Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Málshraði.

(Mál nr. 12508/2023)

Kvartað var yfir því að Orkustofnun hefði ekki brugðist við kvörtun frá því í desember 2021 og ekki svarað erindum í kjölfarið.

Málið hafði komið til kasta umboðsmanns í tvígang áður og stofnunin þá m.a. greint frá því í júní 2023 að afgreiðsla þess yrði sett í hæsta forgang. Í janúar 2024 greindi Orkustofnun frá því, í kjölfar fyrirspurnar umboðmanns, að hún sæi fram á að ákvörðun yrði send og birt opinberlega „strax í næstu viku“. Í lok janúar upplýsti Orkustofnun að tafir yrðu á birtingunni. Ákvörðunin var svo birt fyrri hluta mars en í millitíðinni hafði umboðsmaður enn grennslast fyrir um málsmeðferðina. Þar sem kvörtunin laut að töfum var ekki ástæða til að aðhafast frekar hvað þetta mál snerti en það varð umboðsmanni þó tilefni til að senda Orkustofnun ábendingar vegna málshraða og afgreiðslutíma hjá stofnuninni og óska eftir frekari upplýsingum þar að lútandi. Var þar m.a. höfð í huga heimild umboðsmanns til að hefja almenna athugun á starfsemi og málsmeðferð stjórnvalds að eigin frumkvæði.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 17. maí 2024.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 13. desember 2023 f.h. A ehf. yfir því að Orkustofnun hafi ekki brugðist við kvörtun félagsins til stofnunarinnar frá desember 2021 í tengslum við fyrirkomulag hleðslubúnaðar í fjölbýlishúsum og ekki svarað tilteknum erindum þess í tengslum við kvörtunina í kjölfarið.

Málið hefur áður komið til kasta umboðsmanns í tilefni tveggja kvartana yðar f.h. félagsins er lutu að sömu atriðum (mál nr. 12220/2023 og 12343/2023 í málaskrá embættisins). Óskaði umboðsmaður eftir upplýsingum um hvað liði meðferð og afgreiðslu málsins með bréfum 2. júní og 6. september 2023. Í svarbréfi stofnunarinnar 20. júní þess árs kom m.a. fram að stofnunin hefði óskað eftir fundi með Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og að þeim fundi loknum myndi stofnunin upplýsa félagið um næstu skref og hvenær niðurstöðu væri að vænta. Þá kom fram í svarbréfi stofnunarinnar 22. september 2023 að málið væri tekið alvarlega og afgreiðsla þess yrði sett í „hæsta forgang“, svo og að stofnunin hefði ekki sinnt því að skýra félaginu frá fyrirsjáanlegum töfum á afgreiðslu málsins í samræmi við 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í tilefni af kvörtun yðar nú var Orkustofnun enn ritað bréf 19. desember 2023 þar sem óskað var upplýsinga um hvað liði meðferð og afgreiðslu málsins. Í svari stofnunarinnar 18. janúar sl. kom fram að raforkueftirlit hennar „[sæi] fram á að ákvörðunin [yrði] send aðilum máls og birt opinberlega strax í næstu viku.“ Þá kom fram að stofnunin hefði upplýst A um þetta. Með tölvubréfi 19. janúar sl. var stofnuninni tilkynnt að umboðsmaður hygðist fylgjast áfram með framvindu málsins. Var þess óskað að hún tilkynnti umboðsmanni þegar ákvörðun í málinu hefði verið birt í samræmi við fyrirheit stofnunarinnar um lúkningu málsins. Með tölvubréfi 29. janúar sl. upplýsti starfsmaður Orkustofnunar umboðsmann um að tafir yrðu á birtingu ákvörðunar í málinu og munuð þér jafnframt hafa verið upplýstir um það. Með tölvubréfi 19. febrúar sl. upplýstuð þér umboðsmann hins vegar um að ákvörðunin hefði enn ekki verið birt og engar frekari tilkynningar um framvindu málsins borist.

