Kvartað var yfir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, sýslumanninum á Norðurlandi vestra og sveitarfélaginu Skagafirði vegna rangrar skráningar á eignarhaldi skemmu. Engin heimild hefði verið til að færa eignarhald skemmunnar án þess að afsal hefði legið fyrir. Umleitanir til að fá þetta leiðrétt hefðu ekki skilað öðru en því að stjórnvöldin vísuðu á hvert annað.
Kvörtuninni fylgdi afrit samskipta við sveitarfélagið og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Í tölvubréfi sveitarfélagsins kom fram að krafan virtist varða hlutverk sveitarfélagsins samkvæmt lögum um skráningu, merki og mat fasteigna. Varð umboðsmaður því að ætla að unnt væri að kæra niðurstöðu þess til innviðaráðuneytisins enda voru veittar leiðbeiningar um kærufrest. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun leiðbeindi einnig um slíkt og þar sem málið hafði ekki verið borið undir ráðuneytið voru að svo stöddu ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það. Hvað aðkomu sýslumanns snerti benti umboðsmaður á að þær gjörðir féllu utan starfssviðs síns þar sem í lögum væri gert ráð fyrir að ágreiningur um þinglýsingar væri borinn undir dómstóla.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 31. júlí 2024.
I
Vísað er til kvörtunar yðar 27. júní sl., f.h. A, B, C og D, er þér beinið að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, sýslumanninum á Norðurlandi vestra og sveitarfélaginu Skagafirði.
Samkvæmt kvörtuninni eru umbjóðendur yðar eigendur jarðarinnar X í Skagafirði og að réttu lagi eigendur tiltekinnar skemmu á svæðinu. Hún hafi hins vegar ranglega verið skráð eign eigenda jarðarinnar Y. Í kvörtuninni kemur fram að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi borist beiðni sveitarfélagsins 16. október 2019 um stofnun síðarnefndu jarðarinnar. Sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra hafi staðfest skráningu hennar í þinglýsingabók 29. nóvember þess árs. Þá hafi eignarhald skemmunnar verið fært af X til Y samkvæmt skráningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar 2. desember og sýslumaðurinn staðfest færsluna 5. desember þess árs.
Í kvörtuninni segir að þér hafið unnið að leiðréttingu á skráðu eignarhaldi skemmunnar og leitað í því skyni til sýslumanns, Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og sveitarfélagsins eins og nánar er rakið í kvörtuninni. Stjórnvöldin vísi hins vegar hvert á annað. Ljóst megi vera að engin heimild hafi verið fyrir því að færa eignarhald skemmunnar án þess að afsal lægi fyrir. Ábyrgðin liggi hjá sveitarfélaginu, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun eða sýslumanni sem öll séu bundin af stjórnsýslulögum, nr. 37/1993.
II
Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er á meðal skilyrða þess að kvörtun verði tekin til meðferðar hjá umboðsmanni að hún sé borin fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá er um ræðir var til lykta leiddur. Því hefur athugun umboðsmanns á málinu verið afmörkuð við beiðnir yðar á árinu 2024 til sveitarfélagsins Skagafjarðar og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um leiðréttingu skráningar umræddrar fasteignar í fasteignaskrá, sbr. ákvæði laga nr. 6/2001, um skráningu, merki og mat fasteigna.
Jafnframt segir í 3. mgr. sömu lagagreinar að sé unnt að skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Síðastnefnda ákvæðið er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Í framkvæmd sinni hefur umboðsmaður litið svo á að honum sé vegna ákvæðisins ekki heimilt að taka mál til athugunar á grundvelli kvörtunar þegar sá sem kvartar hefur átt þess kost að kæra málið til æðra stjórnvalds en kærufrestur hefur liðið án þess að kæra hafi komið fram.
Ástæða þess að þetta er rakið er að kvörtun yðar fylgdi afrit samskipta yðar við sveitarfélagið Skagafjörð og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun vegna málsins. Í tölvubréfi sveitarfélagsins til yðar 26. apríl sl. kemur m.a. fram að krafa yðar sýnist varða hlutverk sveitarfélags samkvæmt lögum nr. 6/2001. Verði því að ætla að unnt sé að kæra niðurstöðu sveitarfélagsins í málinu til innviðaráðuneytisins til að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt og var yður jafnframt leiðbeint um kærufrest skv. 27. gr. stjórnsýslulaga. Þá segir í tölvubréfi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar til yðar 14. júní sl. að ef þér teljið ekki rétt hafa verið staðið að afgreiðslu málsins hjá stofnuninni upplýsist að ákvarðanir hennar séu kæranlegar til sama ráðuneytis.
Samkvæmt framangreindu er yður fært að bera ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, um synjun beiðni yðar, f.h. umbjóðenda yðar, um leiðréttingu skráningar umræddrar fasteignar í fasteignaskrá, undir innviðaráðuneytið. Jafnframt kann yður að vera fært að bera málið undir ráðuneytið hvað varðar þátt sveitarfélagsins samkvæmt lögum nr. 6/2001. Með vísan til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 eru því ekki uppfyllt lagaskilyrði til að þessi þáttur kvörtunar yðar verði tekinn til frekari meðferðar að svo stöddu. Fari svo að þér leggið málið í þann farveg og umbjóðendur yðar telja sig enn rangsleitni beitta að fenginni niðurstöðu ráðuneytisins getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi teljið þér tilefni til þess. Verður þá tekin afstaða til þess hvort og að hvaða marki málið getur komið til umfjöllunar af hálfu umboðsmanns.
III
Hvað varðar hlutverk sýslumannsins á Norðurlandi vestra sem þinglýsingarstjóra tel ég rétt að taka fram að í 1. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga, nr. 39/1978, segir að bera megi úrlausn þinglýsingarstjóra um þinglýsingu undir héraðsdómara með nánar tilgreindum hætti.
Ástæða þess að þetta er tekið fram er sú að samkvæmt c-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda, þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum er ætlast til þess að menn leiti leiðréttingar með málskoti til dómstóla. Af þessum sökum falla kvartanir, sem lúta að ágreiningi um þinglýsingar, almennt utan starfssviðs umboðsmanns og eru því að jafnaði ekki skilyrði að lögum fyrir umboðsmann til að fjalla um slík mál. Bresta því einnig lagaskilyrði til þess að ég geti fjallað frekar um kvörtun yðar að því leyti sem hún varðar beiðni yðar, f.h. umbjóðenda yðar, um leiðréttingu þinglýsingarbókar, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 39/1978.
IV
Með vísan til framangreinds er umfjöllun minni um kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.