Skattar og gjöld. Þjónustugjöld. Innheimta gjalds vegna inntökuprófa í læknadeild Háskóla Íslands. Lögmætisregla.Frumkvæðisathugun.

(Mál nr. 3805/2003)

Hinn 25. maí 2003 birtist í Morgunblaðinu auglýsing um inntökupróf í læknadeild Háskóla Íslands. Í henni kom meðal annars fram að við skráningu í prófið þyrfti að leggja fram kvittun fyrir greiðslu próftökugjalds kr. 8.500 inn á bankareikning Háskóla Íslands. Þessi auglýsing og það skilyrði sem þar kom fram um að þeir, sem hygðust þreyta slíkt próf, greiddu fyrst sérstakt próftökugjald, varð umboðsmanni tilefni til þess að taka það til athugunar að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, hvort fyrir hendi væri fullnægjandi lagaheimild fyrir háskólaráð til að ákveða töku slíks gjalds í reglum nr. 885/2001, um inntöku nýnema í læknisfræðiskor og sjúkraþjálfunarskor í læknadeild Háskóla Íslands. Umboðsmaður ritaði háskólaráði bréf af þessu tilefni og að fengnu svarbréfi hélt hann fund með fulltrúum Háskóla Íslands vegna athugunarinnar.

Umboðsmaður rakti 1. mgr. 18. gr. laga nr. 41/1999, um Háskóla Íslands, þar sem mælt er fyrir um að háskólanum skuli heimilt að taka gjald fyrir þjónustu sem telst utan þeirrar þjónustu sem háskólanum er skylt að veita. Tók hann fram að athugun sín hefði alfarið beinst að því hvort „gerð, fyrirlögn og yfirferð“ umrædds inntökuprófs í læknadeild Háskóla Íslands yrði talin þjónusta sem háskólanum væri skylt að veita í merkingu þessa ákvæðis.

Umboðsmaður tók m.a. fram að lög nr. 41/1999 og lög nr. 136/1997, um háskóla, gera beinlínis ráð fyrir því að Háskóli Íslands geti ákveðið að láta nemendur gangast undir inntökupróf til viðbótar við hin almennu skilyrði um stúdentspróf eða sambærilegt nám, m.a. ef ákveðið er að setja fjöldatakmarkanir á inngöngu í tiltekið nám við háskólann. Gæti hann ekki fallist á þá afstöðu háskólaráðs að „gerð, fyrirlögn og yfirferð inntökuprófs“ í læknadeild eins og það hefði verið framkvæmt sumarið 2003 teldist falla utan þeirrar þjónustu sem háskólanum væri skylt að veita, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 41/1999. Háskólinn hefði aðeins verið að nýta heimildir laga nr. 41/1999 og laga nr. 136/1997 til að takmarka fjölda nemenda í námi við læknadeild. Það að gera greiðslu á sérstöku prófgjaldi skilyrði fyrir því að geta notið þeirrar lögbundnu þjónustu sem Háskóla Íslands væri skylt að veita gæti því ekki rúmast innan gjaldtökuheimildar 1. mgr. 18. gr. laga nr. 41/1999. Tæki Háskóli Íslands þá ákvörðun að nýta með þessum hætti lögmæltar heimildir til að setja fjöldatakmarkanir og gera inntökupróf að skilyrði fyrir inngöngu í nám, sem skólanum væri að lögum skylt að bjóða upp á, gæti háskólinn ekki nema það samrýmdist 1. mgr. 18. gr. laga nr. 41/1999 látið þá nemendur sem ákveða að þreyta sérstakt inntökupróf á vegum skólans bera þann kostnað sem leiddi af framkvæmd slíkrar ákvörðunar.

Það var niðurstaða umboðsmanns að Háskóla Íslands hefði skort heimild í lögum til að innheimta sérstakt gjald að upphæð kr. 8.500 af þeim sem þreyttu inntökupróf til náms í læknisfræði við Háskóla Íslands fyrir skólaárið 2003-2004. Beindi hann þeim tilmælum til Háskóla Íslands að hann gerði viðhlítandi ráðstafanir í tilefni af álitinu og þá eftir atvikum í samræmi við lög nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.

I.

Hinn 25. maí 2003 birtist í Morgunblaðinu auglýsing um inntökupróf í læknadeild Háskóla Íslands. Í henni kom meðal annars fram að við skráningu í prófið þyrfti að leggja fram kvittun fyrir greiðslu próftökugjalds kr. 8.500 inn á bankareikning Háskóla Íslands.

Framangreind auglýsing um inntökupróf í læknadeild HÍ og það skilyrði sem þar kemur fram um að þeir, sem hyggist þreyta slík próf, greiði fyrst sérstakt próftökugjald varð mér tilefni til þess að taka það til athugunar að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, hvort fyrir hendi væri fullnægjandi lagaheimild fyrir háskólaráð til að ákveða töku slíks gjalds í reglum nr. 885/2001, um inntöku nýnema í læknisfræðiskor og sjúkraþjálfunarskor í læknadeild Háskóla Íslands.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 31. desember 2003.

II.

Ég ritaði háskólaráði bréf, dags. 26. maí 2003, vegna ákvörðunar minnar um að taka framangreind atriði til athugunar að eigin frumkvæði. Þar sagði meðal annars svo:

„Um inntöku nýnema í læknisfræðiskor og sjúkraþjálfunarskor í læknadeild Háskóla Íslands gilda reglur nr. 885/2001, með áorðnum breytingum. Þær hefur háskólaráð sett með stoð í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 41/1999, um Háskóla Íslands, sbr. 3. mgr. 89. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 458/2000, sbr. 7. gr. reglna nr. 885/2001. Í 2. mgr. 3. gr. reglna nr. 885/2001 segir að heimilt sé á grundvelli 1. mgr. 18. gr. laga nr. 41/1999, um Háskóla Íslands, að innheimta próftökugjald til að kosta gerð, fyrirlögn og yfirferð inntökuprófa. Sé próftökugjald innheimt fari um fjárhæð þess og innheimtu eftir sameiginlegum reglum fyrir Háskóla Íslands. Ákvæði 1. mgr. 18. gr. laga nr. 41/1999 er svohljóðandi:

„Háskóla Íslands skal heimilt að taka gjald fyrir þjónustu sem telst utan þeirrar þjónustu sem háskólanum er skylt að veita. Honum er enn fremur heimilt að taka gjöld fyrir endurmenntun og fræðslu fyrir almenning. Háskólaráð setur nánari reglur um gjaldtöku og ráðstöfun gjalda samkvæmt ákvæði þessu.“

Í athugasemdum við 1. mgr. 18. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 41/1999 segir meðal annars svo:

„Í 1. mgr. er kveðið á um að heimilt sé að taka gjald fyrir þjónustu sem háskólinn lætur í té. Hér er einkum átt við þjónustu sem háskólinn veitir og er fyrir utan hina lögboðnu þjónustu sem háskólanum er skylt að veita. [...] Háskólinn hefur ekki haft skýra heimild í lögum til að taka gjald fyrir margvíslega þjónustu, utan þeirrar þjónustu sem honum er skylt að veita lögum samkvæmt. Hann hefur möguleika á að veita og vill veita ýmsa þjónustu en getur það ekki vegna skorts á fé. Dæmi um slíkt gæti verið aukin þjónusta vegna tölvuaðgangs og innhringisambanda fyrir þá stúdenta sem þess óska. Einnig gæti hér fallið undir gjaldtaka fyrir veitingu vottorða um námsástundun og próf sem eru utan reglulegrar upplýsingagjafar um þetta efni. Með þessu ákvæði er lagt til að þessi möguleiki verði rýmkaður, en um leið er lögð áhersla á að ákvarðanir um slík þjónustugjöld verða að byggjast á þeim kostnaði sem felst í því að veita þjónustuna. [...].“ (Alþt. 1998-1999, A-deild, bls. 3314.)