Af því tilefni óskaði umboðsmaður með bréfi 20. febrúar sl. að nýju eftir upplýsingum um stöðu málsins. Þess var enn fremur óskað að stofnunin veitti upplýsingar um samskipti hennar við A, s.s. hvort félaginu hefði verið tilkynnt um fyrirsjáanlegar tafir, ástæður þeirra og hvenær ákvörðunar mætti vænta, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 37/1993, og ef svo væri, að stofnunin afhenti umboðsmanni afrit þeirra. Með bréfi 8. mars sl. tilkynnti stofnunin umboðsmanni að ákvörðun í málinu hefði verið birt aðilum þess sama dag, þ.m.t. A. Í bréfinu., sem fylgir hjálagt bréfi þessu í ljósriti, kemur fram að málið hefði verið tímafrekt, enda verið tæknilega flókið og falið í sér margþætt álitaefni. Þá segir að ekki hafi reynst unnt að ljúka innan þeirra tímamarka sem upp voru gefin í bréfi stofnunarinnar 18. janúar sl. vegna veikinda starfsmanns.

Þar sem kvörtunin lýtur að töfum, og í ljósi þess að nú hefur Orkustofnun tekið ákvörðun í málinu, tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtuninni að svo stöddu. Læt ég því athugun minni vegna kvörtunarinnar lokið, sbr. a-liður 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis. Málið hefur þó orðið mér tilefni til að rita Orkustofnun hjálagt bréf þar sem ég hef komið á framfæri ábendingu um málshraða og afgreiðslutíma mála hjá stofnuninni auk þess sem óskað er eftir því að stofnunin veiti umboðsmanni nánar tilgreindar upplýsingar að því leyti. Er þá m.a. höfð í huga sú heimild sem umboðsmanni er fengin samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/1997 til að hefja almenna athugun á starfsemi og málsmeðferð stjórnvalds.

     


 

  

Bréf umboðsmanns til Orkustofnunar 17. maí 2024.

 

Vísað er til fyrri bréfaskipta vegna kvörtunar sem B, lögmaður, kom á framfæri f.h. A. Laut kvörtunin að því að Orkustofnun hefði ekki brugðist við kvörtun félagsins til stofnunarinnar frá desember 2021 í tengslum við fyrirkomulag hleðslubúnaðar í fjölbýlishúsum og ekki svarað tilteknum erindum þess í tengslum við þá kvörtun í kjölfarið. Þar sem ákvörðun Orkustofnunar í málinu liggur nú fyrir hef ég, líkt og fram kemur í bréfi mínu til lögmannsins sem fylgir hjálagt í ljósriti, ákveðið að ljúka málinu með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis. Þrátt fyrir það hefur athugun mín á málinu orðið mér tilefni til að koma eftirfarandi ábendingum á framfæri með það í huga að framvegis verði horft til þeirra í störfum stofnunarinnar.

Í 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er að finna svonefnda málshraðareglu. Skulu ákvarðanir í málum teknar svo fljótt sem unnt er, sbr. 1. mgr. greinarinnar. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar skal leitað umsagnar, þar sem það er gert, við fyrsta hentugleika og ef leita þarf eftir fleiri en einni umsögn skal það gert samtímis verði því við komið. Samkvæmt 3. mgr. greinarinnar ber, þar sem fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast, að skýra aðila máls frá því. Skal þá upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta.

Fyrir liggur að ákvörðun Orkustofnunar lá ekki fyrir fyrr en 8. mars sl. eða rúmum 26 mánuðum eftir að kvörtunin barst í desember 2021. Að þessu leyti tel ég rétt að geta þess að félagið hefur þrisvar leitað til umboðsmanns með kvörtun vegna tafa á afgreiðslu málsins og hefur umboðsmaður af því tilefni ritað stofnuninni fjögur bréf og óskað eftir upplýsingum um hvað líði meðferð og afgreiðslu málsins og samskipti stofnunarinnar við félagið, s.s. hvort félaginu hefði verið tilkynnt um fyrirsjáanlegar tafir, ástæður þeirra og hvenær ákvörðunar mætti vænta, sbr. framangreind 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

