Hæstaréttardómarar. Skipun í embætti. Sjónarmið sem ákvörðun byggist á. Álitsumleitan. Rannsóknarregla.

(Mál nr. 3882/2003, 3909/2003 og 3980/2003)

Umboðsmanni Alþingis bárust kvartanir frá A, B og C yfir þeirri ákvörðun dómsmálaráðherra að leggja til við forseta Íslands að D yrði skipaður í embætti dómara við Hæstarétt í ágúst 2003 en A, B og C voru meðal umsækjenda um embættið. Umboðsmaður ákvað að afmarka athugun sína á kvörtununum við tiltekin atriði er lutu að undirbúningi ákvörðunar ráðherra við skipun D sem dómara við Hæstarétt og beina athugun sinni sérstaklega að sjónarmiði um þekkingu umsækjenda á Evrópurétti sem ráðherra vísaði til í rökstuðningi sínum til umsækjenda.

Umboðsmaður tók fram að þótt ganga yrði út frá því að reglur stjórnsýslulaga gildi um undirbúning og úrlausn mála við skipun í embætti hæstaréttardómara auk þeirra óskráðu grundvallarreglna stjórnsýsluréttarins sem taldar væru gilda um veitingu á opinberum störfum, þ.m.t. um undirbúning stöðuveitingar og mat á hæfni umsækjenda, þyrfti jafnframt að taka afstöðu til þess hvort og þá í hvaða mæli reglur stjórnarskrár og laga um stöðu Hæstaréttar og dómenda þar leiði til þess að gera verði eftir atvikum sérstakar kröfur til undirbúnings og meðferðar ráðherra á valdi hans við skipun í embætti hæstaréttardómara.

Umboðsmaður rakti ákvæði stjórnarskrár um dómsvaldið og ákvæði dómstólalaga um hlutverk og lögsögu Hæstaréttar. Tók hann fram að vegna eðlis lögsögu Hæstaréttar sem almenns áfrýjunardómstóls í hvers kyns einkamálum og opinberum málum yrði að leggja til grundvallar, að virtum hæfisskilyrðum 2. mgr. 4. gr. laga nr. 15/1998, um dómstóla, að við val úr hópi umsækjenda um embætti hæstaréttardómara yrði fyrst og fremst að gera þá kröfu að umsækjandi hefði víðtæka og almenna lögfræðilega menntun og þekkingu þannig að hann gæti, og þá í ljósi starfsferils síns, tekist á við þau verkefni sem Hæstarétti væri falið að lögum að sinna. Umboðsmaður rakti athugasemdir með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 15/1998 og ákvæði tilmæla Ráðherranefndar Evrópuráðsins um sjálfstæði, skilvirkni og hlutverk dómenda. Taldi hann að skýra yrði 4. mgr. 4. gr. laga nr. 15/1998 um að ráðherra skuli leita umsagnar Hæstaréttar um hæfi og hæfni umsækjenda, þ.m.t. um „lögfræðilega þekkingu“ þeirra, sbr. 8. tölul. 2. mgr. 4. gr., á þá leið að skorður væru reistar við því að dómsmálaráðherra byggi val sitt á milli umsækjenda sérstaklega á þekkingu þeirra á tilteknu afmörkuðu sviði lögfræðinnar, sem ekki yrði fyrirfram séð að komi sérstaklega til mats við val á dómaraefni í Hæstarétti að virtu lögbundnu hlutverki hans, nema fyrir lægi umsögn Hæstaréttar á þeim grundvelli. Að öðrum kosti yrði ekki séð að lögbundin umsögn Hæstaréttar myndi þjóna þeim tilgangi sem lögin gera ráð fyrir til að tryggja aðkomu Hæstaréttar að vali á dómaraefnum, m.a. að virtri sjálfstæðri stöðu dómsvaldsins sem eins þriggja þátta ríkisvaldsins.

Umboðsmaður tók fram að ekki yrði fullyrt af sinni hálfu að ráðherra gæti ekki ákveðið að leggja áherslu á þekkingu umsækjenda á ákveðnu réttarsviði við val í embætti hæstaréttardómara. Að teknu tilliti til þess að ráðherra væri við þessar aðstæður að skipa mann í embætti hjá öðrum og sjálfstæðum handhafa ríkisvalds, sem ekki lyti yfirstjórnunar- eða eftirlitsvaldi ráðherra, yrði hann þó að leggja traustan grunn að mati sínu á því hvort málefnaleg ástæða væri til þess að byggja á slíku sjónarmiði. Vegna eðlis þess embættis sem um ræddi og almenns hlutverks Hæstaréttar að lögum yrði að gera nokkuð strangar kröfur til dómsmálaráðherra í þessu efni. Umboðsmaður minnti á að í umsögn Hæstaréttar hafi aðeins verið lagt mat á starfsferil og alhliða og almenna lögfræðilega þekkingu umsækjenda með áherslu á það réttarsvið sem einkennir starf dómara, þ.e. réttarfar, og þá út frá þörfum réttarins miðað við skipulag hans. Ráðherra hafi því án fyrirliggjandi umsagnar Hæstaréttar metið þörfina á því að í Hæstarétt yrði skipaður maður með þekkingu á tilteknu réttarsviði, Evrópurétti, auk þess sem hann hafi einhliða lagt mat á þekkingu umsækjenda á því sviði. Var það niðurstaða umboðsmanns að við málsmeðferð dómsmálaráðherra í framhaldi af umsögn Hæstaréttar og við þá ákvörðun hans að leggja sérstaka áherslu á þekkingu á Evrópurétti við val milli umsækjenda hafi hann, eins og atvikum var háttað, ekki fullnægt kröfum 4. mgr. 4. gr. laga nr. 15/1998 um að umsögn Hæstaréttar lægi fyrir um þessi atriði, bæði almennt með tilliti til þarfa réttarins og einnig um hæfni umsækjenda á þessu réttarsviði.

Umboðsmaður benti á að á dómsmálaráðherra hafi hvílt sú almenna skylda að leggja til við forseta Íslands að sá umsækjandi sem telja varð hæfastan til að gegna embætti hæstaréttardómara yrði skipaður í það. Umboðsmaður taldi að ráðherra hefði tæplega verið unnt að ganga út frá því, þegar hann tók afstöðu til fyrirliggjandi umsókna, að þær ásamt fylgigögnum gæfu heildstæða mynd af þekkingu umsækjenda á Evrópurétti. Taldi umboðsmaður að rétt hefði verið að afla upplýsinga um hvort umsækjendur hefðu sérstaka þekkingu á þessu réttarsviði og eftir atvikum að hvaða marki reynt hefði á slíka þekkingu í störfum þeirra. Það var því afstaða umboðsmanns að málið hefði ekki verið upplýst nægjanlega hvað þetta varðar áður en ákvörðun var tekin um hver yrði skipaður í embættið og málsmeðferðin að þessu leyti hefði því ekki verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga. Þá taldi umboðsmaður jafnframt að á hefði skort að fullnægjandi upplýsingar hafi legið fyrir um hvernig staðið var að samanburði milli umsækjenda um önnur atriði sem ætla yrði að dómsmálaráðherra hefði litið til samkvæmt rökstuðningi hans til umsækjenda.

Vegna þeirra annmarka sem voru á undirbúningi og meðferð málsins var það niðurstaða umboðsmanns að af hálfu dómsmálaráðherra hefði ekki verið lagður fullnægjandi grundvöllur að skipun D í embætti hæstaréttardómara og beindi hann þeim tilmælum til ráðherra að framvegis yrði tekið mið af þeim sjónarmiðum sem lýst væri í álitinu við undirbúning og veitingu embætta hæstaréttardómara. Umboðsmaður tók fram að það væri ekki hlutverk umboðsmanns Alþingis að taka sjálfstætt afstöðu til þess á hvaða sjónarmiðum val milli umsækjenda hefði átt að byggjast. Vegna annmarka á undirbúningi málsins og þar með hvernig lagður hefði verið grundvöllur að vali og beitingu þess sjónarmiðs sem ákvörðun ráðherra byggðist á taldi umboðsmaður að eins og mál þetta lægi fyrir honum og með tilliti til möguleika sinna til að leggja mat á gögn þess og skýringar ráðherra væri ekki rétt að hann fjallaði frekar um ákvörðunina. Hann tók þó sérstaklega fram að hann teldi ekki tilefni til athugasemda af sinni hálfu við þann rökstuðning sem ráðherra veitti umsækjendum.

Umboðsmaður ákvað með hliðsjón af 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að vekja athygli Alþingis og dómsmálaráðherra á tilteknum atriðum er lúta að skipun hæstaréttardómara með það í huga að tekin verði afstaða til þess hvort þörf sé á því að fyrirkomulag við undirbúning og ákvarðanir um skipun í embætti dómara við Hæstarétt Íslands verði tekið til endurskoðunar og lagabreytingar gerðar af því tilefni ef sú verður niðurstaðan.

I.

Hinn 3. september 2003 leitaði til mín A og kvartaði yfir þeirri ákvörðun dómsmálaráðherra að leggja til við forseta Íslands að D yrði skipaður í embætti dómara við Hæstarétt en A var einn umsækjenda um embættið. Í framhaldinu bárust mér erindi frá tveimur umsækjendum til viðbótar vegna sömu ákvörðunar, þeim B og C. Kvörtun B er dagsett 2. október 2003 en kvörtun C 30. desember sama ár.

Kvartanirnar þrjár byggja allar að meginstefnu til á því að við umrædda skipun í embætti dómara við Hæstarétt hafi ákvörðun dómsmálaráðherra ekki verið nægilega vel undirbúin með vísan til jafnræðisreglu og rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar. Þá er því haldið fram að umsækjandinn, sem skipaður var í embættið, hafi ekki verið hæfasti umsækjandinn eða jafnhæfur þeim sem borið hafa fram kvartanir. Ákvörðunin hafi því ekki byggst á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum. Þá er því einnig haldið fram í kvörtununum að rökstuðningur í bréfum dómsmálaráðherra, dags. 26. ágúst 2003, hafi ekki verið í samræmi við kröfur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um efni rökstuðnings.

Þeir A, B og C hafa tekið fram í bréfum til mín að þeir geri ekki athugasemdir við að ég taki kvartanirnar sameiginlega til athugunar og að ég ljúki afgreiðslu minni á þeim með þeim hætti.

Ég lauk málum þessum með áliti, dags. 3. maí 2004.

II.

Málavextir eru í stuttu máli þeir að í 91. tbl. Lögbirtingablaðs, sem út kom 30. júní 2003, birtist svohljóðandi auglýsing frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu:

„Laust embætti er forseti Íslands veitir.

Dómaraembætti við Hæstarétt Íslands er laust til umsóknar.

Umsóknarfrestur er til 25. júlí 2003.

Sú regla gildir hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess að hafa skal í heiðri jafnrétti kynjanna við stöðuveitingar.

Umsóknir þar sem umsækjandi óskar nafnleyndar eru ekki teknar gildar.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 24. júní 2003.“

Alls sóttu átta einstaklingar um embættið.

Með bréfi, dags. 28. júlí 2003, óskaði dóms- og kirkjumálaráðuneytið eftir umsögn Hæstaréttar um hæfi og hæfni umsækjenda til að gegna dómaraembætti við réttinn með vísan til 4. mgr. 4. gr. laga nr. 15/1998, um dómstóla. Umsögn Hæstaréttar er dagsett 5. ágúst 2003. Í kafla I eru rakin ýmis almenn atriði um menntun og starfsreynslu umsækjenda. II. kafli umsagnarinnar er svohljóðandi:

„Umsækjendurnir fullnægja öll þeim almennu hæfisskilyrðum til að hljóta skipun í embætti hæstaréttardómara, sem greinir í 1. til 7. töluliðum 2. mgr. og 3. mgr. 4. gr. laga nr. 15/1998. Þau fullnægja einnig öll þeim lágmarkskröfum um hæfni, sem gera verður til dómaraefnis á grundvelli 8. töluliðar 2. mgr. sömu lagagreinar, þótt að öðru leyti megi greina nokkuð milli þeirra í þeim efnum.

Að því er varðar námsárangur umsækjendanna luku þeir embættisprófi í lögfræði með 1. einkunn að [D] og [E] undanskildum, en þau hlutu 2. einkunn. Þau síðastnefndu hafa hins vegar lagt stund á framhaldsnám að loknu embættisprófi, en það hafa einnig umsækjendurnir [F] og [C] gert, [F] mest þeirra fjögurra.

Þeir fjórir umsækjendur, sem nú gegna embætti héraðsdómara, [G], [H], [F] og [D], hafa allir langa dómarareynslu. Hinu sama gegnir um umsækjandann [A]. Héraðsdómararnir hafa jafnframt töluverða reynslu af öðrum störfum en dómstörfum, [G] vegna stjórnunarstarfa og starfa í óbyggðanefnd, [H] vegna varaforseta- og forsetastarfa í Félagsdómi, [F] vegna starfa sem sýslumaður og [D] vegna starfa sem dómstjóri. [F] hefur sinnt fræðistörfum umfram aðra umsækjendur úr hópi héraðsdómara og lögmanna.

Þeir þrír umsækjendur, sem koma úr röðum lögmanna, [B], [A] og [E], hafa allir gegnt lögmannsstarfi á annan áratug. Verður ekki greint á milli þeirra að því leyti. Þeir hafa einnig allir sinnt öðrum störfum en lögmennsku, [B] á sviði stjórnunar og vinnuréttar, m.a. sem starfsmannastjóri [...] hf., [A] á sviði skaðabótaréttar vegna setu í örorkunefnd og [E] á vettvangi skattaréttar og stjórnsýslu, m.a. sem skrifstofustjóri Hæstaréttar. Þá hefur [A] langa dómarareynslu umfram aðra umsækjendur úr hópi lögmanna.

Umsækjandinn [C] kemur úr röðum háskólakennara og hefur einkum fengist við kennslu á sviði réttarfars. Stendur hann fremstur umsækjenda að því er varðar námsárangur, en hann hlaut afar háa einkunn á embættisprófi. Hann hefur einnig sinnt fræðistörfum umfram aðra umsækjendur og eftir hann liggur mikill fjöldi greina og rita á sviði lögfræði. Hann á að baki langa starfsreynslu sem lögmaður og hefur jafnframt gegnt margvíslegum störfum á sviði stjórnsýslu, m.a. sem aðstoðarmaður dómsmálaráðherra og forseti lagadeildar Háskóla Íslands.

Auk þeirra meginatriða varðandi menntun og starfsreynslu umsækjenda, sem hér hefur verið getið, verða dómendur Hæstaréttar jafnframt að taka tillit til þeirrar myndar, sem þeir hafa fengið af hæfni umsækjendanna með því annars vegar að fjalla um dómsmál, sem umsækjendur úr hópi héraðsdómara hafa leyst úr í núverandi störfum sínum, og hins vegar að hlýða á málflutning og virða fyrir sér annan málatilbúnað umsækjendanna, sem koma úr röðum lögmanna. Verður einnig sem endranær að gæta að því, hverrar þekkingar og reynslu sé helst þörf, eins og Hæstiréttur er skipaður. Rétturinn starfar nú í tveimur deildum, fimm manna deild og þriggja manna deild, en nýr dómari myndi í samræmi við dómstólalög fyrst og fremst sitja í síðarnefndu deildinni. Það verklag hefur verið viðhaft í Hæstarétti um margra ára skeið, að dómarar í þriggja manna deild dæma að langmestu leyti í svonefndum kærumálum, sem að jafnaði eru frá fjórðungi til þriðjungs af öllum málum, sem berast réttinum, og hefur þeim fjölgað jafnt og þétt. Í þeim málum eru oftast til úrlausnar réttarfarsleg álitaefni, en af einstökum málaflokkum, sem ágreiningur aðila í mörgum kærumálum snýst um, má nefna aðfarargerðir, nauðungarsölur og skipti.

Það er álit Hæstaréttar, að allir umsækjendur séu hæfir til að gegna embætti hæstaréttardómara. Að virtu öllu því, sem að framan greinir, og eins og skipan og starfsemi Hæstaréttar er nú háttað er það hins vegar mat réttarins, að heppilegast væri, að annaðhvort [C] eða [A] yrði fyrir valinu að þessu sinni. Við það mat telur Hæstiréttur vega þungt rannsóknar- og kennslustörf hins fyrrnefnda í réttarfari og sérstök þekking hins síðarnefnda sem borgarfógeta á þeim málaflokkum, sem að framan voru nefndir. Að auki er þess að gæta, að í tvö síðustu skiptin, sem dómaraembætti voru laus í Hæstarétti, voru í þau skipuð annars vegar ráðuneytisstjóri og hins vegar héraðsdómari. Í réttinum situr nú aðeins einn dómari, sem hefur verið sjálfstætt starfandi lögmaður, þótt fleiri hafi málflutningsreynslu. Þykir þetta jafnframt styðja framangreinda niðurstöðu.“

Umsögn Hæstaréttar var send umsækjendum með bréfum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 6. ágúst 2003. Hinn 19. ágúst s.á. lagði dómsmálaráðherra til við handhafa forsetavalds, sbr. 8. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, að D yrði skipaður hæstaréttardómari frá 1. september 2003 að telja. Í bréfi til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 19. ágúst 2003, undirrituðu af ríkisráðsritara, kemur fram að handhafar forsetavalds hafi þann dag fallist á tillögu dómsmálaráðherra um að skipa D í umrætt embætti frá 1. september 2003. Með bréfinu fylgdi tillaga ráðherra undirrituð af handhöfum forsetavalds og skipunarbréf. Var skipunin auglýst í Lögbirtingablaði 29. ágúst 2003.

Með bréfi, dags. 20. ágúst 2003, óskaði A eftir skriflegum rökstuðningi dómsmálaráðherra fyrir þeirri ákvörðun að skipa D í embætti dómara við Hæstarétt Íslands með vísan til 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. C sendi dómsmálaráðherra samskonar erindi með bréfi, dags. 22. sama mánaðar. Óskaði C sérstaklega eftir því að ráðherra gerði grein fyrir hvers vegna hann hafi ekki farið eftir tillögu Hæstaréttar sem fram komi í niðurlagi umsagnar réttarins, dagsettri 5. ágúst 2003, svo og hvað það sé að mati ráðherra sem gerði þann sem skipaður var hæfari til þess að gegna embætti hæstaréttardómara heldur en C sjálfan, miðað við námsferil og námsárangur, starfsferil og ritstörf þeirra beggja. Þá segir í bréfi C:

„Í viðtölum við yður í fjölmiðlum á undanförnum dögum hafið þér einkum rökstutt fyrrgreinda ákvörðun með því að [D] hafi lokið meistaraprófi í Evrópurétti og samkeppnisrétti. Af því tilefni óskast upplýst hvort þér hafið kynnt yður gögn um þetta próf og það nám sem á undan fór. Ef svo er fer ég fram á að fá afrit af þeim gögnum. Ennfremur óskast upplýst hvort þér hafið til samanburðar kynnt yður rit annarra umsækjenda á sviði Evrópuréttar.“

Með bréfi, dags. 27. ágúst 2003, óskaði B eftir rökstuðningi dómsmálaráðherra vegna umræddrar skipunar. Tiltók B að hann óskaði sérstaklega eftir því að grein yrði gerð fyrir því hvað réði því að sjónarmið um þekkingu á Evrópurétti var sérstaklega lagt til grundvallar við skipun í embættið og hvort upplýsinga hafi verið aflað frá öðrum umsækjendum um starfsreynslu þeirra og þekkingu á því réttarsviði.

