í tilefni kvörtunarinnar og gögn sem þeim fylgdu báru hins vegar með sér að málsmeðferðartími kvartana hjá embættinu væri almennt langur. Af hálfu landlæknis voru tafirnar einkum sagðar orsakast af auknum málafjölda og skorti á fullnægjandi fjár­heimildum. Í því sambandi var bent á að kostnaður vegna aðkeyptrar þjónustu sérfræðinga hefði aukist mikið. Hefði þetta m.a. valdið því að kvörtunarmál hefðu verið látin bíða þar sem fjármagn hefði skort til þess að afla umsagnar óháðs sér­fræðings í samræmi við 5. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007. Land­læknir hefði á liðnum árum ítrekað vakið athygli heilbrigðisráðherra á þessum almenna vanda. Þá hefði embættið gripið til ýmissa hagræðingar­ráðstafana á undanförnum árum til að mæta vandanum sem ekki virtust þó duga til.

Af þessu tilefni ákvað umboðsmaður, með vísan til frumkvæðis­heimildar sinnar, samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að taka tímalengd meðferðar kvörtunarmála hjá embætti landlæknis til athugunar á almennum grundvelli og þá með hliðsjón af þeim kröfum sem leiða af 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 til málshraða. Hefur athugunin einkum beinst að því hvort heilbrigðis­ráðuneytið hafi brugðist með fullnægjandi hætti við þeirri stöðu sem uppi hefur verið að þessu leyti hjá embættinu á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda sinna. 

   

II Samskipti umboðsmanns og heilbrigðisráðherra

Í bréfi til heilbrigðisráðherra 23. desember 2022 voru áðurlýst til­drög athugunar umboðsmanns rakin. Þá var óskað eftir því að upplýst yrði hvort og þá hvaða ráðagerðir væru uppi til að bæta úr þeim vanda sem virtist vera hjá embætti landlæknis. Í svari ráðuneytisins 31. janúar 2023 kom m.a. fram að ráðuneytið væri meðvitað um að málsmeðferðartími kvartana hjá embætti landlæknis væri langur. Fjöldi kvartana væri mikill auk þess sem málsmeðferð kvartana væri oft þung í vöfum, einkum þegar embættið aflaði umsagnar óháðs sér­fræðings. Af upplýsingum landlæknis um stöðu kvartana mætti ráða að málsmeðferðartími í meiri hluta kvörtunarmála væri lengri en þeir 12 til 24 mánuðir sem tilgreindir væru á vef embættisins sem algengur tími rannsóknar. Tekið var fram að málsmeðferðar­tími í mörgum kvörtunarmálum hefði dregist umfram það sem eðlilegt gæti talist með hliðsjón af málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslu­laga nr. 37/1993.

Varðandi aðgerðir ráðherra vegna afgreiðslutíma kvartana hjá land­lækni var í fyrsta lagi bent á frumvarp sem þáverandi heil­brigðis­ráðherra hafði lagt fram á 149. löggjafarþingi 2018-2019 þar sem gert var ráð fyrir breytingum á 12. gr. laga nr. 41/2007, um land­lækni og lýðheilsu. Það frumvarp hefði hins vegar ekki náð fram að ganga. Þá hefði ráðherra skipað starfs­hóp árið 2021 sem hefði haft það hlutverk að endur­skoða II. kafla laganna, þ. á m. 12. gr. þeirra um kvartanir. Verkefni hópsins hefði hins vegar reynst umfangsmeira en lagt hefði verið upp með og verið fært að nokkru leyti í aðra og afmarkaðri vinnuhópa.

Í svarbréfinu var í öðru lagi vikið að yfirstandandi aðgerðum sem taldar væru til þess fallnar að koma málsmeðferðartíma kvartana hjá embættinu í betra horf. Þannig hefði ráðherra um mitt síðastliðið ár skipað starfshóp um endurskoðun refsiábyrgðar heilbrigðisstarfsfólks. Meðal þess sem hópurinn hefði haft til skoðunar væri að færð yrði í lög heimild til handa landlækni til að vísa frá tilteknum kvörtunum þannig að ekki kæmi til rannsóknar á sömu atvikum á grundvelli bæði 10. og 12. gr. laga nr. 41/2007, eins og nú gæti gerst. Einnig væri til skoðunar hvort færa ætti kvartanir sem lytu að framkomu starfsfólks frá landlækni til forstöðu­manna viðkomandi heilbrigðisstofnana. Fram kom að framan­greindar breytingar á lögum yrðu til þess fallnar að fækka kvörtunar­málum hjá landlækni og þar með bæta málsmeðferðartíma vegna þeirra sem eftir stæðu. Jafnframt væri horft til þess í vinnu umrædds starfshóps að efla þyrfti starfsemi landlæknis er lyti að rannsóknum á alvarlegum atvikum og kvörtunarmálum.

