Jafnréttismál. Kærunefnd jafnréttismála. Frávísun kæru vegna afsals réttar.

(Mál nr. 3837/2003)

A kvartaði yfir áliti kærunefndar jafnréttismála þar sem kæru hennar var vísað frá nefndinni á þeim grundvelli að samkomulag hefði náðst milli hennar og X-bæjar um uppgjör launa. Hafði A ritað undir yfirlýsingu um að hún tæki við ákveðinni greiðslu frá X-bæ og lýsti því jafnframt yfir að um frekari málarekstur vegna jafnréttis og yfirvinnu yrði ekki að ræða.

Umboðsmaður rakti ákvæði jafnréttislaga nr. 96/2000 um launajafnrétti og um rétt einstaklinga til að leita atbeina kærunefndar jafnréttismála teldu þeir ákvæði laganna hafa verið brotin á sér. Hann lagði áherslu á að ákvæði 27. gr. laganna væri afdráttarlaust og kvæði skýrt á um að óheimilt væri að afsala sér þeim réttindum sem mælt væri fyrir um í lögunum. Þá væri áréttað í lögskýringargögnum að mikilvægt væri að í lögunum væri skýrt kveðið á um að ekki væri hægt að afsala sér þeim rétti sem lögin kvæðu á um með samningum, loforðum eða á annan hátt. Fæli ákvæðið þannig í sér ákveðna vernd fyrir einstaklinginn þegar kæmi að samningsgerð við atvinnurekanda. Að þessu virtu gat umboðsmaður ekki fallist á þá þröngu lögskýringu kærunefndar jafnréttismála á 27. gr. jafnréttislaga að ákvæðið fæli aðeins í sér fyrirfram ákveðna vernd og ætti aðeins við um ráðningarsamninga og aðra slíka samninga. Að hans áliti gat fyrrnefnt samkomulag A og X-bæjar ekki afnumið eða takmarkað þau réttindi sem A naut samkvæmt lögunum.

Umboðsmaður rakti ákvæði 2. mgr. 4. gr. jafnréttislaga um verkefni kærunefndar jafnréttismála og skyldu hennar til að beina rökstuddum tilmælum um úrbætur til hlutaðeigandi aðila teldi hún að brotið hefði verið gegn ákvæðum laganna, sbr. 4. mgr. 4. gr. þeirra. Þá rakti hann að af hálfu kærunefndarinnar hefði því verið lýst að ef samkomulag lægi fyrir sem gert væri í kjölfar ágreinings á milli aðila um meint brot á jafnréttislögum yrði að telja að nefndinni væri ekki fært að beina rökstuddum tilmælum til hlutaðeigandi aðila um aðrar úrbætur en þar væri kveðið á um. Meðal annars með hliðsjón af 27. gr. jafnréttislaga gat umboðsmaður ekki fallist á þessa afstöðu kærunefndarinnar. Áréttaði hann að það væri verkefni kærunefndar jafnréttismála að upplýsa hvort ákvæði jafnréttislaga hefðu verið brotin að virtum gögnum málsins og atvikum öllum. Umboðsmaður taldi ekki rétt að útiloka að samkomulag eða annað uppgjör sem atvinnurekandi og starfsmaður hefðu gert í tilefni af ágreiningi um launamun kæmi inn í þetta mat nefndarinnar þar sem það kynni að geyma upplýsingar um hverjar launagreiðslur hefðu verið í reynd. Það væri hins vegar sjálfstætt og einkaréttarlegt úrlausnarefni hvaða áhrif fjárgreiðslur samkvæmt slíkum samningum ættu að hafa kæmi til kröfugerðar og uppgjörs á grundvelli niðurstöðu kærunefndarinnar.

Það varð því niðurstaða umboðsmanns að kærunefnd jafnréttismála hefði borið að taka kæru A til efnismeðferðar og gefa skriflegt rökstutt álit um það hvort X-bær hefði brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga gagnvart henni. Beindi hann þeim tilmælum til kærunefndarinnar að hún tæki mál A aftur til meðferðar, kæmi fram beiðni þess efnis frá henni, og tæki þá mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.