Svar dómsmálaráðherra við erindum þeirra A, C og B var sent þeim í bréfum, dags. 26. ágúst og 2. september 2003. Bréfin eru samhljóða og í þeim segir:

„Vísað er til bréfs yðar, dags. [...], þar sem þér óskið eftir rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun dómsmálaráðherra að gera tillögu um að [D] yrði veitt embætti dómara við Hæstarétt Íslands. Með vísan til 21. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993 eigið þér rétt á rökstuðningi fyrir umræddri ákvörðun.

Í umsókn [D], dags. 23. júlí sl., kemur fram að hann hafi lokið embættisprófi í lögfræði við Háskóla Íslands vorið 1987 með II. einkunn (7,16) og meistaraprófi (LL.M.) í evrópurétti við Háskólann í Lundi í Svíþjóð í júní 2002 með ágætiseinkunn (pass with distinction). Þá kemur fram í umsókn hans að hann hafi, frá 1. júlí 1987 til 5. apríl 1988, verið fulltrúi yfirsakadómara í Reykjavík og frá 5. apríl 1988 til 1. júní 1990 verið fulltrúi sýslumannsins í Þingeyjarsýslu og bæjarfógetans á Húsavík. Hann hafi verið settur til að gegna embætti héraðsdómara tímabilið 1. júní 1990 til 30. júní 1992 við embætti sýslumannsins í Neskaupstað, sýslumannsins í Austur-Skaftafellssýslu, sýslumannsins í Suður-Múlasýslu og bæjarfógetans á Eskifirði og sýslumannsins í Norður-Múlasýslu og bæjarfógetans á Seyðisfirði. Þá kemur fram í umsókn hans að hann hafi verið skipaður héraðsdómari við Héraðsdóm Austurlands frá 1. júlí 1992 og að hann hafi verið skipaður héraðsdómari við Héraðsdóm Suðurlands frá 1. júlí 1997 og dómstjóri við sama dómstól til fimm ára frá 16. september 1998 að telja. Þá hafi hann verið settur hæstaréttardómari í málunum nr. 133/2000 og nr. 175/2000. Í umsókn [D] kemur jafnframt fram að hann hafi verið í stjórn Orators, félags laganema 1985 til 1986 og í stjórn Dómarafélags Íslands á árunum 1992 til 1994. Á árinu 1998 hafi hann verið skipaður af dómsmálaráðherra í nefnd til að endurskoða reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum. Frá árinu 2001 hafi hann verið formaður Endurskoðendaráðs, skv. 12. gr. laga nr. 18/1997, um endurskoðendur. Þá kemur fram í umsókninni að [D] hafi flutt nokkur erindi um lögfræðileg efni og ritað grein í afmælisrit dr. Gunnars G. Schram, útg. í Reykjavík 2002, um refsingar vegna ránsbrota frá Kambsráni til okkar daga. Með umsókn [D] fylgdu prófskírteini hans frá Háskóla Íslands og háskólanum í Lundi í Svíþjóð og fjórar ritgerðir hans á ensku um Evrópurétt, þ. á m. meistaraprófsritgerð hans.

Samkvæmt 4. mgr. 4. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998, skal dómsmálaráðherra, áður en skipað verður í dómaraembætti við Hæstarétt, leita umsagnar Hæstaréttar um hæfi og hæfni umsækjenda til að gegna embættinu. Umsækjanda verður ekki veitt embættið ef í umsögninni kemur fram það álit að hann fullnægi ekki skilyrðum 5. eða 8. töluliðar 2. mgr. 4. gr. laganna. Hæstiréttur lét dómsmálaráðherra í té umsögn sína með bréfi, dags. 5. ágúst sl. Umsögnin var send yður með bréfi ráðuneytisins, dags. 6. ágúst sl.

Ákvörðun sína tók dómsmálaráðherra á grundvelli þessara gagna og lagagreina auk þess sem í dómsmálaráðuneytinu lá fyrir lofsamleg umsögn dómnefndar um störf [D] sem héraðsdómara. Í ljósi mikilla og stöðugt vaxandi áhrifa Evrópuréttarins á þróun réttarreglna hér á landi ákvað dómsmálaráðherra að leggja sérstaka áherslu á þekkingu á því sviði réttarins að þessu sinni. Auk þess var á umsögn Hæstaréttar að skilja að sérstök ástæða væri til að nýr dómari við réttinn hefði reynslu af beitingu réttarfarsreglna.

Með meistaraprófi í Evrópurétti og í tengslum við það m.a. námi í samkeppnisrétti, hefur [D] aflað sér þekkingar, sem að mati dómsmálaráðherra er afar gagnleg fyrir hæstarétt. Lauk hann námi sínu með ágætiseinkunn við virta menntastofnun. Þá liggur fyrir, að [D] hefur verið einkar farsæll í störfum héraðsdómara auk þess sem Hæstiréttur hefur kallað hann til starfa innan sinna vébanda í mikilvægum málum. [D] býr að mikilli þekkingu á íslensku réttarfari og reynslu af dómarastörfum á grundvelli reglna þess.

Á þessum forsendum ákvað dómsmálaráðherra, að rétt væri að skipa [D] til að gegna embætti dómara við Hæstarétt Íslands.“

Í lok bréfs dómsmálaráðherra til C var bætt við eftirfarandi texta:

„Í bréfi yðar óskið þér eftir að fá afrit af gögnum um meistarapróf [D] í Evrópurétti og samkeppnisrétti og fylgja þau því hjálögð í ljósriti. Fyrrnefndar ritgerðir sem umsókn hans fylgdu eru meistaraprófsritgerð hans vorið 2002 „Direct Effect, Supremacy and State Liability - A Comparison between EC Law and the EEA Agreement“, en hinar þrjár ritgerðirnar eru „The Development regarding Access to Documents within the European Union“, „The Application of Article 230 in State Aid Cases“ og „A few words on the development of Legal Tradition in Iceland“.“

III.

Í tilefni af kvörtun A ritaði ég dóms- og kirkjumálaráðuneytinu bréf, dags. 10. september 2003. Þar óskaði ég eftir því með vísan til 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneytið léti mér í té öll gögn sem legið hafi fyrir þegar ákveðið var hver skyldi skipaður í umrætt embætti dómara við Hæstarétt Íslands, þ.á m. afrit allra umsókna og gagna sem fylgdu þeim ásamt gögnum í vörslu ráðuneytisins sem kynni að hafa verið litið til þegar afstaða var tekin til umsækjenda. Umbeðin gögn bárust mér 17. september 2003 ásamt bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 13. sama mánaðar. Meðal gagnanna voru umsagnir dómnefndar samkvæmt 5. gr. laga nr. 92/1989 til ráðuneytisins um D frá 11. febrúar 1992 og 5. maí 1997 og ljósrit forsíðna fjögurra rita sem fylgdu umsókn D. Mér voru síðar send frumrit þessara rita.

Hinn 7. október 2003 ritaði ég dómsmálaráðherra bréf þar sem ég vakti athygli á því að mér hefði einnig borist kvörtun frá B vegna ákvörðunar ráðherra að leggja til við forseta Íslands að D yrði skipaður dómari við Hæstarétt Íslands. Í bréfinu kemur fram lýsing á því hvernig ég hef ákveðið að afmarka athugun mína á kvörtun A og B og segir þar meðal annars svo:

„Kvörtun [A] til mín er þríþætt en ljósrit af kvörtun hans og [B] fylgja með bréfi þessu. Í fyrsta lagi er því haldið fram í kvörtun [A] að ákvörðun yðar hafi ekki verið „nægilega vel undirbúin með vísan til jafnræðisreglu og rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar“. Í öðru lagi heldur [A] því fram að „umsækjandinn, sem skipaður var í embættið, hafi ekki verið hæfasti umsækjandinn eða jafnhæfur honum“. Ákvörðunin hafi því „ekki byggst á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum“. Loks er því haldið fram í kvörtuninni að rökstuðningur sá, sem þér veittuð [A] í bréfi, dags. 26. ágúst sl., hafi ekki verið í samræmi við kröfur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um efni rökstuðnings. Kvörtun [B] er byggð á sambærilegum atriðum.

Ég hef ákveðið að afmarka á þessu stigi athugun mína á kvörtunum [A] og [B] við tiltekin atriði sem lúta að undirbúningi ákvörðunarinnar og sjónarmiði sem ákvörðunin var byggð á samkvæmt rökstuðningi í bréfum yðar til þeirra, dags. 26. ágúst og 2. september sl. Af þessu leiðir að athugun mín beinist á þessu stigi ekki að þeim þáttum kvartananna þar sem fjallað er um samanburð á þeim umsækjanda sem skipaður var og [A] eða [B] eða efni rökstuðnings í framangreindum bréfum yðar til þeirra. Með hliðsjón af þessu hef ég ákveðið að óska eftir skýringum frá yður og eftir atvikum frekari upplýsingum, sbr. 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, vegna þess hluta framangreindra kvartana sem ég hef ákveðið að taka á þessu stigi til frekari athugunar og þá jafnframt vegna þeirra sérstöku atriða sem tilgreind eru hér að neðan.

Um almenn hæfisskilyrði til að hljóta skipun í embætti hæstaréttardómara er fjallað í 2. og 3. mgr. 4. gr. laga nr. 15/1998, um dómstóla. Í 6. tölul. 2. mgr. 4. gr. er gerð sú krafa að sá, sem skipaður er í slíkt embætti, hafi lokið embættisprófi í lögfræði eða háskólaprófi í þeirri grein sem metið verður því jafngilt. Þá segir í 8. tölul. sömu málsgreinar að viðkomandi þurfi að teljast hæfur til að gegna embættinu „í ljósi starfsferils síns og lögfræðilegrar þekkingar“. Samkvæmt þessu er ekki að finna í lögum neinar sérgreindar kröfur um þekkingu á ákveðnum afmörkuðum sviðum lögfræðinnar til að hljóta skipun í embætti hæstaréttardómara. Ég vek athygli á því að samkvæmt síðari málsl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, taka lögin til hæstaréttardómara „eftir því sem við getur átt“. Þar er í 6. gr. að finna almenn skilyrði til að fá „skipun“ í „starf“, og er þá átt við embætti, sbr. 3. mgr. 1. gr. og 22. gr. sömu laga. Í 5. tölul. 1. mgr. 6. gr. segir að viðkomandi þurfi að hafa almenna menntun og þar að auki þá „sérmenntun“ sem lögum samkvæmt er krafist „eða eðli málsins samkvæmt verður að heimta til óaðfinnanlegrar rækslu starfans“. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996 skal auglýsa laust embætti í Lögbirtingarblaði en það var gert í þessu tilviki í 91. tölublaði, útgefnu 30. júní sl. [...]

Í rökstuðningi yðar til [A] og [B], dags. 26. ágúst og 2. september sl., segir meðal annars svo:

„[...] Í ljósi mikilla og stöðugt vaxandi áhrifa Evrópuréttarins á þróun réttarreglna hér á landi ákvað dómsmálaráðherra að leggja sérstaka áherslu á þekkingu á því sviði réttarins að þessu sinni. [...] Með meistaraprófi í Evrópurétti og í tengslum við það m.a. námi í samkeppnisrétti, hefur [D] aflað sér þekkingar, sem að mati dómsmálaráðherra er afar gagnleg fyrir hæstarétt. Lauk hann námi sínu með ágætiseinkunn við virta menntastofnun.“

Í ljósi ákvörðunar yðar um að „leggja sérstaka áherslu á þekkingu á sviði [Evrópuréttar] að þessu sinni“, sem lýst er í tilvitnuðum hluta rökstuðningsins, fer ég þess á leit að þér lýsið viðhorfum yðar til eftirgreindra spurninga, m.a. með hliðsjón af þeim lagareglum sem að framan eru raktar og efni auglýsingarinnar um umrætt embætti:

1. Ég óska eftir skýringum yðar á því hvaða rök hafi legið til grundvallar þeirri ákvörðun að leggja sérstaka áherslu á ákveðna og afmarkaða grein lögfræðinnar, þ.e. Evrópurétt, með vísan til framangreindra lagareglna um þær kröfur sem gerðar eru til hæfi og hæfni hæstaréttardómara og að því virtu að Hæstiréttur Íslands er almennur áfrýjunardómstóll í einkamálum og opinberum málum. Það er ósk mín að í svari yðar verði tekin afstaða til þessa atriðis með vísan til þess að kröfur lagaákvæða um hæfi og hæfni hæstaréttardómara gera ekki samkvæmt orðalagi þeirra greinarmun á einstökum sviðum lögfræðinnar.

2. Ég óska eftir skýringum og upplýsingum um það hvort og þá með hvaða hætti var staðið að því innan ráðuneytisins að leggja grunn að þeirri ákvörðun að „að þessu sinni“ yrði lögð sérstök áhersla á þekkingu á sviði Evrópuréttar við val á umsækjanda í umrætt embætti. Lágu t.d. fyrir tölulegar upplýsingar um fjölda þeirra mála fyrir dómstólum landsins, og þá sérstaklega fyrir Hæstarétti, þar sem reynt hefur á álitaefni sem telja verður að falli undir þann hluta Evrópuréttarins sem þýðingu hefur hér á landi vegna skuldbindinga íslenska ríkisins samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og almennt er nefndur „EES-réttur“? Í þessu sambandi bendi ég m.a. á að í umsögn Hæstaréttar til dóms- og kirkjumálaráðherra, dags. 5. ágúst 2003, er hvergi vikið að sjónarmiðum tengdum þekkingu á þessu sviði lögfræði, en af 4. mgr. 4. gr. laga nr. 15/1998 leiðir að Hæstarétti er einkum falið að veita umsögn um það hvort umsækjandi telst hæfur til að gegna embættinu „í ljósi starfsferils síns og lögfræðilegrar þekkingar“.

3. Þar sem ákveðið var af hálfu dóms- og kirkjumálaráðherra að leggja sérstaka áherslu á þekkingu á sviði Evrópuréttar að þessu sinni, óska ég eftir viðhorfi yðar til þess hvort sú skylda hafi hvílt á ráðuneytinu á grundvelli laga nr. 70/1996, 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og óskráðum reglum stjórnsýsluréttar að tilgreina þetta sjónarmið í auglýsingu ráðuneytisins um embættið með það fyrir augum að þeir sem teldu sig hafa sérþekkingu á þessu réttarsviði, og teldu sig að öðru leyti uppfylla kröfur um hæfi og hæfni til að hljóta umrædda skipun, fengju raunhæft tækifæri til að sækja um embættið.

4. Ég óska eftir upplýsingum og gögnum um hvernig staðið var að könnun á því hvort einstakir umsækjendur hefðu á starfsferli sínum aflað sér reynslu og tileinkað sér þekkingu á sviði Evrópuréttar, t.d. með því að fjalla um slík álitaefni í störfum sínum sem dómarar eða lögmenn. Hef ég þá horft til þess eins og fyrr greinir að eins og kröfur laga um hæfi og hæfni hæstaréttardómara eru orðaðar og efni umræddrar auglýsingar var úr garði gert verður ekki séð að þeir sem sóttu um embættið hafi getað gert sér grein fyrir því fyrirfram, t.d. við gerð umsókna, að ráðherra myndi leggja „sérstaka áherslu“ „að þessu sinni“ á að sá, sem skipaður yrði, hefði þekkingu á Evrópurétti.“

Svar dómsmálaráðherra barst mér í bréfi, dags. 10. nóvember 2003. Þar segir svo:

„Ég vísa til bréfs yðar dags. 7. október s.l., þar sem skýrt er frá kvörtun frá [A] vegna þess að ég lagði til að [D] dómstjóri yrði skipaður dómari við hæstarétt. Jafnframt vekið þér athygli mína á því að yður hafi einnig borist kvörtun frá [B] vegna sömu ákvörðunar minnar. Með bréfi yðar fylgdu ljósrit af kvörtunum beggja lögmannanna.

Í bréfi yðar kemur fram, að þér hafið ákveðið að takmarka athugun yðar „á þessu stigi“, eins og það er orðað, við það að óska eftir skýringum frá mér og eftir atvikum frekari upplýsingum um hluta þessara kvartana.

Í bréfi yðar rekið þér lagaákvæði um hæfisskilyrði til að hljóta skipun í embætti hæstaréttardómara, að sá, sem skipaður sé í slíkt embætti, hafi lokið embættisprófi í lögfræði eða háskólaprófi í þeirri grein sem metið verði því jafngilt, auk þess sem viðkomandi þurfi að teljast hæfur til að gegna embættinu „í ljósi starfsferils síns og lögfræðilegrar þekkingar“. Ekki sé í lögum að finna neinar sérgreindar kröfur um þekkingu á ákveðnum afmörkuðum sviðum lögfræðinnar til að hljóta skipun í embætti hæstaréttardómara. Þá vekið þér athygli mína á því, að jafnframt beri að líta til ákvæða í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna eftir því sem þau geta átt við um hæstaréttardómara. Nefnið þér sérstaklega ákvæði þess efnis að viðkomandi umsækjandi þurfi að hafa almenna menntun og þar að auki þá „sérmenntun“ sem lögum samkvæmt er krafist „eða eðli málsins samkvæmt verður að heimta til óaðfinnanlegrar rækslu starfans.“

Engin sjónarmið koma fram í bréfi yðar sem hníga að því að [D] fullnægi ekki þessum skilyrðum.

Eftir að ég hafði gert tillögu um skipun [D] í embættið, bárust mér bréf frá fjórum umsækjendum, sem óskuðu eftir rökstuðningi mínum fyrir þeirri niðurstöðu. Í svari mínu beindi ég athygli sérstaklega að sérþekkingu [D] á sviði Evrópuréttar, en með umsókn hans fylgdu gögn því til staðfestu, að hann hefði lokið meistaraprófi á því sviði.

Þér leggið fyrir mig fjórar spurningar í tilefni af þessu atriði í svari mínu, þegar óskað var rökstuðnings af hálfu þessara fjögurra umsækjenda.

Þegar valið er milli átta umsækjenda, sem allir eru taldir hæfir til að gegna viðkomandi embætti, er veitingarvaldshafa vissulega vandi á höndum. Ekkert óbrigðult stigakerfi stendur hér til boða, en vitaskuld er reynt að leggja mat á menntun og reynslu umsækjenda svo og eðli starfsins.

Ég ákvað vitaskuld ekki áður en embættið var auglýst laust til umsóknar í 91. tbl. Lögbirtingablaðsins, 30. júní 2003, að ég myndi hafa þekkingu í Evrópurétti að leiðarljósi við gerð tillögu minnar til forseta Íslands og þegar af þeirri ástæðu kom ekki til álita að þrengja umrædda auglýsingu á þann veg, að sérstaklega væri kallað eftir umsóknum með þekkingu á þessu sviði.

Svo vísað sé til 2. spurningar yðar, vil ég taka fram að viðfangsefni mitt var að velja einn úr hópi átta umsækjenda. Þér bendið á, að í umsögn hæstaréttar til mín dags. 5. ágúst s.l. sé hvergi vikið að sjónarmiðum tengdum þekkingu á Evrópurétti. Það er út af fyrir sig rétt enda ekki við því að búast, þegar hæstiréttur beinir sérstaklega athygli minni að kostum þess, að valinn verði sá, sem vel sé að sér í réttarfari. En þegar ég íhugaði málið komst ég að þeirri niðurstöðu, að ekki yrði dregið í efa, að [D] með reynslu sína af dómarastörfum hefði góða þekkingu á íslensku réttarfari auk sérþekkingar sinnar í Evrópurétti.

