Skattar. Bindandi álit. Skattlagning arðs hjá erlendu dótturfélagi.

(Mál nr. 4014/2004)

Félagið A kvartaði til umboðsmanns yfir þeirri ákvörðun ríkisskattstjóra að vísa frá beiðni þess um bindandi álit samkvæmt lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, á því hvort arður sem B ehf., íslenskt dótturfélag félagsins, veitti viðtöku frá félagi í X-landi væri frádráttarbær samkvæmt 9. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt.

Umboðsmaður lauk máli þessu með bréfi, dags. 4. maí 2004. Þar benti hann á að samkvæmt ákvæði 9. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 1. mgr. 31. gr. sömu laga, væri íslensku félagi heimilt að draga frá tekjum sínum arð sem það fengi greiddan frá erlendu dótturfélagi að því tilskildu að það sýndi fram á að hagnaður hins erlenda félags hefði verið skattlagður með sambærilegum hætti og gert hefði verið hér á landi. Taldi umboðsmaður verða ráðið af orðalagi ákvæðisins, svo og ákvæðum reglugerðar nr. 297/2003, um arðsfrádrátt, að þegar erlend skattlagning væri borin saman við hérlenda skattlagningu með þeim hætti sem ákvæðið gerði ráð fyrir yrði að finna út raunskattlagningu í hinu erlenda ríki, meðal annars með tilliti til skilgreiningar þarlendra skattyfirvalda á tekjum og þess frádráttar sem þar væri heimilaður. Til þess að unnt væri að framkvæma þetta mat yrðu eðli málsins samkvæmt að liggja fyrir upplýsingar og gögn sem unnt væri að byggja á í þessu sambandi.

Umboðsmaður rakti í kjölfarið ákvæði laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum. Taldi umboðsmaður verða ráðið af ákvæðum laganna að þau gerðu eftir atvikum kröfu til þess að atvik þau er beiðni um bindandi álit byggðist á lægju skýr fyrir. Af lögunum og þeim lögskýringargögnum er þeim fylgdu yrði enn fremur ráðið að ríkisskattstjóri hefði nokkurt svigrúm til að hafna beiðni um bindandi álit ef hann teldi sig ekki geta byggt slíkt álit á þeim upplýsingum sem fram kæmu í beiðni.

Samkvæmt gögnum málsins voru þær upplýsingar sem fylgdu beiðni A til ríkisskattstjóra fólgnar í almennri umfjöllun um skattlagningu fyrirtækja í X-landi. Benti umboðsmaður á að ekki yrði annað séð en að upplýsingar þessar hefðu verið sóttar á heimasíðu einkaréttarlegra aðila, þar á meðal endurskoðunarfyrirtækis þess sem lagði fram beiðni fyrir hönd A. Í ljósi þessa taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að gera athugasemdir við niðurstöðu ríkisskattstjóra að synja beiðni A um bindandi álit. Vísaði umboðsmaður þá sérstaklega til þeirrar afstöðu ríkisskattstjóra að ekki væri loku fyrir það skotið að ítarlegri upplýsingar um skattlagningu erlendis, til dæmis frá erlendu skattyfirvaldi, gætu talist fullnægjandi við mat á því hvort erlent dótturfélag hefði sætt sambærilegri skattlagningu og innlent félag í skilningi 9. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003.