I.

Hinn 23. júní 2003 leitaði B, hæstaréttarlögmaður, til mín og kvartaði fyrir hönd A yfir áliti kærunefndar jafnréttismála frá 23. maí 2003 í máli nr. 7/2002 þar sem kæru A á hendur X-bæ var vísað frá kærunefndinni á þeim grundvelli að samkomulag hefði náðst á milli hennar og bæjarins um uppgjör launa. Í fyrsta lagi lýtur kvörtunin að því að kærunefndinni hafi borið samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, að fjalla um og gefa skriflegt álit sitt á því hvort ákvæði laganna hafi verið brotin. Í öðru lagi er tekið fram í kvörtuninni að áhöld séu um hvort samkomulag hafi verið með aðilum. Í þriðja lagi er því haldið fram í kvörtuninni að yfirlýsing sem A var gert að undirrita 3. júní 2002, þess efnis að um frekari málarekstur vegna jafnréttis og yfirvinnu yrði ekki að ræða, sé ólögmæt þar sem hún stangist á við 27. gr. laga nr. 96/2000, þar sem segi að óheimilt sé að afsala sér þeim réttindum sem kveðið er á um í lögunum.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 1. desember 2003.

II.

Málavextir eru þeir að árið 2002 kvartaði A til X-bæjar yfir því að hún hefði sem skólastjóri Y-skóla haft lægri laun miðað við vinnuframlag en C, karlkyns skólastjóri Z-skóla, og gerði kröfu um að sér yrði bættur launamunurinn. Í framhaldinu fóru fram viðræður milli aðila og á fundi 16. maí 2002 bauð X-bær A kr. …,- til að gera upp þann mun sem verið hefði á launum skólastjóra bæjarins skólaárið 2000-2001. Lögmaður A ritaði X-bæ bréf, dags. 27. maí 2002, og lýsti því yfir að hún væri á engan hátt sátt við það einhliða uppgjör bæjarins sem boðið var á fyrrnefndum fundi. Var umrætt bréf afturkallað af lögmanninum 31. maí 2002. Viðræðum aðila lauk svo 3. júní 2002 með því að X-bær greiddi A kr. … ,- gegn því að hún undirritaði eftirfarandi yfirlýsingu:

„Fallist á útreikning vegna greiðslu yfirvinnu

Ég undirrituð skólastjóri [Z-skóla] [A] móttek hér með greiðslu að fjárhæð kr. […], frá bæjarsjóði [X-bæjar] og lýsi því jafnframt yfir að um frekari málarekstur vegna jafnréttis og yfirvinnu verður ekki að ræða.“

Lögmaður A ritaði X-bæ bréf, dags. 9. júlí 2002, þar sem hann lýsti því meðal annars yfir að A hefði ákveðið að taka við umræddri greiðslu þrátt fyrir að hún væri á engan hátt sátt við útreikninga bæjarins. Enn fremur lýsti hann því yfir að hann teldi að fyrrnefnd yfirlýsing og undirritun hennar hefði verið fengin á fölskum forsendum. Það stæði hins vegar sem um hafi verið samið að A „[gerði] ekki lengur ágreining vegna þessa skólaárs, þ.e. skólaársins 2000/2001“. Loks tilkynnti lögmaðurinn að A hygðist láta reyna á rétt sinn til launa vegna fyrri ára og óskaði af því tilefni upplýsinga um heildarlaun skólastjóra Y-skóla fyrir árin 1995 til og með maí 2000. X-bær svaraði lögmanni A með bréfi, dags. 12. september 2002. Þar var beiðni lögmannsins um umbeðnar upplýsingar hafnað og því mótmælt að yfirlýsing A hafi verið undirrituð á fölskum forsendum. Yfirlýsingin væri því í fullu gildi og X-bær teldi að þar með væri tryggt að ekki yrði um frekari málarekstur að ræða af hálfu A. Á þeirri forsendu hafi fjárgreiðslan til hennar byggst.

