Kvartað var yfir álagningu útsvars í Árborg, nánar tiltekið hækkunar á útsvarshlutfalli.
Innviðaráðuneytið hafði fallist á beiðni sveitarstjórnar um heimild til að leggja álag á útsvar vegna fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Þar sem ekki hafði verið leitað til áðuneytisins með umkvörtunarefnið voru ekki skilyrði að svo stöddu til að umboðsmaður fjallaði um málið.
Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi 17. október 2024.
I
Vísað er til kvörtunar yðar 1. október sl. sem beinist að sveitarfélaginu Árborg og lýtur að álagningu útsvars árið 2025. Ég ræð af kvörtun yðar að þér vísið til þeirrar ákvörðunar sveitarstjórnar 29. nóvember 2023 að hækka útsvarshlutfall fyrir árið 2024. Teljið þér að slíkt fari gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Samkvæmt tilkynningu á vef sveitarfélagsins (www.arborg.is) 24. september sl. kemur téð ákvörðun til framkvæmda gagnvart íbúum sveitarfélagsins sumarið 2025 við uppgjör opinberra gjalda fyrir árið 2024.
II
Ákvörðun sveitarstjórnar var sem fyrr segir tekin á fundi hennar 29. nóvember 2023. Í fundargerð sveitarstjórnar er vísað til bréfs hennar til innviðaráðuneytisins 8. nóvember 2023 þar sem þess var óskað, í ljósi þungrar fjárhagsstöðu sveitarfélagsins, að það fengi heimild ráðherra til að leggja 10% álögur á útsvör fyrir árið 2024 á grundvelli 2. töluliðar 1. mgr. 84. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Í svari innviðaráðuneytisins 27. nóvember sama ár var, að fenginni umsögn eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaga, fallist á téða beiðni sveitarstjórnar um heimild til að leggja 10% álag á útsvör fyrir árið 2024.
Um útsvar er fjallað í IV. kafla laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Í 1. mgr. 21. gr. kemur fram að stofn til álagningar útsvars skuli vera hinn sami og tekjuskattsstofn. Í 1. mgr. 23. gr. segir að útsvar skuli vera ákveðinn hundraðshluti af tekjum hvers almanaksárs, en megi þó eigi vera hærra en 14,97% og eigi lægra en 12,44% af útsvarsstofni og skuli sami hundraðshluti lagður á tekjur allra manna í hverju sveitarfélagi. Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laganna skal sveitarstjórn ákveða fyrir 1. desember ár hvert hvaða hundraðshluti verði lagður á tekjur manna á næsta ári, sbr. 1. mgr. 23. gr. Skal ákvörðun sveitarstjórnar tilkynnt því ráðuneyti sem fer með fjáröflun ríkisins eigi síðar en 15. desember á sama ári.
Í 84. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 er kveðið á um að innviðaráðherra geti að fenginni rökstuddri afstöðu eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélag heimilað eða lagt fyrir sveitarstjórn að leggja álög á útsvör og eða fasteignaskatta sem nemi allt að 25% umfram það hámark sem ákveðið er í lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Svo sem áður er rakið mun innviðaráðherra hafa fallist á beiðni sveitarstjórnar Árborgar um téða heimild til að leggja álög á útsvör í sveitarfélaginu.
Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Þetta ákvæði byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að þér hafið leitað til innviðaráðuneytisins með umkvörtunarefnið og þær athugasemdir sem þér greinið í kvörtun yðar. Í ljósi þess sem að framan greinir og þeirra sjónarmiða sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 tel ég rétt að þér leitið fyrsta kastið eftir viðbrögðum innviðaráðuneytisins og freistið þess að koma að sjónarmiðum yðar er málið varða.
III
Með vísan til alls framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég tek þó fram að þér getið, að fengnum viðbrögðum ráðuneytisins, leitað til umboðsmanns Alþingis á nýjan leik teljið þér tilefni til og verður þá tekin afstaða til þess hvort og þá með hvaða hætti kvörtun getur komið til frekari athugunar af hans hálfu.
Undirritaður hefur farið með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis samkvæmt 3. mgr. 1. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
Helgi I. Jónsson