Í svörum stofnunarinnar hefur m.a., í tengslum við ástæður tafanna, verið vikið að því að beðið væri eftir fundi með Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (bréf stofnunarinnar til umboðsmanns 20. júní 2023), málið væri tæknilega flókið og kallaði á úrlausn margþættra álitaefna. Þá hafi veikindi starfsmanns leitt til þess að fyrirheit um birtingu ákvörðunar í lok janúar sl. stóðust ekki en líkt og áður greinir var ákvörðun í málinu loks birt 8. mars sl. Þá hefur komið fram í svörum Orkustofnunar til umboðsmanns að stofnunin hafi ekki sinnt því að skýra félaginu frá fyrirsjáanlegum töfum á afgreiðslu málsins (bréf stofnunarinnar til umboðsmanns 22. september 2023). Jafnframt er í ákvörðuninni sjálfri vikið að því að frá janúar 2023 hafi orðið starfsmannabreytingar hjá raforkueftirliti stofnunarinnar. Þá hafi vinnuálag sem „tilkomið [væri] vegna orkuskorts og eldsumbrota haft áhrif á forgangsröðun starfsemi [raforkueftirlitsins].“

Í ákvörðuninni er framvinda málsins að öðru leyti eftir að kvörtun A barst rakin ítarlega. Það hefur vakið athygli mína að af henni verður ráðið að Orkustofnun hafi fyrst borið kvörtunina undir þann aðila sem hún beindist að 12. apríl 2022, en kvörtun A barst 20. desember 2021. Þá ítrekaði Orkustofnun ekki beiðni sína um að sá aðili afhenti tiltekin gögn, sem ekki fylgdu svarbréfi hans 19. maí 2022, fyrr en í byrjun desember þess árs. Þá ber lýsing stofnunarinnar á málsmeðferðinni ekki með sér að hún hafi fundað með Húsnæðis- og mannvirkjastofnun vegna málsins, líkt og vikið var að í framangreindu bréfi hennar til umboðsmanns. Jafnframt mun Orkustofnun hafa upplýst A 12. janúar 2023 um að til stæði að funda um málið með Samkeppniseftirlitinu en óljóst er hvort sá fundur hafi átt sér stað. Að lokum hefur það vakið athygli mína að ákvörðunin ber ekki annað með sér en að frá 27. janúar 2023 og fram til 26. febrúar 2024 hafi framvinda málsins verið takmörkuð.

Samkvæmt framangreindu verður að líta svo á að fyrir liggi viðurkenning Orkustofnunar á því við meðferð málsins hafi ekki verið gætt að fyrirmælum 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga um að tilkynna beri aðila máls um fyrirsjáanlegar tafir og ástæður þeirra. Að öðru leyti skal tekið fram að þótt ákveðnar tafir á afgreiðslu mála vegna málafjölda og starfsálags kunni að vera réttlætanlegar leiðir það ekki til þess að svo eigi við um margra mánaða eða áralangar óútskýrðar tafir. Í því sambandi bendi ég einnig á að sé raunin sú að stjórnvald telji sig ekki geta framkvæmt þau verkefni sem því eru falin innan lögmælts frests eða að öðru leyti í samræmi við reglur stjórnsýsluréttar um málshraða verður að gera þá kröfu að það geri ráðstafanir til að úr verði bætt, sbr. til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis frá 26. nóvember 2002 í máli nr. 3508/2002 og 16. maí 2022 í máli nr. 11342/2021.

Eins og þegar er komið fram hef ég ákveðið að ljúka athugun minni á kvörtun A. Engu að síður tel ég að málsmeðferð Orkustofnunar í málinu hafi ekki verið í samræmi við málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga líkt og að framan er rakið. Ég bendi Orkustofnun því á að huga betur að þessum atriðum í störfum sínum. Tekið skal fram að mér er kunnugt um að gerðar hafa verið athugasemdir við málshraða stofnunarinnar í öðrum málum, þ. á m. í tengslum við leyfisveitingar, líkt og greint var frá í frétt á vef Ríkisútvarpsins 11. febrúar sl. Í ljósi þessa er þess enn fremur óskað að Orkustofnun upplýsi mig fyrir 1. ágúst nk. um hvort þessi ábending verði stofnuninni tilefni til viðbragða og þá hverra. Er þá m.a. höfð í huga sú heimild sem umboðsmanni er fengin samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/1997 til að hefja almenna athugun á starfsemi og málsmeðferð stjórnvalds.