Með bréfi til kærunefndar jafnréttismála, dags. 18. september 2002, kærði lögmaður A til nefndarinnar meint brot X-bæjar á jafnréttislögum. Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu var samþykkt á fundi nefndarinnar 23. maí 2003. Í niðurstöðukafla álitsins segir svo:

„Kærandi hefur óskað eftir því að kærunefnd jafnréttismála fjalli um og taki afstöðu til þess hvort mismunandi launagreiðslur til hennar og skólastjóra [Z-skóla] á tímabilinu 1998 til og með 2001, brjóti gegn ákvæðum laga nr. 96/2000, en rétt er að taka fram að undir rekstri málsins hjá kærunefnd lýsti kærandi því yfir að kæra sín tæki ekki til meints launamunar á tímabilinu frá 1995 til 1997.

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, skulu konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda greidd sömu laun og njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Með jöfnum launum, sbr. 3. mgr. 14. gr., er átt við að laun skuli ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla og að þau viðmið sem lögð eru til grundvallar feli ekki í sér kynjamismunun.

Samkvæmt 23. gr. laga nr. 96/2000 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsfólki sínu í launum og öðrum kjörum á grundvelli kynferðis. Ef leiddar eru líkur að mismunun skal atvinnurekandi sýna fram á að hún skýrist af öðrum þáttum en kynferði.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 96/2000 er það verkefni kærunefndar jafnréttismála að taka til meðferðar og gefa skriflegt rökstutt álit um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin. Telji kærunefnd að slíku broti sé til að dreifa, „og skal hún þá beina rökstuddum tilmælum um úrbætur til hlutaðeigandi aðila“, sbr. 4. mgr. 4. gr. laganna.

Fyrir liggur í máli þessu, að í kjölfar viðræðna aðila vegna kröfu kæranda um leiðréttingu launa, bauð [X-bær] kæranda greiðslu sem að mati kaupstaðarins fól í sér að ekki yrði um „frekari málarekstur vegna jafnréttis og yfirvinnu“ að ræða, sbr. áritaða yfirlýsingu, dags. 3. júní 2002. Af gögnum málsins má ráða að nokkur ágreiningur kann að vera um tildrög og forsendur ofangreinds samkomulags. Þannig liggur fyrir að með bréfi lögmanns kæranda, dags. 27. maí 2002, var því lýst yfir að kærandi teldi sig á engan hátt sátta við það einhliða uppgjör sem boðið hafi verið á fundi málsaðila hinn 16. maí 2002 og að kærandi hafi haft ýmislegt við það að athuga. Ómótmælt er að ofangreint bréf, dags. 27. maí 2002, hafi verið afturkallað með skriflegri áritun hinn 31. maí sama ár. Var tilvísuð yfirlýsing, dags. 3. júní 2002 undirrituð af hálfu kæranda í beinu framhaldi af framangreindri afturköllun og umrædd greiðsla móttekin án sérstaks fyrirvara.

Af hálfu [X-bæjar] er litið svo á að með umræddri yfirlýsingu, dags. 3. júní 2002, hafi náðst fullt samkomulag milli málsaðila varðandi meinta launamismunun og jafnframt að kærandi hafi þar með lýst því yfir að ekki væri um að ræða frekari ágreining milli aðila að því er varðar meint jafnréttisbrot. Á þetta sjónarmið er ekki fallist af hálfu kæranda.

Kærunefnd jafnréttismála lítur svo á, í samræmi við framangreinda umfjöllun um hlutverk nefndarinnar, að rannsókn nefndarinnar skuli beinast að því að upplýsa hvort um brot á jafnréttislögum hafi verið að ræða í tilteknum tilvikum og í kjölfar þess að beina rökstuddum tilmælum til hlutaðeigandi um úrbætur, ef við á.