Framangreind auglýsing um inntökupróf í læknadeild HÍ og það skilyrði sem þar kemur fram um að þeir sem hyggist þreyta slík próf greiði fyrst sérstakt próftökugjald hefur orðið mér tilefni til þess að taka það til athugunar að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, hvort og þá með hvaða hætti tilvitnuð 1. mgr. 18. gr. laga nr. 41/1999 feli í sér fullnægjandi lagaheimild fyrir háskólaráði til að ákveða töku slíks gjalds í reglum nr. 885/2001. Í ljósi þess að háskólaráð er samkvæmt umræddu lagaákvæði falið að setja nánari reglur um gjaldtöku og ráðstöfun gjalda sem þar koma fram og að virtri 1. mgr. 3. gr. laga nr. 41/1999 um hlutverk og stöðu háskólaráðs samkvæmt þeim lögum hef ég ákveðið að beina fyrirspurn minni af þessu tilefni til ráðsins. Ég óska því eftir að háskólaráð skýri viðhorf sitt til framangreinds álitaefnis og þá einkum með tilliti til þess orðalags fyrsta málsl. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 41/1999 að heimild sú sem þar er veitt taki til gjalda fyrir þjónustu sem telst „utan þeirrar þjónustu sem háskólanum er skylt að veita“. Óska ég eftir skýringum háskólaráðs á því hvernig framkvæmd inntökuprófs í læknadeild, og þá gjaldtaka vegna próftöku af því tilefni, falli utan þeirrar þjónustu sem læknadeild, sem háskóladeild innan Háskóla Íslands, er skylt að veita, sbr. t.d. III. kafla laga nr. 41/1999. Telji háskólaráð að það hafi haft fullnægjandi heimild í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 41/1999 til að mæla fyrir um umrætt próftökugjald í reglum nr. 885/2001 óska ég eftir upplýsingum um það hvernig upphæð próftökugjaldsins var ákveðin og hvaða kostnaður búi að baki gjaldinu. Minni ég í því sambandi á athugasemdir þær sem fram koma í niðurlagi tilvitnaðra ummæla úr lögskýringargögnum.“

Svarbréf háskólaráðs barst mér 14. október 2003 en þar segir meðal annars:

„Á fundi háskólaráðs þann 8. nóvember 2001 voru reglur um inntökupróf samþykktar af háskólaráði á grundvelli draga sem undirbúin höfðu verið í sameiningu af læknadeild og sameiginlegri stjórnsýslu Háskólans. Sjö háskólaráðsmanna greiddu atkvæði með samþykktinni en einn var á móti [...]. Reglurnar voru sendar til birtingar í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga um Háskóla Íslands og birtust þann 30. nóvember 2001 (nr. 885/2001).

Í 2. mgr. 3. gr. reglnanna segir:

„Heimilt er á grundvelli l. mgr. 18. gr. laga nr. 41/1999 um Háskóla Íslands að innheimta próftökugjald til að kosta gerð, fyrirlögn og yfirferð inntökuprófa. Ef próftökugjald er innheimt fer um fjárhæð þess og innheimtu eftir sameiginlegum reglum fyrir Háskóla Íslands.“

Fram að því að inntökuprófið fór fram í júní 2003, var tvisvar gerð breyting á reglunum (reglur nr. 134/2002 og nr. 503/2002). Þessar breytingar snertu hins vegar ekki þetta ákvæði um próftökugjald.

Þegar vísað er til sameiginlegra reglna Háskóla Íslands í 2. mgr. 3. gr. reglna um inntökuprófið er átt við 70. gr. reglna nr. 458/2000, en þar segir m.a. í 3. mgr.:

„Gjöld sem innheimt eru á grundvelli 1. mgr. 18. gr. laga nr. 41/1999, um Háskóla Íslands, sbr. nánari ákvæði í reglum þessum, skulu ekki vera hærri en sá kostnaður sem til verður við að veita þjónustuna og skal þeim eingöngu varið til að standa straum af henni.“

Við skiptingu fjárveitinga innan Háskólans fyrir árið 2003 var ekki gert ráð fyrir fjárveitingu til læknadeildar vegna væntanlegs inntökuprófs. Svo sem sjá má af forsendum sem háskólaráð lagði til grundvallar við gerð fjárhagsáætlunar [...] er framlagi ríkisins til Háskólans ráðstafað til þeirra tveggja meginverkefna sem skólinn hefur með höndum lögum samkvæmt, þ.e. hefðbundins háskólanáms skráðra stúdenta annars vegar og rannsókna hins vegar.

Fyrir fund háskólaráðs þann 20. mars 2003, var lagt erindi læknadeildar um að heimild til álagningar próftökugjalds yrði nýtt vegna væntanlegs inntökuprófs í júní [...]. Læknadeild rökstuddi beiðnina með því að fyrirsjáanlega mundi töluverður kostnaður verða við framkvæmd inntökuprófsins, og voru fimm kostnaðarliðir þar tilgreindir. Tekið var þó fram að erfitt væri að meta á hvaða fjárhæðum kostnaðurinn myndi hlaupa fyrr en eftir að skráningu til prófsins lyki. Að teknu tilliti til útlagðs kostnaðar taldi læknadeild próftökugjaldið ekki mega vera lægra en kr. 7.500,-.

Jafnframt var á þessum háskólaráðsfundi lagt fram minnisblað frá Nemendaskrá Háskóla Íslands [...], þar sem óskað var eftir því að háskólaráð tæki tillit til þess, við ákvörðun um próftökugjald, að kostnaður félli óhjákvæmilega á Nemendaskrá. Talið var að móttaka og frágangur gagna væri ígildi rúmlega mánaðarvinnu fyrir starfsmann í fullu starfi sem ráða þyrfti sérstaklega til þess að sinna verkefninu. Reiknaðist Nemendaskrá til að kostnaðurinn gæti orðið rúmlega 500 þús. kr.

Háskólaráð tók ekki afstöðu til málsins á fundi sínum þann 20. mars 2003 [...], en tók málið fyrir að nýju á fundi sínum þann 10. apríl 2003 [...]. Þar var samþykkt með sjö atkvæðum að próftökugjald skyldi innheimt að fjárhæð kr. 8.500,-. Tveir fulltrúar stúdenta voru á móti.

