Mannanöfn. Breyting á kenninafni. Meinbugir á lögum.

(Mál nr. 860/1993)

Máli lokið með áliti, dags. 24. febrúar 1994.

Umboðsmaður Alþingis taldi rétt að dóms- og kirkjumálaráðuneytið vekti athygli nefndar, sem skipuð hafði verið til að endurskoða lög nr. 37/1991 um mannanöfn, á því að gildandi lög stæðu því í vegi að alsystkini gætu borið sama kenninafnið.

I.

Hinn 20. ágúst 1993 leitaði A til mín og kvartaði yfir þeirri ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 11. júní 1993, að synja umsókn hennar um breytingu á kenninafni sonar hennar Y R-sonar, þannig að hann fengi að taka upp nafnið C... í stað R-son.

II.

Málavextir voru þeir, að samkvæmt lögum nr. 42/1979, um veitingu ríkisborgararéttar, öðlaðist eiginmaður A, C..., íslenskan ríkisborgararétt. Í samræmi við áskilnað í 2. gr. laganna tók maðurinn upp íslenskt fornafn, R, en hann hélt nafni sínu C... og notaði sem kenninafn. Áttu þau hjónin þá stúlkuna X, fædda 1976, sem ber kenninafnið C... Drengurinn Y er fæddur 1981 og ber kenninafnið R-son.

A kveður það hafa valdið erfiðleikum og leiðindum, að börnin tvö bera hvort sitt kenninafnið, sérstaklega á ferðalögum, en börnin beri hvort sitt kenninafnið í vegabréfum sínum. Það er eindregin ósk Y og foreldra hans, að hann fái að kenna sig við föður sinn með sama hætti og systir hans. Annað finnst þeim vera brot á grundvallarreglum um jafnræði. Það er skoðun þeirra, teljist ákvæði laga heimila niðurstöðu ráðuneytisins, að slíkt hljóti að teljast meinbugir á lögum í skilningi 11. gr. laga 13/1987 um umboðsmann Alþingis.

Ég ritaði dóms- og kirkjumálaráðuneytinu bréf af þessu tilefni 30. ágúst 1993 og óskaði þess skv. 7. og 9. gr. laga 13/1987, að ráðuneytið skýrði afstöðu sína til kvörtunarinnar og léti mér gögn málsins í té. Svar ráðuneytisins barst mér með bréfi, dags. 10. desember 1993, og kemur þar eftirfarandi fram:

"Í bréfi ráðuneytisins, dags. 11. júní sl., til [A] og eiginmanns hennar, [R C...], var fyrrgreindri umsókn hafnað með vísun til 2. gr. laga um veitingu ríkisborgararéttar nr. 42/1979, sbr. 15. gr. laga um mannanöfn nr. 37/1991, á þeim grundvelli að ekki væri lagaheimild til að verða við umsókninni.

Með yfirlýsingu ráðuneytisins, dags. 31. júlí 1979, öðlaðist eiginmaður [A], [C...], íslenskan ríkisborgararétt, samkvæmt heimild í lögum nr. 42/1979 um veitingu ríkisborgararéttar. Samkvæmt 2. gr. þeirra laga skal maður sem fær íslenskan ríkisborgararétt með lögum, og heitir erlendu nafni, taka sér íslenskt fornafn. Í samræmi við ákvæði þetta tók maðurinn upp eiginnafnið [R] en kenninafnið [C...], sbr. leyfisbréf gefið út í ráðuneytinu hinn 31. júlí 1979. Í 2. gr. laganna segir einnig, að börn þess manns er fær íslenskan ríkisborgararétt skuli taka sér íslensk nöfn samkvæmt lögum um mannanöfn. Samkvæmt 1. gr. þágildandi mannanafnalaga nr. 54/1925 skyldi maður kenna sig til föður, móður eða kjörföður. Sonur [A] sem fæddur er árið 1981 er þannig kenndur við [R-nafnið] og er [R-son].

Í 15. gr. núgildandi mannanafnalaga nr. 37/1991 segir, að barni, sem fæðist eftir að foreldri þess hefur fengið íslenskt ríkisfang með lögum, skuli gefið íslenskt eiginnafn, sbr. þó 2. mgr. 8. gr., og að það skuli fá íslenskt kenninafn.

...

Ráðuneytið vill af tilefni kvörtunar þessarar taka fram, að dómsmálaráðherra hefur skipað nefnd til endurskoðunar á lögum um mannanöfn nr. 37/1991 og mun nefndin taka til starfa nú alveg á næstunni."

Athugasemdir A bárust mér með bréfi, dags. 22. desember 1993.

III.

Niðurstaða álits míns, dags. 24. febrúar 1994, var svohljóðandi:

"Af þeim ástæðum, sem lýst er í framangreindu bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 10. desember 1993, er synjun ráðuneytisins frá 11. júní 1993 í samræmi við lög. Að því leyti sem kvörtun [A] lýtur að fyrirmælum laga nr. 37/1991 um mannanöfn, er rétt að taka fram, að það er almennt ekki hlutverk umboðsmanns Alþingis að hafa afskipti af lagasetningu Alþingis. Bendi ég í því sambandi á, að lög nr. 37/1991 um mannanöfn voru sett eftir langa og ítarlega umfjöllun Alþingis.

Í áliti mínu, dags. 18. nóvember 1993 (mál nr. 675/1992), fjallaði ég um kvörtun yfir þeirri ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, að synja umsókn þriggja bræðra um þá breytingu kenninafns, að þeir fengju heimild til að taka upp erlent ættarnafn, sem þeir báru áður en þeir fengu íslenskan ríkisborgararétt. Segir í þessu áliti mínu:

"Með bréfum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 27. ágúst 1992 synjaði ráðuneytið umsókn þeirra bræðra um að fá að taka upp ættarnafnið "[X]", en þá umsókn sína byggðu þeir á 16. gr. laga nr. 37/1991. Skoðun mín er sú, að ekki verði talið, að þessi synjun ráðuneytisins hafi verið reist á ólögmætum sjónarmiðum eða með öðrum hætti farið í bága við vandaða stjórnsýsluhætti.

...

Niðurstaða mín er sú, að ekki sé ástæða til frekari athugasemda en að framan greinir við mál það, sem umrædd kvörtun lýtur að. Ég tel engu að síður rétt að vekja athygli á því, að við umræður á Alþingi hinn 11. mars 1993 lýsti dóms- og kirkjumálaráðherra því yfir, að "... vegna þeirrar gagnrýni sem fram [hefði] komið [hefði] ráðuneytið tekið þá ákvörðun að láta endurskoða lögin með tilliti til þeirrar reynslu sem fengin [væri]". (Alþt. 1992-1993, B-deild, dálk. 7321)."

Samkvæmt upplýsingum í framangreindu bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 10. desember 1993 hefur nú verið skipuð nefnd til að endurskoða lög nr. 37/1991 um mannanöfn. Tel ég rétt, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið veki athygli nefndar þessarar á þeim sjónarmiðum, sem liggja til grundvallar kvörtun þeirri, er hér hefur verið fjallað um."