Ef fyrir liggur samkomulag, sem gert er í kjölfar ágreinings milli aðila um meint brot á jafnréttislögum, verður að telja að nefndinni sé ekki fært að beina rökstuddum tilmælum til hlutaðeigandi aðila um aðrar úrbætur en þar er kveðið á um, nema að efnisatriði samkomulagsins og skuldbindingargildi þess séu samhliða tekin til skoðunar, en telja verður að slík umfjöllun falli utan verksviðs nefndarinnar.

Óhjákvæmilegt er að líta svo á að meginágreiningur aðila sé um gildi framangreinds samkomulags. Úrlausn þess heyrir samkvæmt framansögðu ekki undir kærunefnd jafnréttismála og ber því að vísa málinu frá.

Málinu er vísað frá kærunefnd jafnréttismála.“

III.

Ég ritaði kærunefnd jafnréttismála bréf, dags. 30. júní 2003, og óskaði eftir því, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að nefndin léti mér í té gögn málsins og skýrði viðhorf sitt til kvörtunarinnar. Óskaði ég þess sérstaklega að nefndin skýrði hvort og þá hvernig hún hefði í áliti sínu tekið afstöðu til þýðingar 27. gr. laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þar sem segir að óheimilt sé að afsala sér þeim réttindum sem kveðið er á um í lögunum.

Mér barst svar kærunefndar jafnréttismála með bréfi, dags. 5. september 2003. Í því segir meðal annars svo:

„Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 96/2000 er „[v]erkefni kærunefndar jafnréttismála að taka til meðferðar og gefa skriflegt rökstutt álit um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin“. Í 4. mgr. sömu greinar kemur fram að telji kærunefndin að ákvæði jafnréttislaga hafi verið brotin skuli hún „beina rökstuddum tilmælum um úrbætur til hlutaðeigandi aðila“.

Í málinu nr. 7/2002 lá fyrir að aðilar höfðu gert með sér samkomulag um uppgjör á greiðslum til kæranda vegna meints launamisréttis. Eins og fram kemur í bréfi lögmanns kæranda til yðar, skrifaði kærandi undir sérstaka yfirlýsingu þess efnis að hún afsalaði sér frekari rétti til leiðréttingar, en leiddi af samkomulaginu.

Í áliti kærunefndarinnar í umræddu máli kemur fram að það sé mat nefndarinnar að ef samkomulag liggur fyrir, sem gert er í kjölfar ágreinings milli aðila um meint brot á jafnréttislögum, verði að telja að nefndinni sé ekki fært að beina rökstuddum tilmælum til hlutaðeigandi aðila um aðrar úrbætur en þar er kveðið á um, nema að efnisatriði samkomulagsins og skuldbindingargildi þess séu samhliða tekin til skoðunar. Að mati kærunefndar jafnréttismála fellur slíkt utan sviðs nefndarinnar en lýtur reglum samningaréttar um skuldbindingargildi samninga.

Hlutverk kærunefndar er að mati nefndarinnar einvörðungu að meta hvort lög nr. 96/2000 hafi verið brotin og beina tilmælum um úrbætur til aðila vegna þessa, en ekki að leggja mat á „gildi“ uppgjörs sem aðilar semja um sín í millum af slíku tilefni. Um slíkt fer eftir reglum samningaréttar. Því er það eftir atvikum dómstóla, en ekki kærunefndar jafnréttismála, að leggja mat á „gildi“ þess samkomulags sem aðilar gerðu með sér.

Samkvæmt 27. gr. laga nr. 96/2000 er „[ó]heimilt að afsala sér þeim réttindum sem kveðið er á um í [lögunum].“ Í greinargerð með frumvarpi til laganna segir að mikilvægt sé að í lögunum sé skýrt kveðið á um að ekki sé hægt að afsala sér þeim rétti sem lögin kveða á um með samningum, loforðum eða á annan hátt. Í greininni felist því ákveðin vernd fyrir einstaklinginn þegar kemur að samningsgerð við atvinnurekanda.

Í 5. gr. dönsku „ligelønsloven“ er að finna ákvæði sem svarar til 27. gr. jafnréttislaga nr. 96/2000. Tilgangur þess hefur aðallega verið talinn sá, að hafi einstaklingur athugasemdalaust þegið tiltekin kjör frá vinnuveitanda, sem brotið hafa í bága við rétt hans skv. lögunum, verði slíkt ekki túlkað sem „þegjandi samkomulag“ um þau kjör.

