Fullnusta refsinga. Fullnustuúrræði.

(Mál nr. 12732/2024)

Kvartað var yfir Fangelsismálastofnun og að viðkomandi hefði ekki verið gert kleift að afplána dóm undir rafrænu eftirliti nema að dvelja fyrst á áfangaheimili.

Þar sem hvorki varð ráðið að athugasemdunum hefði verið komið á framfæri við Fangelsismálastofnun eða að formleg ákvörðun lægi fyrir, né að leitað hefði verið til dómsmálaráðuneytisins og kæruleið þannig tæmd, voru ekki skilyrði að svo stöddu til að umboðsmaður tæki kvörtunina til nánari skoðunar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 30. apríl 2024.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 30. apríl sl. sem þér beinið að Fangelsismálastofnun og lýtur að því að yður sé ekki gert kleift að afplána dóm yður undir rafrænu eftirlit án þess að dvelja fyrst á áfangaheimili Verndar. Vísið þér m.a. til þess að sökum heilsubrests sé yður ekki unnt að inna af hendi þá vinnuskyldu sem þar sé krafist auk þess sem þér teljið staðsetningu heimilisins koma niður á fjölskyldutengslum yðar.

Í tilefni af kvörtun yðar skal tekið fram að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum sem heyra undir eftirlit hans kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann Alþingis þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða snertir beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra.

Þá er það skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns æðra stjórnvald hafi fellt úrskurð sinn í málinu ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum, sem hugsanlega er ekki í samræmi við lög, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að um rafrænt eftirlit og skilyrði þess er fjallað í 32. og 33. gr. laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga, en þar segir m.a. að Fangelsismálastofnun geti við nánar greindar aðstæður leyft fanga að ljúka afplánun utan fangelsis, enda hafi hann á sér búnað svo unnt sé að fylgjast með ferðum hans. Þá eru ákvarðanir samkvæmt lögunum kæranlegar til dómsmálaráðuneytisins nema annað sé tekið fram, sbr. 1. mgr. 95. gr. þeirra.

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að þér hafið komið athugasemdum yðar á framfæri við Fangelsismálastofnun eða að fyrir liggi formleg ákvörðun stofnunarinnar um að synja yður um leyfi til að ljúka afplánun undir rafrænu eftirliti í kjölfar þess. Þá verður heldur ekki séð að þér hafið leitað til dómsmálaráðuneytisins af því tilefni. Þar til afstaða framangreindra stjórnvalda liggur fyrir brestur hins vegar lagaskilyrði til þess að mér sé unnt að taka kvörtun yðar til frekari athugunar að svo stöddu. Ef þér kjósið að leita til framangreindra stjórnvalda og teljið þér yður enn rangsleitni beitta, að fenginni afstöðu þeirra, er yður fært að leita til umboðsmanns á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég athugun minni á málinu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.