Heilbrigðisráðherra var að nýju ritað bréf 24. febrúar 2023 þar sem óskað var eftir því að umboðsmaður yrði upplýstur nánar um hvort og þá hvenær hann teldi vinnu síðastnefnds starfshóps koma til með að skila árangri í bættum hraða málsmeðferðar hjá landlækni þannig að unnt yrði að vinna á þeim fjölda kvartana sem nú þegar væri þar til meðferðar. Þá var einnig óskað eftir því að ráðherra útskýrði nánar hvað fælist í fyrirætlan ráðuneytisins um eflingu starfsemi land­læknis er lyti að rannsóknum á alvarlegum atvikum og kvörtunarmálum og hvenær áætlað væri að aðgerðir í því sambandi kæmu til framkvæmda.  

Í svari ráðuneytisins 10. mars 2023 kom m.a. fram að á grundvelli vinnu umrædds starfshóps hefðu verið gerð drög að frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum, m.a. lögum um landlækni og lýðheilsu. Fyrir­hugað væri að leggja frumvarpið fram fyrir lok marsmánaðar og ráð gert fyrir því að það yrði samþykkt og tæki gildi sem lög 1. september 2023. Næði frum­varpið fram að ganga fengi embættið heimild til að ákveða hvort kvörtun gæfi næga ástæðu til rannsóknar eða hvort vísa ætti henni frá. Þá yrðu kvartanir er lytu að framkomu heilbrigðisstarfsmanna ekki lengur teknar til meðferðar hjá embættinu. Auk þessa myndi nýr málsliður bætast við 3. mgr. 12. gr. laganna sem kvæði á um að ef kvörtun varðaði atvik sem væri eða hefði verið til athugunar landlæknis á grund­velli annars ákvæðis um rannsókn á alvarlegum atvikum eða tilefni væri til að rannsaka á þeim grundvelli gæti embættið vísað málinu frá. Það væri því fyrirséð að ef breytingarnar næðu fram að ganga myndi kvörtunum sem teknar yrðu til meðferðar hjá embættinu fækka nokkuð og skapa rými til að vinna á þeim málahala sem hefði myndast í kvörtunarmálum.

Viðvíkjandi eflingu á starfsemi embættisins kom fram að samkvæmt mati ráðuneytisins á fjárhagsáhrifum frumvarpsins væri gert ráð fyrir að bæta þyrfti við einu til tveimur stöðugildum hjá embættinu sem myndu að mestu leyti koma til með að sinna rannsóknum á alvarlegum atvikum. Þá hefði ráðuneytið til skoðunar í tengslum við yfirstandandi vinnu við gerð fjármálaáætlunar frekari styrkingu embættisins til að sinna kvörtunarmálum sérstaklega. Niður­staða þeirrar vinnu lægi hins vegar ekki fyrir að svo stöddu.

Að lokum tók ráðuneytið fram að erfitt væri að leggja mat á hvenær afgreiðslu kvörtunarmála yrði komið í horf sem telja mætti eðlilegt með hliðsjón af 9. gr. stjórnsýslulaga. Fyrrgreindar lagabreytingar myndu þó skipta sköpum fyrir málsmeðferðartímann og vonir stæðu til að hann hefði styst nokkuð um mitt ár 2024 að því gefnu að breytingarnar tækju gildi 1. september 2023.