Með 27. gr. jafnréttislaga nr. 96/2000 er að mati kærunefndar jafnréttismála verið að girða fyrir, að ráðningarsamningur vinnuveitanda og einstaklings, eða aðrir slíkir samningar, sem brjóta í bága við lögin, verði taldir lögmætir og skuldbindandi fyrir hlutaðeigandi á þeim grunni að viðkomandi hafi í slíkum samningi fallist á að afsala sér rétti skv. jafnréttislögum (bæði með beinum og óbeinum hætti), en í því felst fyrirfram ákveðin vernd.

Ákvæðið snýr hins vegar eðli máls samkvæmt ekki að samningum um uppgjör, sem gerðir eru í kjölfar þess að lögin hafa verið talin brotin. Aðilum er að sjálfsögðu í sjálfsvald sett hvernig þeir semja um slíkt. Því á 27. gr. jafnréttislaga að mati nefndarinnar ekki við um samning þann sem aðilar í máli nr. 7/2002 gerðu með sér. Af þeim sökum var ekki sérstaklega vísað til þess ákvæðis í áliti nefndarinnar.“

Með bréfi, dags. 15. september 2003, gaf ég lögmanni A kost á að koma að athugasemdum sínum við svarbréf kærunefndar jafnréttismála. Athugasemdir hans bárust mér með bréfi, dags. 22. september 2003.

IV.

1.

Jafnréttislög nr. 96/2000 hafa að geyma ákvæði um ýmis réttindi kvenna og karla, þ. á m. um launajafnrétti. Þannig segir í 1. mgr. 14. gr. laganna að „[k]onum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda [skuli] greidd jöfn laun og [skuli] njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf“. Regla þessi er áréttuð í 23. gr. laganna þar sem segir að „[a]tvinnurekendum [sé] óheimilt að mismuna starfsfólki sínu í launum og öðrum kjörum á grundvelli kynferðis þess“ og „ef leiddar [séu] líkur að því að kona og karl sem starfa hjá sama atvinnurekanda njóti mismunandi launa eða annarra kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf [skuli] atvinnurekandi sýna fram á, ef um mun er að ræða, að hann skýrist af öðrum þáttum en kynferði“. Enn fremur njóta einstaklingar meðal annars réttar til að leita atbeina kærunefndar jafnréttismála telji þeir að ákvæði laga nr. 96/2000 hafi verið brotin á sér, sbr. fyrri málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna.

Í 27. gr. laga nr. 96/2000 er svohljóðandi ákvæði um bann við afsali réttar:

„Óheimilt er að afsala sér þeim réttindum sem kveðið er á um í lögum þessum.“

Í svarbréfi kærunefndar jafnréttismála til mín, dags. 5. september sl., kemur fram það mat nefndarinnar að með 27. gr. jafnréttislaga sé verið að girða fyrir að „ráðningarsamningur“ vinnuveitanda og einstaklings, eða „aðrir slíkir samningar“, sem brjóta í bága við lögin verði taldir lögmætir og skuldbindandi fyrir hlutaðeigandi á þeim grunni að viðkomandi hafi í slíkum samningi fallist á að afsala sér rétti samkvæmt jafnréttislögum, en í því felist „fyrirfram“ ákveðin vernd. Þá segir í bréfinu að ákvæðið snúi hins vegar „eðli máls samkvæmt ekki að samningum um uppgjör, sem gerðir eru í kjölfar þess að lögin hafa verið talin brotin. Aðilum [sé] að sjálfsögðu í sjálfsvald sett hvernig þeir semji um slíkt“.

Í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því er varð að lögum nr. 96/2000 segir svo um 27. gr.:

„Mikilvægt er að í lögum sem þessum sé skýrt kveðið á um að ekki sé hægt að afsala sér þeim rétti sem lögin kveða á um með samningum, loforðum eða á annan hátt. Í þessari grein felst því ákveðin vernd fyrir einstaklinginn þegar kemur að samningsgerð við atvinnurekanda.“ (Alþt. 1999-2000, A-deild, bls. 2545.)

