Almannatryggingar. Sjúkratryggingar. Læknismeðferð erlendis.

(Mál nr. 12198/2023)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti synjun Sjúkratrygginga Íslands á umsókn um endurgreiðslu á kostnaði vegna læknismeðferðar erlendis.

Þar sem nefndin ákvað að taka málið upp aftur með hliðsjón af nýlegu áliti umboðsmanns í sambærilegu máli var ekki ástæða til að aðhafast frekar að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 14. júní 2024.

 

  

Vísað er til kvörtunar yðar 19. maí 2023, f.h. A, yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála 22. mars 2023 í máli nr. 474/2022. Með úrskurðinum var staðfest ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja umsókn A um endurgreiðslu á kostnaði vegna læknismeðferðar erlendis.

Í tilefni af kvörtun yðar var úrskurðarnefnd velferðarmála rituð bréf 5. júní og 25. ágúst 2023 þar sem óskað var eftir annars vegar öllum gögnum málsins og hins vegar tilteknum upplýsingum og skýringum.

Umboðsmaður ritaði nefndinni á ný 17. maí sl. í kjölfar álits síns 13. sama mánaðar í máli nr. 12104/2023 en þar reyndi einnig á þá aðstöðu að ekki hafði verið til að dreifa fyrirfram samþykki Sjúkratrygginga fyrir þeirri heilbrigðisþjónustu erlendis sem sótt var um endurgreiðslu á. Í bréfinu var vísað til þess að andstætt atvikum í því máli hefði A þó sótt um fyrirfram samþykki Sjúkratrygginga fyrir aðgerð sinni en hefði ekki fengið svar stofnunarinnar þegar hún var framkvæmd. Þá var vísað til þeirrar niðurstöðu í álitinu að verulega hefði skort á að úrskurðarnefndin hefði með úrskurði sínum tekið rökstudda afstöðu til þess hvernig það samrýmdist lögum, einkum kröfum um meðalhóf, að líta svo á að umsækjandanum hefði verið fært, við þær aðstæður sem uppi voru, að sækja um fyrirfram samþykki Sjúkratrygginga Íslands og bíða þá eftir afgreiðslu slíkrar umsóknar í stað þess að gangast undir hana þegar í stað að ráði sérfræðilæknis. Það hefði verið niðurstaða umboðsmanns að verulegur annmarki væri á úrskurði nefndarinnar og þeim tilmælum beint til nefndarinnar að endurskoða úrskurðinn kæmi fram beiðni þess efnis. Í ljósi þessa óskaði umboðsmaður eftir upplýsingum um hvort nefndin teldi tilefni til að taka mál A á ný til meðferðar og leysa þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem komið hefðu fram í álitinu. Í svarbréfi nefndarinnar 7. júní sl. kom fram að hún hefði komist að þeirri niður­stöðu að rétt væri að endurupptaka málið.

Í ljósi þess að nefndin hefur endurupptekið málið eru ekki efni til að aðhafast frekar vegna kvörtunar yðar að svo stöddu og læt ég því athugun minni á málinu lokið, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég tek þó fram að ef A telur sig enn beitta rangsleitni að fenginni nýrri niðurstöðu nefndarinnar getur hún eða þér fyrir hennar hönd leitað til mín að nýju með kvörtun þar að lútandi.