Rétt er að fram komi að meðan á athugun málsins stóð varð ljóst að framangreindar áætlanir um breytingar á lögum nr. 41/2007 fyrir 1. september 2023 myndu ekki ganga eftir. Frumvarpið var hins vegar endurflutt 20. sama mánaðar og samþykkt 16. desember þess árs sem lög nr. 103/2023 (154. löggj.þ. 2023–2024, 225. mál). Samkvæmt 8. gr. þeirra laga öðlast þau gildi 1. september 2024 að frátöldu bráðabirgðaákvæði þeirra sem tók gildi 1. janúar þess árs. Í bráðabirgðaákvæðinu segir að ráðherra skuli við upphaf árs 2024 skipa starfshóp sem falið verður að greina fyrirkomulag rannsókna á alvarlegum atvikum í heilbrigðisþjónustu með það að markmiði að greina hvaða fyrirkomulag er best til þess fallið að tryggja óháða málsmeðferð. Skal starfshópurinn skila tillögum til ráðherra fyrir lok apríl 2025. 

   

 III Álit umboðsmanns Alþingis

1 Lagalegur grundvöllur kvartana til embættis landlæknis og kröfur til málshraða í stjórnsýslunni

Samkvæmt lögum nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, er það m.a. hlut­­verk landlæknis að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heil­brigðisstarfsmönnum og sinna kvörtunum almennings vegna heilbrigðis­þjónustu, sbr. e- og j-lið 1. mgr. 4. gr. laganna, eins og þeim hefur síðar verið breytt.

Í 12. gr. laganna er nánar fjallað um kvartanir til landlæknis vegna heilbrigðisþjónustu, en samkvæmt 2. mgr. greinarinnar er m.a. heimilt að beina formlegri kvörtun til landlæknis vegna ætlaðrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu. Í 5. mgr. greinarinnar eru nánari fyrirmæli um meðferð landlæknis á slíkum kvörtunum. Þar er mælt fyrir um að landlæknir skuli að jafnaði afla umsagnar frá óháðum sér­fræðingi eða sérfræðingum þegar kvörtun lýtur að meintri vanrækslu eða mistökum við sjúkdómsgreiningu eða meðferð. Viðkomandi sérfræðingum, svo og landlækni sjálfum, sé rétt að kalla sjúkling til skoðunar ef sérstök ástæða þyki til. Um meðferð kvartana gildi að öðru leyti ákvæði stjórnsýslulaga eftir því sem við geti átt. Þá segir í málsgreininni að landlæknir gefi skriflegt álit að lokinni málsmeðferð. Hann skuli í áliti sínu tilgreina efni kvörtunarinnar, málsatvik og rök fyrir niðurstöðu sinni. Aðalniðurstöðu skuli draga saman í lok álits.

Af framangreindu er ljóst að við ákveðnar aðstæður er gert ráð fyrir nokkuð ítarlegri rannsókn máls af hálfu landlæknis. Í 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er hins vegar áréttuð sú grundvallar­regla að ákvarðanir í málum innan stjórnsýslunnar skuli teknar eins fljótt og auðið er. Í reglunni felst að ekki megi vera um óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls að ræða. Í athugasemdum við frum­varp það er varð að stjórn­sýslulögum kemur fram að reglan um málshraða sé byggð á óskráðri megin­reglu stjórnsýsluréttar sem hafi víðtækara gildissvið en umrætt laga­ákvæði (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3292). Verður því að leggja til grundvallar að stjórnvöldum sé skylt, hvort sem um er að ræða ákvarðanir sem stjórn­sýslulögin gilda um eða aðra stjórnsýsluframkvæmd, að haga afgreiðslu þeirra mála sem þau fjalla um í samræmi við þessa meginreglu. Ber þeim þ.a.l. að gera eðlilegar ráðstafanir til þess að þau séu til lykta leidd eins fljótt og unnt er, sbr. til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis 21. nóvember 2022 í máli nr. 11410/2021. Í 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga er sérstaklega mælt fyrir um það að þegar fyrir­sjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast beri stjórnvaldi að skýra aðila þess frá því. Skuli þá upplýst um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta.

Þegar stjórnvöldum hefur ekki verið settur ákveðinn frestur til málsmeðferðar með lögum er almennt miðað við að afgreiða beri mál í þeirri tímaröð sem þau berast. Hér þarf þó að hafa í huga að við mat á því hvort brotið hafi verið gegn málshraða­reglu stjórnsýsluréttarins þarf að hafa hliðsjón af atvikum máls, eðli þess og umfangi, ekki síst hversu mikilsverða hagsmuni máls­aðila þau varða, sbr. álit umboðsmanns Alþingis 4. október 2001 í máli nr. 2907/1999. Af þessu leiðir að forstöðumenn stofnana hafa heimildir til að forgangs­raða málum, að því gefnu að slík ráðstöfun sé reist á málefnalegum sjónarmiðum.  