Sú afstaða mín, að velja að þessu sinni úr hópi hæfra umsækjenda, mann með sérþekkingu á Evrópurétti, byggist á langri reynslu minni sem sérfróður maður um þróun utanríkismála og sem alþingismaður, fyrst sem formaður utanríkismálanefndar alþingis, þegar EES-samningurinn var þar til meðferðar og síðar sem menntamálaráðherra í 7 ár og nú síðast sem dómsmálaráðherra. Á þeim grunni er það mat mitt, að þetta réttarsvið skipti meiru, þegar fram líða stundir.

Við yfirferð mína yfir umsóknir um embætti hæstaréttardómara minntist ég umræðna sem átt hafa sér stað á opinberum vettvangi um þessi mál. Leyfi ég mér í því sambandi að nefna forystugrein í Tímariti lögfræðinga, 1. hefti 52. árg., sem væntanlega er rituð af ritstjóra tímaritsins eða með vitund hans og samþykki, en hann er Friðgeir Björnsson, fv. dómstjóri héraðsdóms Reykjavíkur og maður sem býr yfir áratugareynslu af dómarastörfum. Í forystugreininni er það nefnt að nýr vandi hafi blasað við þeim, sem fást við lögskýringar, þegar lögin um evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993 tóku gildi. Færð eru nánari rök fyrir þessari staðhæfingu, en síðan segir:

„Hér er komið inn á nýtt svið og lögskýringar eru orðnar lögbundnar að nokkru leyti. Ekki er nóg með það, heldur getur verið vafa undirorpið hvað af því kraðaki, sem samningurinn dregur á eftir sér eru réttarheimildir að íslenskum lögum eða lögskýringargögn. Hér er sprottinn upp frumskógur sem erfitt er að rata um og auðvelt er að villast í. Það er helst að harðsvíraðir fræðimenn nái á því einhverjum tökum sem sýnast þó misjafnlega sannfærandi.“

Með því að gera tillögu um [D] tel ég mig að hafa stuðlað að því, að í hæstarétt setjist maður, sem hafi hlotið þjálfun í því að rata um hinn villugjarna frumskóg Evrópuréttarins, svo að notað sé líkingamálið úr framangreindri forystugrein í Tímariti lögfræðinga.

Mat mitt er ekki byggt á tölulegum upplýsingum um fortíðina, enda var ég að gera tillögu um mann til setu í hæstarétti í meira en tvo næstu áratugi endist honum líf og heilsa. Ég tel einnig, að málafjöldi fyrir hæstarétti einn og sér gefi ekki upplýsingar um mikilvægi einstakra þátta lögfræðinnar, enda getur svo farið að einn einstakur dómur sé talinn skipta sköpum á þýðingarmiklu sviði. Hér hafa þegar komið upp mál fyrir hæstarétti þar sem reynir á samspil Evrópuréttar og íslensks landsréttar og má þar t.d. nefna mál um ríkisábyrgð á launagreiðslum við gjaldþrot launagreiðanda og mál um sjálfsábyrgð farþega á líkamstjóni sem hlýst af ölvun ökumanns.

Viðhorf mitt til þriðju spurningar í bréfi yðar hefur þegar komið fram, en ég vil auk þess láta þess getið, að hæstiréttur lætur í umsögn sinni að því liggja, að tilteknir tveir umsækjendur um dómaraembættið henti þörfum réttarins vel og byggist það á því að annar þeirra eigi að baki rannsóknar- og fræðistarf í réttarfari, en hinn búi sem fyrrverandi borgarfógeti yfir sérstakri þekkingu á aðfarargerðum, nauðungarsölum og skiptum. Hvergi er að finna í umsögn hæstaréttar hugleiðingu þess efnis, að þess hefði þá átt að geta í auglýsingu, að slíkir eiginleikar umsækjenda væru eftirsóknarverðir að þessu sinni.

Vegna fjórðu spurningar yðar vil ég taka fram, að við mat á umsækjendum lagði ég til grundvallar þau gögn og upplýsingar, sem fylgdu umsóknum þeirra. Þeir sem um starfið sóttu, gátu ekki gert sér grein fyrir því fyrirfram, hvert huglægt mat mitt yrði á umsækjendum, sem allir reyndust fullnægja hæfisskilyrðum laga, en ég yrði að velja á milli með málefnaleg sjónarmið að leiðarljósi. Hef ég þegar rökstutt í fjórum bréfum, hvers vegna ég gerði tillögu um [D] og fært fyrir því málefnaleg rök. Að rökstuðningur minn sé óeðlilegur miðað við auglýsingu og umsóknir er fráleit staðhæfing.

Með framangreindu hef ég svarað spurningum yðar. Vil ég í lokin árétta það meginsjónarmið mitt, að umboð veitingarvaldshafa er rúmt að lögum og óeðlilegt sé að túlka ákvörðun hans, sem byggð er á skýrum málefnalegum forsendum, á þann veg eftirá, að þær forsendur hefðu átt að koma fram í auglýsingu og þannig hugsanlega takmarkað fjölda umsækjenda og þá einnig það val einstaklinga sem til greina kæmu. Tilgangur auglýsingar um laust embætti hæstaréttardómara er ekki að finna þá sem eru hæfastir á einhverju sérsviði lögfræðinnar, heldur þá sem standast lögformlegar kröfur og teljast hæfir til starfsins. Síðan er það hlutverk ráðherra að velja úr og gera tillögu um þann, sem hann telur hæfastan. Fyrir því þarf ráðherra að færa málefnaleg rök og á þeim forsendum gerði ég þá tillögu sem hér er til umfjöllunar. Engin hinna fjögurra spurninga yðar hefur haggað þeirri vissu minni, að tillaga mín byggðist á lögmætum grunni.“

Með bréfum, dags. 12. nóvember 2003, gaf ég þeim A og B kost á því að gera athugasemdir við framangreint bréf dómsmálaráðherra. Athugasemdir A bárust mér í bréfi, dags. 17. nóvember 2003, og athugasemdir B í bréfi, dags. 16. sama mánaðar.

Eins og áður er fram komið barst mér kvörtun frá C vegna þeirrar ákvörðunar sem þetta mál er sprottið af 30. desember 2003. Í kvörtuninni kemur eftirfarandi m.a. fram:

„Fræðigreinin „Evrópuréttur“ er hvergi nærri fastmótuð í fræðikerfi lögfræðinnar. Í þrengri merkingu er átt við þá fræðigrein, þar sem fengist er við að skýra réttarreglur um Evrópusambandið og náskyldar reglur, þ. á m. reglur um Evrópska efnahagssvæðið. Í rýmri merkingu er hins vegar átt við þá grein, þar sem fengist er við að skýra samevrópskar reglur á hvaða sviði réttarins sem er, þ. á m. reglur Mannréttindasáttmála Evrópu. Ef á annað borð er gerð krafa um að verðandi hæstaréttardómari hafi öðlast sérþekkingu á sviði Evrópuréttar, er eðlilegra að lögð sé til grundvallar hin rýmri merking, ekki síst í ljósi þess að í úrlausnum Hæstaréttar reynir miklum mun oftar á skýringu á Mannréttindasáttmála Evrópu, einkum 6. gr. hans, heldur en á réttarreglur um Evrópusambandið og Evrópska efnahagssvæðið.“

Í tilefni af kvörtun C ritaði ég dómsmálaráðherra bréf, dags. 6. janúar 2004, þar sem ég kynnti honum kvörtunina og skýrði honum frá því viðhorfi mínu að kvörtun C gæfi á þessu stigi ekki tilefni til þess að ég afmarkaði athugun mína á þeim kvörtunum sem hefðu borist vegna skipunar í embætti hæstaréttardómara með öðrum hætti en ég hefði gert í bréfi mínu til hans frá 7. október 2003. Jafnframt gaf ég ráðherra kost á að koma á framfæri við mig hugsanlegum viðbótarskýringum í tilefni af kvörtun C vegna þeirra atriða sem fyrirspurnarbréf mitt frá 7. október 2003 beindist að og einnig vegna tilvitnaðs þáttar í kvörtun C þar sem vikið er að því hvað hann telur að felist í „fræðigreininni Evrópuréttur“ og áhrifa þess á mat ráðherra á hæfni þess umsækjanda sem valinn var til starfans.

Svarbréf dómsmálaráðherra barst mér 12. febrúar 2004. Í bréfinu segir svo:

„Vísað er til bréfs yðar, dags. 6. fyrra mánaðar, vegna kvörtunar [C] (hér nefndur kvartandi) vegna skipunar í embætti hæstaréttardómara í ágústmánuði síðasta árs. Vegna bréfs yðar og þess sem kemur fram hjá kvartanda vil ég vísa til bréfs míns til yðar, dags. 10. nóvember síðastliðinn, vegna kvartana þeirra [A] og [B] vegna sama máls.

Færi ég yður þakkir fyrir að veita mér tækifæri til að bregðast við bréfi kvartanda, þótt þér teljið kvörtun hans á þessu stigi ekki gefa tilefni til þess, að þér afmarkið athugun yðar á þeim kvörtunum, sem yður hafa borist vegna skipunar í embætti hæstaréttardómara, með öðrum hætti en þér gerðuð í bréfi yðar til mín dags. 7. október 2003 og ég svaraði hinn 10. nóvember 2003.

Bréf kvartanda er þess eðlis, að ég leyfi mér að bregðast við bréfi yðar á þann veg að halda mig ekki alfarið við það, sem kvartandi segir um „fræðigreinina Evrópuréttur“ og áhrifa inntaks hennar á mat mitt á hæfni þess umsækjanda, sem ég valdi til embættis hæstaréttardómara.

Við stöðuveitingar verður almennt ekki krafist frekari rökstuðnings af hálfu stjórnvalds, en að það geri viðhlítandi grein fyrir þeim meginsjónarmiðum, sem réðu því að staðan var veitt þeim, sem hana hlaut. Þá verður ekki krafist, að stjórnvald fari í rökstuðningi sínum í mannjöfnuð milli þess umsækjanda og annarra. Að því leyti sem sérlög og aðrar réttarreglur mæla ekki öðruvísi, er meginreglan því sú, að veitingarvaldshafi ákveður, á hvaða sjónarmiðum hann byggir ákvörðun sína um val á þeim umsækjanda, er skipa skal í opinbera stöðu, enda séu nefnd sjónarmið málefnaleg og lögmæt, svo sem sjónarmið um menntun, reynslu, skólagöngu, hæfni og aðra persónulega eiginleika, er máli skipta. Þegar þau sjónarmið, sem veitingarvaldshafi hefur ákveðið að byggja ákvörðun sína á, leiða ekki öll til sömu niðurstöðu, þarf að meta þau innbyrðis. Við slíkt mat hafa sjónarmiðin ekki öll sama vægi. Að því leyti sem lög og aðrar réttarreglur mæla ekki fyrir á annan hátt, er meginreglan sú, að veitingarvaldshafi ákveði, á hvaða sjónarmið hann leggur áherslu. Má um þetta meðal annars vísa til álits yðar í máli nr. 1391/1995. Stjórnvaldi ber hins vegar að færa meginrök fyrir niðurstöðu sinni og það hef ég gert í máli þessu, meðal annars í bréfi til kvartanda dags. 26. ágúst 2003 og bréfi til umboðsmanns Alþingis, dags. 10. nóvember 2003.

Kvartandi segir á blaðsíðu 2 í bréfi sínu, að hæstaréttardómarar eigi mun auðveldara en ráðherra að gera upp á milli umsækjenda, þar sem þeir hafi yfirleitt öðlast reynslu af störfum þeirra.

Fyrir þessari niðurstöðu kvartanda eru út af fyrir sig góð rök en hún breytir ekki hinu, að ráðherra tekur ákvörðun sína á eigin forsendum og með hliðsjón af umsögn Hæstaréttar. Í því tilviki, sem hér um ræðir, taldi rétturinn alla umsækjendur hæfa. Augljóst er, að löggjafinn leggur skipunarvaldið hér í hendur ráðherra en ekki réttarins og leggur á herðar hans en ekki réttarins að gera endanlega upp á milli umsækjenda. Verður að játa ráðherra töluvert svigrúm til slíks mats, enda verði það byggt á málefnalegum sjónarmiðum. Auk þess má hafa í huga, að rétturinn segir í áliti sínu, að umsækjendur séu allir hæfir til dómarastarfsins, þó dómurunum hafi þótt sem „heppilegast væri“ að annar tveggja tiltekinna umsækjenda yrði fyrir valinu „að þessu sinni“. Ofsagt er því, sem haldið er fram á blaðsíðu 3 í nýjustu kvörtuninni vegna þessarar skipunar, að rétturinn hafi lýst tvo umsækjendur „hæfasta“ til dómarastarfsins, þar sem rétturinn lét nægja að telja skipun þessara manna heppilegasta fyrir réttinn, eins og hann var skipaður síðastliðið sumar.

Þau sjónarmið, sem rétturinn kýs að leggja áherslu á í mati sínu, eru út af fyrir sig ekki ómálefnaleg, en þó ekki hin einu, sem til greina koma. Ýmis fleiri sjónarmið komu til álita, ekki síður málefnaleg. Það var á endanum mat mitt, að sérþekking [D] í Evrópurétti, staðfest með glæsilegu meistaraprófi hans við virta menntastofnun, væri sérstaklega eftirsóknarverð fyrir réttinn. Þá taldi ég augljóst, að [D] stæði vel að vígi í því atriði, sem Hæstiréttur nefndi sérstaklega, réttarfari, enda með langa dómarareynslu.

Kvartandi segir, að með því dómsmálaráðherra hafi ákveðið að leggja slík sjónarmið til grundvallar ákvörðun sinni, hafi honum borið að geta þeirra í auglýsingu um embættið. Ég hef þegar í svari mínu til yðar, dags. 10. nóvember 2003, lýst því, að ég hafði vitaskuld ekki ákveðið, þegar embættið var auglýst, að ég myndi við mat umsækjenda leggja áherslu á kunnáttu þeirra í Evrópurétti. Það var ekki fyrr en umsóknir lágu fyrir, sem og það álit Hæstaréttar, að umsækjendur væru allir hæfir til starfans, sem það verkefni lá fyrir að gera upp á milli þeirra og meta þá eiginleika, sem hver og einn þeirra hefði fram að færa. Niðurstaða mín var, eins og ég hef margítrekað, að eftirsóknarverðast að þessu sinni væri að fá mann með sérþekkingu [D] til liðs við Hæstarétt.

Ég hef rökstutt ákvörðun mína á fullnægjandi hátt. Ég þurfti ekki að leita sérstaklega til Hæstaréttar til að fá umsögn hans um það, hvort málefnalegt væri fyrir mig að velja umsækjanda, sem ekki hefði starfsreynslu sem sjálfstætt starfandi lögmaður, eins og ráða má af bréfi kvartanda. Það eru því ekki nein lögmæt rök fyrir hugleiðingum hans um þetta atriði og þær stangast einnig á við þá fullyrðingu hans á blaðsíðu 3, að legið hefði beint við að geta þess í auglýsingu um embættið að sérþekking í Evrópurétti væri æskileg. Hefði þá ekki átt að segja í auglýsingu, að starfsreynsla sem sjálfstætt starfandi lögmaður væri æskileg? Þá leyfi ég mér vegna þessara orða kvartanda að ítreka, sem ég segi í bréfi til yðar hinn 10. nóvember, að dómarar Hæstaréttar byggja tillögu sína á tilteknum eiginleikum tveggja umsækjenda, án þess að setja fram nokkrar hugleiðingar þess efnis að slíkra eiginleika hefði þá átt að geta í auglýsingu um embættið. Þá er ekki heldur stungið upp á því í bréfi kvartanda.

Kvartandi segir á blaðsíðu 3, að draga megi í efa, að ég sé í aðstöðu til að rökstyðja sjónarmið mitt um sérþekkingu á sviði Evrópuréttar á sama veg og Hæstiréttur rökstyðji í umsögn sinni, hvernig sérþekking á sviði réttarfars og einstökum þáttum þess nýtist fyrir réttinn. Ég leyfi mér að mótmæla þessari athugasemd kvartanda sérstaklega og vísa um leið til svars míns til yðar dags. 10. nóvember síðastliðins, þar sem nánar er gerð grein fyrir hvers vegna ég mat þekkingu á Evrópurétti svo mikilvæga. Vel má hins vegar vera að aðrir menn hefðu í mínum sporum lagt áherslu á önnur atriði, þegar gera þurfti upp á milli umsækjenda. Við slíku má alltaf búast, en mitt mat var þetta og er ég sannfærður um, að það er í senn málefnalegt og fyllilega lögmætt.

Þá setur kvartandi fram hugleiðingar um það, sem hann nefnir Evrópurétt í þröngri merkingu og Evrópurétt í rýmri merkingu. Ég var á sínum tíma í nefnd, sem undirbjó lögfestingu mannréttindasáttmála Evrópu hér á landi, auk þess sem ég sat í nokkur ár á þingi Evrópuráðsins og var meðal annars einn af varaforsetum þess. Mér er því vel kunnugt um efni mannréttindasáttmálans og get ekki tekið undir þá skoðun kvartanda, að þar sé um Evrópurétt í „rýmri merkingu“ að ræða.

Ég hef í ræðu og riti fjallað um mannréttindamál og tel, að þar sé um algildar reglur að ræða en ekki reglur, sem eigi sérstaklega við um Evrópuþjóðir. Evrópuréttur og þá einnig svonefndur EES-réttur er annars eðlis. Meistaranám [D] var á sviði Evrópuréttar, sem lýtur að aðild Íslands að evrópska efnahagssvæðinu.

Vegna þeirra orða kvartanda að ég hafi ekki kynnt mér ritsmíðar annarra umsækjenda á sviði Evrópuréttar, vil ég segja, að engu því, sem aðrir umsækjendur lögðu fram eða tíunduðu í ítarlegum umsögnum sínum og snertir það réttarsvið, sem ég lagði áherslu á að þessu sinni, verður jafnað við meistaragráðu [D] á því sviði. Í því felst vitaskuld engin sérstök gagnrýni á ritstörf annarra umsækjenda. Ég einfaldlega mat sérþekkingu [D] mikilvægari en sérþekkingu annarra umsækjenda á öðrum sviðum.

Ég hafna þeirri skoðun kvartanda á blaðsíðu 4 í bréfi hans, að ég hafi ekki aflað mér réttra og nægilega ítarlegra upplýsinga um umsækjendur til að geta gert upp hug minn um það, hvort [D] hafi verið einkar farsæll í störfum héraðsdómara.

Þá tel ég kvartanda fara með rangt mál, þegar hann gerir því skóna á blaðsíðu 5, að ég hafi brotið í bága við óskráða meginreglu stjórnsýsluréttar um skyldubundið mat stjórnvalda við ákvörðun sína. Furðu sætir, að því er haldið fram af kvartanda, sem er lagaprófessor, að málefnalegur rökstuðningur ráðherra fyrir vali sínu á einum umsækjenda valdi því, að ráðherrann hafi gerst sekur um að láta „ólögmæt sjónarmið“ ráða ákvörðun sinni. Annars vegar er veitingarvaldshafa skylt að rökstyðja ákvörðun sína, hins vegar er það af kvartanda talið bera vott um ólögmæt sjónarmið, þegar hann gerir það.

Kvartandi finnur að því, að ég hafi í rökstuðningi mínum látið þess getið, að Hæstiréttur hafi kallað umsækjandann [D] til starfa innan sinna vébanda í mikilvægum málum og segir, að sama mætti segja um sig og suma aðra umsækjendur. Af þessu leiði að þetta geti ekki leitt til þess, að [D] verði talinn hæfastur umsækjenda. Ég er sammála kvartanda um það, að sú staðreynd ein og sér, að [D] hafði áður verið kallaður til starfa í Hæstarétti, gerði hann ekki að hæfustum umsækjenda, enda hélt ég því ekki fram. Sú staðreynd er hins vegar eitt af því, sem til álita kemur, og verður hluti af þeirri heildarmynd, sem ráðherra gefur sér af umsækjandanum.

