Skattar og gjöld. Tollar. Innflutningur.

(Mál nr. 12742/2024)

Kvartað var yfir þeirri afstöðu Skattsins að tollur skyldi lagður á jurtalyf. 

Ekki varð ráðið af kvörtuninni að hvaða marki viðkomandi hefði átt í samskiptum við Skattinn vegna ágreiningsins. Þá varð hvorki séð að þess hefði verið freistað að fá formlega afstöðu embættisins með rökstuddri kæru skv. tollalögum né eftir atvikum skottið afstöðu Skattsins í kjölfar slíkrar kæru til yfirskattanefndar. Ekki voru því skilyrði að svo stöddu til að umboðsmaður fjallaði frekar um málið.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 22. maí 2024.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 6. maí sl. yfir þeirri afstöðu Skattsins að lagður skyldi tollur á jurtalyf, sem þér fenguð sent frá útlöndum í tilefni afmælis yðar, en af kvörtuninni verður ráðið að þér teljið lagatúlkun stjórnvaldsins ótæka. Af kvörtuninni verður ráðið að þér séuð ósáttar við að Skatturinn telji umrædda sendingu ekki teljast til hefðbundinna tækifærisgjafa.

Í a-lið 8. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005 er kveðið á um að gjafir sem aðilar búsettir erlendis senda hingað til lands eða hafa með sér frá útlöndum af sérstöku tilefni skuli að frekari skilyrðum uppfylltum vera tollfrjálsar. Í 117. gr. sömu laga segir að telji tollskyldur aðili ákvörðun tollyfirvalda um gjaldskyldu, fjárhæð aðflutningsgjalda, atriði sem liggja til grundvallar ákvörðun aðflutningsgjalda, svo sem tollverð og tollflokkun, eða álag skv. 180. gr. b. eigi rétta geti hann sent skriflega rökstudda kæru, studda nauðsynlegum gönum til tollyfirvalda. Þar segir einnig að sé ágreiningur um tollmeðferð vöru sem hefur þegar verið tollafgreidd skuli kæra send tollyfirvöldum innan 60 daga frá tollafgreiðsludegi. Samkvæmt 118. gr. sömu laga getur tollskyldur aðili meðal annars skotið kæruúrskurði skv. 117. gr. til yfirskattanefndar. Samkvæmt 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, er kærufrestur til yfirskattanefndar þrír mánuðir frá dagsetningu ákvörðunar stjórnvalds.

Hvorki verður af kvörtuninni né gögnum, sem henni fylgdu, fyllilega ráðið að hvaða marki þér hafið átt í samskiptum við Skattinn í tilefni framangreinds ágreinings. Þó er ljóst að einhver tölvubréfaskipti hafa átt sér stað en ekki verður séð að þér hafið freistað þess að fá formlega afstöðu Skattsins með rökstuddri kæru í samræmi við 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 né eftir atvikum skotið ákvörðun Skattsins í kjölfar slíkrar kæru til yfirskattanefndar í samræmi við 118. gr. sömu laga. Ástæða þess að athygli yðar er vakin á framangreindum kæruleiðum er sú að í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er fjallað um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar. Í 3. mgr. 6. gr. laganna segir að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Tel ég rétt að þér freistið þess fyrsta kastið að leita til framangreindra stjórnvalda. Að fenginni niðurstöðu þerra getið þér leitað til mín á nýjan leik ef þér teljið yður enn rangsleitni beitta.

Með vísan til alls ofangreinds er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.