Próftökugjaldið var í kjölfar þessa auglýst á vef Háskólans og kynnt væntanlegum próftökum. Ekki komu fram formlegar athugasemdir við gjaldið úr þeirra hópi, en með bréfi dags. 29. apríl 2003 [...] gerði Stúdentaráð Háskóla Íslands (SHÍ) grein fyrir ályktun sinni gegn próftökugjaldinu. Jafnframt var óskað eftir rökstuðningi fyrir þessari gjaldtöku meðal annars varðandi þá lagastoð sem gjaldið er talið byggja á og eins varðandi sundurliðun upphæðarinnar. Þessu bréfi var svarað af hálfu Háskólans þann 26. maí 2003 [...].

II.

Umrætt ákvæði 1. mgr. 18. gr. laga um Háskóla Íslands hefur að geyma einfalda lagaheimild til þess að almenningur standi undir kostnaði vegna þátta sem teljast vera utan almenns rekstrar Háskóla Íslands.

Að mati háskólaráðs ber að skýra umrædda lagaheimild skv. orðanna hljóðan og í samræmi við önnur ákvæði laga um Háskóla Íslands. Er þar sérstaklega vitnað til 1. gr. laganna þar sem skyldur Háskólans eru skilgreindar en þessar skyldur styðjast bæði við aldalanga alþjóðlega hefð og skilgreiningar í alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að (sjá m.a. ákvæði Lissabon samningsins um viðurkenningu á menntun og hæfi að því er varðar æðra skólastig á Evrópusvæðinu - Convention on the Recognition of Qualifications concerning Higher Education in the European Region, [...]). Að teknu tilliti til þessa verður að telja að lögmælt þjónusta sem Háskóla Íslands er skylt að veita felist í eftirfarandi þáttum:

l. Að bjóða upp á hefðbundið háskólanám.

2. Að stunda rannsóknir.

3. Að sinna endurmenntun.

4. Að miðla fræðslu til almennings.

5. Að veita þjóðfélaginu þjónustu í krafti þekkingar sinnar.

Allir þessir þættir hafa í för með sér tiltekna starfsemi sem fram fer á vegum Háskólans. Megineinkenni þeirrar starfsemi sem fram fer innan hvers þáttar ætti að öllu jöfnu ekki að orka tvímælis. Sérstaklega er vísað til þess að hugtakið „hefðbundið háskólanám“ á sér fastmótað inntak, sem umboðsmaður hefur m.a. fjallað um í álitum sínum (mál nr. 2408/1998). Skyldur Háskólans að þessu leyti eru bundnar við þá sem eru skrásettir stúdentar í skólanum, sbr. 4. mgr. 13. gr. laga um Háskóla Íslands. Það sama gildir um endurmenntunarhugtakið, sbr. m.a. umfjöllun í svokölluðu MBA-máli (dómur Hæstaréttar 26. september 2002).

Því verður að telja að starfsemi sem fellur undir einhvern af þessum fimm þáttum, sé þjónusta sem háskólanum er skylt að veita í skilningi 1. mgr. 18. gr. laga um H.Í. og að gagnálykta verði frá því þannig að Háskólanum sé að lögum ekki skylt að standa fyrir annarri starfsemi.

Hvað varðar önnur skýringarsjónarmið sem koma til skoðunar varðandi umrædda gjaldtökuheimild, vill háskólaráð benda á megintilgang ákvæðisins sem er að fá Háskólanum skýra lagastoð fyrir gjaldtöku í margvíslegum tilvikum og rýmka möguleika hans til gjaldtöku. Ýmis ummæli í greinargerð með frumvarpi til laga um Háskóla Íslands styðja þetta, m.a. skýringar við 9. gr. frumvarpsins, sem sérstaklega á við um gjaldtökuheimildir deildar. Rétt er hins vegar að benda á (m.a. vegna tilvísunar í bréfi umboðsmanns til III. kafla laga nr. 41/1999) að skv. l. mgr. 2. gr. reglna nr. 885/2001 er inntökuprófið haldið á vegum Háskóla Íslands, en ekki læknadeildar.

Þá er athyglisverð sú staðreynd að í þágildandi reglugerð um Háskóla Íslands (sbr. augl. Stjtíð. A. nr. 98/1993) var í 44. gr. að finna heimild fyrir töku prófgjalds af skráðum stúdentum. Ákvæðið hafði að vísu ekki verið notað um árabil en telja verður augljóst að heimildir af þessu tagi hafi verið meðal þeirra atriða sem tilgangurinn var að afla skýrrar lagastoðar fyrir. Það er síðan sjálfstætt mál að háskólaráð ákvað með setningu þeirra reglna sem tóku við af reglum nr. 98/1993, að slík gjöld yrðu ekki innheimt (sbr. 1. mgr. 70. gr. reglna nr. 458/2000).

Háskólaráð telur einnig að líta verði til markmiðs þess að taka upp inntökupróf sem aðferð til þess að velja þá sem stunda munu nám í kennslugrein við Háskólann þar sem fjöldatakmörkun er við lýði. Röksemdum fyrir þessu fyrirkomulagi var ítarlega lýst í greinargerð með reglum nr. 885/2001 [...]. Eins og skýrt kemur þar fram er markmið breytinganna m.a. að bæta hag þeirra sem vilja stunda nám í læknadeild, en komast ekki að vegna fjöldatakmörkunar. Sömuleiðis er ljóst að markmið breytingarinnar var ekki fjárhagslegt, enda leiðir hún til þess að deildin fær minna fé í sinn hlut skv. þeim forsendum fyrir skiptingu fjárveitinga sem áður er getið, auk þess kostnaðar sem inntökuprófið veldur.

Líta verður einnig til þess að gjaldtökuheimild af þessu tagi er ekki bundin við lög um Háskóla Íslands, heldur byggist hún á rammalögum um háskóla (19. gr. laga nr. 136/1997). Ákvæði, nær samhljóða l. mgr. 18. gr. laga nr. 41/1999, er í lögum um aðra ríkisháskóla (Kennaraháskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Tækniháskóla Íslands). Af þessu má ljóst vera að löggjafinn hefur ætlað gjaldtökuheimildinni vítt gildissvið. Skýra verður þessi ákvæði með hliðsjón af margvíslegri starfsemi háskólanna og því að löggjafinn hefur ætlað þeim mikið sjálfstæði og svigrúm til þess að þróast, sbr. t.d. ummæli í dómi Hæstaréttar í MBA-málinu sem áður er getið.

Háskólaráð fellst á að vegna áhrifa lögmætisreglunnar sé ekki tilefni til rúmrar skýringar á 1. mgr. 18. gr. laga nr. 41/1999. Ráðið telur hins vegar að þau skýringarsjónarmið sem hér hafa verið rakin mæli öll gegn þrengjandi skýringu á ákvæðinu. Er það jafnframt haft í huga að umrætt próftökugjald getur ekki talist hátt m.a. með hliðsjón af lögbundnu skrásetningargjaldi í H.Í. (sbr. 3. mgr. 13. gr. laga nr. 41/1999) og gjöldum sem tíðkast í framhaldsskólum, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 80/1996, um framhaldsskóla. Sérstök athygli er vakin á því að enginn þeirra sem gekk til prófsins gerði rökstuddar athugasemdir við fjárhæð próftökugjaldsins eða þann grundvöll sem það væri reist á.