Sú fullyrðing, á blaðsíðu 5 í bréfi kvartanda, fær ekki staðist, að ég hafi brotið gegn rannsóknarreglunni í 10. gr. stjórnsýslulaganna. Ég hef ekki gerst sekur um að styðjast við ólögmæt sjónarmið eða ómálefnaleg, með rökstuðningi mínum hef ég fullnægt kröfum samkvæmt 1. og 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga. Þá get ég ekki látið hjá líða að nefna, að það hefði einfaldlega aldrei hvarflað að mér að leggja til, að maður yrði skipaður dómari við æðsta dómstól landsins, nema vera sannfærður sjálfur um, að fyrir þeirri ákvörðun væru málefnaleg rök og lögmæt rök. Það er svo fjarri mér, sem mest má vera, að eiga hlut að því, að dómari við Hæstarétt Íslands verði skipaður á ólögmætan hátt. Uni ég því illa að sitja undir slíku ámæli frá kvartanda.

Eins og kunnugt er hafa þrír umsækjendur borið sig upp við yður vegna þeirrar ákvörðunar minnar, sem hér er til umræðu. Að þessu sinni leggur kvartandi höfuðáherslu á, að ég hafi gengið gegn niðurstöðu Hæstaréttar og dregur í efa heimildir mínar til þess. Ég tel sérstaklega nauðsynlegt að andmæla þeim skilningi kvartandans. Ég mótmæli því, að ráðherra sé bundinn af umsagnaraðila sínum á nokkurn þann hátt að jafna megi við það, að hann þurfi í raun að hnekkja niðurstöðu umsagnaraðilans. Með þeim skilningi, sem kvartandi virðist leggja í stöðu dómenda Hæstaréttar og dómsmálaráðherra, virðist með nokkurri einföldun mega fá þá niðurstöðu, að í raun skuli dómendur réttarins taka ákvörðun um nýjan dómara, en þeirri ákvörðun þeirra sé jafnskjótt skotið til ráðherra, sem geti þá freistað þess að hnekkja henni eftir einhverjum ströngum skilyrðum. Meira að segja virðist kvartandinn telja, að ráðherranum beri að leita leyfis dómendanna, ef hann hyggst leggja áherslu á einhver önnur atriði en þeir völdu í sinni umsögn. Ég tel algerlega óhjákvæmilegt að mótmæla þessum skilningi með öllu.

Að þessu sögðu vil ég hins vegar taka fram, að ég lít ekki svo á að ég hafi gengið sérstaklega í berhögg við álit dómara Hæstaréttar. Ég leit vitaskuld til þeirra sjónarmiða þeirra, að mikilvægt væri, að hinn nýi dómari hefði góða þekkingu á íslensku réttarfari og taldi, eins og ég hef áður sagt, að umsækjandinn [D] dómstjóri hefði hana. Hefur enda hvergi verið látið að því liggja að svo sé ekki, þó vitaskuld megi segja sama um marga aðra umsækjendur, þar á meðal þá sem dómarar Hæstaréttar nefndu sérstaklega sem heppilegasta af þeim ástæðum. Ég dreg ekki í efa að margir umsækjenda, þar á meðal kvartandi, búa yfir afar góðri þekkingu á réttarfari.

Að öðru leyti leyfi ég mér að vísa til svara minna til yðar frá 10. nóvember 2003.“

Með bréfi, dags. 13. febrúar 2004, gaf ég A, B og C kost á því að setja fram athugasemdir í tilefni af ofangreindu svarbréfi dómsmálaráðherra. Af þessu tilefni bárust mér athugasemdir frá A með bréfi, dags. 20. febrúar 2004, frá B með bréfi, dags. 22. s.m., og frá C með bréfi, dags. 26. s.m.

IV.

1.

Eins og rakið er í bréfi mínu til dómsmálaráðherra, dags. 7. október 2003, ákvað ég að afmarka athugun mína á kvörtunum A og B við tiltekin atriði er lúta að undirbúningi ákvörðunar ráðherra um að leggja til við forseta Íslands að D yrði skipaður dómari við Hæstarétt. Þá hef ég ákveðið að beina athugun minni sérstaklega að sjónarmiði um þekkingu umsækjenda á „Evrópurétti“ sem ráðherra leggur sérstaka áherslu á í bréfum til A og B, dags. 26. ágúst 2003, og 2. september s.á. Eftir að mér barst kvörtun C taldi ég að kvörtun hans gæfi ekki tilefni til þess að breyta afmörkun athugunarinnar fyrir utan að óska sérstaklega eftir afstöðu ráðherra til þeirra sjónarmiða sem fram komu í kvörtuninni um hugtakið „Evrópurétt“.

Ég taldi eins og lýst er hér að framan rétt að beina athugun minni sérstaklega að undirbúningi ákvörðunar ráðherra og þar með hvort ákvörðun hans hefði verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum. Úrlausn um þessi atriði og það að rétt hafi verið staðið að þeim er afgerandi um aðstöðu eftirlitsaðila eins og umboðsmanns Alþingis til að geta lagt mat á hvort ákvörðun ráðherra uppfyllir þá óskráðu grundvallarreglu stjórnsýsluréttarins að hæfasti umsækjandinn skuli valinn til starfsins.

Í kafla IV.2 hér á eftir verður gerð stutt grein fyrir þeim lagaákvæðum sem gilda um skipun dómara við Hæstarétt Íslands. Í kafla IV.3 verður vikið að þeim grundvallarreglum íslensks stjórnsýsluréttar sem gilda um skipun, setningu eða ráðningu í opinber störf. Í kafla IV.4 verður fjallað sérstaklega um þær lagareglur og lagasjónarmið sem eiga við um skipun dómara í Hæstarétt. Í köflum IV.5-6 mun ég síðan fjalla um þá ákvörðun dómsmálaráðherra að leggja sérstaka áherslu á þekkingu á Evrópurétti að þessu sinni og kröfur sem lög nr. 15/1998, um dómstóla, almennar reglur stjórnsýsluréttar og stjórnsýslulög nr. 37/1993 gerðu til ráðherra í því sambandi. Í kafla IV. 7 mun ég lýsa niðurstöðu athugunar minnar á þessum atriðum með tilliti til atvika í þessu máli og í kafla IV.8 mun ég víkja að athugasemdum þeirra sem báru fram kvartanirnar um efni rökstuðnings ráðherra. Í kafla V fjalla ég um fyrirkomulag auglýsinga þegar ákvörðun um veitingu starfs er byggð sérstaklega á þekkingu á ákveðnu afmörkuðu sviði. Að lokum set ég í kafla VI fram ábendingar til Alþingis og dómsmálaráðherra um tiltekin atriði með það í huga að tekin verði afstaða til þess hvort þörf sé á því að fyrirkomulag við undirbúning og töku ákvörðunar um skipun í embætti dómara við Hæstarétt verði tekið til endurskoðunar og lagabreytingar gerðar ef sú verður niðurstaðan.

Meðal þeirra gagna sem dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur afhent mér vegna athugunar minnar á þessu máli er skipunarbréf handa D til þess að vera dómari við Hæstarétt Íslands, dags. 19. ágúst 2003, undirritað af handhöfum valds forseta Íslands samkvæmt 8. gr. stjórnarskrárinnar, forsætisráðherra, forseta Alþingis og forseta Hæstaréttar. Sem forsætisráðherra undirritar X skipunarbréfið. Fyrir liggur að móðir X og faðir D eru systkini og þeir eru því skyldir að öðrum lið til hliðar. Vanhæfisástæða 2. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er afmörkuð með þeim hætti. Kvartanir þær sem um er fjallað í áliti þessu hafa ekki beinst að þessu atriði og ég hef því ákveðið að fjalla ekki sérstaklega um það enda sjálfstætt úrlausnarefni hvort og þá hvaða vanhæfisreglur gilda um handhafa forsetavalds. Jafnframt verður að telja að hver sem niðurstaðan yrði um það efni séu ekki líkur á að það hefði sem slíkt áhrif á gildi þeirrar skipunar í embætti sem hér er fjallað um.

2.

Um skipun dómara í Hæstarétt er fjallað í 4. gr. laga nr. 15/1998, um dómstóla. Eiga níu dómarar þar sæti og skipar forseti Íslands þá í embætti ótímabundið samkvæmt tillögu dómsmálaráðherra, sbr. 1. mgr. ákvæðisins. Í samræmi við 13. og 14. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 verður að ganga út frá því að dómsmálaráðherra beri ábyrgð á þeirri stjórnarathöfn sem í þeirri skipun felst og öðlast hún ekki gildi nema ráðherra riti undir hana ásamt forseta, sbr. 19. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 73/1969, um Stjórnarráð Íslands, ber að taka tillögu dómsmálaráðherra um hver skuli hljóta skipun í dómaraembættið til meðferðar á ráðherrafundi á grundvelli 17. gr. stjórnarskrárinnar áður en hún er lögð fyrir forseta til undirritunar.

Í 2. og 3. mgr. 4. gr. dómstólalaga er mælt fyrir um þau almennu hæfisskilyrði sem menn þurfa að uppfylla til þess að hljóta skipun í embætti hæstaréttardómara. Er í 6. tölul. 2. mgr. 4. gr. laganna gerð sú krafa að sá sem skipaður er í embættið hafi lokið embættisprófi í lögfræði eða háskólaprófi í þeirri grein sem metið verður því jafngilt. Þá segir í 8. tölul. sömu málsgreinar að viðkomandi þurfi að teljast hæfur til að gegna embættinu „í ljósi starfsferils síns og lögfræðilegrar þekkingar“.

4. mgr. 4. gr. dómstólalaga hljóðar svo:

„Áður en skipað verður í dómaraembætti skal dómsmálaráðherra leita umsagnar Hæstaréttar um hæfi og hæfni umsækjenda til að gegna því. Umsækjanda verður ekki veitt embættið ef í umsögninni kemur fram það álit að hann fullnægi ekki skilyrðum 5. eða 8. tölul. 2. mgr.“

Í umsögn Hæstaréttar í því máli sem hér er til umfjöllunar kemur fram að allir umsækjendur fullnægi hinum almennu hæfisskilyrðum til að hljóta skipun í embætti hæstaréttardómara og þeir fullnægi einnig allir þeim lágmarkskröfum um hæfni sem gera verði til dómaraefnis á grundvelli 8. tölul. 2. mgr. 4. gr. laganna, „þótt að öðru leyti megi greina nokkuð milli þeirra í þeim efnum“ eins og segir í umsögn Hæstaréttar og því er síðan lýst nánar í umsögninni.

Í dómstólalögum er ekki kveðið nánar á um það hvernig haga skuli meðferð mála við skipun í embætti hæstaréttardómara eða á hvaða sjónarmiðum skuli byggt þegar sá sem hlýtur skipun í embættið er valinn úr hópi umsækjenda. Eins og ráðið verður af athugasemdum við ákvæði 1. gr. þess frumvarps sem varð að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 nær gildissvið þeirra laga meðal annars til skipunar í embætti (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3283). Verður því að ganga út frá því að reglur þeirra laga gildi um undirbúning og úrlausn mála við skipun í embætti hæstaréttardómara auk þeirra óskráðu grundvallarreglna stjórnsýsluréttarins sem taldar eru gilda um veitingu á opinberum störfum, þ.m.t. um undirbúning stöðuveitingar og mat á hæfni umsækjenda, sjá t.d. Hrd. 1998, bls. 3599.

3.

Í íslenskum rétti hafa ekki verið lögfestar almennar reglur um hvaða sjónarmið eigi að leggja til grundvallar við skipun, setningu eða ráðningu í opinber störf. Hefur því almennt verið gengið út frá því að stjórnvaldið sem veitir viðkomandi starf skuli ákveða hverju sinni á hvaða sjónarmiðum ákvörðunin eigi að byggjast ef ekki er mælt fyrir um það í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum og óskráðar reglur stjórnsýsluréttarins fela ekki í sér takmarkanir í þessu efni. Leiði þau sjónarmið sem lögð eru til grundvallar ekki til sömu niðurstöðu verður enn fremur að líta svo á að það sé komið undir mati stjórnvaldsins á hvaða sjónarmið sérstök áhersla skuli lögð. Í þessu felst þó ekki að stjórnvöld hafi að öllu leyti frjálsar hendur um það hver skuli skipaður, settur eða ráðinn í starf hverju sinni. Sú óskráða meginregla stjórnsýsluréttar gildir um slíka ákvörðun að niðurstaðan verður að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum eins og um menntun, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum þeim persónulegu eiginleikum sem talið er að skipti máli. Þá hefur verið gengið út frá því að það sé meginregla í stjórnsýslurétti að við skipun, setningu eða ráðningu í opinbert starf beri að velja þann umsækjanda sem talinn er hæfastur til að gegna viðkomandi starfi. Um þessar kröfur má vísa til ýmissa álita umboðsmanns Alþingis þar á meðal álits hans frá 9. október 1992 í máli nr. 382/1991 (SUA 1992:151) og álits frá 26. september 1996 í máli nr. 1391/1995 (SUA 1996:451).

Sjónarmið sem byggt er á við veitingu starfs verður þannig ekki málefnalegt við það eitt að veitingarvaldshafinn ákveði að beita því. Frjálsu mati stjórnvaldsins eru þarna settar ákveðnar skorður og þegar sleppir þeim atriðum sem lúta beint að umsækjendunum þurfa þau sjónarmið sem á er byggt einnig að vera samkvæmt efni sínu málefnaleg og í nægjanlegum og eðlilegum tengslum við það starf sem um er að ræða. Þá má val á sjónarmiði ekki beinlínis leiða til þess að í reynd fari ekki fram samanburður á milli umsækjenda sem miði að því að upplýsa hver sé hæfastur úr hópi þeirra, sjá hér til hliðsjónar: Hans Gammeltoft-Hansen: Forvaltningsret. Kaupmannahöfn, 2002, bls. 206, 209-210 og 364.

Hlutverk þess sem fer með vald til veitingar opinbers starfs er að ráða starfsmann til þjónustu í þágu þess opinbera verkefnis sem undir starfið fellur og viðurkennt er að honum beri að ráða þann sem telst hæfastur umsækjenda til að rækja það starf út frá þeim lagareglum sem um starfið gilda og í þágu almannahagsmuna. Hin almenna skylda til að auglýsa störf hjá ríkinu er sett í þágu þessa markmiðs og til að tryggja jafnræði milli þeirra sem telja sig hæfa til að gegna viðkomandi starfi. Val á sjónarmiðum sem á er byggt við skipun eða ráðningu af hálfu veitingarvaldshafa mega því ekki heldur ganga beinlínis gegn þessum grundvallarreglum.

Ekki er unnt að gera viðhlítandi grein fyrir öllum þeim sjónarmiðum sem stjórnvöldum er heimilt að byggja á þegar taka þarf afstöðu til þess hverjum skuli veitt opinbert starf. Það ræðst af því hverjar þarfir viðkomandi starfsemi eru hverju sinni enda er tilgangur starfsveitingarinnar að sjá til þess að verkefni hins opinbera séu sem best af hendi leyst. Af sömu ástæðu verður að ganga út frá því að sjónarmið, sem ráðast einungis af persónulegum óskum eða hagsmunum þess er gegnir því embætti sem fer með veitingarvaldið án tengsla við raunverulegar þarfir viðkomandi starfsemi, eigi ekki að hafa þýðingu við val milli hæfra umsækjenda. Þá er almennt óheimilt að leggja sjónarmið sem byggjast á þeim atriðum sem talin eru upp í 2. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga til grundvallar við skipun, setningu eða ráðningu í opinbert starf.

Þær rúmu heimildir sem handhafi veitingarvalds hefur til að ákveða á hvaða sjónarmiðum niðurstaðan skuli byggjast og hvert vægi einstakra atriða eigi að vera í því sambandi leiða til þess að það kann að vera vandkvæðum bundið að leggja á það heildstætt mat hvort ályktun stjórnvalds af gögnum málsins, um það hver skuli teljast hæfastur umsækjenda, sé réttmæt. Á grundvelli almennra reglna stjórnsýsluréttar verður þó að gera þá kröfu að heildstæður samanburður á framkomnum umsóknum fari almennt fram áður en ákvörðunin er tekin, þar sem megináhersla er lögð á atriði sem geta varpað ljósi á væntanlega frammistöðu í því starfi sem um ræðir. Athugun umboðsmanns á þeim forsendum sem liggja til grundvallar slíkri ákvörðun og undirbúningi hennar að öðru leyti kann í einstaka tilvikum að benda til að þetta viðmið hafi ekki verið haft að leiðarljósi.

Skipulagi stjórnkerfisins er almennt hagað svo hér á landi að sá sem hefur vald til að veita opinbert starf hefur að jafnaði einnig heimild til að ákveða innan lögmæltra marka hvernig skipulagi viðkomandi starfsemi skuli hagað og á hvaða atriði skuli leggja áherslu hverju sinni við starfrækslu stofnunar. Má í þessu sambandi benda á að það er almennt í valdi hans að beina fyrirmælum til starfsmanna um þau viðfangsefni sem þeim er ætlað að hafa með höndum, sbr. einkum 15. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þá hefur handhafi veitingarvalds umtalsvert svigrúm til að breyta einhliða verkefnum starfsmanna án þess að nauðsynlegt sé að slíta starfssambandi þeirra við hið opinbera, sbr. 19. gr. sömu laga. Með vísan til þessara atriða verður almennt að gera ráð fyrir að það sé hlutverk handhafa veitingarvaldsins að skilgreina þær þarfir sem ætlunin er að mæta með skipun eða ráðningu manns í tiltekið starf í stjórnsýslunni.

Þegar ráðherra er falið með lögum að skipa í embætti innan framkvæmdarvaldsins, eða að gera tillögu til forseta í því efni, hefur hann samkvæmt framansögðu almennt nokkuð rúmt svigrúm til að velja þau sjónarmið sem hann telur rétt að leggja áherslu á við mat á umsækjendum. Er þessi aðstaða einkum byggð á því að umræddur starfsmaður, hvort sem hann starfar beinlínis í ráðuneyti viðkomandi ráðherra eða í undirstofnun, lúti yfirstjórnunar- og eftirlitsvaldi veitingarvaldshafa. Þannig geta stöðuveitingar af hálfu ráðherra í stjórnsýslunni verið ákveðið stjórnunartæki til að hafa áhrif á skipulag og þróun þeirra stofnana sem heyra stjórnarfarslega undir hann í samræmi við þær þarfir og þau markmið sem hann leggur áherslu á í störfum sínum innan ramma gildandi lagareglna á hverjum tíma. Í þessum tilvikum þarf einnig að hafa í huga að ráðherra ber að stjórnlögum ábyrgð á þeirri stjórnsýslu sem undir hann heyrir gagnvart Alþingi.

Það er ljóst að ákvæði laga nr. 15/1998, um dómstóla, byggja á því að dómarar við Hæstarétt Íslands séu skipaðir af forseta að tillögu dómsmálaráðherra. Hér þarf því að taka afstöðu til þess hvort og þá í hvaða mæli reglur stjórnarskrár og laga um stöðu Hæstaréttar og dómenda þar leiða til þess að gera verði eftir atvikum sérstakar kröfur til undirbúnings og meðferðar ráðherra á veitingarvaldi sínu.

