Kvartað var yfir þinglýsingu kaupsamnings hjá sýslumanni höfuðborgarsvæðisins.
Þó nokkur erindi vegna þessa máls hafa borist umboðsmanni sem bendir viðkomandi eins og áður á að atbeina dómstóla þurfi til að leysa úr þessum ágreiningi.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 17. apríl 2024.
Vísað er til kvörtunar yðar 17. apríl sl. Ráðið verður af kvörtuninni að hún lúti að þinglýsingu kaupsamnings 14. september 2023 vegna eignarhluta í fasteigninni að X, Y og framgöngu sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu þar að lútandi. Farið þér einnig fram á tilgreindar athafnir umboðsmanns vegna þinglýsinga kaupsamninga um fasteignir sem byggðar voru fyrir árið 1994.
Í bréfum umboðsmanns vegna fyrri kvartana yðar sem lutu að þinglýsingum kaupsamninga að eignarhlutum í fyrrgreindri fasteign, nú síðast 12. apríl sl. í máli nr. 12683/2024, hefur komið fram að samkvæmt c-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, taki starfssvið umboðsmanns ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda, þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum er ætlast til þess að menn leiti leiðréttingar með málskoti til dómstóla.
Ástæða þess að þetta hefur verið rakið í bréfum umboðsmanns til yðar er sú að gert er ráð fyrir því í 1. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga, nr. 39/1978, að úrlausn þinglýsingarstjóra um þinglýsingu verði borin undir héraðsdómara með nánar tilgreindum hætti. Af því leiðir að ekki eru fyrir hendi skilyrði að lögum fyrir umboðsmann að taka til frekari athugunar kvartanir sem lúta með beinum hætti að ágreiningi um þinglýsingar og athafnir sýslumanns í tengslum við þær. Brestur því skilyrði að lögum til þess að ég geti fjallað frekar um kvörtun yðar.
Með vísan til framangreinds læt ég umfjöllun minni um kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.