III.

Þegar háskólaráð tók ákvörðun sína um gjaldtökuna lá fyrir ráðinu álit frá lögfræðingi háskólarektors um það, hvort sú starfsemi að halda inntökupróf fyrir nemendur sem vilja skrá sig til náms í háskóladeild, sé hluti af lögbundinni skyldu Háskólans eða ekki [...]. Álitsgerðin var upphaflega lögð fyrir ráðið í október 2001 er drög að reglum um inntökupróf komu fyrst til umræðu, en síðan að nýju á fundi ráðsins þann 20. mars 2003.

Meginniðurstaða álitsins byggist á tvennu. Annars vegar því að þeir sem þreyta inntökuprófið séu ekki skráðir stúdentar við Háskóla Íslands og hins vegar því að gerð, fyrirlögn og yfirferð inntökuprófs er sjálfstætt verkefni, óháð hefðbundnu háskólanámi og eðlisólíkt öðrum verkefnum sem stjórnsýsla Háskólans hefur með höndum. Þetta verkefni er þar með ekki hluti af því sem nefna megi lögákveðna kjarnastarfsemi sem Háskólanum er skylt að standa fyrir og kosta af fjárveitingum úr sameiginlegum sjóðum.

Háskólaráð féllst á niðurstöðu álitsins og taldi á grundvelli þess að heimilt væri í samræmi við 1. mgr. 18. gr. laga nr. 41/1999, um Háskóla Íslands eins og hún verður skýrð skv. ofangreindu, að innheimta gjald vegna inntökuprófsins að öðrum skilyrðum uppfylltum. Þessi afstaða ráðsins er óbreytt enda hafa ekki komið fram ný gögn eða sjónarmið sem raska grundvelli ákvörðunarinnar.

IV.

Vísað er til þess sem áður greinir varðandi tildrög þess að háskólaráð ákvað fjárhæð próftökugjaldsins. Eins og fram kemur var fjárhæðin ákveðin að teknu tilliti til fyrirliggjandi upplýsinga um kostnaðarliði og á grundvelli varfærnislegs mats á því hversu margir myndu þreyta inntökuprófið, en læknadeild hafði áætlað út frá aðsókn að deildinni á undanförnum árum að fjöldinn myndi sennilega verða á bilinu 200 til 600.

Staðfest er af hálfu læknadeildar að 203 þreyttu inntökuprófið og greiddu próftökugjald. Einn hætti við að þreyta prófið og fékk helming gjaldsins endurgreiddan. Tekjur vegna gjaldsins voru því kr. 1.729.750,-.

V.

Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum frá læknadeild [...] er útlagður kostnaður deildarinnar vegna inntökuprófsins í júní sl. tæplega 2.500 þús. kr. Þetta er sérgreindur kostnaður vegna prófsins og að langmestu leyti greiðslur til aðila utan læknadeildar og Háskólans. Reyndar hafa enn ekki allir reikningar skilað sér og því hugsanlegt að fjárhæðin muni hækka lítillega þegar endanlegt uppgjör á sér stað.

Útlagður kostnaður annarra eininga, þ.e. Nemendaskrár og kennslusviðs (vegna prófvarða), er a.m.k. 800 þús. kr. [...]. Er þá miðað við að starfsmaður hjúkrunarfræðideildar sem fenginn var til Nemendaskrár í maí hafi verið í 80% starfi við inntökuprófið mánuðina júní og júlí.“

Hinn 19. desember 2003 átti ég fund með fulltrúum Háskóla Íslands vegna athugunar minnar á máli þessu.

III.

1.

Á fundi sínum 10. apríl 2003 ákvað háskólaráð Háskóla Íslands að láta innheimta sérstakt próftökugjald til að kosta gerð, fyrirlögn og yfirferð inntökuprófs í læknadeild skólans í samræmi við heimild sem tekin hafði verið upp í 2. mgr. 3. gr. reglna nr. 885/2001, um inntöku nýnema í læknisfræðiskor og sjúkraþjálfunarskor í læknadeild Háskóla Íslands. Í umræddri málsgrein segir að heimildin byggist á 1. mgr. 18. gr. laga nr. 41/1999, um Háskóla Íslands, en það ákvæði er svohljóðandi:

„Háskóla Íslands skal heimilt að taka gjald fyrir þjónustu sem telst utan þeirrar þjónustu sem háskólanum er skylt að veita. Honum er enn fremur heimilt að taka gjöld fyrir endurmenntun og fræðslu fyrir almenning. Háskólaráð setur nánari reglur um gjaldtöku og ráðstöfun gjalda samkvæmt ákvæði þessu.“

Athugun mín hefur alfarið beinst að því hvort 1. mgr. 18. gr. laga nr. 41/1999 hafi veitt Háskóla Íslands heimild til að ákveða að innheimt yrði sérstakt gjald, sbr. 2. mgr. 3. gr. reglna nr. 885/2001, vegna inntökuprófs í læknadeild. Ég tel að úrlausn um það atriði ráðist af því hvort „gerð, fyrirlögn og yfirferð“ inntökuprófsins verði talin þjónusta „sem háskólanum er skylt að veita“ í merkingu 1. mgr. 18. gr. laga nr. 41/1999 eða ekki.

Ég legg á það áherslu að af hálfu Háskóla Íslands er því ekki haldið fram að háskólanum hefði verið heimilt að innheimta umrætt próftökugjald ef sú þjónusta sem fólst í gerð, fyrirlögn og yfirferð prófsins hefði fallið utan við þá gjaldtökuheimild sem 1. mgr. 18. gr. laga nr. 41/1999 tekur til eða ef þeirrar heimildar nyti ekki við. Ég minni í þessu sambandi á að í 3. málsl. 1. mgr. 18. gr. segir að háskólaráð setji nánari reglur um gjaldtöku og ráðstöfun gjalda samkvæmt ákvæðinu. Á þeim grundvelli hefur háskólaráð í 1. mgr. 70. gr. reglna nr. 458/2000, fyrir Háskóla Íslands, sem fjallar um „gjöld fyrir þjónustu“, tekið orðrétt upp fyrstu tvo málsliði 1. mgr. 18. gr. laga nr. 41/1999. Í 3. málsl. 1. mgr. 70. gr. reglnanna segir síðan eftirfarandi:

„Að öðru leyti er óheimilt að innheimta gjöld fyrir þá kennslu sem fram fer í Háskóla Íslands, umfram skrásetningargjöld í samræmi við ákvæði laga um Háskóla Íslands.“

Í ljósi framangreinds tel ég óþarft að rekja hér almenn sjónarmið stjórnsýsluréttar um tekjuöflun hins opinbera með heildstæðum hætti. Ég minni aðeins á að í stjórnsýslurétti er gengið út frá þeirri meginreglu að stjórnsýslan sé lögbundin og að almenningur þurfi að jafnaði ekki að greiða sérstakt gjald fyrir lögmælta þjónustu eða úrlausn stjórnvalda nema lög heimili það sérstaklega. Verði talið að stjórnvald geti ekki krafist sérstaks gjalds fyrir veitta þjónustu vegna skorts á lagaheimild verður almennt að ganga út frá að það verði að standa undir þeim kostnaði sem hlýst af því að veita slíka þjónustu með almennu rekstrarfé þess. Í ljósi þessa og með hliðsjón af 1. mgr. 18. gr. laga nr. 41/1999 getur Háskóli Íslands ekki innheimt sérstök gjöld fyrir þjónustu sem honum er skylt að veita heldur verður að líta svo á að kostnaður sem hlýst af því að veita slíka þjónustu skuli greiddur af almennu rekstrarfé háskólans.