4.

Samkvæmt 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 fara forseti og önnur stjórnarvöld með framkvæmdarvaldið en dómendur með dómsvaldið. Í 59. gr. stjórnarskrárinnar segir að skipun dómsvaldsins verði eigi ákveðin nema með lögum. Þá er 61. gr. hennar ætlað að tryggja dómendum ákveðna vernd gegn íhlutun af hálfu framkvæmdar- og löggjafarvalds í stöðu þeirra og embættisverk. Af þessum reglum stjórnarskrár leiðir að ráðherra og eftir atvikum aðrir handhafar ríkisvalds hafa einungis takmarkaðar heimildir til formlegra áhrifa á starfsemi dómstóla. Verða þær heimildir almennt að byggjast á settum lagareglum sem hlotið hafa samþykki Alþingis, sbr. 59. gr. stjórnarskrárinnar, og þá mega þær lagareglur ekki ganga gegn 61. gr. stjórnarskrár.

Samkvæmt fyrri málsl. 1. gr. laga nr. 15/1998, um dómstóla, er Hæstiréttur æðsti dómstóll ríkisins. Í síðari málsl. sömu greinar segir að Hæstiréttur sé „áfrýjunardómstóll“ og hafi aðsetur í Reykjavík. Af lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og lögum nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, verður ráðið að lögsaga Hæstaréttar er almenn í þeirri merkingu að Hæstarétti er falið að leysa úr hvers kyns réttarágreiningi sem skotið er til hans enda séu uppfyllt að öðru leyti tiltekin formskilyrði. Þá er lögsaga Hæstaréttar almennt ekki bundin við úrlausn á ágreiningi um lagaatriði heldur tekur rétturinn einnig að meginstefnu til afstöðu til ágreinings um hvaða atvik máls teljast sönnuð með fáeinum undantekningum sem óþarft er að rekja nánar hér. Enda þótt ákvæði 7. gr. laga nr. 15/1998 geri ráð fyrir því að forseti Hæstaréttar geti ákveðið að þrír eða fimm dómarar taki hverju sinni þátt í meðferð máls fyrir dómi auk þess að ákveða að í sérlega mikilvægum málum skuli sjö dómarar skipa dóm verður hvorki af þessu ákvæði né öðrum í dómstólalögum dregin sú ályktun að skipan dómsins í hverju máli skuli byggja á sérþekkingu dómara á ákveðnu sviði réttarins. Vegna eðlis lögsögu Hæstaréttar sem almenns áfrýjunardómstóls í hvers kyns einkamálum og opinberum málum verður að leggja til grundvallar, að virtum hæfisskilyrðum 2. mgr. 4. gr. laga nr. 15/1998, að við val úr hópi umsækjenda um embætti hæstaréttardómara verði fyrst og fremst að gera þá kröfu að umsækjandi hafi víðtæka og almenna lögfræðilega menntun og þekkingu þannig að hann geti, og þá í ljósi starfsferils síns, tekist á við þau verkefni sem Hæstarétti er falið að lögum að sinna.

Í II. kafla almennra athugasemda greinargerðar með frumvarpi því er varð að lögum nr. 15/1998 segir að „[megintilgangur] frumvarpsins [hafi verið] að styrkja stöðu og sjálfstæði dómstólanna sem þriðju valdstoð ríkisins og meðal annars auka þannig tiltrú almennings á starfsemi þeirra. Við samningu frumvarpsins [hafi verið] höfð hliðsjón af nýlegum dönskum og norskum lagafrumvörpum um stjórn dómstóla. Jafnframt [hafi verið] tekið tillit til tilmæla ráðherranefndar Evrópuráðsins nr. R (94) frá 13. október 1994, um sjálfstæði, skilvirkni og hlutverk dómenda, svo og meginreglna Sameinuðu þjóðanna um sjálfstæði dómsvalds sem samþykktar voru á allsherjarþingi þeirra í nóvember 1985. Loks [hafi] verið litið til sáttmála dómenda í Evrópu frá árinu 1993, með breytingum frá 1996, sem samþykktur var af evrópsku dómarasamtökunum“, sjá Alþt. 1997-1998, A-deild, bls. 1136.

Í I. kafla framangreindra athugasemda að baki lögum nr. 15/1998 segir m.a. svo:

„Við mótun löggjafar um dómstólana verður að hafa í huga að þeim ber að hafa eftirlit með hinum tveimur þáttum ríkisvaldsins, löggjafarvaldinu annars vegar og framkvæmdarvaldinu hins vegar. Þannig kemur í hlut dómstóla að skera endanlega úr um embættistakmörk yfirvalda, sbr. 60. gr. stjórnarskrárinnar, og hvort löggjafinn hafi haldið sér innan þess ramma sem honum er settur með stjórnarskránni. Hér ber einnig að nefna það mikilvæga hlutverk dómstóla að dæma í refsimálum sem framkvæmdarvaldið höfðar á hendur sökuðum mönnum.

Með framangreint í huga hefur þeirri stefnu verið fylgt við samningu frumvarpsins að tryggja verði í sem ríkustum mæli að dómstólarnir verði óháðir hinum tveimur þáttum ríkisvaldsins sem þeir hafa eftirlit með. Verði jafnframt að miða ákvæði frumvarpsins við það að ekki sé nægilegt að þetta sjálfstæði dómstólanna sé tryggt í raun, heldur að sjálfstæðið og trúverðugleikinn, sem því fylgir, sé öllum sýnilegur. Þá hefur og verið fylgt þeirri stefnu, sem þróun beinist tvímælalaust í átt til í nágrannalöndunum, að búa verði svo um hnútana að dómstólar séu einnig sjálfstæðir í ríkum mæli varðandi stjórn innri málefna sinna.

Samkvæmt fyrrgreindum sjónarmiðum gæti virst rökrétt að með frumvarpinu yrði stefnt að því að dómstólar væru sjálfstæðir í sérhverju tilliti, þannig að þeir féllu hvorki undir ákvörðunarvald löggjafans né framkvæmdarvaldsins í fjárhagslegu eða stjórnunarlegu tilliti. Sjálfstæði í þeim mæli gengi þó of langt og væri ekki í samræmi við íslenskar stjórnskipunarreglur. Að auki ætti slík skipan sér vart fordæmi í ríkjum Vestur-Evrópu. Með svipuðum hætti væri hugsanleg sú lausn að fjárhagsmálefni dómstóla ættu beint undir Alþingi. Það hefði þó ókosti sökum þess að dómstólar hafa ekki aðeins úrskurðarvald um athafnir framkvæmdarvaldsins, heldur einnig löggjafarvaldsins. Með henni yrði jafnframt að engu pólitísk ábyrgð ráðherra á þessu sviði. Með þetta í huga hefur niðurstaðan orðið sú við mótun frumvarpsins að styrkja verði sjálfstæði dómstólanna í innri málefnum sínum án þess að gera grundvallarbreytingar á því kerfi sem fyrir er.

[...]

Þótt frumvarpið miði að því samkvæmt framansögðu að færa ákvörðunarvald um ýmis mikilvæg atriði varðandi fjárreiður og innri starfsemi dómstólanna frá dómsmálaráðherra er ljóst að eftir sem áður hefði hann valdið til ákvörðunar um margvísleg atriði ef frumvarpið yrði að lögum. Þannig má nefna að gert er ráð fyrir að ráðherra skipi héraðsdómara, veiti þeim lausn um stundarsakir eða að fullu og öllu, svo og að hann geri tillögur til forseta Íslands um sömu atriði varðandi hæstaréttardómara. Jafnframt er lagt til að ráðherra skipi dómstjóra við héraðsdómstóla. Því hefur verið hreyft í umræðum í sumum nágrannalöndum að skipan sem þessi sé óeðlileg í ljósi þess að dómsmálaráðherra sé jafnframt æðsti yfirmaður lögreglunnar, hafi eftirlit með ákæruvaldi og geti farið með það vald í vissum málum. Geti af þessum sökum farið betur á því að annar ráðherra en dómsmálaráðherra fari með það vald varðandi dómstólana sem hér um ræðir. Við gerð frumvarpsins var ekki talið að tilefni væri til að gera tillögur um breytingar á núverandi skipan að þessu leyti, en slíkur kostur hefur heldur ekki orðið fyrir valinu annars staðar í nágrannalöndum okkar, þar sem umræður sem þessar hafa farið fram. Í því sambandi er meðal annars haft hér í huga að ef frumvarpið verður að lögum yrði sjálfstæði dómstóla aukið til muna, þannig að nægilegt sé með tilliti til atriða sem þessara.“ (Alþt. 1997-1998, A-deild, bls. 1135-1138.)

Af ákvæðum laga nr. 15/1998 og tilvitnuðum athugasemdum úr lögskýringargögnum verður ekki annað ráðið en að með lögunum hafi átt sér stað ákveðin breyting á lagalegri stöðu dómstólanna í samskiptum þeirra við aðra handhafa ríkisvalds. Með lögunum var þannig af hálfu löggjafans, sbr. 59. gr. stjórnarskrárinnar, leitast við að tryggja eftir mætti að staða dómstólanna hér á landi yrði á grundvelli almennra laga samræmd þeirri sjálfstæðu stöðu sem dómsvaldinu er tryggð í stjórnarskránni. Var við samningu frumvarpsins m.a. horft til nýlegs undirbúnings löggjafar og réttarþróunar á Norðurlöndunum og á vettvangi Evrópuráðsins og Sameinuðu þjóðanna í átt til aukins sjálfstæðis dómstólanna, og þá einkum í innri málefnum þeirra. Hefur sú skoðun hlotið æ meiri hljómgrunn á undanförnum árum í nágrannalöndum og hjá áðurnefndum alþjóðastofnunum að ekki sé nægjanlegt að tryggja sjálfstæði dómenda í eiginlegum dómstörfum heldur sé það skilyrði fyrir raunverulegu sjálfstæði dómstólanna að þeir njóti ákveðins sjálfstæðis við afmörkun á starfsskilyrðum og stjórn innri málefna, s.s. við val á dómaraefnum. Í þessu sambandi tel ég rétt til upplýsingar að benda á ítarlegt álit norsku dómstólanefndarinnar (Domstolkommisjon) frá 20. apríl 1999, en hún var sett á laggirnar á árinu 1996 með ákvörðun ríkisstjórnarinnar (kgl. res. 8. mars 1996), sjá Norges offentlige utredninger (NOU) 1999:19. Þar er m.a. fjallað í kafla 4 um tilmæli Ráðherranefndar Evrópuráðsins, R (94) 12 frá 13. október 1994, um sjálfstæði, skilvirkni og hlutverk dómenda, svo og meginreglur Sameinuðu þjóðanna um sjálfstæði dómsvalds sem samþykktar voru á allsherjarþingi þeirra í nóvember 1985, en eins og ég rakti hér að framan kemur fram í lögskýringargögnum að baki íslensku dómstólalögunum frá 1998 að höfð hafi verið hliðsjón af þeim sjónarmiðum og tilmælum sem þar koma fram. Í álitinu er m.a. lögð á það áhersla að ofangreind tilmæli Ráðherranefndar Evrópuráðsins frá 1994 og meginreglur Sameinuðu þjóðanna frá 1985 feli í sér nánari útfærslu á inntaki og gildissviði 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um sjálfstæði dómenda. Til samanburðar bendi ég á að niðurstaða af starfi dönsku dómstólanefndarinnar (Domstolsudvalget) er birt í Betænkning nr. 1319/1996.

Með lögum nr. 15/1998 voru á grundvelli ofangreindra meginsjónarmiða gerðar heildstæðar kerfisbreytingar á ákveðnum þáttum sem varða innri málefni dómstólanna. Náðu þessar breytingar einnig að hluta til Hæstaréttar. Sett var á laggirnar óháð nefnd um dómarastörf en valdsvið þeirrar nefndar tekur til Hæstaréttar eins og annarra dómstóla landsins, sbr. ákvæði IV. kafla laga nr. 15/1998. Með því færðist eftirlit með störfum dómara, jafnt hæstaréttardómara sem héraðsdómara, alfarið úr höndum dómsmálaráðherra. Þó er gert ráð fyrir því, sbr. 2. mgr. 29. gr. dómstólalaga, að forseti Íslands veiti dómara við Hæstarétt lausn frá embætti um stundarsakir samkvæmt tillögu dómsmálaráðherra en áður en slík lausn er veitt skal ráðherra afla skriflegrar umsagnar frá nefnd um dómarastörf.

Af ofangreindum ákvæðum 4. gr. dómstólalaga um skipun hæstaréttardómara og tilvitnuðum lögskýringargögnum verður hins vegar ráðið að löggjafinn hafi ákveðið að ekki væri tilefni til að færa ákvörðunarvaldið um val á hæstaréttardómara frá dómsmálaráðherra. Það er því ljóst, eins og ég rakti hér í köflum IV.2 og 3, að lög nr. 15/1998 byggja á því fyrirkomulagi að valdið til að skipa hæstaréttardómara skuli vera í höndum dómsmálaráðherra enda lætur forseti ráðherra framkvæma vald sitt í þessu efni, sbr. 13. gr. stjórnarskrárinnar. Ég minni hins vegar á að í lokamálslið tilvitnaðra lögskýringargagna er áréttað að enda þótt viðhaldið sé þessu fyrirkomulagi sé í þessu sambandi meðal annars haft í huga „að ef frumvarpið [yrði] að lögum yrði sjálfstæði dómstóla aukið til muna, þannig að nægilegt [væri] með tilliti til atriða sem þessara“.

Í þessu sambandi vek ég athygli á að í aðfaraorðum tilmæla Ráðherranefndar Evrópuráðsins, R (94) 12 frá 13. október 1994, um sjálfstæði, skilvirkni og hlutverk dómenda, segir að ráðherranefndin, með vísan til b-liðar 15. gr. stofnskrár Evrópuráðsins, mælist til þess að ríkisstjórnir aðildarríkja geri allt sem nauðsynlegt er, og styrki það sem þegar hefur verið gert, til að vinna störfum einstakra dómara og dómskerfisins í heild framgang og treysta sjálfstæði þeirra og skilvirkni, einkum með því að hrinda þeim meginreglum sem fram koma í tilmælunum í framkvæmd. Eins og áður er fram komið er í athugasemdum frumvarps þess sem varð að dómstólalögum tekið fram að höfð hafi verið hliðsjón af tilmælunum við samningu frumvarpsins. Í c-lið 2. gr. I. þáttar tilmælanna, sem fjallar um almenn sjónarmið um sjálfstæði dómara, segir svo:

„All decisions concerning the professional career of judges should be based on objective criteria, and the selection and career of judges should be based on merit, having regard to qualifications, integrity, ability and efficiency. The authority taking the decision on the selection and career of judges should be independent of the government and the administration. In order to safeguard its independence, rules should ensure that, for instance, its members are selected by the judiciary and that the authority decides itself on its procedural rules.

However, where the constitutional or legal provisions and traditions allow judges to be appointed by the government, there should be guarantees to ensure that the procedures to appoint judges are transparent and independent in practice and that the decisions will not be influenced by any reasons other than those related to the objective criteria mentioned above. These guarantees could be, for example, one or more of the following:

i. a special independent and competent body to give the government advice which it follows in practice; or

ii. the right for an individual to appeal against a decision to an independent authority; or

iii. the authority which makes the decision safeguards against undue or improper influences.“

Enda þótt framangreind tilmæli feli ekki í sér beinar skuldbindingar að þjóðarétti eru þau byggð á því að horft skuli til þeirra við setningu reglna um skipun dómsvaldsins í aðildarríkjum og að þær verði hafðar til hliðsjónar við beitingu slíkra lagareglna í framkvæmd. Þá minni ég á að umboðsmaður Alþingis hefur í öðrum tilvikum lagt til grundvallar að stjórnvöldum hér á landi beri í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að gæta tilmæla, sem samþykkt eru á vettvangi Ráðherranefndar Evrópuráðsins, í störfum sínum og hefur umboðsmaður talið rétt að hafa efni slíkra tilmæla í huga við túlkun á íslenskum lagareglum, sjá hér t.d. álit frá 20. nóvember 1996 í máli nr. 1506/1995 (SUA 1996:120) og álit frá 27. nóvember 2001 í máli nr. 2805/1999 (SUA 2001:46). Þá ítreka ég að í lögskýringargögnum að baki lögum nr. 15/1998 er sérstaklega tekið fram að höfð hafi verið hliðsjón af tilmælunum við setningu laganna.

Með 4. mgr. 4. gr. laga nr. 15/1998 voru gerðar ákveðnar efnisbreytingar á umsagnarhlutverki Hæstaréttar gagnvart dómsmálaráðherra við skipun í embætti hæstaréttardómara frá þágildandi ákvæði 3. mgr. 5. gr. laga nr. 75/1973, um Hæstarétt. Í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því er varð að lögum nr. 15/1998 segir svo um umsögn Hæstaréttar meðal annars að því er varðar starfsferil og lögfræðilega þekkingu umsækjenda um embætti dómara við Hæstarétt:

„Loks eru í sjötta lagi lögð til nýmæli í 8. tölul. ákvæðisins þar sem gert er ráð fyrir því skilyrði fyrir skipun í dómaraembætti við Hæstarétt að viðkomandi teljist hæfur til að gegna því í ljósi starfsferils síns og lögfræðilegrar þekkingar. Skilyrði sem þetta kemur ekki fram í núgildandi lögum þótt ganga verði út frá því að það hafi gilt eðli málsins samkvæmt. Lagt er til að þetta atriði verði tekið upp í talningu hæfisskilyrða, en það er gert með hliðsjón af þeim nýmælum í 4. mgr. 4. gr. frumvarpsins sem vikið er að hér á eftir.

[...]

Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 75/1973 ber dómsmálaráðherra að leita umsagnar Hæstaréttar um umsækjendur um dómaraembætti áður en það verður veitt. Hvorki er þar tilgreint nánar að hverju umsögnin á að lúta né mælt sérstaklega fyrir um gildi hennar eða áhrif. Í 4. mgr. 4. gr. frumvarpsins er lagt til að ákvæði um umsögn af þessum toga verði mun ítarlegra. Er þannig tekið fram að umsögn Hæstaréttar, sem aflað yrði um umsækjendur um dómaraembætti, eigi að fela í sér mat á hæfi og hæfni umsækjenda til að gegna því. Enn fremur er lagt til að útilokað verði að skipa umsækjanda í dómaraembætti ef Hæstiréttur lætur það álit í ljós að hann fullnægi ekki hæfisskilyrðum samkvæmt 5. eða 8. tölul. 2. mgr. 4. gr., en þau skilyrði varða sem fyrr greinir mannorð umsækjandans og hæfni til að gegna starfinu. Með þessu síðastgreinda ákvæði yrði Hæstarétti falið vald til að útiloka að umsækjanda verði veitt þar dómaraembætti, en ástæða er til að árétta að þetta gæti því aðeins gerst að brestur væri á hæfi umsækjandans í þeim atriðum sem áður er getið. Verður að ætla að farið yrði með þetta vald af varfærni.“ (Alþt. 1997-1998, A-deild, bls. 1147-1148.)

