Kvartað var yfir synjun sýslumannsins á Vesturlandi við beiðni um þinglýsingu tiltekinnar yfirlýsingar.
Umboðsmaður benti á að starfssvið sitt væri takmarkað með þeim hætti að það tæki ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda, þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum væri ætlast til að fólk leitaði leiðréttingar með málskoti til dómstóla en svo háttaði til í þessu tilviki. Ekki voru því lagaskilyrði til að hann fjallaði um kvörtunina.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 30. september 2024.
Vísað er til kvörtunar yðar 25. september sl. yfir synjun sýslumannsins á Vesturlandi við beiðni yðar um þinglýsingu tiltekinnar yfirlýsingar.
Samkvæmt kvörtun yðar eruð þér eigendur að fjórum og hálfum hluta af sjö í jörðinni X en um hana mun vera þinglýst samkomulag eigenda um rekstur jarðarinnar, þar sem m.a. kemur fram að hún skuli rekin sem sjö hlutar. Fyrir tilviljun hafi yður orðið kunnugt um að búið væri að þinglýsa uppsögn annarra eigenda jarðarinnar á samkomulaginu. Í kjölfarið leituðuð þér til sýslumanns með beiðni um þinglýsingu yfirlýsingar yðar þar sem þér mótmæltuð hinni þinglýstu uppsögn. Sýslumaður hafnaði beiðninni með ákvörðun 14. ágúst 2023 sem póstlögð var 26. september sama ár með vísan til þess að þinglýsing væri óþörf til verndar réttindum.
Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns að meginstefnu til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Í c-lið 4. mgr. sömu greinar er starfssviðið takmarkað með þeim hætti að það tekur ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda, þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum er ætlast til að menn leiti leiðréttingar með málskoti til dómstóla.
Samkvæmt 1. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 eru sýslumenn þinglýsingarstjórar, hver í sínu umdæmi. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laganna má bera úrlausn þinglýsingarstjóra um þinglýsingu undir héraðsdómara með nánar tilgreindum hætti. Með ákvæðinu hefur löggjafinn mælt fyrir um að ágreiningur sem kann að koma upp vegna úrlausnar þinglýsingarstjóra skuli leystur fyrir dómi. Úrskurður héraðsdómara í slíku máli er kæranlegur til Landsréttar og unnt er að óska eftir leyfi Hæstaréttar til að kæra til réttarins úrskurði Landsréttar sem fela í sér lokaákvörðun um ágreiningsefnið, sbr. 5. og 6. mgr. sömu greinar.
Fyrir framangreindri skipan mála eru rök sem lúta að sérstöðu þinglýsinga sem stjórnvaldsathafna, auk þess sem um þinglýsingar gilda ítarlegar málsmeðferðarreglur í þinglýsingalögum sem gera um margt meiri kröfur til málsmeðferðar en lágmarksreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af ákvæði 3. gr. laga nr. 39/1978 verður ekki annað ráðið en að löggjafinn ætlist til þess að leitað sé úrskurðar dómstóla þegar ágreiningur er uppi um úrlausnir þinglýsingarstjóra. Rétt er þó að taka fram að ekki verður leyst úr efnisatvikum sem liggja að baki skjali á grundvelli þessarar málskotsleiðar, svo sem ágreiningi um eignarrétt, sbr. athugasemdir við 3. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem varð að þinglýsingarlögum nr. 39/1978.
Í ljósi framangreinds fæ ég ekki séð að í máli yðar liggi fyrir ákvarðanir, athafnir eða athafnaleysi af hálfu sýslumannsins á Vesturlandi sem falla undir starfssvið mitt. Brestur því lagaskilyrði til þess að ég geti fjallað um kvörtun yðar.
Með vísan til framangreinds læt ég umfjöllun minni um kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.