Ég legg áherslu á að ákvæði 27. gr. laga nr. 96/2000 er afdráttarlaust og kveður skýrt á um að óheimilt sé að afsala sér þeim réttindum sem kveðið er á um í lögunum. Þá er áréttað í lögskýringargögnum að „mikilvægt“ sé að í lögunum sé „skýrt kveðið á um að ekki sé hægt að afsala sér þeim rétti sem lögin kveða á um með samningum, loforðum eða á annan hátt“. Ákvæðið feli þannig í sér „[ákveðna] vernd“ fyrir einstaklinginn við samningsgerð við atvinnurekanda. Að framangreindu virtu get ég ekki fallist á þá þröngu lögskýringu kærunefndar jafnréttismála á 27. gr. laga nr. 96/2000 sem fram kemur í bréfi hennar til mín, um að ákvæðið feli aðeins í sér „fyrirfram ákveðna vernd“ og eigi þannig aðeins við um „ráðningarsamninga“ og „aðra slíka samninga“. Að mínu áliti gat umrætt samkomulag á milli A og X-bæjar ekki afnumið eða takmarkað þau réttindi sem hún nýtur samkvæmt lögum nr. 96/2000, þ. á m. rétt til að leita til kærunefndar jafnréttismála, sbr. 5. gr. laganna, og rétt til jafnra launa og sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf hjá sama atvinnurekanda, sbr. 14. og 23. gr. sömu laga.

2.

Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka til meðferðar og gefa skriflegt rökstutt álit um hvort ákvæði laga nr. 96/2000 hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna. Verður nefndin að taka afstöðu til málsins á grundvelli heildstæðs mats á gögnum þess og atvikum öllum. Komist hún að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn lögunum skal hún beina rökstuddum tilmælum um úrbætur til hlutaðeigandi aðila, sbr. 4. mgr. 4. gr. laganna.

Í svarbréfi kærunefndar jafnréttismála til mín er vísað til álits nefndarinnar í málinu og að það sé mat hennar „að ef samkomulag liggi fyrir, sem gert er í kjölfar ágreinings milli aðila um meint brot á jafnréttislögum, verði að telja að nefndinni sé ekki fært að beina rökstuddum tilmælum til hlutaðeigandi aðila um aðrar úrbætur en þar er kveðið á um, nema að efnisatriði samkomulagsins og skuldbindingargildi þess séu samhliða tekin til skoðunar. Að mati kærunefndar jafnréttismála [falli] slíkt utan sviðs nefndarinnar en [lúti] reglum samningaréttar um skuldbindingargildi samninga“. Að mati nefndarinnar er hlutverk hennar „einvörðungu að meta hvort lög nr. 96/2000 hafi verið brotin og beina tilmælum um úrbætur til aðila vegna þessa, en ekki að leggja mat á „gildi“ uppgjörs sem aðilar semja um sín í millum af slíku tilefni. Um slíkt [fari] eftir reglum samningaréttar. Því [sé] það eftir atvikum dómstóla, en ekki kærunefndar jafnréttismála, að leggja mat á „gildi“ þess samkomulags sem aðilar [hafi gert] með sér“.

Samkvæmt 14. gr. laga nr. 96/2000 skal greiða konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda jöfn laun og þau skulu njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Þá segir í 23. gr. laganna að atvinnurekendum sé óheimilt að mismuna starfsfólki sínu í launum og öðrum kjörum á grundvelli kynferðis þess. Er hér um að ræða réttindi sem einstaklingum er óheimilt að afsala sér, sbr. 27. gr. sömu laga. Með hliðsjón af þessu get ég ekki fallist á þá afstöðu kærunefndarinnar að ef samkomulag liggi fyrir, sem gert er í kjölfar ágreinings á milli aðila um meint brot á jafnréttislögum, verði að telja að nefndinni „sé ekki fært að beina rökstuddum tilmælum til hlutaðeigandi aðila um aðrar úrbætur en þar er kveðið á um“.