Umsögn Hæstaréttar er samkvæmt þessu ekki takmörkuð við hæfi umsækjenda, þ.e. hvort umsækjandi fullnægi almennum hæfisskilyrðum til starfsins, heldur er gert ráð fyrir því í 4. mgr. 4. gr. laga nr. 15/1998 að Hæstiréttur meti einnig hæfni þeirra á grundvelli þess mælikvarða sem greinir í 8. tl. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 15/1998, þ.e. í ljósi starfsferils og lögfræðilegrar þekkingar þeirra. Í þessu sambandi verður að hafa í huga að orðið hæfni hefur í íslensku máli sömu merkingu og orðið færni, sjá Íslenska orðabók, útg. Reykjavík 2002, bls. 688. Mat Hæstaréttar beinist að þessu leyti að færni umsækjenda til þess að leysa af hendi störf hæstaréttardómara. Þá voru réttaráhrif umsagnar Hæstaréttar aukin frá því sem áður gilti samkvæmt lögum nr. 75/1973 með því að hún er að lögum bindandi fyrir ráðherra að því er varðar það mat Hæstaréttar að umsækjandi fullnægi ekki m.a. skilyrðum áðurnefnds 8. tölul. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 15/1998. Þetta fyrirkomulag leiðir til þess að telji Hæstiréttur að umsækjanda skorti ákveðna starfsreynslu eða þekkingu á sviði lögfræði felur slíkt mat í sér endanlega úrlausn um að viðkomandi umsækjandi skuli ekki koma til greina sem dómaraefni.

Í samræmi við þá kerfisbreytingu í átt til aukins sjálfstæðis dómstólanna, sem var eitt af meginmarkmiðum laga nr. 15/1998, og framangreinda réttarþróun á alþjóðavettvangi sem horft var til við setningu laganna, tel ég að líta verði svo á að breyting sú sem gerð var á ákvæðum um lögbundna umsögn Hæstaréttar til dómsmálaráðherra hafi miðað að því að veita þeirri umsögn aukið vægi frá því sem áður gilti samkvæmt lögum nr. 75/1973. Er þessi breyting til samræmis við framangreindan i-lið 2. mgr. c-liðar 2. gr. I. þáttar tilmæla Ráðherranefndar Evrópuráðsins frá 1994. Með tilliti til stjórnskipulegrar stöðu Hæstaréttar sem æðsta handhafa dómsvalds í landinu og þeirra markmiða um aukið sjálfstæði dómsvaldsins í innri málefnum, sem lög nr. 15/1998 byggja á, tel ég að umsögn Hæstaréttar um starfsreynslu og lögfræðilega þekkingu umsækjenda um embætti dómara við Hæstarétt Íslands hafi að stjórnsýslurétti annað og meira gildi við endanlegt mat og samanburð á milli umsækjenda en almennt á við um lögbundna álitsumleitan. Umsögnin á lögum samkvæmt að lúta að hæfi og hæfni umsækjenda og hefur tiltekin bindandi réttaráhrif. Það að afla umsagnar Hæstaréttar er því ekki bara formsatriði fyrir dómsmálaráðherra heldur er umsögninni ætlað að vera honum til stuðnings um faglegt mat á hæfni umsækjenda til að rækja starfið þegar hann tekur ákvörðun um hver úr hópi umsækjenda verður fyrir valinu. Umsögn Hæstaréttar getur hins vegar ekki þjónað þessu markmiði nema þar sé fjallað um þau atriði og meginsjónarmið sem ráðherra ákveður að byggja ákvörðun sína á. Á þetta a.m.k. við þegar ráðherra telur ástæðu til þess við val á umsækjanda að leggja sérstaka áherslu á tiltekin atriði er lúta að starfsreynslu eða lögfræðilegri þekkingu, sbr. 8. tölul. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 15/1998, sem lögin gera sérstaklega ráð fyrir að Hæstiréttur veiti umsögn um.

Ég ítreka að hér gera lög ráð fyrir því að dómsmálaráðherra geri tillögu til forseta um skipun í æðsta embætti hjá öðrum og sjálfstæðum handhafa ríkisvalds. Eðli máls samkvæmt hefur ráðherra hvorki yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir gagnvart þeim embættismanni sem verið er að skipa né vald til þess að gera að eigin frumkvæði breytingar á innra skipulagi og starfsemi Hæstaréttar með sama hætti og leiðir af stjórnarfarslegri stöðu hans gagnvart ráðuneyti og undirstofnunum. Þá verður að gera ráð fyrir því að Hæstiréttur hafi betri yfirsýn og þekkingu á breytilegum þörfum réttarins á hverjum tíma heldur en ráðherra.

Í ljósi þessa verður að ganga út frá því að þegar Hæstarétti er falið með 4. mgr. 4. gr., sbr. 8. tölul. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 15/1998 að meta hæfni umsækjenda með tilliti til starfsferils og lögfræðilegrar þekkingar fari það mat einnig að einhverju leyti fram með hliðsjón af því hvort réttarþróunin hafi leitt til þess að dómstóllinn telji tiltekna þekkingu á sviði lögfræði eða sérstaka starfsreynslu nauðsynlega fyrir starfsemi dómstólsins og þá meðal annars með tilliti til þeirra sem þegar eiga sæti í Hæstarétti. Hæstiréttur orðar þetta atriði svo í umsögn sinni í þessu máli: „Verður einnig sem endranær að gæta að því, hverrar þekkingar og reynslu sé helst þörf, eins og Hæstiréttur er skipaður.“ Samkvæmt framangreindu og að virtu orðalagi 4. mgr. 4. gr. laga nr. 15/1998 og lögskýringargögnum fæ ég ekki annað séð en að umsögn Hæstaréttar um hæfi og hæfni umsækjenda í ljósi starfsferils þeirra og lögfræðilegrar þekkingar eigi að hafa talsverða þýðingu við endanlegt val dómsmálaráðherra milli umsækjenda, og þá ekki síst þegar hann ákveður að leggja þar sérstaka áherslu á atriði sem lúta að þekkingu þeirra á tilteknu sviði lögfræðinnar. Ég minni hér til hliðsjónar á i-lið 2. mgr. c-liðar 2. gr. I. þáttar tilmæla Ráðherranefndar Evrópuráðsins frá 1994 þar sem segir að heimili stjórnskipunarreglur eða lög að ríkisstjórn skipi dómara beri að tryggja gegnsæja og óháða málsmeðferð við skipunina og að ákvörðun sé byggð á hlutlægum sjónarmiðum. Bent er á að ein leið til að tryggja þetta sé að sérstök óháð stofnun veiti ríkisstjórn ráð sem „hún [fylgi] í framkvæmd“.

Að teknu tilliti til ofangreindra sjónarmiða um stöðu Hæstaréttar og umsagnarhlutverks hans tel ég að skýra verði 4. mgr. 4. gr. laga nr. 15/1998 um að ráðherra skuli leita umsagnar Hæstaréttar um „lögfræðilega þekkingu“ umsækjenda, sbr. 8. tölul. 2. mgr. 4. gr., á þá leið að skorður séu reistar við því að dómsmálaráðherra byggi val sitt á milli umsækjenda sérstaklega á þekkingu þeirra á tilteknu afmörkuðu sviði lögfræðinnar, sem ekki verður fyrirfram séð að komi sérstaklega til mats við val á dómaraefni í Hæstarétti að virtu lögbundnu hlutverki hans, nema fyrir liggi umsögn Hæstaréttar á þeim grundvelli. Að öðrum kosti verður ekki séð að lögbundin umsögn Hæstaréttar samkvæmt lögum nr. 15/1998 um lögfræðilega þekkingu umsækjenda myndi þjóna þeim tilgangi sem lögin gera ráð fyrir til að tryggja aðkomu Hæstaréttar að vali á dómaraefnum, m.a. að virtri sjálfstæðri stöðu dómsvaldsins sem eins þriggja þátta ríkisvaldsins.

5.

Sá rökstuðningur sem dómsmálaráðherra hefur fært fram fyrir þeirri ákvörðun sem mál þetta snýst um varpar að mínu áliti allskýru ljósi á þau sjónarmið sem ráðandi voru við mat hans á hæfni umsækjenda til að gegna starfi hæstaréttardómara. Athugasemdir hans til mín hafa enn fremur skýrt þær forsendur sem lágu þessum áherslum til grundvallar. Í rökstuðningi dómsmálaráðherra til þeirra umsækjenda sem óskuðu eftir honum og tekinn er upp í kafla II hér að framan segir um þetta atriði:

„Í ljósi mikilla og stöðugt vaxandi áhrifa Evrópuréttarins á þróun réttarreglna hér á landi ákvað dómsmálaráðherra að leggja sérstaka áherslu á þekkingu á því sviði réttarins að þessu sinni. Auk þess var á umsögn Hæstaréttar að skilja að sérstök ástæða væri til að nýr dómari við réttinn hefði reynslu af beitingu réttarfarsreglna.“

Í rökstuðningnum og skýringum ráðherra til mín er síðan vísað jöfnum höndum til sérstakrar þekkingar þess sem ráðherra lagði til að skipaður yrði í embættið á Evrópurétti og á réttarfari. Ég skil skýringar ráðherra svo að með þeirri ákvörðun sem tekin var hafi verið unnt að skipa einstakling sem hafði góða þekkingu á báðum ofangreindum sviðum lögfræðinnar.

Hvorki í þeim gögnum sem dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur afhent mér né í skýringum ráðherra til mín koma fram upplýsingar um hvernig var af hans hálfu staðið að því að gera samanburð á umsækjendum með tilliti til menntunar þeirra og starfsreynslu á þeim sviðum sem ráðherra kveðst hafa byggt ákvörðun sína á. Ég hef áður í áliti frá 18. júní 2003 í máli nr. 3490/2002 lýst afstöðu minni til þess atriðis en í álitinu sagði m.a.:

„Ákvörðun um það hver skuli skipaður í [...] embætti úr hópi þeirra umsækjenda sem uppfylla lágmarkskröfur getur byggst á ýmsum sjónarmiðum. Eins og fram hefur komið hvíldi sú meginskylda á dóms- og kirkjumálaráðherra að velja þann úr hópi umsækjenda sem taldist hæfastur til að gegna því. Þegar svo háttar til að fleiri en einn umsækjandi uppfyllir lágmarkskröfur er óhjákvæmilegt að fram fari samanburður á milli viðkomandi umsækjenda á grundvelli þeirra sjónarmiða sem byggt er á. Forsenda þess að slíkur samanburður geti farið fram er að þau atriði sem þýðingu eiga að hafa séu upplýst. Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga ber handhafa veitingarvalds þá að sjá til þess að nægar upplýsingar liggi fyrir um þau atriði.“

Hæstiréttur fjallaði í umsögn sinni um menntun, starfsreynslu og fræðistörf umsækjenda á sviði réttarfars. Í niðurstöðukafla umsagnarinnar er ekki vikið sérstaklega að námi, þekkingu eða starfsreynslu umsækjenda á sviði Evrópuréttar og á það jafnt við um D sem aðra umsækjendur.

Vegna tilvísunar dómsmálaráðherra í rökstuðningi hans til umsækjenda til þekkingar D á íslensku réttarfari tek ég fram að í skýringum ráðherra til mín hefur ekki komið fram hvernig ráðherra hagaði samanburði sínum á þekkingu og starfsreynslu umsækjenda á því sviði til að komast að niðurstöðu um hver þeirra teldist hæfastur á þeim grundvelli til að gegna embættinu.

Af rökstuðningi dómsmálaráðherra og skýringum hans til mín verður að mínu áliti ekki dregin önnur ályktun en sú að mat ráðherra á þeirri þekkingu D á Evrópurétti sem hann öðlaðist með námi sínu til meistaraprófs og í tengslum við það m.a. námi í samkeppnisrétti hafi ráðið úrslitum um þá afstöðu ráðherra að hann skyldi skipaður í embættið. Það liggur hins vegar ekkert fyrir um hvernig þetta próf eða nám D hafi komið inn í samanburð á menntun og rannsóknum allra umsækjenda með tilliti til þess hver þeirra yrði talinn hæfastur á þeim grundvelli.

Eins og lýst er í fyrirspurnarbréfi mínu til dómsmálaráðherra hefur athugun mín fyrst og fremst beinst að því hvort fallast beri á það með dómsmálaráðherra að umrætt sjónarmið um Evrópurétt hafi eins og atvikum er háttað talist málefnalegt. Og í því samhengi hvort ráðherra hafi undirbúið þessa ákvörðun sína með fullnægjandi hætti og lagt nægjanlega traustan grundvöll að vali nefnds umsækjanda á grundvelli þessa sjónarmiðs, m.a. að virtum ákvæðum laga nr. 15/1998, grundvallarreglum stjórnsýsluréttar og ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ekki verður fullyrt af minni hálfu að dómsmálaráðherra geti ekki ákveðið að leggja áherslu á þekkingu umsækjenda á ákveðnu réttarsviði við val í embætti hæstaréttardómara. Það leiðir hins vegar af hlutverki Hæstaréttar sem almenns áfrýjunardómstóls að meginreglan hlýtur að vera að einstaklingar séu fyrst og fremst valdir til starfa sem dómarar þar í ljósi starfsferils síns og almennrar lögfræðilegrar þekkingar til að geta sem best tekist á við hin fjölbreytilegu viðfangsefni réttarins. Eðlilega er góð þekking á réttarfarsreglum mikilvæg fyrir hæstaréttardómara sem dómara almennt. Sé talin þörf á því að byggja val á nýjum dómara í Hæstarétti á þekkingu á ákveðnu afmörkuðu réttarsviði tel ég að gera verði nokkuð ríkar kröfur til undirbúnings slíkrar ákvörðunar af hálfu ráðherra og þá meðal annars að gætt sé jafnræðis á milli umsækjenda. Þá tel ég að ráðherra verði að gæta að því að haga undirbúningi og meðferð slíks máls, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, með þeim hætti að lagður sé fullnægjandi grunnur að mati ráðherra á umsækjendum á grundvelli þekkingar þeirra á því réttarsviði.

Við mat á því hvort framangreint sjónarmið dómsmálaráðherra verði talið málefnalegt verður að horfa til þess að í lögum er ekki að finna nákvæma útlistun á þeim sjónarmiðum sem ráðherra ber að horfa til við val sitt á umsækjanda til dómaraembættis við Hæstarétt. Ég minni þó á að í 8. tölul. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 15/1998 er sérstaklega vísað til starfsreynslu og lögfræðilegrar þekkingar en ekki verður talið að dómsmálaráðherra sé óheimilt að líta til annarra málefnalegra sjónarmiða, s.s. menntunar og eftir atvikum persónulegra eiginleika. Við úrlausn á því álitaefni hvort umrætt sjónarmið um þekkingu umsækjenda á Evrópurétti geti talist málefnalegt tel ég að það hafi áhrif hvort litið verði svo á að ráðherra hafi lagt nægjanlega traustan grunn að mati sínu á þeim grundvelli.

Það álit ráðherra að þörf væri á því að til Hæstaréttar fengist maður með þekkingu á Evrópurétti var að sögn hans, sbr. skýringar hans til mín, byggt á langri reynslu hans sem sérfróðs manns um þróun utanríkismála og sem alþingismanns, fyrst sem formanns utanríkismálanefndar Alþingis þegar samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið var til meðferðar, og síðar sem menntamálaráðherra í 7 ár og nú síðast sem dómsmálaráðherra. „Á þeim grunni“ hafi hann talið að „þetta réttarsvið skipti meiru, þegar fram líða stundir“. Varðandi beiðni um skýringar og upplýsingar um það hvort og þá með hvaða hætti hafi verið staðið að því innan ráðuneytisins að leggja grunn að þeirri ákvörðun að leggja „að þessu sinni“ sérstaka áherslu á framangreint réttarsvið, og þá t.d. hvort tölulegar upplýsingar um fjölda mála á því sviði fyrir dómstólum landsins hefðu legið fyrir, segir m.a. svo í skýringarbréfi ráðherra til mín:

„Mat mitt er ekki byggt á tölulegum upplýsingum um fortíðina, enda var ég að gera tillögu um mann til setu í hæstarétti í meira en tvo næstu áratugi endist honum líf og heilsa. Ég tel einnig, að málafjöldi fyrir hæstarétti einn og sér gefi ekki upplýsingar um mikilvægi einstakra þátta lögfræðinnar, enda getur svo farið að einn einstakur dómur sé talinn skipta sköpum á þýðingarmiklu sviði. Hér hafa þegar komið upp mál fyrir hæstarétti þar sem reynir á samspil Evrópuréttar og íslensks landsréttar og má þar t.d. nefna mál um ríkisábyrgð á launagreiðslum við gjaldþrot launagreiðanda og mál um sjálfsábyrgð farþega á líkamstjóni sem hlýst af ölvun ökumanns.“

Í skýringum ráðherra til mín kemur enn fremur fram að ákvörðun hans um að leggja áherslu á að velja mann með þekkingu á Evrópurétti hafi ekki verið tekin áður en embættið var auglýst eða áður en umsóknir voru sendar til umsagnar Hæstaréttar. Samkvæmt því sem fram kemur í skýringum dómsmálaráðherra virðist því sem ekki hafi verið ákveðið að leggja áherslu á þetta sjónarmið fyrr en nauðsynlegt var að gera upp á milli umsækjenda með hliðsjón af þeim eiginleikum sem hver þeirra hafði fram að færa, eins og segir í skýringum ráðherrans.

Ég hef áður rakið að ég tel mig ekki geta fullyrt að núgildandi lög nr. 15/1998, um dómstóla, og almennar reglur stjórnsýsluréttar girði fyrir það að dómsmálaráðherra geti ákveðið að leggja sérstaka áherslu á þekkingu á tilteknu sviði lögfræðinnar við skipun í embætti hæstaréttardómara. Að teknu tilliti til þess að ráðherra er við þessar aðstæður að skipa mann í embætti hjá öðrum og sjálfstæðum handhafa ríkisvalds, sem ekki lýtur yfirstjórnunar- eða eftirlitsvaldi ráðherra, verður hann þó að leggja traustan grunn að mati sínu á því hvort málefnaleg ástæða sé til þess að byggja á slíku sjónarmiði. Vegna eðlis þess embættis sem hér um ræðir og almenns hlutverks Hæstaréttar að lögum verður að gera nokkuð strangar kröfur til dómsmálaráðherra í þessu efni. Í því sambandi verður að hafa í huga að krafa um að fyrirfram liggi fyrir nokkuð ígrundað mat hjá dómsmálaráðherra um þörf Hæstaréttar á tiltekinni lögfræðilegri þekkingu er einnig reist á nauðsyn þess að ekki leiki vafi á því að mat ráðherra og val á umsækjanda til starfans sé reist á faglegum og málefnalegum sjónarmiðum.

Af gögnum málsins og skýringum ráðherra til mín verður lítið ráðið um hver var aðdragandinn að þeirri ákvörðun hans að leggja áherslu á þetta tiltekna sjónarmið um nauðsyn þess og þörf að skipa mann í Hæstarétt með þekkingu á Evrópurétti. Í fyrsta lagi virðist sem inntak þessa sjónarmiðs hafi í raun ekki verið mótað með öðrum hætti en sem almenn tilvísun til þekkingar á Evrópurétti. Hefur inntakið ekki verið skýrt nánar af hálfu ráðherra umfram það að benda á lögfestingu samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og aðild Íslands að þeim samningi, sbr. bréf ráðherra til mín, dags. 12. febrúar 2004. Í öðru lagi liggja engin gögn eða skjallegar upplýsingar fyrir um að lagt hafi verið í vinnu við að greina í hvaða mæli reynt hafi á réttaratriði sem talist geta til Evrópuréttar við málarekstur fyrir dómstólum landsins og þá hvort einhver vandi hafi skapast í þeim efnum. Í skýringum ráðherra er í þessu sambandi vísað til tveggja mála sem rekin hafa verið fyrir Hæstarétti. Í þriðja lagi liggur ekkert fyrir um að lagt hafi verið mat á þörfina fyrir þekkingu íslenskra dómara á réttarreglum EES-réttar m.a. í því ljósi að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið byggir á því að íslenskir dómendur geta ávallt, að uppfylltum tilteknum skilyrðum, óskað eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins á lögfræðilegum álitaefnum um skýringar á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, bókunum með honum, viðaukum við hann eða gerðum sem í viðaukunum er getið, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994, um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið.

