Skattar og gjöld. Starfssvið umboðsmanns Alþings.

(Mál nr. 12850/2024)

Kvartað var yfir sérstökum vaxtastuðningi sem Alþingi samþykkti með breytingum á lögum um tekjuskatt.  

Þar sem starfssvið umboðsmanns tekur ekki til lagasetningar Alþingis voru ekki skilyrði til að hann fjallaði um kvörtunina.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 1. ágúst 2024.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 24. júlí sl. sem lýtur að sérstökum vaxtastuðningi sem samþykktur var á Alþingi 30. apríl sl. með lögum nr. 36/2024, um breytingu á lögum um tekjuskatt.

Ég legg þann skilning í kvörtun yðar að þér gerið athugasemdir við efni framangreindrar lagasetningar en í kvörtuninni kemur fram að þér selduð fasteign yðar í mars á þessu ári og hafið þar af leiðandi ekkert húsnæðislán sem hægt sé að ráðstafa vaxtastuðningi inn á líkt og lögin gera ráð fyrir. Vaxtastuðningur sem þér hefðuð notið ef ekki væri fyrir sölu á fasteign yðar falli því niður.

Í tilefni af kvörtun yðar er rétt að taka fram að í 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um starfssvið umboðsmanns. Þar segir í a-lið 4. mgr. að starfssvið umboðsmanns taki ekki til starfa Alþingis og stofnana þess. Það er því almennt ekki í verkahring umboðsmanns Alþingis að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett. Af kvörtun yðar, eins og hún er fram, verður ekki annað ráðið en að hún lúti að atriðum sem Alþingi hefur tekið afstöðu til með lagasetningu. Brestur því lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.