2.

Í skýringum háskólaráðs til mín, dags. 10. október 2003, kemur fram að það verði ekki talið hluti af lögbundnum skyldum háskólans að standa fyrir inntökuprófi í læknadeild heldur sé það „sjálfstætt verkefni, óháð hefðbundnu háskólanámi og eðlisólíkt öðrum verkefnum sem stjórnsýsla háskólans hefur með höndum“. Þá vísar ráðið til þess að þeir sem þreyta inntökuprófið séu ekki skráðir stúdentar í Háskóla Íslands. Er í þessu sambandi m.a. vísað til álitsgerðar lögfræðings rektors um þetta efni sem háskólaráð hafi fallist á þegar það tók ákvörðun um umrædda gjaldtöku vegna inntökuprófa. Einnig kemur fram það viðhorf háskólaráðs að með 18. gr. laga nr. 41/1999 hafi verið stefnt að því að rýmka möguleika Háskóla Íslands til gjaldtöku og er í því sambandi vísað til athugasemda með 9. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 41/1999 sem sérstaklega eigi við um gjaldtökuheimildir deilda. Þá lýsir ráðið þeirri afstöðu sinni að þar sem gjaldtökuheimild 18. gr. laga nr. 41/1999 sé byggð á rammalögum um háskóla, sbr. 19. gr. laga nr. 136/1997, um háskóla, og þar sem samhljóða ákvæði sé í lögum um aðra ríkisháskóla, sé ljóst að löggjafinn hafi ætlað gjaldtökuheimildinni vítt gildissvið. Þá segir að ákvæði um gjaldtökuheimildir háskóla verði að skýra með „hliðsjón af margvíslegri starfsemi háskólanna og því að löggjafinn hafi ætlað þeim mikið sjálfstæði til þess að þróast“.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 41/1999 er sú heimild sem þar er veitt Háskóla Íslands til að taka gjöld fyrir veitta þjónustu bundin við þá þjónustu sem „telst utan þeirrar þjónustu sem háskólanum er skylt að veita“. Í athugasemdum þeim er fylgdu ákvæðinu í frumvarpi því er varð að lögum nr. 41/1999 kemur fram að ákvæðinu sé einkum ætlað að taka af skarið um heimild háskólans til að innheimta gjöld fyrir ýmiss konar ólögmælta þjónustu. Eru í athugasemdum frumvarpsins sérstaklega nefnd í þessu sambandi aukin þjónusta vegna tölvuaðgangs og innhringisambands fyrir þá ,,stúdenta sem þess óska“ og ,gjaldtaka fyrir veitingu vottorða um námsástundun og próf sem eru „utan reglulegrar upplýsingagjafar um þetta efni“. (Alþt.,1998-1999, A-deild, bls. 3314.) Athugasemdirnar eru teknar upp í bréf mitt til háskólaráðs, dags. 26. maí 2003, sjá kafla II hér að framan, en í þeim er hvergi vikið að framkvæmd inntökuprófa eða sambærilegum verkefnum.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 41/1999, um Háskóla Íslands, skal háskólinn vera vísindaleg rannsókna- og fræðslustofnun er veiti nemendum sínum menntun til að sinna sjálfstætt vísindalegum verkefnum og gegna ýmsum störfum í þjóðfélaginu. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögunum kemur fram að kjarninn í starfsemi háskólans séu kennsla og rannsóknir (Alþt. 1998-99, A-deild, bls. 3299.) Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 41/1999 fer kennsla, rannsóknir og stjórnun fram innan háskóladeilda sem eru grunneiningar háskólans og eru þær sjálfstæðar um eigin málefni innan þeirra marka er sameiginlegar reglur háskólans setja. Í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 41/1999 segir að hver deild semji kennsluskrá fyrir sig þar sem m.a. skuli gerð grein fyrir skipan náms í deildinni, námsframvindu, hámarksnámstíma, prófgráðum, prófgreinum, námskeiðum sem í boði eru og vægi þeirra, kennsluháttum, starfsþjálfun o.fl. Af ákvæðum V. kafla laga nr. 41/1999 verður ráðið að hver deild Háskóla Íslands hafi það lögbundna hlutverk að standa fyrir fyrirlestrum, æfingum og námskeiðum, sbr. 2. mgr. 14. gr. laganna, og gangast fyrir prófum, sbr. 2. mgr. 15. gr.

Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 41/1999 segir að nemendur sem hefja nám í Háskóla Íslands skuli hafa lokið stúdentsprófi eða öðru sambærilegu prófi frá erlendum skóla. Samkvæmt ákvæðinu má þó veita öðrum en þeim sem uppfylla framangreind skilyrði rétt til þess að hefja nám við háskólann ef þeir að mati viðkomandi deildar búa yfir hliðstæðum þroska og þekkingu og stúdentsprófið veitir. Skal háskólaráð setja sérstakar reglur um rétt þeirra til að stunda nám við háskólann. Í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 41/1999 er mælt fyrir um að háskólaráð setji, að fenginni tillögu deildar, nánari reglur um inntöku stúdenta í einstakar námsgreinar í grunn- og framhaldsnámi. Þá kemur fram að í slíkum reglum sé m.a. heimilt að binda aðgang að námsgreinum frekari skilyrðum um undirbúning en fram koma í 1. mgr. 13. gr. og takmarka fjölda stúdenta í grunn- og framhaldsnámi. Í athugasemdum greinargerðar að baki 2. mgr. 13. gr. laga nr. 41/1999 segir svo:

„Í 2. mgr. er kveðið á um að háskólaráð setji nánari reglur um inntöku stúdenta í einstakar námsgreinar, bæði í grunnnám og framhaldsnám. Í reglunum verður heimilt að binda aðgang að námsgreinum frekari skilyrðum um undirbúning en fram koma í hinu almenna skilyrði í 1. mgr. Þetta er í samræmi við ákvæði 6. gr. laga um háskóla, nr. 136/1997, sem fyrr er greint. Deildir skilgreina þá nánar þann undirbúning sem þær telja nauðsynlegan í upphafi náms og gera þá kröfu við inngöngu að stúdent hafi auk almenns kjarna náð tilteknum árangri í einstökum greinum eða greinaflokkum á stúdentsprófi sem teljast óhjákvæmilegur undirbúningur að námi í viðkomandi deild. Jafnframt er í 2. mgr. heimild til að takmarka fjölda stúdenta sem teknir verða í grunn- og framhaldsnám. Samkvæmt heimildarákvæði 5. mgr. 21. gr. gildandi laga er fjöldatakmörkun ákveðin af háskólaráði, að fengnum tillögum hlutaðeigandi deilda sem hafa til þess heimild í reglugerð. Undanþága byggð á 5. mgr. gildandi lagagreinar hefur verið notuð til að setja í reglugerð ákvæði um heimild til takmörkunar á fjölda stúdenta á 1. námsári vegna skorts á aðstöðu til kennslu. Auk þessa er ljóst að háskólinn getur vegna skorts á aðstöðu þurft að takmarka fjölda þeirra sem hann tekur til framhaldsnáms að loknu grunnnámi til fyrstu háskólagráðu, en heimildir til þess eru alls ekki nægilega skýrar samkvæmt gildandi lögum. Með þessum breytingum eru heimildir skýrðar. Aftur á móti er ekki við það miðað að fjöldatakmörkunum verði beitt í ríkari mæli en verið hefur, enda er tilgangur fjöldatakmörkunar ekki að fækka þeim sem ljúka námi, heldur að skapa aðstæður til að sinna nemendum betur og gera nám þeirra árangursríkara.“ (Alþt. 1998-1999, A-deild, bls. 3311.)

Í tilvitnuðum athugasemdum segir að 2. mgr. 13. gr. laga nr. 41/1999 sé í samræmi við ákvæði 6. gr. laga nr. 136/1997, um háskóla. Í lögum nr. 136/1997 er að finna „einfaldar meginreglur um starfsemi háskóla“, sjá Alþt. 1997-1998, A-deild, bls. 1053. Undir lögin falla allar menntastofnanir sem veita æðri menntun, sbr. 1. mgr. 1. gr., þ.á m. Háskóli Íslands enda þótt nánar sé mælt fyrir um starfsemi hans í lögum nr. 41/1999, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 136/1997. Ákvæði 6. gr. laga nr. 136/1997, sem vísað er til í tilvitnuðum athugasemdum að baki 2. mgr. 13. gr. laga nr. 41/1999, er svohljóðandi:

„Nemendur, sem hefja nám í háskóla, skulu hafa lokið stúdentsprófi, öðru sambærilegu námi eða búa yfir jafngildum þroska og þekkingu að mati stjórnar viðkomandi háskóla.

Tryggja skal að inntökuskilyrði í háskóla og námskröfur svari jafnan til þess sem krafist er í viðurkenndum háskólum á sambærilegu sviði erlendis.

Háskólar geta ákveðið sérstök viðbótarinntökuskilyrði ef þörf gerist, þar á meðal að láta nemendur sem uppfylla framangreind skilyrði gangast undir inntökupróf eða stöðupróf.“

Í 3. mgr. greinarinnar er þannig sérstaklega gert ráð fyrir því að háskólar geti ákveðið sérstök viðbótarinntökuskilyrði umfram þau sem greinir í 1. mgr. „ef þörf gerist“ og látið nemendur sem uppfylla hin almennu skilyrði gangast m.a. undir „inntökupróf“. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum nr. 136/1997 segir meðal annars svo:

„Í greininni er skilgreint hverjir hafa rétt til þess að hefja háskólanám. Jafnframt er lagt til að háskólar geti ákveðið sérstök inntökuskilyrði til viðbótar þeim almennu kröfum sem gerðar eru til þeirra sem ætla að hefja nám í háskóla. Samkvæmt núgildandi löggjöf geta allir skólar á háskólastigi nema Háskóli Íslands gert viðbótarkröfur til umsækjenda um nám. Nokkrir þeirra skóla, sem munu tilheyra háskólastigi eftir setningu þessara laga en kallast í dag sérskólar, hafa nú sérstök inntökuskilyrði. Hér er lagt til að sama regla gildi um alla skóla á háskólastigi hvað þetta varðar og að það heyri undir ákvörðun hvers skóla hvort slík sérstök inntökuskilyrði skuli sett og þá hvers eðlis þau eru.“ (Alþt. 1997-1998, A-deild, bls. 1058-1059.)

Samkvæmt framangreindu gera lög nr. 41/1999 og lög nr. 136/1997 beinlínis ráð fyrir því að Háskóli Íslands geti ákveðið að láta nemendur gangast undir inntökupróf til viðbótar við hin almennu skilyrði um stúdentspróf eða sambærilegt nám, m.a. ef ákveðið er að setja fjöldatakmarkanir á inngöngu í tiltekið nám við háskólann. Ég tek fram að ákvörðun um að gera þeim, sem áhuga hafa á því að stunda tiltekið nám við Háskóla Íslands, að taka inntökupróf til þess að mega stunda nám við viðkomandi háskóladeild byggist á mati á því hvort þörf sé á slíku. Háskólaráð ákvað á fundi sínum 8. nóvember 2001 að nýta sér þessa heimild með því að setja sérstök skilyrði fyrir inngöngu í læknadeild Háskóla Íslands í reglur nr. 885/2001, um inntöku nýnema í læknisfræðiskor og sjúkraþjálfunarskor í læknadeild Háskóla Íslands. Í 2. gr. reglnanna, sbr. reglur nr. 134/2002, segir meðal annars svo:

„Inntökupróf er haldið í júní ár hvert, í fyrsta sinn árið 2003, samkvæmt nánari ákvörðun læknadeildar að höfðu samráði við framkvæmdastjóra kennslusviðs Háskóla Íslands. Prófið er haldið á vegum Háskóla Íslands og í húsnæði hans.

Læknadeild auglýsir prófið og liggur sérstök lýsing á framkvæmd þess frammi á skrifstofu deildarinnar.

Nemendur skulu vera skráðir sérstaklega til inntökuprófsins hjá nemendaskrá Háskóla Íslands áður en þeir ganga til prófsins. Tiltekinn fjöldi, ákveðinn skv. 1. gr., þeirra nemenda sem bestum árangri ná í prófinu fá rétt til náms í læknadeild Háskóla Íslands – læknisfræði eða sjúkraþjálfun, sbr. 4. gr. Nemandi sem öðlast rétt til náms í læknadeild að loknu inntökuprófi, skal hefja námið á næsta haustmisseri eftir prófið. Að öðrum kosti hefur hann fyrirgert rétti sínum til náms í læknadeild á grundvelli þessa inntökuprófs, en þann rétt öðlast þá sá nemandi sem næstur var því að öðlast rétt til náms á grundvelli sama inntökuprófs. Séu tveir eða fleiri nemendur jafnir öðlast báðir eða allir rétt til náms á næsta haustmisseri.“