Af gögnum málsins verður ráðið að þegar fyrir lá af hálfu ráðherra að hann hygðist byggja val sitt milli umsækjenda sérstaklega á þekkingu á Evrópurétti óskaði hann ekki eftir því við Hæstarétt að umsækjendur yrðu á grundvelli 8. tölul. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 15/1998 metnir að nýju sérstaklega með þetta sjónarmið í huga. Það var því ekki aflað umsagnar Hæstaréttar um hvort slík þekking væri nauðsynleg að teknu tilliti til þróunar í íslenskum rétti og hvort umsækjendur teldust fullnægja kröfum um lögfræðilega þekkingu á því tiltekna réttarsviði sem ráðherra hafði ákveðið að leggja sérstaka áherslu á eða um hæfni þeirra á þessu réttarsviði. Aðstaðan í þessu máli var því sú að við val ráðherra á milli umsækjenda á grundvelli þekkingar þeirra á Evrópurétti lá ekki fyrir umsögn Hæstaréttar um hæfni þeirra á þessu sviði, sbr. 4. mgr. 4. gr. og 8. tölul. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 15/1998.

Ég legg áherslu á það í þessu sambandi að umsagnarhlutverk Hæstaréttar er tvíþætt samkvæmt lögum nr. 15/1998. Það er ekki takmarkað við að meta hvort umsækjendur fullnægi almennum hæfisskilyrðum til að gegna embætti hæstaréttardómara heldur er réttinum einnig falið að meta hæfni umsækjenda með tilliti til starfsferils og „lögfræðilegrar þekkingar“. Í ljósi ákvæða laga nr. 15/1998 og að virtu lögbundnu hlutverki Hæstaréttar sem almenns áfrýjunardómstóls gat Hæstiréttur í þessu tilviki ekki séð fyrir að mat ráðherra á umsækjendum yrði sérstaklega byggt á þekkingu þeirra á Evrópurétti. Þá liggur fyrir að ákvörðun dómsmálaráðherra um að horfa sérstaklega til þessa sjónarmiðs lá ekki fyrir fyrr en eftir að Hæstiréttur gaf umsögn sína. Í umsögn Hæstaréttar var því aðeins lagt mat á starfsferil og alhliða og almenna lögfræðilega þekkingu umsækjenda með áherslu á það réttarsvið sem einkennir starf dómara, þ.e. réttarfar, og þá út frá þörfum réttarins miðað við skipulag hans. Ráðherra lagði þannig án fyrirliggjandi umsagnar Hæstaréttar mat á þörfina á því að í Hæstarétt yrði skipaður maður með þekkingu á þessu tiltekna réttarsviði auk þess sem hann lagði einhliða mat á þekkingu umsækjenda á Evrópurétti. Eins og ég vék að í kafla IV.3 hér að framan má val veitingarvaldshafa á sjónarmiði ekki leiða til þess að í reynd fari ekki fram samanburður á milli umsækjenda á grundvelli sjónarmiða sem lög leiða til að byggja eigi matið m.a. á, svo sem starfsreynslu og lögfræðilegri þekkingu, sbr. 8. tölul. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 15/1998. Hvort reglan um skyldubundið mat telst brotin ræðst meðal annars af því hversu afgerandi vægi megi ljá því sjónarmiði sem úrslitum er látið ráða. Hvaða vægi réttmætt var að ljá sjónarmiðinu um þekkingu á Evrópurétti hlaut að ráðast af því hvort og þá hversu brýnt það var fyrir Hæstarétt að í réttinn veldist umsækjandi með þessa þekkingu. Þar sem umsögn Hæstaréttar lá ekki fyrir um það skorti óhjákvæmilega upplýsingar sem mikilvægar voru fyrir rétta beitingu hinna matskenndu valdheimilda veitingarvaldshafa.

Samkvæmt þessu fæ ég ekki annað séð en að við málsmeðferð dómsmálaráðherra í framhaldi af umsögn Hæstaréttar, dags. 5. ágúst 2003, og við þá ákvörðun hans að leggja sérstaka áherslu á þekkingu á Evrópurétti við val milli umsækjenda hafi hann, eins og atvikum er háttað, ekki fullnægt kröfum 4. mgr. 4. gr. laga nr. 15/1998 um að umsögn Hæstaréttar lægi fyrir um þetta atriði, bæði almennt með tilliti til þarfa réttarins og einnig um hæfni umsækjenda á þessu réttarsviði.

6.

Eins og að framan greinir hvíldi sú almenna skylda á dómsmálaráðherra að leggja til við forseta Íslands að sá umsækjandi, sem telja varð hæfastan til að gegna embætti hæstaréttardómara, yrði skipaður í það. Heildstæður samanburður á framkomnum umsóknum, þar sem megináhersla er lögð á atriði sem geta varpað ljósi á væntanlega frammistöðu umsækjenda í starfinu, þurfti því að fara fram áður en ákvörðunin var tekin. Slíkt var einnig nauðsynlegt til að ganga úr skugga um hvort í málinu reyndi á þær reglur sem leiða af lögum nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 bar ráðherra enn fremur að sjá til þess að málið væri nægjanlega upplýst áður en tillaga hans var lögð fyrir handhafa forsetavalds. Var honum því skylt að sjá til þess að viðhlítandi upplýsingar um þau atriði sem þýðingu áttu að hafa við mat á starfshæfni umsækjenda lægju fyrir áður en ákvörðunin var tekin.

Í sumum tilvikum kunna fullnægjandi upplýsingar um þau atriði sem skipta máli við matið að koma fram í umsóknum og fylgigögnum þeirra. Í þeim tilvikum er ekki þörf á að kalla eftir frekari upplýsingum áður en ákvörðun er tekin. Ef þær upplýsingar sem umsækjandi veitir þegar hann leggur fram umsókn varpa hins vegar ekki nægu ljósi á þessi atriði getur reynst nauðsynlegt að afla viðbótarupplýsinga frá umsækjanda eða eftir atvikum frá öðrum aðilum á grundvelli rannsóknarskyldu stjórnvalda, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, og að gættri jafnræðisreglu 11. gr. sömu laga.

Áður hefur verið vikið að þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við mat ráðherra á því hver umsækjenda skyldi hljóta skipun í embætti hæstaréttardómara. Sérstök áhersla virðist hafa verið lögð á þekkingu á Evrópurétti auk reynslu og þekkingar á réttarfari. Engin grein var gerð fyrir því í auglýsingu um hið lausa embætti hvort þekking á einu sérsviði lögfræðinnar yrði talin ákjósanlegri en þekking á öðrum sviðum. Þá var ekki unnt að ráða af hlutverki Hæstaréttar eða viðfangsefnum hæstaréttardómara að þekking á Evrópurétti myndi hafa þýðingu umfram þekkingu á öðrum sviðum lögfræðinnar. Umsækjendur höfðu því ekkert sérstakt tilefni til þess að gera í umsóknum sínum grein fyrir þekkingu sinni eða störfum á sviði Evrópuréttar í þeirri merkingu sem dómsmálaráðherra notaði það hugtak.

Ég hef kynnt mér þær umsóknir sem umsækjendur lögðu fram og fylgigögn þeirra. Gáfu þær allar skýra mynd af námsferli þeirra og almennt var þar gerð grein fyrir námsárangri viðkomandi. Þar voru enn fremur tíundaðar upplýsingar um störf þeirra, þar á meðal aukastörf. Í sumum umsóknunum var gerð grein fyrir ýmsum félags- og trúnaðarstörfum sem viðkomandi hafði gegnt.

Í einni umsókn var sérstaklega vikið að því á hvaða atriði reynt hafði í þeim störfum sem umsækjandinn hafði gegnt. Var þar meðal annars gerð grein fyrir því hvaða réttarsviðum störf hans hefðu einkum krafist að hann kynni skil á. Aðrar umsóknir báru að mínu áliti ekki að öllu leyti glöggt vitni um á hvaða svið lögfræðinnar reynt hefði í störfum umsækjenda þó að í ýmsum tilvikum hafi verið unnt að draga ákveðnar ályktanir um það atriði. Þannig tel ég að upplýsingar um starfsreynslu hafi gefið allskýra mynd af reynslu umsækjenda af meðferð og beitingu reglna réttarfars. Ekki verður hins vegar séð að leitað hafi verið eftir gögnum sem gátu varpað ljósi á hvernig til hefði tekist að þessu leyti í störfum umsækjenda, s.s. úrlausnum þeirra sem komu úr röðum dómara og gögnum um málatilbúnað lögmanna í röðum umsækjenda. Þó má af rökstuðningi ráðherra ráða að gögn í fórum ráðuneytisins, sem fólu meðal annars í sér mat á úrlausnum D sem héraðsdómara áður en hann hlaut skipun í tvö embætti héraðsdómara, hafi legið fyrir áður en ákvörðun var tekin. Ekki verður hins vegar séð að hliðstæðar upplýsingar um aðra umsækjendur hafi legið fyrir þannig að raunhæfur samanburður á umsækjendum að þessu leyti gæti farið fram. Þá var í umsögn Hæstaréttar ekki getið um það hvaða ályktanir hann dró af athugun sinni á gögnum um þessi atriði sem hann kveðst hafa tekið til athugunar.

Í rökstuðningi dómsmálaráðherra til umsækjenda er þess sérstaklega getið að Hæstiréttur hafi kallað D „til starfa innan sinna vébanda í mikilvægum málum“. Af gögnum málsins verður ráðið að þarna var um að ræða tvö dómsmál. Ekkert liggur fyrir um að dregnar hafi verið saman hliðstæðar upplýsingar um aðkomu annarra úr hópi umsækjenda að störfum í Hæstarétti eða hvernig hafi verið gerður samanburður milli umsækjenda á þeim grundvelli en fram kemur í umsóknum fjögurra umsækjenda að þeir hafi tekið sæti sem varadómarar í Hæstarétti í einstökum málum.

Þeir umsækjendur sem höfðu umfram aðra lagt stund á rannsóknir og fræðistörf létu sérstakar skrár yfir útgefin rit og greinar fylgja umsóknum sínum. Aðrir umsækjendur gátu þess eftir atvikum ef þeir höfðu birt greinar opinberlega um lögfræðileg efni. Gáfu þessar upplýsingar allskýrar vísbendingar um hvaða fræðasviðum lögfræðinnar athygli þeirra hefði einkum beinst að. Eðli málsins samkvæmt var þó ekki unnt að draga einhlíta ályktun af þeim upplýsingum um hver þekking þeirra á öðrum sviðum lögfræðinnar kynni að vera.

Þegar á ofangreind atriði er litið tel ég að ráðherra hafi tæplega verið unnt að ganga út frá því, þegar hann tók afstöðu til fyrirliggjandi umsókna, að þær ásamt fylgigögnum þeirra gæfu heildstæða mynd af þekkingu umsækjenda á Evrópurétti. Tel ég að rétt hefði verið að afla upplýsinga um hvort umsækjendur hefðu sérstaka þekkingu á Evrópurétti og eftir atvikum að hvaða marki reynt hefði á slíka þekkingu í störfum þeirra. Ég vek í þessu sambandi athygli á því, og þá meðal annars með tilliti til þeirrar áherslu sem dómsmálaráðherra leggur á að D hafi lokið meistaraprófi að loknu 40 vikna námi við erlendan háskóla, að á allra síðustu árum hafa orðið breytingar á því framhaldsnámi sem stendur íslenskum lögfræðingum til boða og þá einnig á því í hvaða mæli slíkri þekkingaröflun er lokið með formlegu prófi. Að þessu þurfti einnig að gæta þegar aflað var upplýsinga um þekkingu og reynslu umsækjenda af Evrópurétti. Þá minni ég á að samkvæmt 8. tölulið 2. mgr. 4. gr. laga nr. 15/1998 þarf sá sem skipaður er til að gegna embætti hæstaréttardómara að teljast hæfur í ljósi starfsferils síns og lögfræðilegrar þekkingar. Í málinu liggur ekkert fyrir um að í starfi D sem héraðsdómara við héraðsdóma Austurlands eða Suðurlands hafi reynt á úrlausnarefni á sviði Evrópuréttar.

Það er því afstaða mín að þekking umsækjenda á Evrópurétti hafi ekki verið upplýst nægjanlega áður en ákvörðun var tekin um hver yrði skipaður í embættið og var meðferð málsins að þessu leyti ekki í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga. Ég tel jafnframt að á skorti að fullnægjandi upplýsingar liggi fyrir um hvernig staðið var að samanburði milli umsækjenda um önnur atriði sem ætla verður að dómsmálaráðherra hafi litið til samkvæmt rökstuðningi hans til umsækjenda.

7.

Ég hef hér að framan lagt áherslu á að upplýsa hvaða grundvöll dómsmálaráðherra lagði að þeirri ákvörðun að byggja val sitt á umsækjanda um embætti hæstaréttardómara á þekkingu á Evrópurétti og hvernig val hans milli umsækjenda fór fram. Ein ástæða þess er að í stjórnsýslurétti eru slík atriði talin geta verið til marks um að veitingarvaldshafi hafi beitt valdheimildum sínum innan þeirra marka sem lög og reglur kveða á um. Af þessu tilefni hef ég vísað til þess í öðrum álitum mínum hversu mikilvægt það er, meðal annars með tilliti til verkefna þeirra sem eiga að hafa eftirlit með slíkum embættisveitingum, að veitingarvaldshafinn geti að lokinni veitingu starfs lagt fram og sýnt með hvaða hætti hann aflaði upplýsinga um umsækjendur og hagaði samanburði á þeim. Þessi sjónarmið eiga við hvort sem um er að ræða eftirlit dómstóla, umboðsmanns Alþingis eða eftirlitsaðila á stjórnsýslustigi eins og kærunefndar jafnréttismála. Lagalegt umhverfi þessara mála leiðir einfaldlega til þess að þetta eftirlit verður ekki rækt eðlilega nema veitingarvaldshafar, þ.m.t. ráðherrar, sinni því að undirbúa ákvarðanir sínar þannig að þeir geti sýnt þessum eftirlitsaðilum með trúverðugum hætti hvernig staðið var að þeim. Hér koma einnig til sjónarmið um aukið gegnsæi í stjórnsýslunni. Ég vísa hér meðal annars til þeirra sjónarmiða sem fram koma í áliti mínu frá 18. júní 2003 í máli nr. 3490/2002 sem laut að stöðuveitingu á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.

Í þessu máli liggur fyrir að þegar sleppir umsögn Hæstaréttar um umsækjendur og umsóknargögnum verður ekki séð að önnur gögn hafi verið dregin inn í mat á umsækjendum en tvær umsagnir umsagnarnefndar samkvæmt 5. gr. laga nr. 92/1989 frá 11. febrúar 1992 og 5. maí 1997 um hæfi D til að gegna embættum héraðsdómara. Auk þess verður að ætla að dómar Hæstaréttar í þeim tveimur málum sem D hafði setið í sem varadómari hafi komið til skoðunar þar sem í rökstuðningi ráðherra segir að Hæstiréttur hafi kallað D til starfa „í mikilvægum málum“. Það verður því að ganga út frá því að dómsmálaráðherra hafi byggt niðurstöðu sína á þessum gögnum og eigin mati á því hvort þörf væri á að leggja að þessu sinni sérstaka áherslu á þekkingu á Evrópurétti við val á nýjum dómara til starfa í Hæstarétti Íslands.

Ég legg á það áherslu að jafnvel þótt fallist væri á að ráðherra hefði verið heimilt að byggja tillögu sína um val á nýjum hæstaréttardómara á þekkingu á Evrópurétti þá leysti það ráðherra ekki undan þeirri skyldu að rannsaka og bera saman hæfni umsækjenda á sviði Evrópuréttar með það að markmiði að leiða í ljós hver þeirra var hæfastur á grundvelli þess sjónarmiðs. Ég tel að í þessu efni verði ekki byggt á þeirri staðhæfingu einni „að engu því, sem aðrir umsækjendur lögðu fram eða tíunduðu í ítarlegum umsóknum sínum“ um þetta réttarsvið „[verði] jafnað við meistaragráðu [D] á því sviði“ svo vitnað sé í bréf dómsmálaráðherra til mín, dags. 12. febrúar 2004.

Hvað sem líður hugsanlegri heimild dómsmálaráðherra til að byggja tillögu sína um hver skuli valinn úr hópi umsækjenda um embætti hæstaréttardómara sérstaklega á þekkingu á afmörkuðu sviði lögfræðinnar hef ég hér að framan lýst þeirri niðurstöðu minni að annmarkar hafi verið á undirbúningi þeirrar ákvörðunar sem ráðherra tók og þær kvartanir sem um er fjallað í áliti þessu beinast að. Vegna þessara annmarka tel ég að mál þetta hafi ekki verið í réttu horfi og því ekki hagað í samræmi við reglur stjórnsýsluréttarins og þær kröfur sem ég tel að leiði af lögum nr. 15/1998 þegar ráðherra tók ákvörðun sína.

Þær kvartanir sem um er fjallað í áliti þessu hafa einnig beinst að því að við val sitt úr hópi umsækjenda hafi dómsmálaráðherra ekki fylgt reglunni um að hæfasti umsækjandinn skyldi valinn. Til þess að eftirlitsaðili eins og umboðsmaður Alþingis geti lagt mat á hvort þeirri reglu hafi verið fylgt verður undirbúningur málsins að hafa verið með réttum hætti og þar með að sá grundvöllur og sjónarmið sem veitingarvaldshafinn byggði á hafi verið réttilega ákveðin. Sérstaklega á þetta við þegar veitingarvaldshafi ákveður að byggja val sitt úr hópi umsækjenda á mjög afmörkuðu atriði og atriði sem að mati veitingarvaldshafa veitti þeim umsækjanda sem hann valdi einum sérstöðu í hópi umsækjenda. Víst er að þá heggur nærri að valið hafi verið að byggja á sjónarmiði sem beinlínis leiðir til þess að hæfni annarra umsækjenda kemur ekki til mats. Í þessu sambandi gæti skipt miklu að fyrir lægi af hálfu veitingarvaldshafa hvernig hann hefur metið stöðu annarra umsækjenda með tilliti til þessa sjónarmiðs og þá annarra sjónarmiða sem kynnu að hafa komið til skoðunar. Ég tek fram að í þessu efni geri ég mun á efni rökstuðnings til umsækjenda og því hvernig veitingarvaldshafi skýrir fyrir eftirlitsaðila eins og umboðsmanni Alþingis hvernig hann stóð að samanburði á umsækjendum eftir atvikum með framlagningu gagna.

Það er ekki hlutverk umboðsmanns Alþingis að taka sjálfstætt afstöðu til þess á hvaða sjónarmiðum val milli umsækjenda hefði átt að byggjast. Það var verkefni dómsmálaráðherra innan þess ramma sem lög og reglur um frjálst mat setja honum að þessu leyti. Ég hef hér að framan lýst þeirri niðurstöðu minni að ákveðnir annmarkar hafi verið á undirbúningi málsins og þar með hvernig lagður var grundvöllur að vali og beitingu þess sjónarmiðs sem ráðherra hefur skýrt að einkum hafi ráðið vali hans milli umsækjenda. Eins og mál þetta liggur fyrir mér og með tilliti til möguleika umboðsmanns Alþingis til að leggja mat á gögn þess og þær skýringar sem ráðherra hefur látið mér í té er það niðurstaða mín að vegna þessara annmarka sé ekki rétt að ég fjalli frekar um þau atriði í kvörtunum þessa máls sem beinast að ákvörðun ráðherra sem mál þetta fjallar um.