  

2 Ábyrgð landlæknis sem forstöðumanns

Í 1. málslið 2. mgr. 2. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, segir að landlæknir beri ábyrgð á að embættið, sem hann stýrir, starfi í samræmi við lög, stjórnvalds­fyrirmæli og erindisbréf. Er ákvæðið í samræmi við almennar skyldur forstöðumanna eins og þeim er lýst í 1. málslið 2. mgr. 38. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfs­manna ríkisins. Samkvæmt þessu hvílir sú skylda á landlækni, líkt og öðrum forstöðumönnum stofnana og embætta, að sjá til þess að máls­hraðaregla stjórnsýsluréttar sé virt við meðferð mála. Nægir þá ekki að forstöðumaður gefi út almenn fyrirmæli að þessu leyti heldur ber honum að tryggja með raunhæfum ráðstöfunum, eftir því sem kostur er, að hraði málsmeðferðar sé í reynd viðhlítandi.

Samkvæmt þessu ber forstöðumanni m.a. að greina þær kröfur til málsmeðferðar sem fullnægja skal, að teknu tilliti til þeirra réttarreglna sem gilda um hlutaðeigandi svið, og skipuleggja verkferla með það fyrir augum að undirbúningur, ­meðferð og úrlausn mála sé í samræmi við þær. Svo sem áður segir hefur forstöðumaður við slíka skipulagningu heimild til þess að forgangsraða málum, bæði milli sviða og innan þeirra, að því gefnu að slík ráðstöfun sé reist á málefnalegum sjónarmiðum. Þá er virkt innra eftirlit með því að vinnubrögð séu í samræmi við fyrirliggjandi verkferla jafnan þáttur í slíkum ráðstöfunum. Liggi fyrir að ekki sé unnt að afgreiða mál í samræmi við kröfur stjórnsýslulaga um málsmeðferðartíma ber að gæta 3. mgr. 9. gr. laganna þess efnis að aðila máls sé skýrt frá töfum, hann upplýstur um ástæður þeirra og hvenær ákvörðunar sé að vænta.

Í fyrrgreindu svari ráðuneytisins til mín 31. janúar 2023 kemur fram að af upplýsingum landlæknis um stöðu kvartana megi ráða að tímalengd við meðferð meiri hluta kvörtunarmála sé lengri en þeir 12 til 24 mánuðir sem greini á vef embættisins að sé algengur tími rannsóknar. Af kvörtunum og ábendingum sem borist hafa umboðsmanni er jafnframt ljóst að óviðunandi tafir á afgreiðslu kvörtunarmála á grundvelli 12. gr. laga nr. 41/2007 hjá landlækni hafa verið viðvarandi yfir lengri tíma.

Áður hefur komið fram af hálfu landlæknis að tafirnar hafi fyrst og fremst stafað af auknum málafjölda og skorti á fullnægjandi fjár­heimildum. Hafi landlæknir ítrekað vakið athygli heilbrigðis­ráðherra á þessum almenna vanda og gripið til ýmissa hagræðingarráðstafana á undanförnum árum í viðleitni sinni til að bregðast við stöðunni. Hvað sem því líður tel ég liggja fyrir að afgreiðslutími landlæknis við meðferð kvörtunarmála hefur, á þeim tíma sem athugun mín hefur tekið til, jafnan ekki samrýmst þeim kröfum sem gerðar eru til málshraða samkvæmt 1. mgr. 9. gr. stjórn­sýslulaga nr. 37/1993.

Svo sem áður greinir hefur athugun mín fyrst og fremst beinst að viðbrögðum heilbrigðisráðherra vegna þeirrar stöðu hjá landlækni sem áður er lýst. Hef ég því ekki lagt sérstakt mat á einstakar aðgerðir landlæknis til að sporna við hinum langa málsmeðferðartíma kvartana.