Í reglunum er einnig fjallað um skrásetningu þeirra sem þreyta inntökupróf samkvæmt reglunum og öðlast rétt til náms á grundvelli frammistöðu sinnar þar. Samkvæmt 4. gr. reglnanna skal skrásetningu þeirra lokið fyrir 20. ágúst ár hvert en þeir sem ekki öðlast rétt til náms í læknadeild eiga þess kost að skrásetja sig innan sömu tímamarka í aðrar deildir gegn greiðslu skrásetningargjalds samkvæmt reglum háskólans. Verður þannig ráðið af ákvæðinu að þeir sem ekki ná tilskildum árangri á prófinu geti ekki skráð sig til náms í læknisfræði- eða sjúkraþjálfunarskor læknadeildar. Í því sambandi bendi ég á að samkvæmt 4. mgr. 13. gr. laga nr. 41/1999 teljast þeir einir stúdentar við Háskóla Íslands sem skrásettir hafa verið til náms þar. Í 2. málslið 1. mgr. 14. gr. sömu laga er enn fremur mælt fyrir um að fyrirlestrar, æfingar og námskeið í háskóladeildum séu fyrir skrásetta stúdenta en kennara sé heimilt að veita öðrum kost á að sækja slíka kennslu nema háskóladeild mæli öðruvísi fyrir. Í 3. mgr. 47. gr. reglna nr. 458/2000, um Háskóla Íslands, er hins vegar kveðið á um það að stúdentar eigi ekki rétt til að sækja fyrirlestra og þreyta próf nema þeir séu skráðir í hinni árlegu skráningu í Háskóla Íslands. Þá er í 1. mgr. 47. gr. reglnanna áréttað ákvæði 4. mgr. 13. gr. laga nr. 41/1999 og jafnframt mælt fyrir um að öllum stúdentum sé skylt að láta skrá sig í námskeið fyrir hvert kennslumisseri.

Með 2. mgr. 3. gr. reglna nr. 885/2001 var ákveðið að heimilt væri að taka sérstakt gjald til að kosta gerð, fyrirlögn og yfirferð inntökuprófa við læknadeild Háskóla Íslands. Með þessu var lagt til grundvallar að framkvæmd inntökuprófsins félli utan við þá þjónustu sem háskólanum er skylt að veita, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 41/1999. Í ljósi þessa verður afstaða Háskóla Íslands ekki skilin á annan veg en að þjónusta sem einungis felst í framkvæmd ákvörðunar um að nýta heimildir laga nr. 41/1999 og laga nr. 136/1997 til að gera sérstakt próf að skilyrði fyrir inngöngu í nám við læknadeild teljist samt sem áður þjónusta sem ekki sé liður í lögbundnum verkefnum skólans.

Það leiðir af reglum nr. 885/2001 að nemandi fær ekki inngöngu í læknisfræði- eða sjúkraþjálfunarskor læknadeildar Háskóla Íslands nema hann hafi þreytt inntökupróf samkvæmt reglunum og náð þar tilteknum árangri. Það að stúdent gangist undir umrædd inntökupróf er því óhjákvæmilegt skilyrði, sem sett er á grundvelli laga, fyrir hvern þann sem óskar eftir að vera skrásettur nemandi í umræddum skorum. Með hliðsjón af því að skráning í námskeið er almennt forsenda þess að stúdent fái að sækja fyrirlestra og taka úr þeim próf, sbr. þau ákvæði reglna nr. 458/2000 sem að framan eru rakin, er því ljóst að þeir sem hafa hug á því að stunda nám við læknisfræði- eða sjúkraþjálfunarskor háskólans verða að þreyta inntökupróf á vegum háskólans ætli þeir sér að fá aðgang að þeirri lögmæltu þjónustu sem veitt er í umræddum skorum læknadeildar í formi kennslu, fyrirlestra og prófa.

Ég legg áherslu á að ákvörðun um að setja ákveðnar fjöldatakmarkanir á inngöngu í háskóladeild, sbr. t.d. reglur nr. 322/2003, um takmörkun á fjölda nemenda í tilteknum námsgreinum við Háskóla Íslands, háskólaárið 2003-2004, er ein af þeim leiðum sem Háskóli Íslands hefur til að hafa áhrif á fjölda nemenda sem hefja nám. Þá er ákvörðun um að gera það að skilyrði fyrir inngöngu, að þeir sem hafa hug á því að stunda tiltekið nám gangist undir inntökupróf, þáttur í því að velja þá nemendur sem heimilað verður að hefja námið, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 41/1999 og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 136/1997. Þá tek ég fram að Háskóla Íslands er skylt að veita kennslu í læknisfræði, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 41/1999, meðan ekki verið teknar ákvarðanir um annað. Háskóli Íslands hefur með þessari ákvörðun sinni valið að standa sjálfur fyrir sérstöku prófi til að afmarka þann hóp sem getur notið ákveðinnar lögbundinnar þjónustu sem háskólanum er skylt að veita. Að virtu framangreindu get ég ekki fallist á þá afstöðu háskólaráðs að „gerð, fyrirlögn og yfirferð inntökuprófs“ í læknadeild eins og það var framkvæmt sumarið 2003 teljist falla utan þeirrar þjónustu sem háskólanum er skylt að veita, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 41/1999. Þarna var Háskóli Íslands aðeins að nýta heimildir laga nr. 41/1999 og laga nr. 136/1997 til að takmarka fjölda nemenda í námi við læknadeild. Það að gera greiðslu á sérstöku prófgjaldi sem skilyrði fyrir því að geta notið þeirrar lögbundnu þjónustu sem Háskóla Íslands er skylt að veita rúmast því ekki innan gjaldtökuheimildar 1. mgr. 18. gr. laga nr. 41/1999. Sjónarmið um aukið sjálfstæði Háskóla Íslands hafa að mínu áliti ekki þýðingu í þessu sambandi.

Ég tek fram að ég fæ ekki séð að það breyti framangreindri niðurstöðu að þeir, sem fóru í umrætt inntökupróf, hafi ekki þá þegar verið „skráðir nemendur“ við Háskóla Íslands. Ástæða þess að þeir voru ekki skráðir nemendur var aðeins sú að ákveðið var að gera það að sérstöku skilyrði fyrir inngöngu í nám við læknadeild í ljósi fjöldatakmarkana að þeir sem hefðu hug á að stunda þar nám gengjust fyrst undir inntökupróf og að aðeins þeir sem næðu bestum árangri á prófinu, upp að vissum fjölda, gætu skráð sig formlega til náms ef hin almennu skilyrði voru uppfyllt. Taki Háskóli Íslands þá ákvörðun að nýta með þessum hætti lögmæltar heimildir til að setja fjöldatakmarkanir og gera inntökupróf að skilyrði fyrir inngöngu í nám, sem skólanum er að lögum skylt að bjóða upp á, getur háskólinn ekki nema það samrýmist 1. mgr. 18. gr. laga nr. 41/1999 látið þá nemendur sem ákveða að þreyta sérstakt inntökupróf, sem framkvæmt er af háskólanum og er þannig liður í starfsemi hans, bera þann kostnað sem leiðir af framkvæmd slíkrar ákvörðunar. Ég bendi á að ekki verður annað ráðið af tilvitnaðri 2. gr. reglna nr. 885/2001 en að þeir aðilar innan háskólans, sem að jafnaði koma að framkvæmd prófa og annarra lögbundinna verkefna í tengslum við skráningu nemenda, hafi komið að gerð umrædds inntökuprófs. Tímasetning prófsins var ákvörðuð af læknadeild „að höfðu samráði við framkvæmdastjóra kennslusviðs Háskóla Íslands“ og er því lýst í greininni að það sé haldið á vegum Háskóla Íslands og í húsnæði hans. Þá er rakið að nemendur skuli „vera skráðir sérstaklega til inntökuprófsins hjá nemendaskrá Háskóla Íslands áður en þeir ganga til prófsins“.