Af gögnum málsins verður ráðið að aðila greini á um hvort eftir greiðslu X-bæjar á kr. … til A 3. júní 2002 sé enn fyrir hendi munur á launum hennar og skólastjóra Z-skóla vegna áranna 1998 til og með 2001 sem sé andstæður framangreindum ákvæðum jafnréttislaga. Eins og áður sagði er það verkefni kærunefndar jafnréttismála samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 96/2000 að upplýsa hvort ákvæði jafnréttislaga hafi verið brotin að virtum gögnum málsins og atvikum öllum. Ég tel ekki rétt að útiloka að samkomulag eða annað uppgjör sem atvinnurekandi og starfsmaður hafa gert í tilefni af ágreiningi um launamun komi inn í þetta mat nefndarinnar. Slíkt samkomulag kann að geyma upplýsingar um hverjar launagreiðslur urðu í reynd. Það er hins vegar sjálfstætt og einkaréttarlegt úrlausnarefni hvaða áhrif fjárgreiðslur samkvæmt slíkum samningum eiga að hafa komi til kröfugerðar og uppgjörs á grundvelli niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða mín að kærunefnd jafnréttismála hafi borið að taka kæru A til efnismeðferðar og gefa skriflegt rökstutt álit um það hvort X-bær hafi brotið gegn 14. og 23. gr. laga nr. 96/2000 gagnvart henni. Vil ég í þessu sambandi árétta að yfirlýsing A til bæjarins frá 3. júní 2002 þess efnis að ekki yrði um frekari málarekstur að ræða vegna jafnréttis og yfirvinnu gat ekki haft þau áhrif að kæru hennar skyldi vísað frá að virtri 27. gr. laganna. Rétt er að taka fram að með þessu hef ég ekki tekið neina afstöðu til efnisatriða málsins.

V.

Niðurstaða.

Samkvæmt því sem að framan er rakið er það niðurstaða mín að frávísun kærunefndar jafnréttismála á kæru A á hendur X-bæ vegna meintra brota bæjarins á lögum nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, hafi ekki verið í samræmi við lög.

Ég beini þeim tilmælum til kærunefndarinnar að hún taki mál A aftur til meðferðar, komi fram beiðni þess efnis frá henni, og taki þá mið af þeim sjónarmiðum sem fram koma í áliti þessu.

VI.

Með bréfi til kærunefndar jafnréttismála, dags. 30. janúar 2004, óskaði ég eftir upplýsingum um hvort A hefði leitað til nefndarinnar á ný og þá hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar af því tilefni eða hvort málið væri enn til meðferðar. Í svarbréfi kærunefndarinnar, dags. 5. febrúar 2004, kemur fram að A hafi með bréfi, dags. 8. desember 2003, óskað eftir því við nefndina að mál hennar yrði tekið fyrir að nýju í samræmi við niðurstöðu umboðsmanns Alþingis. Hafi erindið verið tekið fyrir á fundi nefndarinnar 16. janúar 2004. Með bréfi, dags. sama dag, hafi A verið tilkynnt að nefndin féllist ekki á þá kröfu hennar að þeir nefndarmenn sem um málið fjölluðu á sínum tíma vikju sæti við meðferð þess. Var A hins vegar upplýst um að vegna breyttrar skipanar nefndarinnar annars vegar og sérstakra aðstæðna nefndarmanna hins vegar myndu aðrir nefndarmenn taka erindi hennar ásamt áliti umboðsmanns Alþingis til umfjöllunar. Mér barst á ný bréf frá kærunefnd jafnréttismála 3. maí 2004. Segir þar að nefndinni hafi borist bréf frá A, dags. 14. apríl 2004, þar sem fram komi að hún hafi ákveðið að draga til baka ofangreint erindi sitt til kærunefndarinnar. Í samræmi við þessa ósk A hafi nefndin ákveðið að fella mál hennar niður.