  

 3 Viðbrögð heilbrigðisráðherra

Ráðherrar eru í reynd æðstu handhafar framkvæmdarvaldsins, hver á sínu sviði, og bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum, sbr. 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt þessu er stjórnarframkvæmd á málefna­sviði ráðherra jafnframt undir yfirstjórn hans, séu ekki á því gerðar undantekningar með lögum. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands, kemur fram að af almennum yfirstjórnunar­heimildum ráðherra og stjórnar­skrárbundinni ábyrgð hans á stjórnar­framkvæmdum leiði að á honum hvíli einnig almennar eftirlits­skyldur með þeirri framkvæmd stjórnar­málefna er undir hann heyra, bæði þeirri sem fram fer á vegum viðkomandi ráðuneytis og annarra stjórn­valda, nema á því séu gerðar undantekningar með lögum (Alþt. 2010-2011, A-deild, bls. 6653-6654). Af þessu leiðir að ráðherra hefur jafnan bæði yfirstjórnunar- og eftirlits­heimildir gagnvart undirmönnum sínum í ráðuneytinu og undir­stofnunum.

Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, fer heilbrigðisráðherra með yfirstjórn mála er varða embætti landlæknis og ber sá ráðherra því lagalega og stjórnskipulega ábyrgð á málefnum embættisins, sbr. nánari ákvæði IV. kafla laga nr. 115/2011 og 14. gr. stjórnarskrárinnar. Andspænis kerfislægum vandkvæðum í starfsemi embættisins, sem heilbrigðisráðherra má vera kunnugt um, verður því að leggja til grundvallar að á honum hvíli almenn skylda til að gera viðeigandi ráðstafanir til úrbóta, enda hafi ráðstafanir forstöðumanns ekki náð tilætluðum árangri (sjá til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis 7. júlí 2009 í máli nr. 5718/2009 og Hafsteinn Dan Kristjánsson: Ekki batnar allt, þó bíði. Rannsóknir í félagsvísindum XI, Reykjavík 2010, bls. 76-79.) Er minnt á að við slíkar aðgerðir hefur ráðherra víðtækar heimildir sem leiða af almennum reglum stjórnskipunarinnar og nánar eru útfærðar í fyrrnefndum IV. kafla laga nr. 115/2011.

Á grundvelli 2. mgr. 12. gr. laga nr. 115/2011 getur ráðherra m.a. gefið stjórnvaldi almenn og sérstök fyrirmæli um starfrækslu á verkefnum þess, fjárreiður og meðferð eigna enda mæli lög eða eðli máls því ekki í mót. Ráðherra hefur þannig heimild til að beina almennum fyrirmælum til stjórnvalds, sem lýtur yfirstjórn hans, um innri málefni þess, m.a. í því skyni að tryggja skilvirkni. Slík fyrirmæli geta verið almenns eðlis þannig að í þeim komi fram almenn sjónarmið eða viðhorf um túlkun, stefnumörkun eða leiðbeiningar. Þau geta þó einnig varðað einstök mál hjá viðkomandi stjórnvaldi (sjá til hliðsjónar Trausti Fannar Valsson: Stjórnsýslu­kerfið, Reykjavík 2019, bls. 151-152).

Samkvæmt þessu geta ráðstafanir ráðuneytis í þágu yfirstjórnunar og eftirlits t.a.m. falist í því að kanna hvort fyrir hendi sé nægt starfsfólk og nauðsynleg þekking innan stofnunar en einnig hvort tiltækum mannauði og fjárheimildum sé ráðstafað með skynsamlegum hætti. Leiði sú athugun í ljós að skorti á skipulag eða verkferla, sem nauðsynlegir eru til að tryggja að þeim verkefnum sem stjórnvaldi ber að rækja samkvæmt lögum sé sinnt með viðhlítandi hætti, kann að skapast skylda fyrir ráðherra til að bregðast við. Sama á við ef athugun ráðuneytis leiðir í ljós að verklag sé ekki nægilega skilvirkt, s.s. vegna ófullnægjandi forgangsröðunar. Svo sem áður segir getur ráðuneyti þá að jafnaði á slíkum grundvelli gefið stofnun sem undir það heyrir almenn og sérstök fyrirmæli um starfrækslu á verkefnum þess, fjárreiður og meðferð eigna eða veitt henni leiðbeiningar.