Ég tek fram að samkvæmt 1. málsl. 3. mgr. 13. gr. laga nr. 41/1999, sbr. 5. gr. laga nr. 148/2001, greiðir stúdent skrásetningargjald sem nú er tilgreint 32.500 kr. Af lögum nr. 41/1999 eða lögskýringargögnum verður ekki ráðið að gjaldið lúti beinlínis sömu lögmálum og þjónustugjald. Þannig kemur fram í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því er varð að lögum nr. 41/1999 að það komi til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert. Þá segir þar að gjaldið sé bókfært hjá yfirstjórn háskólans í samræmi við fjárlög og standi „undir hluta kostnaðar við háskólastarfið“. Þar megi sem dæmi nefna „margvíslega þjónustu sem stúdentum er veitt á námstímanum utan formlegra kennslustunda, svo sem skráningu þeirra í námskeið og próf, varðveislu upplýsinga um námsferil stúdenta, upplýsingar um námsferil sem sendar eru stúdentum þrisvar á hverju háskólaári, auglýsingu og miðlun upplýsinga vegna skráningar, skipulag kennslu og prófa, kennsluskrá, stúdentaskírteini og aðgang að þjónustu nemendaskrár, skrifstofu kennslusviðs, deildaskrifstofum, alþjóðaskrifstofu, upplýsingastofu um nám erlendis, námsráðgjöf, bókasafni og tölvum og prenturum háskólans“. (Alþt. 1998-1999, A-deild, bls. 3311-3312.) Að þessu virtu tek ég fram að löggjafinn hefur ákveðið að nemendur greiði við skrásetningu til náms sérstakt gjald sem sætir breytingum við afgreiðslu fjárlaga ár hvert. Sá kostnaður sem þessu gjaldi er ætlað að mæta er ekki beinlínis sérgreindur og ekki verður séð að þar eigi t.d. að vera undanskilinn kostnaður sem kann að hljótast af því að beitt er heimildum í lögum nr. 41/1999 og lögum nr. 136/1997 til að setja viðbótarskilyrði fyrir inngöngu í ákveðnar háskóladeildir.

Eins og rakið er hér að framan er það viðhorf háskólaráðs að með 18. gr. laga nr. 41/1999 hafi verið stefnt að því að rýmka möguleika háskólans til gjaldtöku og vísar ráðið í því sambandi til skýringa við 9. gr. frumvarps til laga nr. 41/1999, sem sérstaklega eigi við um gjaldtökuheimildir deilda. Af þessu tilefni tel ég rétt að benda á að í umræddum athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 41/1999 er vísað sérstaklega til 2. mgr. 9. gr. laganna en samkvæmt því ákvæði er háskóladeildum og stofnunum veitt heimild til að stunda þjónusturannsóknir og að standa fyrir endurmenntun og fræðslu fyrir almenning. Þá segir í athugasemdunum að í 18. gr. frumvarpsins sé síðan að finna heimild til þess að taka gjald fyrir slíka þjónustu og kennslu og að með þessum ákvæðum sé fengin skýr lagastoð fyrir starfsemi af þessu tagi sem skapi deildum nokkurt svigrúm til að afla sértekna og nýta þær eins og best samrýmist hagsmunum og þörfum deildarinnar eða stofnunarinnar hverju sinni. (Alþt. 1998-1999, A-deild, bls. 3313-3314.) Í samræmi við framangreint verður ekki séð annað en að löggjafinn hafi í umræddum athugasemdum að baki 9. gr. laga nr. 41/1999 einungis tekið afstöðu til gjaldtöku háskólans vegna endurmenntunar og þjónusturannsókna sem deildum og rannsóknarstofnunum hans er heimilt að sinna. Ég vek athygli á því að í 2. málsl. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 41/1999 er kveðið sérstaklega á um heimild háskólans til að taka gjöld fyrir endurmenntun og fræðslu fyrir almenning. Í ljósi þessa fæ ég ekki séð að ofangreindar athugasemdir við 9. gr. laga nr. 41/1999 hafi þá þýðingu við túlkun á 1. málsl. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 41/1999 sem vísað er til í skýringum háskólaráðs til mín.

IV.

Niðurstaða.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða mín að Háskóla Íslands hafi skort heimild í lögum til að innheimta sérstakt gjald að upphæð kr. 8.500 af þeim sem þreyttu inntökupróf til náms í læknisfræði við Háskóla Íslands fyrir skólaárið 2003-2004.

Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 1. gr. laga nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, skulu stjórnvöld endurgreiða það fé sem ofgreitt reynist samkvæmt lögum ásamt vöxtum, sbr. 2. gr. Þá segir í 2. mgr. 1. gr. laganna að stjórnvöld skuli hafa frumkvæði að slíkum endurgreiðslum þegar þeim verður ljóst að ofgreitt hefur verið. Að þessu virtu og í ljósi niðurstöðu minnar hér að framan beini ég þeim tilmælum til Háskóla Íslands að hann geri viðhlítandi ráðstafanir í tilefni af áliti þessu og þá eftir atvikum í samræmi við lög nr. 29/1995.

V.

Með bréfi til Háskóla Íslands, dags. 5. mars 2004, óskaði ég eftir upplýsingum um hvort af hálfu háskólans hefðu verið gerðar einhverjar tilteknar ráðstafanir í tilefni af áliti mínu og þá í hverju þær ráðstafanir felist. Svarbréf Háskóla Íslands er dagsett 12. mars 2004 og segir þar meðal annars eftirfarandi:

„Álit yðar var kynnt menntamálaráðuneyti með bréfi dags. 5. janúar s.l. (sjá afrit), þar sem Háskólinn taldi eðlilegt að hafa samráð við ráðuneytið um viðbrögð. Svar ráðuneytis barst með bréfi dags. 3. mars s.l. (sjá afrit).

Þá skipaði rektor sérstakan starfshóp til að fara yfir hvernig Háskóla Íslands væri rétt að bregðast við álitinu. Starfshópurinn skilaði tillögu til rektors, dags. 8. mars s.l., sem lögð var fyrir háskólaráð 11. mars s.l. (sjá afrit). Háskólaráð samþykkti tillöguna sem felur það í sér að þeim sem þreyttu inntökupróf í læknadeild sumarið 2003 verði endurgreitt 8.500.- kr. próftökugjald sem innheimt var af þeim ásamt vöxtum í samræmi við lög nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Verður þegar hafist handa við endurgreiðsluna.

Starfshópurinn lagði einnig fram tillögu um að leitað verði eftir lagabreytingu til þess að eyða óvissu sem Háskólinn telur að sé uppi um inntak gjaldtökuheimildarinnar eftir framkomið álit yðar. Slík breyting myndi lögfesta það sem Háskólinn taldi að fælist í gjaldtökuheimildinni sem stuðst var við er ákvörðun um gjaldtökuna vegna inntökuprófanna var tekin. Tillaga þessi er til meðferðar í háskólaráði.“