8.

Í kvörtunum þeim sem fjallað er um í áliti þessu er því haldið fram að rökstuðningur sá sem ráðherra veitti umsækjendum hafi ekki verið fullnægjandi og í samræmi við lög. Í þessu sambandi tek ég fram að ég tel ekki tilefni til athugasemda af minni hálfu við umræddan rökstuðning eins og hann var settur fram í bréfum ráðherra til umsækjenda. Ég hef ítrekað í álitum lýst þeim kröfum sem ég tel að gera verði til rökstuðnings af hálfu veitingarvaldshafa þegar svarað er beiðnum umsækjenda þar um en um almenn sjónarmið um efnis slíks rökstuðnings vísa ég til álits míns frá 18. júní 2003 í málinu nr. 3490/2002. Í rökstuðningi dómsmálaráðherra var lýst menntun og starfsferli þess umsækjanda sem fékk starfið, tilgreint á hvaða lagagrundvelli það var veitt og vísað til umsagnar Hæstaréttar sem áður hafði verið kynnt umsækjendum. Þá var lýst á hvaða sjónarmiðum ráðherra hefði byggt val sitt úr hópi umsækjenda. Ég hef talið að umsækjendur um störf hjá hinu opinbera ættu ekki kröfu á því að veitingarvaldshafi lýsti því í rökstuðningi til hvers umsækjanda hvaða einstaklingsbundnu ástæður hafi ráðið því að hann var ekki valinn til starfsins og þar með að lýst væri samanburði á honum og þeim sem fékk starfið. Almennt á umsækjandi að geta gert sér grein fyrir því á grundvelli rökstuðnings hvers vegna ákveðinn umsækjandi var valinn og hvað réð því að sá fékk starfið en ekki hann. Það er svo annað mál hvort umsækjandi er sáttur við efni rökstuðningsins og þær ástæður sem kunna að hafa ráðið vali veitingarvaldshafans.

V.

Þær óskráðu grundvallarreglur stjórnsýsluréttarins sem gilda um veitingu opinberra starfa hafa annars vegar að markmiði að tryggja jafnræði þeirra sem kunna að vilja sækja um slík störf og hins vegar að hæfasti umsækjandinn verði valinn. Þessum reglum er líka ætlað að tryggja að veitingarvaldshafi taki ekki ákvarðanir um veitinguna að eigin geðþótta heldur í samræmi við þá almannahagsmuni sem honum er ætlað að standa vörð um. Mikilvægur liður í að tryggja umrætt jafnræði og að til þjónustu í þágu hins opinbera séu valdir þeir sem á hverjum tíma teljast hæfastir til viðkomandi starfa er að störf hjá hinu opinbera séu auglýst. Sé það niðurstaða veitingarvaldsins að þörf sé á að fá til starfa hjá hinu opinbera starfsmann með tiltekna sérfræðiþekkingu og það samrýmist þeim lögum sem um starfið gilda verður, hvað sem líður lagaskyldum um auglýsingar á lausum störfum og lágmarksreglum um efni þeirra, að telja að það sé í betra samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að upplýsingar um að sóst sé eftir ákveðinni sérfræðiþekkingu komi fram í auglýsingu um starfið. Ég tek þó fram að ég tel að veitingarvaldshafar verði almennt að fara varlega í þessum efnum og þá með það í huga að þrengja ekki fyrirfram um of þann hóp sem sækjast kann eftir störfum hjá hinu opinbera.

Ég tek framangreint fram þar sem ég tel að ef það var á annað borð niðurstaða dómsmálaráðherra að þörf væri „að þessu sinni“ að leggja sérstaka áherslu á að fá til starfa í Hæstarétti einstakling sem hefði þekkingu á Evrópurétti hefði í samræmi við það sem áður sagði verið eðlilegra að slíkt kæmi fram í auglýsingu um embættið. Þar með hefðu þeir sem töldu sig búa yfir slíkri þekkingu og uppfylltu skilyrði til að geta sótt um embætti hæstaréttardómara getað gert það. Með því hefði stjórnvaldið sinnt þeirri skyldu sinni að leitast við að velja þá hæfustu einstaklinga sem kostur er á til opinberra starfa. Við val á nýjum hæstaréttardómara verður líka að hafa í huga að þar er verið að velja til starfa einn af níu dómurum og almennt verður að ætla að þar sé verið að velja einstakling sem starfa muni í réttinum til starfsloka. Það skiptir því miklu að þegar val úr hópi umsækjenda er byggt sérstaklega á þekkingu á mjög afmörkuðu sviði lögfræðinnar að viðkomandi hafi í reynd mikla og góða þekkingu á viðkomandi sviði því þess er vart að vænta að val á öðrum dómurum verði um skeið byggt á sama sjónarmiði.

VI.

Í núgildandi löggjöf er dómsmálaráðherra falið það verkefni að leggja til við forseta Íslands hvern úr hópi umsækjenda skuli skipa í embætti hæstaréttardómara. Hæstiréttur Íslands hefur eins og skýrt var hér að framan fengið aukna aðkomu að vali á dómaraefni með lögum nr. 15/1998, um dómstóla. Hæstiréttur Íslands er æðsti dómstóll þjóðarinnar og stjórnskipun landsins byggir á ákveðnu sjálfstæði hans sem æðsta handhafa eins þriggja þátta ríkisvaldsins, dómsvaldsins, sbr. 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Hér að framan var einnig vísað til alþjóðlegra tilmæla um sjálfstæði dómsvaldsins og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sem kveður á um tilvist sjálfstæðra og óvilhallra dómstóla í hverju aðildarríki. Á sama veg er nú mælt fyrir um í 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. þá breytingu sem gerð var með stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995. Um leið og miklu skiptir að hverju sinni veljist sem hæfastir einstaklingar til starfa innan dómstólanna þurfa dómstólarnir, og þá sérstaklega Hæstiréttur, og einstakir dómendur að njóta trausts jafnt almennings sem fyrirsvarsmanna annarra þátta ríkisvaldsins.

Ég tel að það sé ekki fallið til þess að viðhalda og styrkja traust manna á æðsta dómstól þjóðarinnar ef val á nýjum dómara leiðir til verulegra opinberra deilna um hæfni viðkomandi til að gegna starfinu eða þá aðferð sem viðhöfð var við val á honum. Það að mér skuli berast þrjár kvartanir vegna ákvörðunar dómsmálaráðherra um veitingu sama embættis hæstaréttardómara og ég telji tilefni til að taka þær til athugunar með þeim hætti sem gert er í áliti þessu auk þeirrar umræðu sem orðið hefur í þjóðfélaginu um umrædda embættisveitingu hæstaréttardómara og þær næstu þar á undan hefur leitt huga minn að því fyrirkomulagi sem nú er viðhaft við val á hæstaréttardómurum. Vitanlega er það svo að ekkert form þessara mála er svo einhlítt að niðurstaða um það hver skuli skipaður í embætti hæstaréttardómara geti ekki orðið viðfangsefni þjóðfélagsumræðunnar og það er eðlilegur þáttur í því þjóðskipulagi sem við Íslendingar höfum valið okkur að ákvarðanir stjórnvalda um þetta sem annað geti verið viðfangsefni slíkrar umræðu. Í því felst líka mikilvægur þáttur í því aðhaldi sem opinber umræða á að veita stjórnvöldum. Það er því ekki svo að hugsanlegar breytingar á fyrirkomulagi við val á hæstaréttardómurum eigi að hafa það að markmiði að koma í veg fyrir umræður um slíka embættisveitingu heldur tel ég ástæðu til að hugað verði að því hvort einhverjar breytingar á núverandi fyrirkomulagi geti verið til þess fallnar að treysta enn betur en þegar er grundvöll ákvörðunar um hverjir eru valdir til setu í æðsta dómstól þjóðarinnar, Hæstarétti.

Það verkefni dómsmálaráðherra að gera tillögu til forseta Íslands um hvern skuli skipa í embætti hæstaréttardómara verður að telja til mikilvægra stjórnarathafna. Ráðherra er þar falið sem fyrirsvarsmanni framkvæmdarvaldsins á sviði stjórnsýslu dómsmála að taka og bera ábyrgð á veitingu þessara embætta. Ég hef áður lýst því að ég tel að þær breytingar sem gerðar voru á skipan þessara mála með lögum nr. 15/1998, um dómstóla, hafi leitt til þess að umsögn Hæstaréttar um hæfi og hæfni umsækjenda hafi fengið aukið vægi og það hafi verið liður í að styrkja sjálfstætt og óháð dómsvald í landinu. Skýringar dómsmálaráðherra til mín í tilefni af þeim kvörtunum sem um er fjallað í áliti þessu benda hins vegar til þess að það sé afstaða hans að umsögn Hæstaréttar hafi ekki það sama vægi við úrlausn þessara mála og ég hef talið hér að framan þegar val á nýjum dómara er byggt á þekkingu á ákveðnu afmörkuðu sviði lögfræðinnar. Ég tel að við val einstaklinga til dómarastarfa í Hæstarétti þurfi, í samræmi við þá óskráðu grundvallarreglu stjórnsýsluréttarins að hæfasti umsækjandinn skuli valinn, að liggja fyrir samræmt faglegt mat á hæfni umsækjenda til að gegna embættinu í ljósi starfsferils og lögfræðilegrar þekkingar, og þá þeirrar lögfræðilegu þekkingar á einstökum sviðum sem veitingarvaldshafinn ákveður að byggja á. Þetta mat verður að vera þannig úr garði gert að veitingarvaldshafinn geti stuðst við það þegar tekin er afstaða til þess hvern hann telur hæfastan úr hópi umsækjenda.

Meginreglan við veitingu opinberra starfa er að það sé verkefni veitingarvaldshafans sjálfs að sjá til þess að mat af framangreindum toga liggi til grundvallar samanburði á umsækjendum. Í lögum eru þó ýmsar undantekningar þar frá þar sem ákveðnum stjórnvöldum eða sérstökum nefndum er ætlað að veita umsögn um hæfi og hæfni umsækjenda um opinber störf. Það verður að ætla, eins og áður sagði, að það hafi verið liður í að efla sjálfstæði dómstólanna, að fela Hæstarétti með lögum nr. 15/1998, um dómstóla, aukið verkefni við að veita umsögn um þá sem sækja um embætti hæstaréttardómara. Eins og atvik urðu í því máli sem um er fjallað í áliti þessu kann að vera tilefni til að huga að því að nánar verði mælt fyrir í lögum um fyrirkomulag og efni þessarar umsagnar Hæstaréttar eða annars aðila sem falið yrði að meta hæfi og hæfni umsækjenda um embætti hæstaréttardómara. Ég tek fram að þessi ábending mín beinist aðeins að þessari umsögn sem liðar í undirbúningi að ákvörðun veitingarvaldshafans. Eins og fyrirkomulagi þessara mála er nú háttað þarf umsagnaraðilinn einnig að gæta þess að ganga ekki með umsögn sinni inn á verksvið veitingarvaldshafans.

Sú skipan mála að fela dómsmálaráðherra að koma að skipun dómara í Hæstarétti í því formi sem gildandi löggjöf kveður á um er hliðstæð eða áþekk því sem tíðkast í nágrannalöndum okkar sem búa við sambærilegt þjóðskipulag. Það hefur verið talið rétt að hvað sem líður stefnumiðum um sjálfstæði dómsvaldsins þá leikist þessir þættir ríkisvaldsins á með þessum hætti við skipun í embætti hæstaréttardómara. Ráðherra er þarna ætlað að bera hina stjórnsýslulegu og pólitísku ábyrgð á embættisveitingunni. Í samræmi við þingræðisskipulagið þarf ráðherra að svara fyrir þessar ákvarðanir í embætti sínu eins og aðrar gagnvart Alþingi og kjósendum ef hann er jafnframt alþingismaður. Álitaefnið er hins vegar hvort það sé tilefni til þess að styrkja með einhverjum hætti meðferð þessa veitingarvalds með það í huga að renna frekari stoðum undir sjálfstæði Hæstaréttar og traust manna á æðsta dómstól þjóðarinnar og þeim dómendum sem þar sitja á hverjum tíma. Liður í því kann að vera að styrkja betur faglegt og óháð mat á umsækjendum áður en ákvörðun um veitingu er tekin og ætla öðrum handhöfum hinna þriggja þátta ríkisvaldsins einhverja aðkomu að veitingu embættis hæstaréttardómara og þar með að veita dómsmálaráðherra aukið aðhald við ákvarðanir hans í þessu efni. Í nágrannalöndum okkar hafa verið ræddir kostir og gallar þess t.d. að tillaga dómsmálaráðherra um hvern skipa skuli í embætti hæstaréttardómara þurfi að hljóta staðfestingu ríkisstjórnar í heild eða þjóðþingsins. Það þarf að taka afstöðu til þess hvort slíkt aðhald gæti stuðlað að betri undirbúningi slíkra ákvarðana og þar með dregið úr líkunum á því að sá sem valinn er til starfsins þurfi að sæta því að opinber umfjöllun um embættisveitinguna verði með þeim hætti sem reyndin hefur orðið í fleiri en einu tilviki þegar nýr dómari hefur verið skipaður til starfa í Hæstarétti síðustu misseri.

Því var lýst hér fyrr í þessu áliti að í tengslum við endurskoðun dómstólalaga í þeim ríkjum sem næst standa okkur að réttarskipan, Danmörku og Noregi, á síðasta áratug var fyrirkomulag við útnefningu hæstaréttardómara meðal þess sem var umfjöllunarefni þeirra nefnda sem unnu að málinu. Í athugasemdum við það frumvarp sem varð að lögum nr. 15/1998, um dómstóla, er meðal annars vísað til þessarar umræðu og tekið fram að við gerð frumvarpsins hafi ekki verið talið tilefni til að gera tillögur um breytingar á núverandi skipan að þessu leyti og jafnframt að ekki hafi heldur verið gerðar breytingar á þessum málum í nágrannalöndum okkar. (Alþt. 1997-1998, A-deild, bls. 1138.) Þessi tilvísun til óbreytts fyrirkomulags í nágrannalöndum okkar, Danmörku og Noregi, er rétt að því er varðar hina formlegu aðkomu dómsmálaráðherra að veitingu embættis hæstaréttardómara. En við þær breytingar sem gerðar voru á lögum um þetta efni í framhaldi af nefndarstarfi í þessum tveimur ríkjum, í Danmörku árið 1998 og í Noregi árið 2001, var sérstakri dómnefnd í báðum þessum löndum falið að fjalla um umsóknir allra dómara, líka hæstaréttardómara að undanskildum forsetum Hæstaréttar, og láta uppi rökstudda umsögn um hæfi þeirra og hæfni. Var þar um að ræða skipan áþekka þeirri sem tekin var upp hér þegar á árinu 1989 varðandi umsóknir um embætti héraðsdómara. Þegar álit dómnefndar liggur fyrir veitir Hæstiréttur í þessum ríkjum ráðherra umsögn um viðhorf sitt til umsækjenda. Það er líka ljóst af lestri hinna nýju lagaákvæða um þessi mál í Danmörku og Noregi að þar er lögð áhersla á að dómarar séu valdir á grundvelli mikilla faglegra krafna og mismunandi starfsreynslu. Í 2. mgr. 55. gr. norsku laganna (domstolloven) er þetta orðað svo:

„Til dommere bør utnevnes personer som tilfredsstiller høye krav til faglige kvalifikasjoner og personlige egenskaper. Dommere til Høyesterett, lagmannsrettene og tingrettene bør rekrutteres blant jurister með forskjellig yrkesbakgrunn.“

Í 43. gr. dönsku laganna (retsplejeloven) segir svo:

„Besættelsen af dommerstillinger skal ske ud fra en samlet vurdering af ansøgernes kvalifikationer til den pågældende stilling. Der skal herved lægges afgørende vægt på ansøgernes juridiske og personlige kvalifikationer. Også bredden i ansøgernes juridiske erfaringsgrundlag skal tillægges vægt, ligesom det skal indgå i vurderingen, at der ved domstolene bør være dommere med forskellig juridisk erhvervsbaggrund.“

Í þessum ríkjum hefur verið talið rétt að mæla í lögum fyrir um ýmis atriði sem almennt verður að ætla að komi jafnan inn í mat á umsækjendum um stöður dómara, og þá sérstaklega hæstaréttardómara, hvað sem beinum lagafyrirmælum líður. Af skýringum að baki ákvæðunum má ráða að í þessum efnum kunni sérstakar aðstæður í viðkomandi ríkjum að hafa haft áhrif. Það hvort þörf sé á að ganga svo langt í lagasetningu sem þarna hefur orðið raunin er meðal þess sem ástæða gæti verið til að taka til skoðunar hér á landi.

Við setningu fyrstu laga um umboðsmann Alþingis var gengið út frá því að umboðsmaður hefði víðtækar heimildir til að hafa eftirlit með störfum stjórnvalda og tekið var fram í athugasemdum með frumvarpi til laganna að einn þáttur í starfi umboðsmanns skyldi vera að gera tillögur almenns eðlis til endurbóta á stjórnsýslunni. Þar á meðal skal umboðsmaður gera tillögur til að ráða bót á meinbugum á lögum og reglugerðum sem hann kemur auga á. (Alþt. 1986-1987, A-deild, bls. 2560.) Með hliðsjón af 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tel ég rétt að vekja athygli Alþingis og dómsmálaráðherra á þeim atriðum sem lýst hefur verið hér að framan og þá með það í huga að tekin verði afstaða til þess hvort þörf sé á að fyrirkomulag við undirbúning og ákvarðanir um skipun í embætti dómara við Hæstarétt Íslands verði tekið til endurskoðunar og lagabreytingar gerðar af því tilefni ef sú verður niðurstaðan.

VII.

Niðurstaða.

Samkvæmt því sem rakið er hér að framan er það niðurstaða mín að málsmeðferð dómsmálaráðherra við undirbúning að skipun í embætti dómara við Hæstarétt Íslands í ágúst 2003 hafi ekki fullnægt kröfum 4. mgr. 4. gr. laga nr. 15/1998, um dómstóla, um að umsögn Hæstaréttar lægi fyrir um þá lögfræðilegu þekkingu sem ráðherra hafði ákveðið að leggja sérstaka áherslu á við val milli umsækjenda og þá hafi rannsókn málsins ekki verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Vegna þessara annmarka var ekki af hálfu dómsmálaráðherra lagður fullnægjandi grundvöllur að skipun D í embætti hæstaréttardómara. Það er ekki hlutverk mitt að lögum að taka afstöðu til þess hvaða lagalegu afleiðingar þessir annmarkar á meðferð málsins kynnu að hafa í för með sér ef um þetta yrði fjallað af dómstólum. Það eru tilmæli mín til dómsmálaráðherra að framvegis verði tekið mið af þeim sjónarmiðum sem lýst er í áliti þessu við undirbúning og veitingu embætta hæstaréttardómara. Þá tel ég rétt að vekja athygli Alþingis og dómsmálaráðherra á tilteknum atriðum er lúta að skipun hæstaréttardómara með það í huga að tekin verði afstaða til þess hvort þörf sé á að fyrirkomulag við undirbúning og ákvarðanir um skipun í embætti dómara við Hæstarétt Íslands verði tekið til endurskoðunar og lagabreytingar gerðar af því tilefni ef sú verður niðurstaðan.