Samkvæmt framangreindu fer ekki á milli mála að ráðuneyti heilbrigðismála ber almenn skylda til að tryggja að gætt sé skráðra og óskráðra reglna stjórnsýslu­réttarins við stjórnsýslu þeirra stofnana sem undir það heyra, m.a. þannig að úrlausn þeirra mála sem þær hafa til meðferðar sé í skilvirkum farvegi í samræmi við þær lagareglur sem áður greinir, sbr. t.d. álit umboðsmanns Alþingis 16. apríl 2019 í máli nr. 9606/2018. Verður þá að miða við að afskipti og inngrip ráðuneytisins á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda þess séu með þeim hætti að brugðist sé við þeim vanda sem uppi er með markvissum og raunhæfum hætti, s.s. með viðeigandi fyrirmælum, áætlunum eða leiðbeiningum.

Samkvæmt upplýsingum frá landlækni til ráðuneytisins 21. febrúar 2023 voru 403 kvartanir óafgreiddar samkvæmt málaskrá embættisins samanborið við 341 kvörtun í árslok 2021. Er þ.a.l. ljóst að vandi embættisins við að afgreiða kvartanir innan hæfilegs tíma hefur verið umfangsmikill um nokkurt skeið og farið vaxandi. Þær ráðgerðu lausnir á þessum vanda sem boðaðar hafa verið af hálfu ráðu­neytisins undanfarin ár hafa hins vegar að meginstefnu snúist um að tiltekin frumvörp til laga næðu fram að ganga. Verður þannig ekki ráðið af svörum ráðuneytisins að komið hafi til álita aðrar aðgerðir sem talist gætu raunhæfar eða áhrifaríkar til lausnar vandans. Í því sambandi tek ég fram að ég fæ ekki ráðið af gögnum málsins að ráðuneytið hafi á einhverjum tíma tekið markvissa afstöðu til þeirra ráðstafana til úrbóta sem landlæknir mun sjálfur hafa gripið til og áður er vikið að.

Ég legg áherslu á að það ráðuneyti sem fer með yfirstjórn viðkomandi málaflokks ber m.a. að gera ráðstafanir til þess að nauðsynleg þekking og nægt starfsfólk sé tiltækt hjá undirstofnun svo henni sé unnt að sinna lögbundnum verkefnum sínum með viðhlítandi hætti, m.a. m.t.t. málshraða. Einnig ítreka ég þær rúmu heimildir til yfirstjórnunar og eftirlits sem ráðuneyti nýtur gagnvart undirstofnun sinni við þessar aðstæður, t.d. að því er lýtur að innra skipulagi, forgangsröðun og verkferlum. Getur ráðuneytið á slíkum grundvelli m.a. lagt mat á hvort tiltækum mannauði og fjárheimildum sé ráðstafað með haganlegustum hætti m.t.t. verkefna undirstofnunar.

Samkvæmt öllu framangreindu er það álit mitt að skort hafi á nægilega raunhæfar og markvissar aðgerðir ráðuneytisins til lausnar á þeim vanda sem áður er gerð grein fyrir viðvíkjandi málsmeðferðartíma landlæknis við afgreiðslu kvartana á grundvelli 12. gr. laga nr. 41/2007.

   

IV Niðurstaða

Það er álit mitt að skort hafi á nægilega raunhæfar og markvissar aðgerðir af hálfu heilbrigðisráðuneytisins til lausnar á viðvarandi vanda embættis landlæknis viðvíkjandi óhæfilega löngum málsmeðferðar­tíma við afgreiðslu kvartana á grundvelli 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu.

Fyrir liggur að gerðar hafa verið breytingar á lögum nr. 41/2007 með það m.a. að markmiði að bregðast við umræddum vanda landlæknis og taka þær gildi 1. september nk. Ég hef ekki forsendur til að leggja mat á að hvaða marki þessar lagabreytingar muni hafa áhrif til lausnar á þeim vanda sem hér um ræðir. Hvað sem því líður eru það tilmæli mín til ráðu­neytisins að gripið verði án tafar til raunhæfra og markvissra aðgerða í því skyni að fækka þeim málum sem nú þegar bíða afgreiðslu hjá landlækni. Þá eru það tilmæli mín til ráðuneytisins að það hafi framvegis í huga þau sjónarmið sem rakin eru í álitinu.